06.11.1962
Efri deild: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (2212)

75. mál, lausn á síldveiðideilunni sumarið 1962

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það má segja, að þetta mál sé ekki vonum fyrr á ferðinni, þar sem það er viðtekin regla, að frv. til l. um staðfestingu á brbl. séu lögð fram þegar í byrjun þings. En þessu mun valda fjarvist hæstv. sjútvmrh. frá Alþingi að undanförnu. Aðra hæstv. ráðherra mun ekki heldur hafa fýst að láta sín meira getið í sambandi við þetta mál en ýtrasta nauðsyn, sem hlýtur að spretta af samábyrgð allrar ríkisstj. á þessu máli, gerði nauðsynlegt. Og þeir hafa því ekki kært sig um að hlaupa í skarðið í fjarveru hæstv. sjútvmrh., og hefði þó verið hægt um vik a.m.k. fyrir hæstv. viðskmrh., sem gegndi embætti hans um skeið. En það munu vissulega fáir lá honum það, að hann hafi ekki kært sig um að fylgja þessu máli hér inn á hv. Alþingi og talið betur viðeigandi, að sjálfur höfuðábyrgðarmaðurinn hlyti það verðuga hlutskipti að mæla hér fyrir því, eins og hann hefur nú gert. Því verður ekki heldur neitað, að hér hefur sögulegt augnablik í sögu verkalýðshreyfingarinnar og í sögu Alþfl. á Íslandi runnið upp, þegar formaður hans öðru sinni á sama árinu gerist frumkvöðull að löggjöf, sem stendur fyrir lýðræðislegum rétti sjómannastéttarinnar til þess að semja um kjör sín og laun eftir þeim leikreglum, sem sjálfur Alþfl. ásamt Sjálfstfl. mótaði fyrir aldarfjórðungi með vinnulöggjöfinni 1938. Það dregur ekki heldur úr sögulegu gildi augnabliksins, þegar menn minnast þess, að hér er ráðizt að réttindum, sem Alþfl. taldi svo mikilsverð, að hann hikaði ekki við að rjúfa stjórnarsamstarf bæði 1938 og 1942, ekki til þess þá að hindra það, að hliðstæð lög yrðu sett eins og þau, sem hér eru á ferðinni, því að til þess hafði hann ekki aðstöðu eða bolmagn, heldur til þess eins að undirstrika nægilega mótmæli sín gegn því, að kjörum verkafólks, kjörum sjómanna yrði ráðið til lykta með gerðardómi, til þess að meitla þá staðreynd inn í hug íslenzkrar alþýðu, að þar sem Alþfl. færi, þar færi sá, sem aldrei véki frá varðstöðu sinni um grundvallarréttindi verkalýðshreyfingarinnar, hvað sem í skærist, jafnvel þó að fórna þyrfti því, sem flokkurinn hefur jafnan metið meira en allt annað, sjálfum ráðherrastólunum. En nú er sem sagt sköpum skipt. Nú er það Alþfl., sem hefur tekið forustuna um setningu gerðardómslaga og um gerðardómsúrskurð, sem fyrir fram var vitað að hlyti að ganga gegn sjómannastéttinni, því að þegar saga málsins er athuguð og allar aðstæður, þá var svo að þessum brbl. staðið, að þau hlutu að leiða af sér stórskert kjör síldveiðimanna, án alls tillits til þess, hvort nokkur rök lægju til slíkrar kjaraskerðingar eða ekki.

Ákvörðun hæstv. ríkisstj. og hæstv. sjútvmrh. um að setja þessi brbl. var ekki aðeins ákvörðun um það, eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að banna sjómannasamtökunum að mæta kjaraskerðingarkröfum L.Í.Ú. með þeim hætti, sem lögin ákveða, heldur voru þau um leið ákvörðun um það að lækka kjör stéttarinnar. Brbl. og sjálfur gerðardómsúrskurðurinn eru því eitt og sama málið, og það er því gersamlega haldlaus leið til undankomu, sem reynd hefur verið af ýmsum, eins og t.d. málgagni hæstv. sjútvmrh. og að nokkru leyti af honum núna í framsöguræðu hans fyrir málinu, að ætla að reyna að halda því fram, að þeir beri ekki fulla ábyrgð á sjálfum úrskurði gerðardómsins eða að þeir hafi ef til vill vænzt betri útkomu á þeim úrskurði fyrir sjómenn heldur en raun varð á. Þetta verður alveg ljóst, þegar saga þessa máls er athuguð nánar.

