29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2039)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki níðast á þolinmæði hæstv. forseta. Fyrst ætla ég að segja það út af því, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, ef honum skyldi verða eitthvað hugarhægra þá, að Framsfl. mun leggja mikla áherzlu á að fá aukna atvinnuaukningarstarfsemina í landinu. Ef til greina kæmi, að hann semdi um ríkisstjórn, mundi hann leggja mjög mikla áherzlu á það mál og leiðrétta þann skakka í því efni, sem orðið hefur, síðan núv. stjórnarflokkar tóku við þeim málum, eins og hér hefur verið upplýst.

Ég þarf ekki að brjóta neitt af mér við hæstv. forseta til þess að svara hv. 3. þm. Austf., m.a. vegna þess, að hv. þm. var önnum kafinn við að taka til baka það, sem hann hélt fram í sinni fyrri ræðu. M.a. sagði hann, að hann vildi alls ekki kannast við, að hann teldi áætlanir fyrir fram fánýtar eða rannsóknir, og tók því kirfilega aftur það, sem hann efnislega hafði sagt um það. En þó var þetta grundvöllur hans að því að sýna fram á, að þetta frv. væri í þessum óheppilega framsóknaranda. Nú tók hv. þm. það allt til baka, og er það út af fyrir sig gott. Enn fremur vildi hann ekki lengur halda því fram, að frv. væri skringilegt, þó að hann gerði það að aðalatriði áðan. Ég tók það orðrétt eftir honum.

Nú er hann aftur á móti búinn að finna það upp, að það sé ekki þinglegt að samþ. frv. En rökin fyrir því eru heldur dauf, þegar þess er gætt, að hér er um viðbótarráðstafanir að ræða við þær, sem áður hafa verið samþ. í öðrum lagabálki. Hér er starfsemi, sem er á ýmsan hátt frábrugðin hinni, og aukið fjármagn.

Nú hafði hv. þm. breytt nokkuð orðalagi á vaxtakenningu sinni. Nú er hún orðin þannig að efni til, að það sé um að gera fyrir bændur að hafa sem hæsta vexti, borga sem hæsta vexti af lánum til þess að fá sem hæsta vexti inn í verðlagsgrundvöllinn af sínu eigin fé. Það er sannast að segja ekki ofsögum sagt af því, að hv. þm. hefur nokkuð sérkennilegar skoðanir á þessu, þegar þess er gætt, hversu gífurlegt lánsfé bændur þurfa að nota til þess að byggja upp sinn búskap. Og sennilega er það eitt allra þýðingarmesta málið fyrir landbúnaðinn að hafa einmitt lága vexti. Við sjáum, hvernig gengur að koma afskriftunum og vöxtunum inn í verðlagsgrundvöllinn. Hvað ætli það sé mikið af þeim vöxtum, sem nú þarf að borga af nýju búi, sem væri byggt upp með því verðlagi, sem nú er, sem kemst inn í verðlagsgrundvöllinn? Hvað ætli það sé mikið? Á því sjáum við svona hér um bil, hvernig bændur fara út úr pólitík hinna háu vaxta. Ég held, að það sé flestum, sem þekkja nokkuð til þessara mála, ljóst að ein sú leið, sem verður að fara, til þess að hægt sé að halda áfram að byggja upp íslenzkan landbúnað, er, að hægt sé að fá aðgang að vaxtalægri lánum en nú er mögulegt, ásamt því að leiðrétta verðlagsgrundvöllinn og fleira, sem kemur til greina.

Ég get líka látið mér vel líka, að hv. þm. sagði nú, að það hefði alls ekki legið í sínum orðum, að hann vildi gera lítið úr árangri atvinnuaukningarfjárins á Austurlandi. Hann tók það því allt aftur, sem hann hafði sagt um það. Hann sagðist alls ekki vilja gera það. Ég var einmitt að gefnu tilefni frá honum að sýna fram á, hversu geysiþýðingarmikið atvinnuaukningarféð hefði verið fyrir Austurland. En ef hv. þm. viðurkennir það nú allt í einu, að atvinnuaukningarféð hafi verið svo þýðingarmikið fyrir Austurland, og vill ekki láta skilja sig svo, að hann hafi gert lítið úr því, hefur hann þá gert sér grein fyrir, hvað hann hefur verið að gera og stjórnarmeirihl. með því að setja atvinnuaukningarféð ofan í sama sem ekki neitt? Veit hv. þm. það t.d., að núna þegar úthlutað var úr þessum atvinnubótasjóði, varð að úthluta hálfs annars árs framlagi? Það varð að úthluta þessa árs fé og fyrir hálft ár fram í tímann til að geta sýnt pínulítinn lit á því að sinna þeim umsóknum, sem fyrir lágu, og var þó ekki nema auvirðilegur píringur samanborið við það, sem áður var? Ef hv. þm. er nú horfinn frá því að gera lítið úr atvinnuaukningarstarfinu og áhrifum þess, t.d. á Austurlandi, hefur hann þá gert sér grein fyrir því, hvað hann raunverulega hefur verið að gera og hans félagar?