25.10.1962
Neðri deild: 7. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (2276)

33. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Mér finnst rétt að taka það fram, að þetta frv. er ekki að neinu leyti flutt til þess að gera lítið úr starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins. Ég viðurkenni fullkomlega, að hún hefur á mörgum sviðum unnið merkilegt starf, og það á hún að geta unnið áfram, þó að þetta frv. verði samþykkt.

En fyrst farið er að rifja hér upp störf Ferðaskrifstofu ríkisins, finnst mér rétt að láta það koma fram, að margir aðrir aðilar hafa unnið að merkilegri landkynningu á undanförnum árum, eins og t.d. flugfélögin. Bæði Loftleiðir og Flugfélag Íslands hafa unnið mjög merkilegt landkynningarstarf, og það virðist mér sýna, að það muni vera heppilegt að gefa enn fleiri aðilum aðstöðu til þess að geta tekið þátt í því starfi, og það m.a. með því, að það skipulag komist á, að Íslands verði yfirleitt getið í þeim leiðsögubókum, sem hinar stóru ferðaskrifstofur úti í heimi gefa út. En vegna þess fyrirkomulags, sem nú er, að hér er aðeins einn aðili, sem sér um móttöku á erlendum ferðamönnum, vilja margar stórar erlendar ferðaskrifstofur ekki hafa skipti við okkur og hafa þess vegna ekki tekið Ísland með inn í sínar mjög svo þýðingarmiklu leiðsögubækur. Ef þetta væri hins vegar gefið frjálst og hér fengju að starfa ferðaskrifstofur, sem hefðu umboð fyrir þessar útlendu ferðaskrifstofur, mundi Ísland vera með í þessum bókum, og það eitt mundi hafa mjög merkilega og mikla landkynningu í för með sér.

Þetta er í þriðja sinn, sem ég hef flutt þetta frv., og ég sé ástæðu til að fagna því, að það hefur þó borið þann árangur, að hæstv. ríkisstj. hefur nú rumskað og skipað nefnd til að íhuga þetta mál. Ég vil hins vegar vænta þess, að þessi nefndarskipun þýði ekki það, eins og oft hefur átt sér stað í sambandi við nefndarskipanir, að það sé gert til þess að svæfa málið. Ég vil treysta því, að það sé ætlunin hjá hæstv. ríkisstj. að gera eitthvert átak í þessu máli, auka frjálsræðið í þessum efnum, og þess vegna megi vænta þess, að sú nefnd, sem hefur verið sett til að rannsaka þetta mál, skili áliti, svo að hægt verði að fjalla endanlega um málið á þessu þingi. Og satt að segja álít ég hér um svo einfalt mál að ræða og augljóst, að það hefði alls ekki þurft að skipa neina sérstaka nefnd til að fjalla um það, heldur hefði verið hægt að afgreiða það eins og það liggur fyrir án nokkurrar sérstakrar nefndarskipunar og láta þá athugun fara fram í nefnd hér í þinginu, ef það þætti þörf á einhverri frekari athugun á því, sem fyrir liggur. En sem sagt, ef það er gert til þess að vinna að lausn málsins að skipa þessa nefnd, þá sé ég ekki ástæðu til að átelja það sérstaklega, en vil hins vegar fastlega vænta þess, að niðurstaðan af störfum hennar liggi það tímanlega fyrir, að þetta mál geti fengið endanlega afgreiðslu á þessu þingi. Þess vegna vil ég, áður en ég lýk máli mínu, beina þeirri fyrirspurn til hæstv. viðskmrh., hvort ekki megi örugglega treysta því, að umrædd nefnd hafi lokið starfi sínu svo tímanlega, að hægt verði að láta þetta mál fá endanlega afgreiðslu á þessu þingi.