Fyrst er þar til að taka, að útvegsmenn eða öllu heldur L.Í.Ú. sagði upp kjarasamningum um síldveiðikjör við sjómannafélög, sem manna um það bil 2/3 hluta af síldveiðiflotanum, í þeim tilgangi að lækka skiptakjörin, sem í höfuðatriðum hafa gilt um áratugi. En síðast voru samningar um þetta gerðir 1959. Það var auðsætt, að þessar kjaraskerðingarkröfur gátu aldrei náð nema til u. þ. b. helmings af þeim mönnum, sem manna síldveiðiflotann. Í fyrsta lagi gátu þær ekki náð til þeirra 16 staða á landinu, sem samningum hafði ekki verið löglega sagt upp við, og þær náðu ekki heldur til yfirmanna á skipunum, sem höfðu eftir sem áður fasta samninga. Þegar þetta er athugað, hvaða tilraun var hér á ferðinni til þess að mismuna síldveiðisjómönnum innbyrðis, hlaut hverju barni að verða ljóst, að undir öllum venjulegum kringumstæðum var slík tilraun af hálfu útvegsmanna til þess að lækka skiptakjör helmingsins af sjómönnunum, meðan aðrir áttu að búa við óskert kjör og sömuleiðis allir yfirmennirnir, sem hafa í sumum tilfellum margfalda hásetahluti, algerlega vonlaust fyrirtæki, dæmt til að mistakast. Stjórn L.Í.Ú. var þetta auðvitað ljóst líka. En hún hafði hins vegar óvenjuleg tromp á hendinni. Hún greip í fyrsta lagi til þess ráðs að fá eða láta, hvort sem menn vilja heldur hafa, alla eða flesta útvegsmenn samþykkja víxla að upphæð 300 þús. kr. fyrir hvern bát í þeirra eigu, og skyldu víxlarnir falla til greiðslu, ef viðkomandi útgerðarmaður fremdi það afbrot að lögskrá sjómenn til síldveiða upp á þau kjör, sem gilt höfðu undanfarin ár og enn voru í gildi hvað verulegan hluta flotans snerti. Því hefur jafnvel verið haldið fram og kannske hvorki verið sannað né afsannað, að margir útgerðarmenn hafi skrifað undir þessa víxla, samþykkt þessa víxla, undir hótun um það, að þeir fengju ekki ella eðlilega fyrirgreiðslu í lánastofnunum. Og vissulega er því ekki að neita, að þessi hótun hefur a.m.k. legið í loftinu, hvort sem henni hefur verið beitt í raunveruleikanum eða ekki. En hitt er svo aftur fullvíst og ekki umdeilanlegt, að margir þeir, sem samþykktu þessa víxla, gerðu það á þeim alröngu forsendum, að samningum hefði af L.Í.Ú. verið sagt löglega upp um land allt og að allir ættu að sitja við sama borð. En hvað sem um þetta er, þá held ég, að öllum beri saman um það, að þessi einstæða aðferð L.Í.Ú.-manna hafi ekki átt sér neina stoð í lögum og hafi m.ö.o. verið hrein tilraun til fjárþvingunar. En við því afbroti liggja þungar refsingar samkv. íslenzkum lögum.

