11.12.1962
Efri deild: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

6. mál, almannavarnir

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Frsm. hafa nú gert grein fyrir till. sínum. Ég vil þá fyrst víkja nokkrum orðum að till. hv. 1. þm. Norðurl. e. Hann flytur á þskj. 158 brtt. við frv.

Um fyrri brtt., sem er við 2. mgr. 7. gr. frv., vil ég segja þetta: Frv. byggist á því, að almannavarnir varði hagsmuni allra landsmanna, en séu ekki sérmál einstakra sveitarfélaga, og því er ríkisstj. samkv. frv. ætlað að hafa frumkvæði og forustu um almannavarnir í landinu og m.a. að samræma aðgerðir einstakra sveitarfélaga eftir því, sem þörf þykir á. Og í 7. gr. frv. er beinlínis tekið fram, að ríkisstj. skuli hafa samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða sýslunefndir, áður en ákvörðun er tekin um að hefja ráðstafanir til almannavarna. Ég skil vel, að hv. 1. þm. Norðurl e., sem á sér langan feril í sveitarstjórnarmálum og þekkir m.a. það, hvert viðfangsefni sveitarstjórnum eru að öllum jafnaði fjármálin, vilji fara að öllu með gát, þegar um er að ræða annars vegar fjárútlát fyrir sveitarfélögin. Ég held nú, að í þessu sambandi hljótum við að geta orðið sammála um það, að ætla megi, að það, að ríkissjóði sé ætlað samkv. frv. að bera bróðurpartinn af útgjöldum við almannavarnir, ætti að veita ríkisstj. á hverjum tíma sterkt aðhald um að gæta varúðar í öllum kröfum um tilkostnað, innan þeirra marka að sjálfsögðu, sem talið er að nauðsyn krefji. Í grg, með frv. er m.a. vikið að því, að það geti reynzt nauðsynlegt, að hafizt verði handa um sérstakar öryggisráðstafanir í öllum landshlutum, og naumast verði til þess ætlazt, að sveitarstjórnir hafi hver um sig aðstöðu til þess að meta, hvort slík nauðsyn sé fyrir hendi. Það að setja sveitarfélögum algerlega í sjálfsvald, hvort þau hafa uppi ráðstafanir til almannavarna, snertir ekki eingöngu íbúa þess sveitarfélags, heldur getur það orðið til verulegs óhagræðis og truflana beinlínis fyrir almannavarnir nágrannasveita. Hv. þm. sagði, að það væri ekki ástæða til þess að ætla, að sveitarstjórnir sýndu mínni ábyrgðartilfinningu í sambandi við almannavarnir heldur en ríkisstj. hefðu til að bera. Það er auðvitað enginn kominn til þess að segja það, að ekki gætu fyrirfundizt þær sveitarstjórnir, sem vildu ekki sinna slíkum málum. Það er hugsanlegur möguleiki, og við vitum a.m.k., að það hefur komið í ljós í umr. um almannavarnir, að það er til fólk, sem vill, að sem minnst sé að gert í þeim efnum eða ekkert. Og slíkt fólk getur auðvitað bæði setið í sveitarstjórnum og ríkisstjórnum. En ef á að byggja upp almannavarnakerfi fyrir landið í heild, heildarkerfi fyrir landið, þá er það óneitanlega nokkurt gat í löggjöf um slíkt, ef á að vera algerlega á sjálfsvaldi sveitarstjórnanna, hvort þær vilja vera með í uppbyggingu slíks kerfis, ef til kemur.

Eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. gat um áðan, var frv, í fyrravor sent til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Umsögn fulltrúafundar sambandsins, sem samþ. var einróma, er prentuð sem fskj. með nál. meiri hl. heilbr.-og félmn. Nd., en fundurinn lýsti stuðningi við frv., og hann lagði ekki til breytingu í þá átt, sem hér er lagt til. En eins og einnig kom fram hjá hv. þm., lagði fundurinn hins vegar áherzlu á það, að ríkisstj. hefði náið samráð við sveitarstjórnir, áður en ákveðið yrði, að þær skyldu hefja ráðstafanir til almannavarna. Að þessu athuguðu verður ekki hægt að fallast á brtt. þessa. Og ég held, að það sé rétt, að í nágrannalöndum okkar, sem hafa almannavarnakerfi áþekkt því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., muni ekki vera algerlega undir geðþótta sveitarfélaganna komið, hvort þau vilja hafa með höndum almannavarnir eða ekki.

