18.03.1963
Neðri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í C-deild Alþingistíðinda. (2436)

200. mál, fiskveiðar í landhelgi

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég er dálítið hissa á því, að hv. þm., sem var að ljúka máli sínu, skuli kjósa að flytja þann áróður, sem hann undanfarna mánuði hefur flutt í blaði sínu, inn á vettvang hins háa Alþingis. Sá áróður hefur verið fólginn í því að reyna að telja lesendum blaðs sins trú um, að til séu hér á landi og þá auðvitað í stjórnarherbúðunum menn, sem vinni að því öllum árum að koma útiendingum sem mest inn í atvinnurekstur á Íslandi, eins og honum þóknaðist að orða það í ræðu sinni áðan, eða svo að ég vitni til annars orðalags, sem hann notaði í ræðu sinni, að til séu hér menn, sem vilji opna útiendingum leið inn í fiskiðjuna.

Hv. þm. notar það sem tilefni ummæla sinna að rangfæra setningar, sem ég á sínum tíma viðhafði í ræðu, sem ég flutti um viðskiptamál Vestur-Evrópu á aðalfundi Verzlunarráðs Íslands. Ég hélt satt að segja, að ekki aðeins ég, heldur fjölmargir aðrir alþm. stjórnarflokkanna hefðu tekið alveg nógu skýrt fram, að það er ein meginástæða fyrir því, að okkur hefur aldrei dottið í hug, að Ísland ætti að gerast fullgildur aðili að Efnahagsbandalaginu, og sú ástæða er ákvæði Rómarsáttmálans um gagnkvæm réttindi þegna aðildarríkjanna til atvinnurekstrar, til vinnuréttinda og til fjármagnsflutninga. Það eru þessi atriði fyrst og fremst, og þau ein væru alveg nægileg til þess að taka af öll tvímæli um það að okkar skoðun, að Ísland getur ekki gerzt fullgildur aðili að Rómarsáttmálanum. Þetta hefur verið sagt svo oft og undirstrikað svo rækilega, að það er í raun og veru furðulegt, að nokkur skuli leggja sig niður við það að leitast við að snúa út úr setningum til þess að telja menn hafa meint það, að útlendingar eigi að fá sem bezt skilyrði til atvinnurekstrar á Íslandi, að opna eigi útlendingum leið inn í íslenzka fiskiðju.

Með hliðsjón af því, hve þetta grundvaltaratriði, sem ég gat um áðan, hefur oft verið sagt og oft verið undirstrikað, má geta nærri, hvort það hefur nokkurn tíma verið meining mín eða nokkurs annars, sem um þetta mál hefur talað af hálfu ríkisstj., að koma útlendingum sem mest inn í atvinnurekstur á Íslandi eða opna útlendingum leið inn í fiskiðjuna. Það er einmitt vegna þess, að við höfum ekki viljað opna útlendingum leið inn í íslenzka fiskiðju, það er vegna þess að við höfum ekki viljað koma útlendingum sem mest inn í atvinnurekstur á Íslandi, sem við höfum eindregið og ákveðið frá upphafi hafnað þeirri leið til lausnar á vandamálum Íslands, að Ísland gerðist fullgildur aðili að Efnahagsbandalaginu.

Nú skal ég koma að því, sem hv. þm. vitnaði til í verzlunarráðsræðu minni. Þann texta hef ég því miður ekki við höndina, en ég hef við höndina þá skýrslu, sem ég flutti hér í haust á hinu háa Alþingi um efnahagsbandalagsmálið, þar sem ég ræði nákvæmlega þetta sama atriði og geri það nokkru ýtarlegar en tími og ástæða var til á fundinum í Verzlunarráðinu. Með leyfi hæstv. forseta, ætla ég að leyfa mér að lesa niðurlag þess kafla í skýrslunni, sem fjallar einmitt um þetta atriði, sem hv. þm. er nú að reyna að gera mig og ríkisstj. tortryggilega út af, en niðurlag kaflans hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Mér virðist kjarni málsins vera þessi: Annars vegar getur atvinnurekstur útlendinga og störf sérmenntaðra erlendra manna hér á landi orðið okkur til mikilla hagsbóta. Í því sambandi er sérstaklega vert að benda á, að tæknikunnáttu er oft ekki hægt að verða aðnjótandi nema í sambandi við nýtingu erlends fjármagns. Hins vegar fylgir atvinnurekstri útiendinga og erlendri fjárfestingu hér á landi sú hætta, að útlendingar gætu náð úrslitaáhrifum í einstökum atvinnugreinum og starfsemi þeirra stuðlað að eyðingu náttúruauðlinda. Gegn þessu hvoru tveggja verðum við að geta tryggt okkur. Við verðum að hafa það á okkar valdi, hvern atvinnurekstur útlendingar megi stunda hér og hver áhrif þeirra í hverri atvinnugrein megi verða. Fiskveiðar útlendinga innan íslenzkrar fiskveiðilögsögu koma að sjálfsögðu ekki til greina. Hugsanlegur aukaaðildarsamningur yrði að veita Íslendingum rétt til þess að setja reglur um þessi efni. Aðalspurningin við aukaaðildarsamning eins og þann, sem ég hef hér rætt, yrði að sjálfsögðu, hvort Efnahagsbandalagið teldi slík ákvæði, sem takmörkuðu skyldur okkar, samrýmanleg því, að við hefðum tollfrjálsan og ótakmarkaðan aðgang að sameiginlegum markaði“