Hér stóð nefnilega svo á, að skráning sjómanna á síldveiðiskipin eftir eldri samningum var fullkomlega lögmæt athöfn, hvernig sem á var litið, og því að sjálfsögðu ekki á færi hvorki L.Í.Ú. né heldur annarra að refsa fyrir þá athöfn með fjártöku. Hér var ekki um það að ræða, að útvegsmenn væru með verknaði slíkum að brjóta verkfall og ekki heldur verkbann. Sjómenn höfðu ekki lýst yfir vinnustöðvun á flotanum, og útvegsmenn höfðu ekki heldur lýst yfir verkbanni. Hér var því hvorki um verkfall að ræða né heldur um verkbann. L.Í.Ú. hafði ekki valið þann kost að reyna að knýja þá kjaraskerðingu, sem það óskaði eftir, fram með þeim löglega hætti að lýsa yfir verkbanni gagnvart þeim sjómannafélögum, sem samningum hafði verið sagt upp gagnvart, heldur eingöngu gripið til löglausra fjárþvingunaraðferða til þessa, en hafnað hinni löglegu leið. Ég hygg, að það geti ekki leikið nokkur vafi á því, að slíkar aðferðir hefðu ekki verið reyndar nema fyrir þá sök eina, að forustumenn L.Í.Ú. töldu sér stuðning hæstv. ríkisstj. vísan til þess að fá kjör sjómanna lækkuð, vissu fyrir fram, að hún mundi tryggja þeim sigur í deilu, sem annars var vonlaus, og hún mundi gera þetta í fyllingu tímans, þegar veiðifréttirnar færu að berast, enda fóru útgerðarmenn frá því fyrsta hvergi dult með þessa skoðun sína. Og það kom líka á daginn, að hún hafði við full rök að styðjast.

Þann 24. júní, daginn, sem brbl. voru sett, stóðu málin þannig, að samningar höfðu enn ekki tekizt með samninganefndum Landssambandsins og sjómanna. Veiðifréttir voru farnar að berast, m.a. frá Norðmönnum og íslenzkum skipum, sem komin voru á miðin, og útgerðarmenn víðs vegar um landið voru orðnir ákveðnir í því þá að hafa fjárþvingunaraðferðir L.Í.Ú. að engu og manna skip sín á veiðar upp á sömu kjör og áður höfðu gilt. 24. júní voru 20 bátar komnir á veiðar fyrir Norðurlandi þrátt fyrir bann Landssambandsins og þrátt fyrir fjárkúgunarvíxlana, og fjöldi annarra báta var um það bil að búast til ferðar til veiða. Einn eða tveir dagar í viðbót hefðu nægt til þess, að L.Í.Ú.-mennirnir hefðu horft á eftir síðustu bátunum úr höfn og hefðu setið eftir með sína óinnheimtanlegu, ólöglegu víxla í reiðileysi. Aðgerðir stjórnar L.Í.Ú. höfðu að vísu þá þegar skaðað þjóðarbúið um 5 millj. kr. og útgerðarmenn og sjómenn vafalaust um miklu stærri upphæð en deilt var um. En þegar hér var komið, var málið þeim tapað að fullu og öllu. En það var einmitt á þessu augnabliki, sem hæstv. ríkisstj. þótti tími til kominn að grípa inn í og leika hlutverk hinnar landsföðurlegu forsjár, ekki með því að ógilda löglausar athafnir L.Í.Ú. manna, eins og henni hefði borið skylda til að gera löngu áður, ekki með því að hindra, að útvegsmenn og sjómenn byggju við tvenns konar kjör á síldveiðum, ekki heldur með því að lögbinda óbreytt kjör, þar til samningar höfðu tekizt, eins og ýmis fordæmi eru til um að gert hefur verið og þótt fullgott fyrir verkalýðssamtökin, þegar þau höfðu verið að krefjast bættra kjara. Þá hefur slík aðferð þótt brúkleg. En nú þótti hún það ekki. Nei, það var ekki í neina þessa átt, sem hæstv. ríkisstj. hafði afskipti af málinu, heldur greip hún til þess að setja brbl. um að svipta sjómannasamtökin réttinum til að semja umkjör sín og svipta þá sigri, sem þeir voru búnir að vinna á kjaraskerðingaráformum útgerðarmanna. Það var því vissulega ekki að ófyrirsynju, að helzti leiðtogi Alþfl. í sjómannasamtökunum, Jón Sigurðsson, sagði um útgáfu þessara brbl. í viðtali við Alþýðublaðið, að þar væri um að ræða harkalegri aðgerðir en áður í líkum tilfellum, og bætti við, að venja hefði verið, að brbl. tryggðu óbreytta samninga undir slíkum kringumstæðum.

