14.03.1963
Neðri deild: 53. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2016)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir, er um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Í 1. kafla segir, að tilgangur l. sé að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknarstörfum, áætlanagerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í þeim landshlutum, þar sem bein eða hlutfallsleg fólksfækkun hefur átt sér stað að undanförnu eða er talin vofa yfir. Í frv. er ákvæði um stofnun jafnvægissjóðs, en úr honum á að veita lán til hvers konar framkvæmda, sem að dómi sjóðsstjórnar eru til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þ. á m. til kaupa á atvinnutækjum. Þá segir einnig, að heimilt sé að veita styrki eða óafturkræf framlög úr sjóðnum, ef sérstaklega stendur á og ef a.m.k. 4 af 5 nm., sem stjórna sjóðnum, samþykkja það. Samkv. frv. er til þess ætlazt, að til jafnvægissjóðs renni árlega 1½% af tekjum ríkissjóðs samkv. ríkisreikningi og síðan vextir af eignum sjóðsins. Til þess er ætlazt, að sameinað Alþingi kjósi að loknum alþingiskosningum hverju sinni 5 manna nefnd, er nefnist jafnvægisnefnd. Það er verk þessarar n. að gera áætlanir um framkvæmdir í einstökum byggðarlögum, enda séu þær við það miðaðar, að með þeim sé stuðlað að jafnvægi í byggð landsins. Þessar áætlanir á n. að jafnaði að gera í samráði við sýslunefnd, bæjarstjórn eða hreppsnefnd, eina eða fleiri, á þeim svæðum, þar sem aðstoð samkv. l. er talin koma til greina. Jafnvægisnefnd á að safna efni til skýrslugerðar og láta árlega gera skýrslur um þau atriði, sem máli þykja skipta í sambandi við verksvið hennar.

Með þessu frv. er að því stefnt, að öll byggð haldist og eflist í landinu, þar sem lífvænleg skilyrði eru á annað borð. Stefnt er að því, að þjóðin haldi áfram að byggja alla slíka staði í landi sínu. Það er skoðun flm., að lífvænlega staði ætti ekki að yfirgefa, heldur stefna að því að gera fólki kleift að koma atvinnurekstri sínum og aðstöðu í samræmi við það, sem hæfilegt má teljast og óhjákvæmilegt á hverjum tíma. Á það er bent í grg. með frv., að ráðið til þess að hindra beina eða hlutfallslega fólksfækkun í einhverjum landshluta geti m.a. verið það að koma þar upp þéttbýlishverfum eða efla kaupstaði og kauptún, sem fyrir eru á þeim landssvæðum. Það gæti verið skynsamlegt að stuðla að því, að upp rísi nýjar viðskipta- og iðnaðarmiðstöðvar í sveitum landsins. Gæti það orðið mjög til eflingar byggðinni í viðkomandi landshlutum. Ef fólksfjöldi ykist á slíkum þéttbýlum stöðum, þótt þangað drægist eitthvað af fólki úr umhverfi þeirra, þá gæti það verið mjög til hagsbóta fyrir hlutaðeigandi landshluta, ef þetta réði úrslitum um það, að hann gæti haldið sínum hlut í þjóðfélaginu. Það er ekki til þess ætlazt, að jafnvægisstarfsemin verði fólgin í atvinnuleysisráðstöfunum, sem svo mætti nefna, eða að örva þjóðhagslega óhagkvæma framleiðslu á vissum stöðum, heldur í hinu, að gera fólki kleift með aðstoð fjármagns og tækni að grundvalla búsetu sína, lífsafkomu og menningu á náttúrugæðum til lands og sjávar, hvar sem þau eru, og að reyna með skynsamlegum ráðum að koma í veg fyrir, að landsbyggðin eyðist eða dragist svo aftur úr, að framtíðarvonir heilla landshluta verði að engu gerðar.

Hv. meiri hl. fjhn. hefur ekki viljað á það fallast að mæla með frv., en leggur til, að það verði afgreitt með rökst. dagskrá. Í dagskránni segir um atvinnubótasjóðinn, sem löggjöf var sett um á síðasta þingi, að tilgangurinn með þeirri löggjöf hafi verið fyrst og fremst að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og að hagnýtingu góðra framleiðsluskilyrða í landinu. Ég verð að gera aths. við þetta hjá hv. meiri hl. Ég tel, að þetta sé ekki rétt, að tilgangur l. um atvinnubótasjóð hafi fyrst og fremst verið þessi, sem nefndur er í dagskrártill., að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Þegar frv. um atvinnubótasjóð var lagt fyrir á síðasta þingi af hæstv. stjórn, var sagt í grg., sem því fylgdi, að höfuðmarkmið með því væri að vinna gegn atvinnuleysi og að aðaltilgangurinn, þ.e. að útrýma atvinnuleysi, ætti jafnan að sitja í fyrirrúmi. Og um þetta eru bein ákvæði í 4. gr. l. um atvinnubótasjóð. Þar segir, að ráðstafanir af hálfu sjóðsstjórnar til að útrýma atvinnuleysi eigi jafnan að sitja í fyrirrúmi fyrir því að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Ég vil einnig benda á það, að starf þeirrar stjórnar, sem hefur atvinnubótasjóðinn í sínum höndum, hefur verið og er við þetta miðað. Það er ekki fyrst og fremst miðað við það að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það mun vera þannig, að þetta atvinnubótafé, sem nú er 10 millj., mun að langmestu leyti fara til þess að veita einstökum mönnum og fyrirtækjum lán til skipakaupa, þ.e.a.s. viðbótarlán við það, sem þessir aðilar geta fengið frá lánsstofnunum. Þetta er út af fyrir sig gott, því að eins og nú er háttað verðlagi, er erfitt fyrir menn og fyrirtæki að eignast skip og gagnlegt og þarflegt að veita þeim sérstaka aðstoð til þess. En við þessa ráðstöfun á fé atvinnubótasjóðs er ekki hægt að segja, að það sjónarmið ráði mestu að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Þessi n. mun ekki heldur hafa gert neinar heildaráætlanir um slíkar framkvæmdir. Hún úthlutar þessu framlagi úr atvinnubótasjóðnum að mestu í einu til þeirra, sem um aðstoð sækja, án þess að hafa fyrir fram gert nokkra heildaráætlun um ráðstöfun á fénu eða uppbyggingu í landinu yfirleitt.

