26.11.1962
Efri deild: 22. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

6. mál, almannavarnir

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Hæstv. dómsmrh. vék að því í ræðu sinni nú, að ég mundi í bæjarstjórn Reykjavíkur á sínum tíma hafa gert mitt til þess að gera aðgerðir loftvarnanefndar Reykjavíkur tortryggilegar. Ég held, að þetta sé ekkí rétt hjá hæstv. ráðh. að ég hafi gert þetta. Hins vegar get ég vel afsakað misskilning hans í þessu efni. Þess er ekki að vænta, að hann geti fylgzt svo vel með öllum málum.

Sannleikurinn er sá, að það skeði 1957, að ég held, að fjárveiting Alþingis til loftvarnanefndar eða loftvarna var lögð niður. Af því leiddi svo, að loftvarnanefnd Reykjavíkur fékk a.m.k. helmingi minna fé en hún hafði áður haft til umráða. Afleiðingin varð sú af því aftur, að hún var óstarfhæf, gat ekki starfað næstu árin vegna fjárskorts. Þá kom ég með till, um það, að þessi nefnd, sem var hætt að starfa þá fyrir nokkrum árum, yrði hreinlega lögð niður, því að ég taldi betra að hafa enga loftvarnanefnd heldur en loftvarnanefnd, sem starfaði ekki. Þetta var minn þáttur í þessu máli og annað ekki. Yfirleitt held ég, að ég hafi ekki að ófyrirsynju ráðizt neitt á loftvarnanefnd Reykjavíkur í bæjarstjórn Reykjavíkur, hvorki fyrr né síðar, nema ef þetta ætti að teljast það.

Fjárveiting ríkisins til loftvarna var felld niður í tíð vinstri stjórnarinnar, það er alveg rétt. Ég hygg, að ég hafi fylgt ríkisstj. í því. Mín afsökun er sú, að á þeim tíma treysti ég því staðfastlega þrátt fyrir allt, að herinn yrði látinn fara í burtu af landinu eða ráðstöfun gerð til þess réttara sagt, þetta mundi verða gert, áður en vinstri stjórnin væri öll. Þessu treysti ég fram á síðustu tíma. Og ef staðið hefði verið við gefin heit í þessu efni, gefin heit í sáttmála þeim, sem gerður var, þegar vinstri stjórnin var sett á laggirnar, bar henni að gera ráðstafanir til þess, að herinn færi í burtu, áður en hennar starfstíma lyki. Og eins og ég tók fram í minni ræðu, tel ég enga ráðstöfun til almannavarna jafnast á við þá ráðstöfun að láta herinn fara burt úr landinu og leggja hernaðarmannvirkin niður.

Hæstv. ráðh. talaði um, að honum væri ekkí orðið það ljóst, hver afstaða mín væri til þessa frv. Ég held þó, að hann hefði átt að geta rennt grun í það eftir að hafa hlustað á það, sem ég sagði. Ég benti á, að hér eru lög í gildi um almannavarnir. Ég benti einnig á, að þetta frv., sem hér er á ferðinni, er í raun og veru ekki nein nýjung. Ég gat þess, að gildandi lög um almannavarnir væru pappírsgagn. Og ég lét í það skína, að ég óttaðist, að nýju lögin yrðu ekkert annað en pappírsgagn eitt. Með þessa skoðun er ekki að undra, þótt ég taki að svo stöddu enga beinharða afstöðu með eða móti frv. Ég benti líka á það og sagði, að ég sæi nokkra agnúa á frv., sem ég mundi síðar ræða. Þá gæti einnig farið um mína afstöðu nokkuð eftir undirtektum um að fá þá agnúa numda burt. Af þessum sökum get ég ekki að svo stöddu lýst því yfir, hver endanleg afstaða mín til frv. verður. En hitt get ég sagt strax, að ég sé enga stórkostlega kosti í þessu frv. fram yfir það, sem er í þeim lögum, sem nú gilda.