Hæstv. sjútvmrh. er því áreiðanlega óhætt að líta nær sér, og kem ég kannske ofur lítið betur að því síðar, um gagnrýni og hatramman áróður gegn þessum lögum og gegn gerðardómnum, sem hann talaði um, — líta nær sér en til pólitískra andstæðinga sinna. Ég held, að hið sanna sé, að bæði lögin og gerðardómurinn hafi hlotið nokkurn veginn einróma fordæmingu allra, sem við þau hafa átt að búa, hvaða stjórnmálaskoðunum sem menn annars hafa fylgt.

Úrskurður gerðardómsins, sem var svo birtur mánuði síðar en brbl. voru gefin út, reyndist, eins og til var stofnað, einhliða og algerlega órökstuddur í vil útgerðarmönnum og það svo mjög, að til munu ekki ófá dæmi um það, að útgerðarmenn hafa ekki talið sér fært eða talið rétt eða sér hagkvæmt að notfæra sér til fulls þá kjaraskerðingu á sjómannakjörunum, sem í honum felst. Á meginhluta flotans var skiptaprósentan lækkuð um og yfir 5%, og meðalskerðing hásetahlutar mun hafa orðið nálægt 13–15%, en í mörgum tilfellum miklu meiri, jafnvel upp í 25%. Þá afnam úrskurðurinn einnig uppbætur á hluti, eftir að vissu aflamagni væri náð, en áður hafði verið talið sanngjarnt í samningum, að eftir að útgerðin var komin langt yfir það mark, sem hún þurfti til þess að bera sig fyllilega, og var farin að skila verulegum gróða, þá fengu hásetar ofur lítið hærri hlut úr aflanum. En gerðardómurinn afnam þetta atriði einnig. Það mun ekki a.m.k. vera fjarri sanni, að þessi kjaralækkun hafi numið á s.l. sumri um 10 þús. kr. að meðaltali fyrir hvern háseta eða 20–30 millj. alls fyrir allan síldveiðiflotann. En gróði útgerðarmanna hefur í einstökum tilfellum af þessum ástæðum einum komizt upp í fjórðung úr milljón á bát eða jafnvel meira, eins og t.d. á aflahæstu Vestmannaeyjabátunum, sem áður bjuggu við verst skiptakjör, en að sjálfsögðu minna á öðrum. Það segir strax nokkuð um úrskurðinn, að fulltrúi útgerðarmanna samþykkti hann án allra athugasemda, og það sannar auðvitað alveg óumdeilanlega, að útgerðarmenn fengu sínum óskum fullnægt og að einhliða var hallað á sjómenn, enda hef ég ekki a.m.k. heyrt neina óánægjurödd úr röðum útgerðarmanna um úrskurðinn, nema þá helzt frá þeim, sem töldu, að of langt hefði verið gengið.

En á hverju byggði svo þessi þrenning, stjórn L.Í.Ú., ríkisstj. og gerðardómsmennirnir, kauplækkunaraðgerð sína? Jú, hún hefur verið rökstudd á svipaðan hátt og hæstv. ráðh. gerði hér áðan, með því, að sú nýja tækni, aðallega fisksjár og kraftblakkir, hafi verið að ryðja sér til rúms á síðustu árum. Það er að vísu ekki um neina nýjung að ræða, sem sé sérstaklega einkennandi fyrir þessa vertíð, sem þessi lög áttu að gilda um, heldur hefur þar verið um þróun að ræða um margra ára skeið. Þessi nýja tækni væri útgerðarmönnum svo kostnaðarsöm, að þeir hefðu engin tök á að bæta sér upp þann kostnaðarauka með öðrum hætti en að láta sjómennina greiða hann af sínum hluta. Og í upphafi a.m.k. mun krafa útgerðarmanna hafa verið, að þeim væru afhentir fyrir að koma fyrir þessum tækjum þrír hásetahlutir og algerlega á kostnað sjómanna, engin leið væri til að jafna metin við þennan kostnaðarauka önnur en sú, að sjómennirnir afhentu nokkuð af hlut sínum. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt öllu fjarstæðari kenningu en þessa. Og a.m.k. er hún alveg óþekkt í öðrum atvinnugreinum, þar sem um aukna tækni og vélvæðingu hefur verið að ræða. Ný tækni þýðir í þessu tilfelli eins og mörgum öðrum eða flestum öðrum stóraukna möguleika til afkasta við veiðar og gerbyltingu í aflamöguleikum. Og slíkt á að vera einhver röksemd fyrir því, að kaup þeirra, sem vinna við tækin, sé lækkað. Ég held, að það sé ekki hægt að benda á hliðstæðar kröfur vegna vélvæðingar í nokkurri atvinnugrein, hvorki hérlendis né erlendis. Og menn skyldu ekki halda, að Íslendingar væru einir um að hafa sett þessi nýju tæki í sín veiðiskip. Þau hafa verið að ryðja sér til rúms meðal allra nútíma fiskveiðiþjóða, og það er ekki kunnugt um, að nokkurs staðar hafi verið settar fram neinar kröfur um það, að mannskapurinn á skipunum ætti að borga tækin.

