04.04.1963
Neðri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í C-deild Alþingistíðinda. (2491)

220. mál, Seðlabanki Íslands

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Um það leyti, sem þing kom saman á s.l. hausti, mátti lesa þær yfirlýsingar í stjórnarblöðunum, að meginmálið, sem yrði tekið fyrir á komandi þingi, væri það að stöðva verðbólguna. Það kom réttilega fram í stjórnarblöðunum á þeim tíma, að verðbólgan væri þá mjög mikið vandamál og þess vegna skipti meira máli að fást við það mál á þinginu heldur en nokkuð annað. Ég minni á það í þessu sambandi t.d., að í Alþýðublaðinu 30. sept. s.l. sagði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Verðbólgan hlýtur að verða aðalmál þess þings, sem hefst í steinhúsinu við Austurvöll eftir 10 daga. Landsfólkið hefur miklar áhyggjur af verðbólgunni og mun fyrst og fremst bíða eftir að heyra, hvað ríkisstj. geri á því sviði. Að vísu er hreyfing kaupgjalds og verðlags enn ekki eins hröð og hún var flest árin milli 1950 og 1958, en hættan er engu að síður geigvænleg.

Þessi ummæli Alþýðublaðsins voru að flestu leyti rétt eða öllu leyti rétt, nema ef vera skyldi um samanburðinn á árunum 1950–1958, en undir hitt er hins vegar óhætt að taka, að hættan af verðbólgunni, sem blasti við í árslok, þegar þing kom saman, var geigvænleg og þess vegna, ef allt hefði verið með eðlilegum hætti, hefði það átt að vera aðalmál þingsins að fást við hana. Þetta kom líka fram í ummælum sumra hæstv. ráðh. um þetta leyti. Þannig var nokkru eftir að þing kom saman haldinn fundur í Varðarfélaginu, þar sem hæstv. dómsmrh. hafði framsögu, Bjarni Benediktsson, og þar lýsti hann því m.a. yfir, að aðatvandinn nú sem fyrr væri að reyna að stöðva verðbólguna.

Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar hæstv. stjórnarflokka eða forsvarsmanna stjórnarflokkanna, um það leyti sem þing hóf störf á s.l. hausti, um, að aðalmálið nú sem fyrr væri að reyna að stöðva verðbólguna, hefur ekki neitt bólað enn á því, að ríkisstj. flytti slík mál á þessu þingi, þó að nú sé komið að lokum þess. Þvert á móti hefur yfirleitt allt það, sem komið hefur fram frá hæstv. ríkisstj., stefnt miklu frekar í þá átt að auka á verðbólguna heldur en draga úr henni. Þetta finnst mér rétt að láta koma fram hér, þó að það snerti ekki nema að nokkru leyti það mál, sem hér liggur fyrir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að það er kappsmál allra ábyrgra ríkisstj. að vinna að því, að sem minnst röskun verði á gjaldmiðlinum og skráningu gjaldmiðilsins. Það er talin yfirleitt í öðrum löndum meginundirstaða heilbrigðs efnahagslífs og efnahagskerfis, að sem allra minnst röskun verði á gengi eða verðskráningu gjaldmiðilsins. Að vísu hljóta alltaf að verða nokkrar breytingar í þessum efnum, sem leiðir af hækkuðu kaupgjaldi og hækkuðu verðlagi, en í öðrum löndum er reynt að draga úr þessari þróun og a.m.k. alls ekki að ýta undir hana með óþörfum og tilefnislausum breytingum á skráningu gjaldmiðilsins.

Síðan hæstv. núv. ríkisstj. kom til valda, hefur verið fylgt alveg gagnstæðri stefnu hér á landi, — stefnu, sem hefur beinzt að því að fella gjaldmiðilinn í verði við skráningu miklu meira en nokkur ástæða hefur verið til. Það hefur sem sagt verið talin ein aðallausn á öllum efnahagslegum vanda að fella gjaldmiðilinn í verði. Þetta kom strax í ljós, þegar viðreisnarlöggjöfin var sett hér veturinn 1960, því að þá var gengið fellt miklu meira en nokkra nauðsyn bar til, þó að þá hefði verið hallazt að gengislækkunarleið, eins og ríkisstj. gerði. Þó kom þetta enn þá greinilegar í ljós sumarið 1961, þegar gripið var til algerlega tilefnislausrar gengislækkunar, sem ég mun síðar víkja að.

