22.03.1963
Neðri deild: 58. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í C-deild Alþingistíðinda. (2475)

210. mál, stækkun Mosfellshrepps í Kjósarsýslu

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það mál, sem nú er til umr., er tvímælalaust að mínu áliti furðulegasta mál og furðulegasti málatilbúnaður, sem ég hef orðið áhorfandi að á fjögurra ára þingsetuferli mínum. Hæstv. utanrrh. leyfir sér að kasta inn í hv. Alþingi frv. um málefni eins sveitarfélags, sem honum er fullkunnugt um að er mikið deilumál heima í héraði og vandmeðfarið. Hæstv. ráðh. lætur sér sæma að flytja frv. til l. um að kljúfa Kjalarneshrepp í tvennt. Þetta gerir hann án þess, að fyrir liggi nokkur ósk frá viðkomandi hreppsnefnd um þessa skiptingu, sem þó lögum samkv. er réttur aðili og einasti aðilinn, sem getur beðið um slíka skiptingu á hreppsfélaginu. Ekki nóg með þetta, hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir því í þessu frv., að sá hluti Kjalarneshrepps, sem hann vill kljúfa út úr, verði lagður undir næsta hreppsfélag, Mosfellshrepp. Þetta gerir hann án þess að hafa kynnt sér viðhorf hreppsnefndarinnar í Mosfellssveit um þetta mál, og hann upplýsti það í umr. áðan, þegar hann fylgdi máli þessu úr hlaði, að hann hefði ekki hugmynd um viðhorf hennar til málsins og óskaði eftir því sérstaklega, að sú nefnd, sem mál þetta fengi til meðferðar, sendi m.a. hreppsnefnd Mosfellssveitar málið til umsagnar, svo að hann gæti fengið að kynnast áliti hennar á málinu. Þá hefur hv. flm. ekki heldur haft fyrir því að kynna sér viðhorf og álit sýslunefndar Kjósarsýslu til þessa máls.

Af þessum staðreyndum, sem ég hef nú nefnt, er augljóst, að undirbúningur þessa máls er fyrir neðan allar hellur. Og meir en það, ég hef grun um og það er spá mín, að mál þetta fari ekki lengra hér í hv. þingi en í gegnum þessa 1. umr., og ég spái því, að hv. flm. muni ekki mjög gráta það, þó að málið nái ekki lengra fram að ganga.

Það málefni, sem við nú erum að tala um, er að mínu viti mikið prinsipmál, ef svo mætti segja. Í stjórnarskrá okkar er ákveðið, að sveitarfélögin skuli hafa mikið sjálfsforræði um sín innri mál, og ég hygg, að allir, sem hugsa eitthvað um uppbyggingu þjóðfélaga, hljóti að vera um það sammála, að það sé eðlilegt. 76. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Rétti sveitarfélaganna til að ráða sjálf málefnum sínum með umsjón stjórnarinnar skal skipað með lögum: `

Þetta stjórnarskrárákvæði er því algerlega ótvírætt og skýrt. Lög hafa verið sett í samræmi við þetta stjórnarskrárákvæði, lög nr. 58 frá 1961, sveitarstjórnarlög, sem eru mikill lagabálkur og tiltölulega nýr. Lögin eru ýtarleg og taka til flestra þeirra tilvika, sem hugsanlegt er að risið geti upp um stjórn eins sveitarfélags og samskipti eins sveitarfélags við annað sveitarfélag og við ríkisvaldið. Í 1. gr. sveitarstjórnarlaga segir m.a., að engu máli, sem varðar sérstaklega hagsmuni sveitarfélags, skuli til lykta ráðið án umsagnar sveitarstjórnar. Skv. þessu lagaákvæði ætti spurning um skiptingu eins hreppsfélags ekki að geta risið, nema áður væri búið að leita álits viðkomandi sveitarstjórnar á því málefni. Hér er þveröfugt farið að. Kastað er inn í þingið undirbúningslítið frv., sem gerir ráð fyrir, að Kjalarneshreppi skuli skipt í tvennt, og það er gert án þess, að talað hafi verið við hreppsnefnd í viðkomandi hreppi, og fjarri er það því, að hún hafi æskt eftir þessu.

Í 7. gr. sveitarstjórnarlaga er ákvæði að finna um, hvernig farið skuli að, er hreppi er skipt. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðuneytið, þ.e.a.s. félmrn., getur skipt hreppi skv. beiðni hreppsnefndar og að fengnum meðmælum sýslunefndar, enda verði íbúatala hvors hrepps, eftir að skipt hefur verið, eigi lægri en 200. Ráðuneytið ákveður hreppamörk, þegar skipt er skv. 1. mgr. þessarar gr.

Grein þessi er alveg skýr. Hér er í lögum ákveðið, hvernig með skuli fara, ef óskir koma fram um að skipta einu hreppsfélagi. Það er alls ekki gert ráð fyrir því í gildandi l., að um slíka skiptingu skuli fjallað á hv. Alþingi. Og það er alls ekki gert ráð fyrir því í þessum lögum, að sú leið skuli farin, sem flm. þessa máls virðist ætla að halda. Hér tel ég því, að um mikið prinsipmál sé að ræða, spurningu um það, hvort hv. Alþingi telji sér það sæma að grípa inn í innri málefni eins sveitarfélags, án þess að nokkur ósk hafi komið fram frá hlutaðeigandi hreppanefnd. Ég held, að ef það yrði ofan á hér á hv. Alþingi að fara þá leið, þá séum við komnir inn á töluvert hættulega braut, sem erfitt verði að fóta sig á í framtíðinni. Þess vegna undrast ég mjög, að hæstv. ráðh. í ríkisstj. á Íslandi skuli láta sér sæma að flytja frv. það, sem liggur fyrir hér.