Það er líka svo, að allar þessar röksemdir varðandi tæknina og tækin hafa verið marghraktar og það af mörgum fleiri en fulltrúum sjómanna í samningunum. Ég vil þar t.d. tilnefna, að Fiskifélag Íslands hafði á s.1. vori eða s.l. vetri gert áætlun um útgerð á sumarsíldveiðum 1962, á þessu ári, og það hafði komizt að þeirri niðurstöðu, að útgerð með hinni nýju tækni, þar sem hún nyti sín til fulls, væri miklu hagkvæmari en útgerð með eldra fyrirkomulagi, enda gefur það auga leið hverjum þeim, sem eitthvað þekkir til síldveiða.

Eins og ég sagði áðan, er fyrst og fremst átt við kraftblökkina og fiskileitartæki, þegar átt er við hina nýju tækni. Það mun vera talið, að kraftblökk í einn bát kosti um 180 þús. kr. Og auðvitað er þar um tæki að ræða, sem endist í fjölda ára með litlu viðhaldi. Fiskileitartækin eru misdýr. En það er sameiginlegt með þeim öllum, að þau eru sett í bátana að mestu leyti án tillits til þess, hvort þeir stunda síldveiðar eða ekki. Þetta eru tæki, sem koma að gagni á öllum veiðum og eru orðin algerlega nauðsynleg, hvort sem skip eru á síldveiðum eða öðrum veiðum. Og það er þess vegna algerlega óréttmætt að ætla, að nauðsynlegt sé, að síldveiðarnar standi undir nema þá hluta af þeim kostnaði. Það er svo auðséð líka, að á móti þessum kostnaðarliðum, sem hvergi nærri eru svo stórvægilegir sem útgerðarmenn hafa viljað vera láta, — og má m.a. benda á, að sumir þættir þessa kostnaðar hafa verið metnir af þar til kvöddum matsmönnum og þeir hafa komizt að allt öðrum niðurstöðum varðandi kostnað en útgerðarmenn, svo að þar skakkar mjög miklu, jafnvel í sumum tilfellum hafa þeir dæmt kostnaðinn helmingi eða meir en helmingi lægri en útgerðarmenn hafa viljað vera láta, — en á móti þessum kostnaðarliðum, hvort sem þeir eru nú 10 þús. kr. meiri eða minni, kemur svo auðvitað margs konar sparnaður í útgerðinni vegna hinna breyttu veiðiaðferða, og vil ég nefna nokkra slíka liði.

Þegar að mestu leyti eða alveg varð að hafa nótabáta, sem oft varð einnig að draga á eftir skipunum og koma nótunum fyrir í þeim, — meðan svo var ástatt, voru mjög háar tryggingar bæði á nót og bátum. Og var það vitanlega vegna þess, hve mikil hætta stafaði af misjöfnum veðrum varðandi þessi dýru tæki, sem oft varð að draga í þessum litlu bátum á eftir skipunum í hvaða veðri sem var. Og tjón var mjög algengt. Það er talið, að bara sá kostnaður, sem af tryggingu skipsins er, lækki um 25–30 þús. kr. á vertíð vegna þessarar breytingar. Stofnkostnaður, endurnýjun og viðhald á nótabátum er áreiðanlega litlu eða engu minna en á tækjum eins og kraftblökkinni. Og sá kostnaður hverfur að öllu leyti. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að þessi sparnaður sé a.m.k. eins mikill og sá, sem verður á tryggingarkostnaðinum. Enn fremur mætti svo nefna fleira, eins og t.d. stórlækkaðan olíukostnað við það, að skipin þurfa ekki lengur að draga drekkhlaðna nótabáta, og fleira mætti tilnefna.