Niðurstaðan af þessu öllu er sú, að þó að tekið sé fullt tillit til þeirra yfirfærslugjalda, sem voru í gildi, þegar núv. ríkisstj. kom til valda 1959, þá hefur verðgildi gjaldmiðilsins verið fellt um nærri helming. Samkv. viðreisnarbókinni, sem ríkisstj. gaf út í febr. 1960, var verðgildi gjaldmiðilsins að yfirfærslugjöldun viðbættum, þ.e.a.s. dollarinn á 21–25 kr., en er nú kominn í 43 kr. Þetta er hin stórfellda breyting, sem hefur verið gerð á skráningu gjaldmiðils á þessum tíma, og veldur algerri röskun á okkar efnahagsmálum og raunar miklu meiri en menn gera sér grein fyrir nú, og á eftir að verða enn þá augljósari í framtiðinni, hve stórkostleg röskun hefur átt sér stað.

Gengislækkunin 1961 var enn óeðlilegri vegna þess heldur en þó fyrri gengislækkunin, að ríkisstj. hafði fengið alveg sérstakt tækifæri til verðjöfnunar og jafnvægis í þjóðlífinu. Eftir nokkurt verkfall hafði náðst samkomulag um kaupsamninga, sem fullkomlega var sjáanlegt að atvinnuvegirnir gætu vel undir risið, og þessir kaupsamningar voru gerðir til tveggja ára, þannig að ef grundvelli þeirra hefði ekki verið raskað, var tryggður vinnufriður til tveggja ára. Þá var tryggt jafnvægi í efnahagslífinu til tveggja ára og skapaður með því öruggur grundvöllur fyrir vaxandi atvinnurekstur í landinu og uppbyggingu, eftir því sem vinnuafl þjóðarinnar leyfði. Ef þetta hefði verið látið standa óbreytt þá, byggi þjóðin nú við öruggt efnahagskerfi eða byggði á öruggum, efnahagslegum grundvelli. En í stað þess að notfæra sér þetta, sem lagt var upp í hendur hæstv. ríkisstj., greip hún til þess óráðs að fella gengið algerlega að þarflausu. Og afleiðingar þess, sem nú blasa við, eru hinar geigvænlegustu.

Ég nefni það fyrst, að í kjölfar þessarar gengisfettingar hefur skapazt óðaverðbólga, sem enn hefur ekki tekizt að ráða neitt við og má segja að fari vaxandi með hverjum degi. Ég skal aðeins nefna tölur þessu til sönnunar. Þegar gengisfellingin var gerð sumarið 1961, var vísitala framfærslukostnaðar, eins og ríkisstj. reiknar hana út, ekki nema 106 stig, þ.e.a.s. 1. júlí 1961. Þá var framfærsluvísitalan, eins og ríkisstj. sjálf reiknaði hana út, ekki nema 106 stig. En nú, 20 mánuðum síðar, eða 1. marz s.l., er hún orðin 129 stig. Hún hefur sem sé hækkað um 23 stig á þessum 20 mánuðum. Og það er langsamlega mesta hækkun á framfærsluvísitölu, sem hefur átt sér stað á jafnskömmum tíma, nema undan eru skildir hinir 8 mánuðir, sem ríkisstj. Ólafs Thors sat að völdum sumarið 1942. Þessi vísitala gefur hins vegar ekki rétta mynd af ástandinu. Sú vísitala, sem raunverulega gefur rétta mynd af ástandinu, er sá hluti framfærsluvísitölunnar, sem nær til vöruverðs og verðs á þjónustu. Þegar gengið var fellt 1961, var þessi vísitala 113 stig. Núna, 20 mánuðum seinna, er þessi vísitala orðin 147 stig. Þessi vísitala verðlags og þjónustu hefur m.ö.o. hækkað um 34 vísitölustig, síðan gengið var fellt sumarið 1961, fyrir 20 mánuðum. Þetta svarar til þess, ef miðað væri við gömlu vísitöluna, sem var áður í gildi, að dýrtiðin hefði aukizt um 68 stig. Þetta er sú langsamlega mesta dýrtíðaraukning, sem hefur átt sér stað hér á landi að undanskildu stjórnartímabili Ólafs Thors 1942, og það er alveg óhætt að fullyrða það, að þessi mikli vöxtur dýrtíðarinnar, verðbólgunnar, á fyrst og fremst rætur að rekja beint og óbeint til gengisfellingarinnar 1961. Og það má bæta við um þetta, að enn þá er ekki séð fyrir endann á þeirri óðaverðbólgu, sem hér skapaðist við gengislækkunina 1961, því að enn þá heldur dýrtíðin daglega áfram að vaxa.