Síðari brtt. hv. þm. er sú, að í stað þess, að samkv. frv. á borgarstjórn Reykjavíkur að skipa almannavarnanefndinni þar sérstakan framkvæmdastjóra, verði aðeins um að ræða heimild til handa borgarstjórn til að gera það. Það má öllum ljóst vera, að með því hlutverki, sem almannavarnanefndum er ætlað samkv. frv., hlýtur starf n. hér í Reykjavík að vera svo umsvifamikið, að engum er ætlandi að hafa framkvæmdastjórn á hendi í hjáverkum. Það má að vísu segja, að það skaði ekki, þótt eingöngu sé um heimild að ræða, því að hún verði hvort sem er notuð, meðan ábyrgur meiri hl., sem telur sér skylt að sinna öryggismálum borgarbúa, ef til hernaðarátaka kynni að koma, fer með stjórn á málefnum borgarinnar. Í umr. í Nd. kom fram, að þetta atriði hafði verið sérstaklega rætt í heilbr.- og félmn. þeirrar hv. þd., og var meiri hl. n. andvígur þessari breytingu, sem mundi að vissu leyti draga úr þeirri áherzlu, sem á það er lögð, að störfum almannavarnanefndar sé sinnt eins og til er ætlazt samkv. frv. Með tilliti til þessa svo og þess, að ákvæði frv, þetta varðandi er í fullu samræmi við það, sem vitað er að hlýtur að útheimtast, verður ekki heldur á þessa brtt. fallizt.

Þegar frv. var til 1. umr. hér í þessari hv. þd., flutti hv. 9. þm. Reykv. alllangt mál, án þess þó að tjá sig um afstöðu sína til frv., kvað ekki vera hægt til þess að ætlast, að hann tæki beinharða — ég held, að hann hafi orðað það þannig — afstöðu á stundinni til svo mikils máls. Hv. þm. hafði að vísu haft tíma til þess að máta sér skoðun um málið allt síðan í vor, þegar frv. var fyrst lagt fram hér á Alþingi. Nú hefur hv. þm. tekið sína væntanlega beinhörðu afstöðu og skilað nál. og till., sem hann hefur gert grein fyrir. Hann kom víða við í þeim ræðum, sem hann flutti hér við 1. umr. málsins, og kom aftur að ýmsu því sama í ræðu þeirri, sem hann flutti hér áðan, ég get ekki verið að elta ólar við allt það, sem hv. þm. sagði, en þó vil ég benda á eitt. Hann talaði um, að í Danmörku væru störf óbreyttra borgara í þágu almannavarna sjálfboðavinna. Ég vil benda honum á, að í grg. með frv. er beinlínis frá því sagt, að í Danmörku sé meira reiknað með sjálfboðaliðum, en til öryggis sé ákveðinn hluti þeirra manna, sem kvaddir eru til herþjónustu á hverjum tíma, skipaður til starfs í þágu almannavarna og þeir fái sérstaka þjálfun í hinum ýmsu greinum líknar- og björgunarstarfa allan sinn herskyldutíma. Þetta hefði hv. þm. átt að láta fylgja með, því að það má öllum vera ljóst, að þetta er atriði, sem gerir mjög mikinn mun.

Túlkun hv. þm. á ýmsum ákvæðum frv. virðist vera — fljótfærnisleg er of vægt að orði kveðið, en hún er a.m.k. ekki slík, að það sé verið að eltast við að fylgja sannleikanum eða réttu máli nákvæmlega. Hann segir t.d., þegar hann talar um, að aldursmark sé sett allt of hátt, aldursmark fyrir því, að kveðja megi menn til að gegna störfum í þágu almannavarna, og síðan sagði hann: Og jafnvel ef elliær gamalmenni, sem orðin eru meira en 65 ára, koma og vilja starfa við almannavarnir, þá skal veita þeim þann rétt. — Í frv. stendur í 2. mgr. 10. gr.: „Kveðja má þá, sem eru á aldrinum 16–18 ára eða yfir 65 ára, til starfs, ef þeir óska þess sjálfir.“

Aðaltill. hv. 9. þm. Reykv. er sú að slá málinu á frest með rökstuddri dagskrá, en til vara flytur hann brtt. við frv. Eins og fram kemur í nál., lætur hv. þm. frv. verða sér tilefni til að halda á loft þeirri skoðun sinni, eins og hann hefur reyndar oft gert áður við önnur tækifæri, að Íslendingum beri að segja sig úr varnarbandalagi vestrænna þjóða. Ég þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram, að þar erum við hv, þm. á öndverðum meiði. En um sjálfa dagskrártill. vil ég segja það, að hún er á misskilningi byggð. Undirbúningur þessa máls svo og frv. miðast við það, að Ísland er hernaðarlega mikilvægt vegna hnattstöðu sinnar, hvað sem liður varnarliði eða ekki varnarliði. Og það er staðreynd, sem ekki tjóar fyrir okkur annað en horfast í augu við.