Í sambandi við þetta, þó að það varði málið ekki alveg beint, mætti líka hafa það í huga, að með gengislögunum í ágúst 1961 var ákveðið, að sjómenn greiddu vátryggingarkostnað fiskiskipanna að verulegu leyti. Það var gert með því að taka vátryggingargjöldin í gegnum útflutningsgjald af óskiptum hluta hásetanna, og þýddi þetta að sjálfsögðu verulega kjaralækkun fyrir sjómennina, en hagsbót fyrir útvegsmennina. En svo er það, sem skiptir að sjálfsögðu langmestu máli, að möguleikar til þess að ná árangri í veiðum hafa aukizt margsinnis, og það skiptir auðvitað höfuðmáli. Hygg ég, að svo til hver einasti útgerðarmaður og sjálfsagt allir hafi ekki sett þessi nýju tæki í skipin og innleitt þessa nýju tækni aðeins í því trausti, að þeim tækist að láta sjómennina borga það, og það er þá a.m.k. undarlegt, ef svo hefur verið, að ekki hefur verið ýjað í þá átt að lækka skiptakjörin fyrr en á þessu og síðasta ári, enda þótt tækin væru komin fyrir mörgum árum í mikinn fjölda af skipunum.

Það er líka rétt að minna á það, að þessi nýja tækni og fækkun manna á skipunum leggur stóraukna vinnu á sjómennina. Þetta stafar m.a. af því, að nú er unnt að stunda veiðar í miklu verri veðrum en áður og jafnt á nóttu sem degi, og einnig er þess að gæta, að með vaxandi afla vex auðvitað vinna hásetanna, jafnt á sjónum sem og við það að koma veiðinni í land. Áður var það svo, að síldarköst fóru ekki fram nema í mjög góðu veðri og aðeins á nokkrum hluta og venjulega litlum hluta sólarhringsins. Nú er aftur á móti unnt, þegar vel viðrar, eins og gerði á s.l. sumri, að kasta svo að segja látlaust allan sólarhringinn og meira að segja sólarhring eftir sólarhring. Það er því alveg óhætt að fullyrða það, að framlag sjómannanna hefur komið fyllilega á móti og aukizt fyllilega á móti hinni nýju tækni, sem útgerðin hefur lagt á borð með sér.

Það mun líka hafa verið samdóma álit allra, sem útgerð stunda og eitthvert skyn bera á útgerð og fylgzt hafa með rannsóknum á síldargöngum og öðru slíku, að að öllu samanlögðu, bæði hvað útbúnað veiðiflotans snerti og veiðihorfur, veiðimöguleika, þá hafi aldrei verið álitlegra að gera út til síldveiða á s.l. nær tveim áratugum heldur en var í byrjun vertíðarinnar nú á s.l. sumri. En ég held, að ástæðan fyrir þessu, að einmitt núna var látið skríða til skarar gegn sjómannastéttinni, — ég held, að sú ástæða sé nokkuð ljós. Það var útlit fyrir sérlega góða síldarvertíð og þar af leiðandi tiltölulega háa hluti sjómanna, en slíkt hlaut auðvitað að vera þyrnir í augum ríkisstj., sem trúir á launalækkanir sem bót flestra þjóðfélagsmeina. Þess vegna varð að reyna að hindra það, að laun sjómanna stæðu verulega upp úr og þau gætu orðið hvatning fyrir aðrar launastéttir til þess að rétta hlut sinn. Í áróðri stjórnarflokkanna gegn sjómönnum hefur því líka verið haldið á lofti, að sjómenn bæru of mikið úr býtum samanborið við aðrar stéttir þjóðfélagsins og það væri í raun og veru hreint hneyksli. Það er þess vegna rétt að athuga þetta ofur lítið nánar, þennan lið áróðursins, sem beitt hefur verið alveg miskunnarlaust gegn sjómönnum.

