29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. lýsti því hér yfir, að hann væri alveg mótfallinn því að fækka þjóðvegum. Þetta er punktur, sem rétt er að leggja á minnið.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hann undraðist, að menn töluðu eins og þeir væru hissa á því, þótt það þyrfti eitthvað lengri tíma til að skoða þetta mál. Ég held, að hæstv. ráðh. þurfi ekki að vera með þessi ólíkindalæti, þegar þess er gætt, að hæstv. ríkisstj. hefur ætíð haft það loforð nú missirum saman í sambandi við vegamálin, að menn skyldu ekki vera að gera till, um einstök atriði þeirra, hvorki smá né stór, vegna þess að um þau efni í heild yrði sett ný löggjöf á þessu kjörtímabili. Svo kemur hæstv. ráðh. og lætur eins og hann sé alveg hissa á því, að menn hafi búizt við því, að úr þessu yrði. Það hefur verið vísað frá málum, og þetta hefur ætíð dunið, að þar sem búast mætti við nýrri heildarlöggjöf, þá væri ekki ástæða til að samþ. annað. Þetta hefur yfirleitt verið fororðið, og yfirlýsingar frá ráðh, hafa birzt í blöðum um, að þetta yrði gert, eins og hv. 3. þm. Vesturl. minnti á. Hæstv. ráðh. þarf ekkert að undrast, þó að menn búist við þessu. Það eru mikil ólíkindalæti að láta eins og honum komi það ókunnuglega fyrir. Það hlutu allir að búast við því, að þetta yrði gert.