19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég leyfi mér að bera hér utan dagskrár fsp. til hæstv. menntmrh. Fsp. er varðandi úthlutun á því fé, sem veitt er á fjárl. til listsýningar erlendis. Ég tel, að fsp. sé þess eðlis, að hæstv. ráðh. hafi aðstöðu til þess að svara henni hér, þó að hún hafi ekki verið skriflega fram borin.

Í blaðinu Vísi hinn 19. f. m. er birt viðtal við Finn Jónsson listmálara varðandi þetta mál. Er því þar haldið fram í viðtalinu, að hópur íslenzkra listmálara hafi um árabil verið útilokaður frá að koma verkum sínum á framfæri á sýningum erlendis og þar með einnig útilokaður frá að njóta þess fjárstuðnings, sem íslenzka ríkið veitir á fjárlögum í þessu skyni. Telur Finnur Jónsson, að hér ráði ofríki stjórnar Félags ísl. myndlistarmanna, og lætur hann í ljós ótta um, að einnig muni svo fara um þátttöku í væntanlegri sýningu á Norðurlandalist, sem fyrirhuguð sé í París nú á þessu ári og undirbúningur mun vera hafinn að. Leyfi ég mér að beina þeirri fsp. til hæstv. menntmrh., hvort hann eða ráðunautar hans hafi, eftir að umrætt viðtal birtist í blaðinu Vísi hinn 19. f.m., látið nokkra athugun fram fara á því, hvort þessum málum muni þannig háttað, sem þar er tilgreint, og ef svo er, sem þar kemur fram í viðtalinu, hvort hæstv. ráðh. eða ráðunautar hans muni ekki gera ráðstafanir til, að úr þessu verði bætt.