Á s.l. sumri, á vertíð, sem gaf meiri afla en nokkur önnur vertíð í sögunni, mun hlutur háseta hafa orðið um 60 þús. kr. að meðaltali. Og þennan meðaltalshásetahlut verður þó að sjálfsögðu að telja til hreinna undantekninga. Það verður að reikna með því, að allt að 4 mánuðir á árinu fari í þessa vertíð fyrir sjómennina, þegar tillit er tekið til undirbúnings vertíðarinnar og óhjákvæmilegra hléa á milli vertíða. Meðalhluturinn mundi þá verða sem næst 15 þús. kr. á mánuði, miðað við þann tíma, sem beint fór til veiðanna. Og frá þessum 15 þús. kr. verður svo að sjálfsögðu að draga margs konar kostnað, sem hásetar hafa af því að vera á sjónum. M.a. ber að taka tillit til þess, að þeir verða að greiða dýrara fæði en sennilega nokkrir aðrir menn í landinu, og hafa að sjálfsögðu margs konar annan kostnað af því að vera á sjónum. Og mikið af þessum tíma verða sjómennirnir að leggja nótt við dag hvað vinnu snertir, a.m.k. ef sæmilega aflast og ef einhver von á að verða til þess, að hlutur verði í líkingu við það, sem hann var á síðasta sumri.

Ég held nú, að það fari ekki á milli mála, að miðað við vinnuframlag og vinnutíma séu þessi laun sízt hærri en laun lægst launuðu stétta í þjóðfélaginu, t.d. daglaunamanna. Það munu vera mörg dæmi um það frá s.l. sumri, að verkamenn, sem unnu við síldarvinnslu, t.d. í síldarverksmiðjunum, báru úr býtum 50–60 þús. kr. yfir vertíðina eða því sem næst það sama og síldarsjómennirnir hafa borið úr býtum. Í slíkum tilfellum er auðvitað um að ræða óhæfilegt vinnuálag og vinnutíma, sem fer langt fram úr því, sem sæmilegt getur talizt. En það má alveg sama segja um sjómennina. Það þykir engum tiltökumál, þótt þeir verði að vinna jafnvel sólarhringum saman í einni lotu, og sjálfir telja þeir það sízt eftir. En þeir sætta sig þá ekki heldur við það, að kjör þeirra séu stórlækkuð, á sama tíma sem flestar aðrar stéttir gera kröfur um launahækkanir.

Það er þess vegna sama, frá hvaða sjónarmiði gerðardómslögin eru skoðuð, að það ber allt að sama brunni. Árásin, sem hún þýddi á sjómannastéttina, var óréttmæt og órökstudd og eins og síðar hefur komið á daginn, hættuleg vinnufriði í útgerðinni. Og það hygg ég að menn sjái vel, þegar eftirleikurinn, þ.e.a.s. sú deila, sem nú stendur yfir um síldveiðarnar, er athugaður. Og auk þessa var svo setning brbl. hrein ofbeldisárás á grundvallarréttindi verkalýðssamtakanna. Reyndin hefur líka orðið sú, að sennilega hefur ekkert tiltæki hæstv. ríkisstj., — og hafa þau þó mörg sætt misjöfnum dómum, — að ekkert tiltæki hefur sætt almennari fordæmingu en þessi brbl. og gerðardómurinn, sem af þeim leiddi. Skipshöfn eftir skipshöfn sendu hæstv. ráðh. mótmæli sín á s.l. sumri gegn lögunum og gegn gerðardómnum, og ég hygg, að þess séu fá dæmi eða engin dæmi, að nokkur sjómaður hafi á skipum mælzt undan því að taka þátt í þessum mótmælum. Og það hefði vissulega verið vel viðeigandi, að hæstv. ráðh. hefði látið skrá yfir þessi mótmæli fylgja, þótt ekki væri nema sem fskj. með þessu frv. núna.

Sjómannasamtökin öll, þ. á m. þeir, sem eru undir alveg einlitri pólitískri forustu Alþfl. og Sjálfstfl., hafa fordæmt bæði lögin og gerðardóminn, og sjálft málgagn hæstv. sjútvmrh. hefur algerlega gefizt upp við að verja málstað hans. Og nú alveg nýlega er mér sagt, — og það verða þá að leiðrétta þeir, sem kunnugri eru en ég, — að þing Sambands ungra jafnaðarmanna, sem haldið var í heimabæ hæstv. sjútvmrh., meðan hann var að vísu fjarverandi úr landinu, hafi samþykkt með yfirgnæfandi meiri hl. að fordæma brbl. Það er þess vegna vægast sagt ákaflega veikt hjá hæstv. ráðh., þegar hann er að tala um hatrammar árásir pólitískra andstæðinga á þennan dóm. Og það er auðvitað alveg fullkomlega að vonum, að hvort tveggja þetta hefur hlotið alveg óáfrýjanlega fordæmingardóm.