En ég vil nefna annað dæmi um afleiðingar gengisfellingarinnar 1961, sem mér finnst ekki siður geigvænlegt. Þegar gengið var fellt sumarið 1961, var spariféð í bönkum 3400 millj. kr. Það var það innlánsfé, sem þá var í bönkum og sparisjóðum. Fyrir gengisfellinguna nam þetta fé að verðgildi 89.6 millj. dollara. Eftir gengisfellinguna nam þetta sparifé ekki nema 79.1 millj. dollara. M.ö.o.: með einu pennastriki hafði þarna verið tekið af íslenzkum sparifjáreigendum hvorki meira né minna en verðmæti, sem svaraði til 10.5 millj. dollara, ef þetta er umreiknað í íslenzkar kr., 450 millj. ísl. kr. Með einu pennastríki eða með gengisfellingu 1961 voru raunverulega teknar af íslenskum sparifjáreigendum 450 millj. kr., hvorki meira né minna. Og í raun og veru er þetta ekki öll verðrýrnunin á sparifénu, vegna þess að spariféð var víðar en í bönkum og sparisjóðum, eins og t.d. í innlánsdeildum kaupfélaganna og í ýmsum sjóðum öðrum en þeim, sem bankar og sparisjóðir ráða yfir, svo að sennilega er ekki fjarri lagi að reikna með því, að við gengisfallið 1961 hafi heildarsparifé landsmanna rýrnað um 500 millj. kr.

Þær afleiðingar, sem leiddi af þessu óþarfa gengisfalli og algerlega tilefnislausu gengisfellingu 1961, segja til sín á fleiri hátt en þann, sem ég hef nú nefnt. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að um þessar mundir ríkir hinn fyllsti glundroði í kaupgjaldsmálum. Flest félög launþega hafa lausa samninga og eru reiðubúin til að leggja til atlögu til að berjast fyrir bættum kjörum þá og þegar. Og þetta er eðlilegt, vegna þess að ef menn eiga aðeins að vinna nú venjulegan vinnutíma fyrir venjulegan taxta, þá hafa þeir alls ekki nóg til lífsframfæris, og það, sem bjargar afkomu manna nú, er það, að vegna góðærisins við sjávarsíðuna, vegna óvenjulegra aflabragða er völ á meiri eftirvinnu en menn hafa áður átt kost á. En að sjálfsögðu treysta menn ekki á þetta til langframa, og þetta getur breytzt, þegar minnst vonum varir. Og þess vegna er það eðlileg stefna launþega að vinna að því, að fyrir venjulegan vinnutíma fái þeir það í laun, sem tryggir þeim sæmilega lífsafkomu. Þeir vilja hverfa frá því skipulagi vinnuþrælkunarinnar, sem nú á sér stað, og þess vegna er það, sem launþegar hafa sina samninga nú yfirleitt lausa og eru reiðubúnir til atlögu þá og þegar. Og það á áreiðanlega ekki minnstan þátt í því, að t.d. hæstv. ríkisstj. hefur nú tekið þá ákvörðun að flýta kosningum, bindur sig ekki við hinn venjulega kjördag, þó að ekkert sé því til fyrirstöðu, seinasta sunnudag í júní, heldur flýtir kosningunum um nokkrar víkur, að hún óttast það, að þessi atlaga launþega geti hafizt þá og þegar, og vill reyna að flýta kosningunum, áður en til hennar kunni að koma og afleiðingar stjórnarstefnunnar og gengisfallsins 1961 komi fullkomlega í ljós.

Eitt enn vil ég nefna, sem sýnir þann háska, sem leiddi af gengisfellingunni 1961. Það er hinn mikli ótti, sem nú er ríkjandi í landinu við það, að gripið verði til gengisfellingar strax eftir kosningar. Ef menn ræða við hinn almenna borgara, dylst það ekki neinum, að þessi ótti er mjög almennur og rekur fyrst og fremst rætur til hinnar óeðlilegu gengisfellingar 1961, eða réttara sagt, hversu gálauslega gengisskráningarvaldinu var þá beitt. Menn óttast það, að sú saga geti endurtekið sig, ef þeir flokkar fara með völd, sem fóru með þau, þegar þessi gengisfelling átti sér stað sumarið 1961.

