18.12.1962
Neðri deild: 30. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

46. mál, ríkisreikningurinn 1961

Eysteinn Jónsson:

Ég er búinn að tala tvisvar og hef ekki nema aths., og ég skal reyna að misnota ekki leyfi hæstv. forseta, þótt raunar væri full ástæða til þess að segja eitt og annað út af þessari síðustu ræðu.

Nú hefur hæstv. fjmrh. útvegað sér skjaldsvein og hann ekki af verra taginu, þar sem hann sendi hæstv. samgmrh. til að útskýra það, hvernig lántökur ríkisins ættu og gætu verið réttilega framkvæmdar.

Fyrst vil ég segja, að hæstv. samgmrh. var að dylgja hér um það, að ég hefði verið að bera það á vegamálastjóra, að hann hefði átt þátt í því að blekkja í þessu efni eða koma fram á þann hátt, sem samsvaraði fölsun ríkisreikninganna, sagði hæstv. ráðh.

Það vita allir þeir, sem hafa heyrt þessar umr., hver það var, sem bar fyrir sig vegamálastjóra. Það var hæstv. fjmrh. Mér hefur aldrei dottið í hug að bera eitt eða annað á hann í þessu sambandi. Mér dettur ekki í hug, að hann hafi gert nokkuð annað í þessu en það, sem fyrir hann hefur verið lagt af hans yfirboðurum. Mér dettur það ekki í hug. Og það er mjög lítilmannlegt af hæstv. ráðherrum að vera að reyna að koma því á vegamálastjóra, að hann eigi hlut í því, að skuldir ríkissjóðs eru ekki allar taldar á ríkisreikningunum.

Nú höfum við fengið upplýst, að lán til Keflavíkurvegarins hafi verið löglega tekið og fyrir því hafi verið lánsheimild, og útskýringarnar, sem hæstv. ráðherrar bera fyrir sig, eru sagðar frá lögfræðingi í stjórnarráðinu. En það segir sitt um málflutninginn, að ráðh. sagði, að það mundi ekki vera talin ástæða til að gera mikið veður út af því, þó að ég fyndi að þessu, þar sem ég væri ekki lögfróður maður, — mundi varla ómaksins vert að ræða það hér á Alþ., hvort ég hefði rétt fyrir mér í þessu efni, þar sem ég væri ekki lögfróður!

En nú hefur ráðherrann skýrslu um þetta efni, sem hefur verið samin í rn., og enn er reynt að skjóta sér í þessu efni á bak við embættismennina.

En hver er svo hugsanagangur ráðuneytisins í þessu, þ.e. hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórnar? Hann er þessi: Framkvæmdabankinn hefur fengið lánsheimild í lögum, og ríkisstj. hefur fengið heimild í l. til að ábyrgjast lán fyrir Framkvæmdabankann, bæði í fjárl. og sérstökum l. Síðan er haldið áfram og sagt: Þar sem Framkvæmdabankinn hefur fengið heimild til að taka lán og hann er ríkisstofnun og þar sem ríkisstj. hefur fengið heimild til að ábyrgjast lán fyrir Framkvæmdabankann, þá getur hvaða ríkisstofnun sem er án heimildar tekið aftur lán út úr Framkvæmdabankanum í hvað sem henni sýnist. — Þetta er hugsanagangurinn í þessum útskýringum hæstv. ráðh. Sá, sem semur þessa grg., segir, að Framkvæmdabankinn hafi lánsheimildir, ríkisstj. hafi heimildir til að ábyrgjast lán fyrir Framkvæmdabankann, og svo er bætt við: Litið hefur verið svo á, að ein ríkisstofnun þurfi ekki sérstakar lánsheimildir til þess að taka lán hjá annarri.

Þetta er rökstuðningur hæstv. ríkisstj. Ég spyr því hæstv. fjmrh.: Er þetta skilningur hans á löggjöf þeirri, sem í gildi er um lántökur? Getur t.d. ríkisstj. tekið hjá Seðlabankanum, sem er líka ríkisstofnun, hvaða lán sem henni sýnist, án þess að spyrja Alþingi, og varið lánsfénu til hvers sem vera skal? En það væri beint framhald af þessum hugsanagangi, sem kom fram í því, sem hér var lesið áðan og haldið fram.

Er það skilningur hæstv. fjmrh., sem sér um lántökur ríkissjóðs, að t.d. ríkisstj. geti tekið lán ekki bara hjá Framkvæmdabankanum, heldur líka hjá Seðlabankanum og ríkísbönkunum yfirleitt, eins og henni sýnist og í hvað sem er, ef hægt væri að grafa það einhvers staðar upp í lögum, að þessar stofnanir, Seðlabankinn, Framkvæmdabankinn, og aðrar slíkar stofnanir, hefðu lánsheimildir í lögum handa sér og ríkisstj. hefði heimildir til þess að ábyrgjast fyrir þessar stofnanir lánin?