Að þessu máli hefur verið eins vísdómslega staðið og að öðrum brbl., sem hæstv. ríkisstj. hefur sett til þess að takmarka verkfallsréttinn í landinu, að gildistími laganna er úti, þegar kemur til kasta Alþingis að leggja dóm á lögin. Og þannig er þetta einnig nú. Þegar þessi lög eru lögð fram á Alþingi, hafa þau misst gildi sitt fyrir nokkru, og það er því aðeins verið að þjóna formsatriðum með því að leggja þau hér fram. Alþingi hefur þess vegna ekki tök á því að leiðrétta hér orðinn hlut, eins og nú er komið. Ég tel alveg vafalaust, að þessari aðferð, að miða gildistímann við það, að hann væri úti, þegar þing kæmi saman, hafi verið beitt nú eins og áður vegna þess, að hæstv. ríkisstj. telur það a.m.k. alveg óvíst, að nokkur meiri hl. sé fyrir því hér á Alþingi að samþykkja slíka löggjöf, og þess vegna alveg vafasamt, að hún hafi þann a.m.k. siðferðilega rétt, sem henni ber að hafa til að geta gefið út brbl., að hafa meiri hl. löggjafarþingsins á bak við sig. Það mun þess vegna, eins og til er stofnað, ekki vera hugmyndin, að þetta mál gangi nema til 2. umr. og nefndar og liggi þar síðan — og leggist það síðan í glatkistuna og á það verði ekki minnzt framar hér á þingi.

En ég tel alveg nauðsynlegt og mjög mikilvægt af mörgum ástæðum, að það fáist úr því skorið, hver er afstaða a.m.k. þessarar hv. deildar efnislega til málsins. Í fyrsta lagi, ef brbl. yrðu nú felld þegar við 1. umr., þá væri því slegið föstu, að Alþingi vildi ekki fallast á slík ofbeldislög, og þannig væri hindrað, að hæstv. ríkisstj. héldi lengra áfram á þeirri braut, sem hún hefur gengið í þessu máli illu heilli. Og með því væri líka hindrað, að hópar atvinnurekenda héldu atvinnuvegunum og vinnustéttunum í langvarandi stöðvunum í von um það, að ríkisvaldið kæmi þeim til hjálpar til þess að lækka kjörin með viðlíka ofbeldisráðstöfunum og þessi lög eru. En það bendir margt til þess, að nú leiki útvegsmenn svipaðan leik og á s.l. vori með síldveiðikjörin og sýni fullkomna óbilgirni í samningum við sjómenn í því trausti, að ríkisstj. komi til skjalanna á réttum tíma og útkljái málið með gerðardómi. Og það var ekki hægt betur að heyra á ræðu hæstv. sjútvmrh. nú áðan en hann teldi a.m.k. nokkrar horfur á því, að þessi yrði niðurstaðan. Og það er vissulega ekki von, að vel gangi með frjálsa samninga, þegar annar hópur deiluaðila hefur slíkt tromp í höndum eins og Landssambandið virðist gera sér vonir um, að það hafi nú öðru sinni. A.m.k. var það ekki að heyra á hæstv. ráðh., að hann teldi það neitt fráleitt, að Alþingi gripi hér inn í og gæfi að nýju út lög um deiluna til að útkljá hana.

Ég held þess vegna, að með því að fella þetta frv. núna væri stigið verulegt skref í þá átt að leysa síldveiðideiluna, sem nú er útlit fyrir að geti bakað þjóðarbúinu tilfinnanlegt tjón. Það væri þess vegna visst framlag til vinnufriðarins í landinu, ef hv. þd. sýndi greinilega afstöðu sína í þessu máli og meiri hl. d. tæki undir þá almennu fordæmingu, sem þessi brbl. og gerðardómurinn, sem af þeim leiddi, hafa sætt meðal þjóðarinnar.