En af þeim ástæðum hef ég verið svo margorður um gengisfellinguna 1961, að hún átti sér alveg sérstakan aðdraganda. Fram að þeim tíma, að ráðizt hafði verið í þá gengisfellingu, hafði gengisskráningarvaldið verið í höndum Alþingis, og það hafði sýnt sig, að það hafði veitt nokkurt öryggi gegn óeðlilegum gengisfellingum, að gengisskráningarvaldið var í höndum Alþingis. Það hafði verið trygging þess, að ekki var flanað út í ótímabærar og óþarfar gengisfellingar, enda nokkurn veginn vist, að ef t.d. þm. stjórnarflokkanna hefðu þurft að taka afstöðu til þess hér á Alþingi, hvort sú gengislækkun ætti að eiga sér stað eða ekki, þá er mjög vafasamt, að ríkisstj. hefði getað komið henni fram. Þess vegna var það sumarið 1961, að ríkisstj. greip til þess gerræðis, því að annað nafn er ekki hægt að hafa um það, að taka með brbl. gengisskráningarvaldið af Alþingi og leggja það að nafninu til í hendur Seðlabankans, en raunverulega þó í hendur ríkisstj., vegna þess að eins og uppbyggingu Seðlabankans er nú háttað, er það ríkisstj., sem fyrst og fremst markar stefnu hans og ræður hans gerðum, þannig að það er í raun og veru ekki nema formsatriði, að gengisskráningarvaldið sé nú í höndum Seðlabankans, heldur er það nú í höndum ríkisstj., sem ræður stefnu og gerðum Seðlabankans. Af þessari óeðlilegu breytingu leiddi strax þá gengislækkun, sem gerð var 1961, og svo af henni þær afleiðingar, sem ég hef nú rakið.

Það er til þess að reyna að koma í veg fyrir, að slík saga endurtaki sig sem átti sér stað sumarið 1961, sem ég ásamt öðrum þm. hef lagt fram það frv., sem hér liggur fyrir. Að vísu er það ekki full trygging gegn því, að ekki væri gripið til ótímabærra gengisfellinga, að gengisskráningarvaldið sé í höndum Alþingis. En ég tel það þó ólíkt meiri tryggingu en hafa þetta vald í höndum ríkisstj., því að ríkisstj. þarf óneitanlega að undirbúa málið miklu betur og mætir mótspyrnu innan sinna eigin raða, ef hún þarf að bera gengisfellingu undir þingið og láta þm. stjórnarflokkanna taka ábyrgð á þeirri aðgerð. Ég tel það þess vegna aukna tryggingu þess, að ekki væri flanað aftur út í slíkt óhæfuverk sem gengisfellingin 1961 var, að sú breyting verði aftur gerð á gengisskráningarvaldinu, að það verði lagt í hendur Alþingis, í stað þess, að það er nú raunverulega í höndum ríkisstj. En að sjálfsögðu finnst mér rétt að láta það koma fram, að það er náttúrlega engin örugg trygging gegn gengisfellingu, að þetta vald sé í höndum Alþingis, þó að það sé nokkru meiri trygging gegn því, að flanað væri út í ótímabærar og óeðlilegar gengisfellingar. Það, sem skiptir mestu máli í sambandi við það að tryggja sem stöðugast verðgildi gjaldmiðilsins, er að sjálfsögðu sjálf stjórnarstefnan eða efnahagsstefnan, sem fylgt er. Og ef við eigum að tryggja gjaldmiðlinum þann grundvöll, sem hann þarf að hafa á komandi árum, þarf hann að sjálfsögðu að vera fólginn í allt annarri efnahagsstefnu en þeirri, sem nú er fylgt. Þessi stefna miðar ekki minnst að því að gera tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu rangláta og auka deilur á milli stétta, en það hefur í för með sér átök og raskanir, sem verka oft meira og minna og óeðlilega á gjaldmiðilinn. Þess vegna er það nauðsynlegt til þess að tryggja hér stöðugan gjaldmiðil, að tekin sé upp önnur og heilbrigðari stjórnanstefna en sú, sem beitt er um þessar mundir. Það þarf að taka upp stjórnarstefnu, sem stefnir að því að skipta þjóðartekjunum réttlátlega og forða átökum milli stéttanna, — stjórnarstefnu, sem miðar að stéttafriði, í stað þess að hún stefni að stéttasundrungu, eins og sú stjórnarstefna, sem nú er fylgt. Þetta finnst mér rétt að láta koma fram í sambandi við þetta frv., þó að það snerti að vísu ekki nema eina hlið þess.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta að sinni, en leyfi mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til fjhn. og 2. umr.