Ég legg því til, að dagskrártill. verði felld, enda miðar hún eins og fleira hjá hv. þm. að því að drepa málinu á dreif, án þess að hann beint treysti sér til þess að ganga á móti því.

1. brtt. hv. 9. þm. Reykv. er samhljóða þeirri brtt., sem hv. 1. þm. Norðurl, e. flytur við 2. mgr. 7. gr. frv. Ég hef ekki ástæðu til að ætla, að fyrir hv. 1. þm. Norðurl. e, hafi vakað annað en varfærni í hugsanlegum fjárútlátum sveitarfélaganna og það að standa á sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. En um hv. 9. þm. Reykv. hlýt ég að álíta nokkuð annað. Hv. þm. hefur hvað eftir annað sem bæjarfulltrúi í Reykjavík haft tækifæri til að láta uppi hug sinn til almannavarna við atkvgr. í bæjarstjórn um fjárveitingu til ráðstafana vegna ófriðarhættu, þ.e.a.s. fjárveitingar þær, sem loftvarnanefnd fékk til ráðstöfunar. Eftir að hann sneri baki við sínum gamla flokki, Alþfl., og gerðist dyggur fylgisveinn kommúnistanna í bæjarstjórn, þá held ég, — og hann leiðréttir mig þá, ef ég fer þar ekki rétt með, — ég held, að hann hafi eftir það aldrei gengið á móti þessum bandamönnum sínum við atkvgr. um þennan lið á fjárhagsáætlun. En sósíalistar hafa allt síðan árið 1953 greitt atkv. gegn þessari fjárveitingu og flest árin flutt sérstaka till. um, að liðurinn verði felldur niður. Og samherjar hv. þm. í borgarstjórn hafa löngum reynt að gera starf loftvarnanefndar tortryggilegt í augum almennings, kallað það kák og m.a. skrípaleik, sem vinstri stjórnin hafi neitað að taka þátt í því og fellt niður af fjárlögum fjárveitingar til ráðstafana vegna ófriðarhættu. Það keyrði þó um þverbak við bæjarstjórnarkosningarnar 1958, þegar einn ræðumaður Alþb. í útvarpsumr. fyrir kosningarnar bar meðlimi loftvarnanefndar og framkvstj. n. slíkum ærumeiðingum og brigzlum, m.a. um misnotkun á því fé, sem n. hafði til ráðstöfunar, að úr því varð dómstólamál, og var þessi ræðumaður dæmdur í sektir og ummæli hans dæmd dauð og ómerk.

Við 1. umr. þessa máls hér í d. kvaðst hv. þm. engan þátt hafa átt í því að ala á tortryggni í garð loftvarnanefndar. Ég held nú, að það sé erfitt fyrir hann að sleppa við, að á hann falli blettur af framferði samherja hans í garð loftvarnanefndar. Eftir að fellt hafði verið niður á fjárlögum framlag til loftvarnarnefndar, hélt þó Reykjavíkurbær áfram óbreyttri fjárveitingu um skeið. En þegar sýnt var, að fjárveitingin yrði ekki aftur tekin upp á fjárlög, lækkaði Reykjavík framlag sitt, svo að það miðaðist við nauðsynlegt viðhald og vörzlu þeirra verðmæta, sem n. hafði undir höndum. Þegar svo var komið, flutti hv. 9. þm. Reykv., Alfreð Gíslason bæjarfulltrúi, till. um það í bæjarstjórninni í nóvember 1958, að loftvarnanefnd yrði leyst frá störfum, þar sem n. sem heild mundi ekki vera starfandi lengur. Þar með skyldi rekið smiðshöggið á það verk, sem hann og samherjar hans höfðu unnið dyggilega að í bæjarstjórninni og á Alþingi. Svo kemur þessi sami hv. þm. og lýsir því yfir hér á dögunum, að hann telji, að ámælisvert sleifarlag hafi verið á almannavörnum hér á landi á undanförnum árum þrátt fyrir uggvænlegt ástand í heiminum. Ég verð að segja, að ég er hrædd um, að heilindin séu vandfundin í slíkum málflutningi.

Þessari 1. brtt. hv. þm. hef ég þegar lýst mig mótfallna.