Í þessum setningum kemur fram skoðun ríkisstj. á þeim efnum, sem hv. þm. er að reyna að gera okkur tortryggilega um með flutningi þessa frv. Þessar setningar eru svo ótvíræðar og skýrar um skoðun okkar á málinu, að ég trúi því ekki, að neinn vitiborinn maður geti látið blekkjast af þeim áróðri, sem hér er hafður í frammi.

Ég vil að síðustu bæta því við, að það, sem ekki er sérstaklega rætt hér, en ég og ýmsir fleiri höfum rætt áður og í öðru sambandi, og það, sem er grundvallarhugsunin í þeirri einu setningu, sem hv. þm. las upp úr verzlunarráðsræðu minni áðan, er það, að hvað svo sem líður hugsanlegum tengslum okkar við Efnahagsbandalag Evrópu, hefur það um margra ára bil, um áratugabil verið viðfangsefni, sem allir ábyrgir menn á Íslandi hafa hugsað um, hvort ekki sé ástæða til þess að breyta í einhverju íslenzkri löggjöf til þess að auðvelda íslenzkum aðilum að hagnýta erlent fjármagn og erlenda tæknikunáttu til uppbyggingar íslenzkum atvinnuvegum. Svo skemmtilega vill til, að því fer fjarri, að skoðanir manna greinist eftir flokkslínum í þessu efni. Mér er t.d. mjög minnisstæður áhrifaríkur málflutningur ungra manna í Framsfl. um þetta efni, svo sem framkvæmdastjóra rannsóknaráðs, Steingríms Hermannssonar, sem birt hefur mjög ýtarlegar greinar í sjálfu blaði hv. þm. og flutt hefur mjög fróðleg erindi einmitt á vettvangi ungra framsóknarmanna um nauðsyn þess að afla í ríkari mæli en átt hefur sér stað hingað til erlends fjármagns til landsins. Hann, sem hefur kynnt sér mjög rækilega möguleika á aukinni stóriðju á Íslandi, hefur, eins og auðvitað allir, sem það hafa hugleitt, gert sér ljóst, að við komum ekki aukinni stóriðju á fót, nema því aðeins að við hagnýtum okkur erlent fjármagn og erlenda tæknikunnáttu í ríkari mæli en átt hefur sér stað. Það var þessi hugsanagangur, sem lá að baki þeirra setninga, sem hv. þm. vitnaði til úr verzlunarráðsræðu minni. Mér hefði aldrei dottið í hug að fara í gegnum langar greinar og langar ræður t.d. Steingríms Hermannssonar, sem manna mest hefur skrifað um stóriðjumál og hagnýtingu erlends fjármagns af ungum framsóknarmönnum og framsóknarmönnum yfir höfuð að tala, — mér hefur aldrei dottið í hug að leita í löngum greinum og ræðum hans að því, hvort þar kynni að standa ein setning, sem með góðum vilja mætti takast að snúa út úr í þessum efnum og túlka þannig, að hann vilji hleypa útiendingum sem mest inn í atvinnurekstur á Íslandi eða opna útlendingum leið inn í íslenzkan iðnað. Slík vinnubrögð hafa mér aldrei komið til hugar, enda yrðu þau satt að segja engum til sóma. En því miður hefur hv. þm., sem er einnig áhrifamikill stjórnmálaritstjóri, fallið fyrir þessari freistingu. Honum hefur þóknazt að slíta úr samhengi eina setningu úr meira en hálftíma ræðu, sem ég flutti og viljað gera sína rangtúlkun á henni ekki aðeins að mínum skoðunum, heldur skoðunum ríkisstj., og það þrátt fyrir það, að hann eins og allir aðrir þm. hafi fyrir sér skýlausa yfirlýsingu um það í skýrslu ríkisstj. frá s.l. hausti, hver er afstaða og skoðun okkar í ríkisstj. í þessu máli. En hún er, eins og kom fram í þeim setningum, sem ég las, tvímælalaust sú, að við höfum ekki talið önnur tengsl geta komið til greina en annaðhvort aukaaðildarsamning í tilteknu formi eða tollasamning. Ástæðan fyrir þessari skoðun er einmitt sú, að við höfum ekki viljað hleypa útlendingum inn í íslenzkan atvinnurekstur, að við höfum ekki viljað opna útlendingum leið inn í íslenzka fiskiðju.