Þess var getið af flm. þessa frv., hæstv. utanrrh., og enn fremur af hv. siðasta ræðumanni, 3. þm. Reykn., að ástæðuna fyrir frv. þessu mætti rekja til ágreinings, sem risið hefur heima í héraði út af byggingu félagsheimilis. Ég veit, að þetta er rétt. En þótt út af fyrir sig sé ekki mikil ástæða til að skýra gang þess máls í héraði fyrir hv. alþm., því að það skiptir hv. alþingismenn ekki mestu að þekkja hann, því að það eru önnur atriði, sem við hv. alþm. eigum fyrst og fremst að líta á, þau er ég vék hér að í upphafi ræðu minnar, þá þykir mér þó rétt að rekja með örfáum orðum gang málsins.

Það var samþykkt á almennum fundi hreppsbúa i Kjalarneshreppi, að byggja skyldi félagsheimili, og ákveðið, að hreppsfélagið tæki þátt i slíkri byggingu ásamt með ýmsum félögum, sem starfandi eru í hreppnum. Hins vegar náðist ekki á þessum fundi samkomulag um staðarval, og var því ákveðið, að efnt skyldi til almennrar atkvæðagreiðslu meðal kosningarbærra hreppsbúa um þá tvo staði undir félagsheimilisbyggingu, sem aðallega komu til greina, en það voru Kollafjörður annars vegar og hins vegar Kléberg, þar sem barnaskólinn er. Sú atkvæðagreiðsla fór fram, og var samþ. með 42 atkv. hreppsbúa gegn 22 atkv. að byggja félagsheimili þetta að Klébergi. Nú skal ég ekkert fara að ræða það hér á þessum stað, enda ekki ástæða til þess að telja fram rök með og móti þeim stað, sem varð ofan á um byggingu félagsheimilisins, en það er ótvírætt, að heima í hreppnum var mikill meiri hl. fyrir því að velja þann stað til félagsheimilisbyggingarinnar, sem ofan á varð. Það var enn fremur samþ. í félagsheimilasjóðsstjórninni að byggja þetta félagsheimili að Klébergi. Á s.l. sumri, minnir mig að það hafi verið, að þessi félagsheimilisbygging var samþ. f sýslunefnd Kjósarsýslu. Málið liggur því ljóst fyrir. Allra lagakrafna hefur verið gætt i meðferð málsins frá byrjun og uppfylltar til hins ýtrasta allar kröfur, sem lögin gera ráð fyrir að uppfylltar þurfi að verða, áður en ráðizt verður i félagsheimilisbyggingu. Það út af fyrir sig hefur ekki sætt andmælum. Nú á hins vegar að nota þennan skoðanamun hreppsbúa á þessu staðarvali til þess að flytja hér á hv. Alþingi frv. um að kljúfa Kjalarneshrepp i tvennt, hreppsfélag, þar sem íbúar eru í fæsta lagi, svo að mögulegt sé að hald~a uppi sjálfstæðu sveitarfélagi við slík skilyrði. Íbúar Kjalarneshrepps eru nú, að því er ég held, um 280, og ég geri ráð fyrir, að 3/4 hlutar þeirra búi vestan Kleifa, en 1/4 hluti austan Kleifa, og það er samkv. ósk þessa hluta íbúanna, sem býr austan Kleifa, sem þetta frv. er flutt, að því er flm. sjálfur segir i grg.

Ég hygg, að það væri frekar þörf á því að sameina smæstu hreppsfélögin f stærra hreppsfélag heldur en að kljúfa það niður, eins og tilgangurinn er með frv. því, sem hér er til umr. Og ég er sannfærður um, að ef mál þetta nær fram að ganga, þá er ekki fjárhagsgrundvöllur til þess að halda uppi sjálfstæðum hreppi á Kjalarnesi, í þeim hluta hans, sem eftir yrði, ef hlutinn austan Kleifa yrði sameinaður Mosfellshreppi.

Frv. þessu var útbýtt í gær, og ég átti satt að segja ekki von á, að það yrði tekið til umr. hér fyrr en á mánudag, en svo hefur nú orðið. Ég hef því miður ekki getað aflað mér upplýsinga á þessum stutta tíma, sem ég gjarnan vildi hafa gert til upplýsingar f málinu, en ég legg áherzlu á, að aðalatriði þessa máls verður spurningin um, hvort það geti talizt réttmætt, að Alþingi grípi inn í málefni eins sveitarfélags á þann hátt. sem gert er með því frv., sem hér liggur fyrir, án þess að ósk liggi fyrir um slíkt frá viðkomandi hreppsnefnd. Ég vil láta það í ljós hér sem mína skoðun, að ég tel, að með frv.- flutningi þessum sé mjög höggvið nærri sjálfstæði sveitarfélaga, sem sjálf stjórnarskráin á að vernda. Ég vil enn fremur halda því fram, að með því séu tvímælalaust brotin sveitarstjórnarlögin, því að þau hafa inni að halda ákvæði, sem skipa fyrir um þær leiðir, sem fara á, ef óskað er eftir skiptingu á einu hreppsfélagi.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að víkja fleiri orðum að frv. þessu við þetta tækifæri, en ef málið kemur einhvern tíma til 2. umr., mun ég e.t.v. flytja gleggri og fyllri upplýsingar um þetta mál en ég hef getað gert nú.