2. brtt. á þskj. 162 er um það, að orðið .,íbúðarhúsum“ í 3. tölul. 9. gr. falli niður. Þessi grein stendur m.a. í sambandi við 6. brtt. á sama þskj., en hún er um það, að niður falli 24. gr. frv. Ef ætlazt er til þess, eins og gert er í frv., að menn viðhafi einkavarnir í íbúðarhúsum, er ekki nema eðlilegt, að eitthvert eftirlit sé með því, að slíku sé framfylgt. Hv. þm. talar um, að heimilið sé friðhelgt og það eigi ekki að leyfa mönnum að vaða þar inn, til þess, — ég man nú ekki, hvernig hann orðaði það, — og heimilin eigi að vera laus við rask og rekistefnu þessara nefnda, sem skipaðar verða svo til af handahófi. Ég held nú, að það sé engin ástæða fyrir hv. þm. til þess að verða hræddur um, að þetta ákvæði þurfi að vera til þess að spilla heimilishelgi. Ég er hrædd um, eins og einhver hafði á orði í n., þegar við vorum þar á fundi, að hv. þm. hafi í huga allt önnur lönd, ríki, þar sem þegnarnir geti átt von á heimsóknum á nóttu sem degi og það heimsóknum, sem eru töluvert óþægilegri en það, ef ætti að líta eftir því, hvort einkaalmannavarnir væru í lagi í íbúðarhúsum. Þessari brtt. á þskj. 162 er ég einnig andvíg.

Þá kemur næst brtt. við 10. gr., að aldursmark sé lækkað úr 65 niður í 45 ára aldur. Þetta aldursmark mun vera nokkurn veginn í samræmi við það, sem tíðkast í okkar nágrannalöndum. Hv. þm. taldi, að mönnum væri ofboðið, einkum mönnum, sem væntanlega eru komnir yfir 45 ára aldur, með því að kveðja þá til starfa í þágu almannavarna, vegna þess að þau störf myndu að öðrum þræði vera líkamlega erfið. Ég geri ráð fyrir því, að ýmis af þeim störfum geti orðið líkamlega erfið, en hitt held ég, að sé mjög líklegt, að ýmis þeirra séu það ekki, ýmis þeirra útheimti aftur reynslu eða kunnáttu á einhverjum sviðum, og ég sé ekkí neina ástæðu til að fara að lækka þetta aldursmark.

Þá vildi hv. þm. láta fella burt 2. mgr. 10. gr., þar sem er heimildin til þess að kveðja menn til starfa, sem falla utan þess ramma, utan þeirra aldursmarka, sem tiltekin eru í 1. mgr. Þarna er eingöngu um að ræða heimild, þótt hv. þm. léti nokkuð í annað skína í ræðu sinni áðan, og ég sé enga ástæðu til, að þessi mgr. fái ekki að standa áfram í frv., og legg því á móti brtt.

4. brtt. á þskj. 162 er um það, að menn skuli eiga rétt til bóta, ef þeir verða fyrir tekjumissi vegna undirbúningsstarfa í þágu almannavarna. Þessari brtt. er ég einnig andvíg. Ef það á að vera borgaraleg skylda að gegna þessum störfum, þá held ég, að það verði að ganga út frá því, að það skuli gert án endurgjalds, eins og í fleiri tilvíkum, sem mönnum er gert að taka á sig vissar kvaðir.

5. brtt. er um, að 21. gr. falli burt. Það er um þá grein að segja, að þegar á annað borð er ráð fyrir því gert í frv., að efnt sé til brottflutnings fólks af hugsanlegum hættusvæðum, þá verður þó að vera hægt að skipuleggja það þannig, að ekki leiði til ýmiss konar árekstra og óþæginda og truflana, og ég held, að 21. gr. eigi því ekki að fella niður úr frv. Ég veit ekki, hvort það er ástæða til að ætla, að henni verði beitt af slíkri hörku, að hún leiði til hreinnar ósanngirni. Ég er því andvíg þessari brtt. hv. þm.

6. brtt. hans er um, að 24. gr. falli burt. Í þeirri gr. felst heimild til þess að ákveða, að í húsum af tiltekinni stærð, sem byggð eru eftir að lögin taki gildi, skuli vera gert öryggisbyrgi fyrir þá, sem í húsinu búa eða starfa. Þetta er nýmæli. En eins og fram kemur í aths. eða skýringum við gr., munu samsvarandi ákvæði hafa gilt um árabil í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, og þar eru þau miðuð við fjölbýlishús og 10 manna vinnustaði og fjölmennari. í fskj. III, sem frv. fylgir, er áætlað, að kostnaður við að koma upp þeim byrgjum, sem þar um ræðir, nemi 1–2% af byggingarverði hússins. Á því hef ég enga sérþekkingu eða aðstöðu til að kveða upp neinn úrskurð um það, hve réttmætt sé það mat. Ég heyrði, að hv. þm. var hér áðan með allt aðrar tölur. Ég veit ekki heldur, á hverju hann hefur byggt þær. En ég er andvíg þessari brtt. og tel, að 24. gr. eigi fyllsta rétt á sér og hana eigi ekki að nema burt úr frv.

Ég held, að það hafi ekki verið fleira í ræðum hv. frsm., sem ég hef ástæðu til að svara.