Þá vil ég enn benda á það, að fjárráð atvinnubótasjóðsins eru allt of lítil, ef hann ætti að sinna hvoru tveggja, bæði að bæta úr atvinnuleysi, sem getur orðið á einstökum stöðum á landinu, og eins hinu, að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Fjárráð hans eru allt of lítil til þess að sinna þessu hvoru tveggja. S.l. áratug hefur verið veitt fé úr ríkissjóði til framleiðslu- og atvinnuaukningar á fjárl. Hæst var þessi fjárveiting árið 1957. Samkv. fjárlögum þess árs var hún 15 millj. kr. 1959 var þetta lækkað við afgreiðslu fjárlaga niður í 10 millj., og þannig hefur þetta verið síðustu árin. En nú er þessi fjárveiting til framleiðslu- og atvinnuaukningar felld niður úr fjárl., en í staðinn sett sama upphæð, 10 millj. kr. framlag til atvinnubótasjóðs, samkv. l. frá síðasta þingi. Þannig hefur þá þetta orðið, að fjárveitingin, sem var 15 millj. 1957, hefur síðustu árin verið færð niður í 10 millj. kr. Það liggur í augum uppi, að vegna þeirrar miklu rýrnunar á verðgildi peninganna, sem orðið hefur síðustu árin, er framlagið nú miklu minna en það áður var. Það má raunar telja, að framlagið til atvinnubótasjóðs nú sé ekki nema um það bil af þeirri upphæð, sem veitt var til framleiðslu- og atvinnuaukningar í landinu á árunum 1957–58. Svo mikil hefur rýrnunin orðið á þessu framlagi hins opinbera á þessum tíma.

Í hinni rökst. dagskrá, sem meiri hl. n. leggur fram, er einnig vísað til þess, að fyrirhuguð sé framkvæmdaáætlun frá ríkisstj. Frávísunartill. er m.a. á því byggð. Ég verð að segja, að ég tel ákaflega hæpið að vísa í áætlun, sem þingið hefur ekki enn fengið að sjá og veit ekki, hvað í felst. Mér finnst það nokkuð snemmt að vitna í þá fyrirhuguðu áætlun til rökstuðnings því, að það eigi að vísa þessu máli frá. Ég skal ekkert segja um það, hvað í henni kann að verða, þeirri framkvæmdaáætlun, en ég verð þó að telja hæpið, að hún verði fyrst og fremst við það miðuð að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Frv., sem hér liggur fyrir, er byggt á þeirri skoðun flm., að það megi ekki lengur dragast að koma á fót sjálfstæðri og skipulagðri starfsemi til frambúðar í því skyni að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og það þurfi að veita verulegt fé til framkvæmda, sem stefna í þá átt. Þetta er stórt og umfangsmikið verkefni, sem hér er um að ræða. Og við sjáum enga von til þess, að venjuleg úthlutunarnefnd, sem kemur saman aðeins örsjaldan á ári hverju til þess að úthluta fé úr atvinnubótasjóði á þann hátt, sem kunnugt er og ég hef þegar gert nokkra grein fyrir, geti sinnt þessu verkefni á þann hátt, sem þarf að gera, eða svo að viðhlítandi sé. Og auk þess, eins og ég hef þegar bent á, eru þau fjárráð, sem hún hefur, allt of lítil til þess, að þau komi að gagni til slíkra hluta.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að jafnvægissjóðurinn fái árlega 1½% af árlegum tekjum ríkissjóðs samkv. ríkisreikningi, eins og ég hef áður gert grein fyrir. Þetta mundu verða nú í ár röskar 30 millj. kr. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að þetta er ekki mikið framlag, eins og nú er komið. Sú fjárupphæð, sem veitt var til framleiðslu- og atvinnuaukningar árið 1957, sem var 15 millj., eins og ég gat um áður, var milli 1.8 og 1.9% af heildartekjum ríkissjóðs það ár. Við förum ekki fram á í þessu frv., að það verði meira en 1½% af ríkistekjunum, sem fari til jafnvægissjóðs, þannig að það er tiltölulega minna en veitt var til þessara hluta árið 1957.

Það er till. mín, herra forseti, eins og fram kemur í nál. á þskj. 379, að frv. þetta verði samþ. eins og það liggur fyrir.