Vitanlega dettur ekki nokkrum þm. í hug að fallast á svona fjarstæðu. Þetta er hreint og beint yfirklór út af láni, sem er, eins og áður hefur verið greint frá, tekið í heimildarleysi.

Síðan sagði hæstv. ráðh.: Það eykur ekkert skuldbindingar ríkisins. — Er það þá sams konar skuldbinding ríkissjóðs að ábyrgjast lán fyrir sjálfstæða bankastofnun eins og Framkvæmdabankann, sem hann stendur straum af sjálfur, og að taka beinlínis ríkislán í ákveðna framkvæmd, sem ríkið á síðan að borga vexti og afborganir af? Okkur er boðið upp á svona málflutning hér á hv. Alþingi!

Það er ekki að furða, þótt fjmrh. vildi heldur, að hæstv. samgmrh. færi hérna í stólinn til að segja þetta. Ég get vel skilið það. En ég álít, að hv. þm. hafi alveg fullan rétt á því að fá útskýringar á því, hvort hæstv. fjmrh. lítur líka svona á, hvort hann lítur þannig á, að hann hafi fulla heimild til þess að taka lán úr ríkisbönkunum í hvað sem honum sýnist og skuldbinda ríkissjóð þannig, og byggir það á því, að bankarnir hafi lánsheimildir handa sér og ríkisstj. heimildir til þess að ábyrgjast lán handa bönkunum, sem þeir standa straum af.

Okkur er öllum ljóst, hvernig þessi löggjöf er og hvernig þetta er vaxið. Það er þannig, að Framkvæmdabankinn hefur heimild til þess að taka þessi lán. En ríkisstj. getur ekki látið stofnanir sínar taka eða sjálf tekið þau lán í það, sem henni sýnist. Hún þarf að hafa heimildir Alþingis til þess, og þeirra hefur hún svikizt um að afla sér í þessu tilfelli. Hún hefur ekki leitað sér þeirrar heimildar, og það er gert af ásettu ráði, til þess að fara bak við Alþingi. Og það er ekki látið duga, heldur hefur hún hugsað sér að láta ekki fyrr en í síðustu lög setja þessa skuld inn í sjálfan ríkisreikninginn og ekki einu sinni greiðslur af henni inn í fjárl. Eða hvernig vill hæstv. fjmrh. útskýra það, að við erum hér með fjárlfrv., þar sem ekki er gert ráð fyrir greiðslunum af þessu láni, sem þó er vitanlega ríkislán, eins og ég hef margsinnis tekið hér fram?

Afborganir og vextir af því verða að greiðast úr ríkissjóði. Þeir eiga að koma á fjárl. og hljóta að koma á ríkisreikninginn, þegar þar að kemur.

Það var þó ágætt, að það tókst loksins að svæla hæstv. stjórn út í þessu sambandi. Nú er nokkuð ljóst, hvernig þetta mál liggur fyrir, og sést þá, eins og vitað var, að það er rétt, sem fram hefur verið haldið um þetta.

Það kann vel að vera, að hæstv. stjórn finnist það bara hégómi að vera að tala um, hvort farið er fram hjá Alþingi varðandi lántökur ríkissjóðs eða ekki. En það er samt enginn hégómi, vegna þess að lántökumálin eru meðal hinna stærstu mála, sem Alþingi fjallar um, vegna þess að lántökurnar eru líka fjárveitingar. Það er verið að veita fé fram fyrir sig. Þær koma jafnóðum inn í ríkisreikninginn sem útgjöld, þegar afborganir og vextir eru greiddir, og það er einmitt þess vegna, sem það er tekið fram í stjórnarskránni, að það skuli leita heimildar Alþingis fyrir lántökunum.

Nú heyrum við þessa nýstárlegu kenningu, að ef ríkisbanki hefur fengið lántökuheimild og ríkisstj. heimild til þess að ábyrgjast fyrir þann banka lántökuheimildina, þá geti ríkisstj. tekið fé að láni úr þeirri bankastofnun án þess að spyrja Alþingi nokkurn skapaðan hlut um. Alþingi komi ekkert við þær ríkislántökur, sem teknar séu hjá ríkisstofnunum. Inn á slíkan skilning gengur vitanlega enginn alþm., enda er augljóst, að þetta er ekkert annað en vandræða yfirklór.