29.11.1962
Neðri deild: 23. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (2379)

97. mál, vegalög

Flm. (Karl Guðjónsson):

Ég vil í tilefni af ræðu hv. síðasta ræðumenns láta í ljós ánægju mína yfir því, ef svo skyldi reynast, sem hann gefur hér mjög í skyn, að stjórnarvöld landsins séu á það að fallast að hér sé um réttlætismál að ræða, og að sjálfsögðu mundi ég fagna því einnig, ef þar væri lengra gengið en í mínu frv., sem er fyrst og fremst miðað við það, sem mér finnst vera lágmarkskrafa um, að sinnt verði sanngirni málsins. En mér er það að sjálfsögðu ljóst, að það væri ánægjuefni fyrir mig, ef hægt væri að fá samþykkt Alþingis fyrir því að ganga lengra og að þjóðvegirnir í gegnum þorp og kaupstaði yrðu yfirleitt ekki slitnir úr kerfi þjóðveganna að því er varðar kostnað við þá. Ég teldi að ýmsu eðlilegt að gera það fullkomlega, en hef miðað mitt frv. fyrst og fremst við það að ganga ekki lengra en svo, að það væri ómótmælanleg sanngirniskrafa, að því væri sinnt.

Hæstv. ríkisstj., sem nú situr, hefur brugðið þeim vana flestra, ef ekki allra ríkisstj., sem efnt hafa til endurskoðunar á vegalögum, að þær hafa yfirleitt leyft Alþingi að kjósa til þeirrar endurskoðunar nefndir, þannig að ekki bara flokkar ríkisstj. vissu, hvað um væri að vera, og gætu komið á framfæri sínum tili., áður en gengið væri frá allsherjarfrv. um þessa hluti. Þessi ríkisstj. hefur kosið að fara að með öðrum hætti, og harma ég það út af fyrir sig, að hún skuli ekki hafa getað haldið þeirri gömlu og góðu og lýðræðislegu reglu, sem áður var á höfð. Engu að síður er það mér fagnaðarefni, ef sú nefnd, sem ríkisstj. hefur skipað til þessara hluta, getur komið fram með skynsamlegar og réttlátar breytingar á lögunum, og læt ég í ljós óskiptan fögnuð minn yfir því, sem fram kann að miða í þeim till., sem þar er um að ræða.

En fyrst þetta mál hefur komið til umr. og ég geri ráð fyrir því, að frv., sem hér er til umr., verði vísað til n., þá teldi ég eðlilegt, að sú þingnefnd óskaði eftir því að kynna sér, hverjar till. væru á ferðinni frá hinni stjórnskipuðu nefnd, og ekki skal ég sem flm. þessa frv. mælast undan því, að á því yrðu gerðar breytingar, sem gengu lengra en það að gera þjóðvegi í gegnum þorp og kaupstaði að raunverulegum þjóðvegum, þannig að ríkið bæri af þeim kostnaðinn, jafnvel þótt eitthvað kynni að dragast með heildarskipun vegalaga. En þar er ég sem sagt eins og aðrir þm. stjórnarandstöðunnar óvitandi um það, hvernig þau mál standa eða hversu nálægt því muni komið, að þar verði gert frv. af ríkisstj. hálfu.