14.02.1963
Efri deild: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í C-deild Alþingistíðinda. (2512)

27. mál, Tunnuverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Út af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. (JK) finnst mér ástæða til að segja nokkur orð. Hann ræddi um, að það væri kannske eðlilegra að stórauka framleiðsluna hjá þeim tunnuverksmiðjum, sem fyrir eru, heldur en að bæta nýjum verksmiðjum við, og benti á í því sambandi, sem rétt er, að það er langt frá því, að þessar tunnuverksmiðjur séu fullnýttar í dag eða hafi verið á undanförnum árum.

Við leituðum umsagnar síldarútvegsnefndar, sem hefur haft rekstur verksmiðjanna með höndum á undanförnum árum eða allt frá stofnun verksmiðjanna, og ekki kom nein bending um það frá síldarútvegsnefnd, að það væri hægt að auka framleiðsluna þar verulega eða kannske svo mikið, að það væri ekki ástæða til að byggja fleiri tunnuverksmiðjur. Nú vil ég benda síðasta ræðumanni á það, að enda þótt framleiðsla þessara verksmiðja, sem hann minntist á, væri aukin um svo mikið sem möguleikar væru á og hann benti hér á að mundu vera um 50% til viðbótar, þá vantar enn þá allmikið á, að fullnægt verði tunnuþörfinni. Við vitum, að þegar síld veiðist eins og hefur verið nú hin siðari ár, þá er þörfin a.m.k. 400 þús. tunnur. Ég get fallizt á, að það er reikningsdæmi út af fyrir sig, hvort það eigi að færa saman framleiðsluna í eina verksmiðju kannske og leggja niður t.d. verksmiðjuna á Akureyri og framleiða þá allt á Siglufirði, og mætti þá kannske gera það eitthvað ódýrara en ef það yrði fært í fleiri verksmiðjur, eins og hér er lagt til og var lagt til í upphafi í l. um tunnuverksmiðjurnar, þegar það var ákveðið, að þær skyldu vera þrjár. Hins vegar vitum við það og þekkjum af reynslunni, að dreifingarkostnaður hér innanlands er gífurlega mikill, og það má mikið vera, ef sú hagkvæmni gæti átt sér stað í rekstrinum, að það jafngilti því, sem hægt væri að ná með því að dreifa verksmiðjunum um landið, þar sem aðalframleiðslumagnið á sér stað.

Nú er það svo, að ég hygg, að ástandið á vinnumarkaðinum á þessum stöðum, bæði á Siglufirði og Akureyri, sé þess eðlis, að af þeim ástæðum sé starfstímabil verksmiðjanna ekki lengra er raun ber vitni. Við vitum, að þegar síldarvertíðin stendur yfir á Siglufirði, er ekki mikið um vinnukraft til að halda áfram framleiðslu á tómtunnum. Við vitum, að þar er kallað á hverja hönd, sem í bænum er. Auk þess verður að flytja inn mikið af vinnuafli annars staðar af landinu á því tímabili. En ég hygg, að það væri einmitt hagkvæmt víðar en á Siglufirði að nota þann tíma til framleiðslu á tómtunnum. En hvað um það, þá vil ég benda á, að enda þótt afköst þeirra verksmiðja, sem nú eru starfræktar í landinu, yrðu aukin um 50%, eins og hv. þm. benti hér á, þá vantar þrátt fyrir það allmikið á, að eftirspurninni sé fullnægt. Og ég er viss um, að enda þótt þessi mál yrðu athuguð nánar, — þau hafa nú verið hér til umr. á tveim þingum, — þá muni koma í ljós, að það er hagkvæmt að byggja tvær síldartunnuverksmiðjur til viðbótar þeim, sem fyrir eru, aðra á Austurlandi, þar sem nú er um stórsöltunarframkvæmdir að ræða á hverju ári, og hina á Suðvesturlandi, þar sem, eins og ég drap á í ræðu minni áðan, hefur farið mjög ört vaxandi framleiðsla saltsíldar hin síðari ár.