19.04.1963
Neðri deild: 77. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (2591)

154. mál, dragnótaveiði í fiskveiðilandhelgi

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru að vísu ekki miklar líkur til þess, að þetta frv. hljóti afgreiðslu á Alþingi héðan af, úr því að það kemur svo seint til meðferðar í þessari hv. d. Eigi að síður þykir mér rétt að láta um það falla nokkur orð, áður en það fer til n., ef ske kynni, að af afgreiðslu yrði.

Í 1. gr. l. nr. 40 frá 9. júní 1960 er ákvæði um það, að ráðh. geti samkv. till. fiskideildar atvinnudeildar háskólans og Fiskifélags Íslands ákveðið fyrir eitt ár í senn, að dragnótaveiði sé heimil á tilteknu svæði eða svæðum á tímabilinu 15. júní til 31. okt. eða skemmri tíma, eftir því sem nánar er ákveðið í l. Síðan segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en gerðar eru till. um opnun einstakra veiðisvæða, skal Fiskifélag Íslands leita álits sveitarstjórna og annarra aðila, sem hagsmuna hafa að gæta á viðkomandi veiðisvæði. Berist álitsgerðir, skal ráðh. óheimilt að opna veiðisvæði eða hluta þess, nema álitsgerðirnar styðji almennt þá framkvæmd. Ef sveitarstjórnir, samtök útvegsmanna, sjómanna eða verkamanna leiða rök að því, að hagkvæmara sé að stunda aðrar veiðar en dragnótaveiðar á tilteknum hlutum veiðisvæðis, og bera fram óskir um, að þeir hlutar svæðanna verði friðaðir sérstaklega fyrir dragnótaveiði, þá skal ráðh. í samráði við Fiskifélag Íslands verða við þeirri ósk.“

Það, sem í þessu felst, er það, að hin almenna regla er sú, að fiskveiðilandhelgin sé friðuð fyrir dragnót. En ráðh. getur veitt leyfi til dragnótaveiða, þó aðeins fyrir eitt ár í senn. En þessi leyfi má ekki veita fyrr en leitað hefur verið álits hlutaðeigandi aðila í þeim landshlutum, sem hér er um að ræða, og ekki gegn vilja þeirra. Og sömuleiðis er gert ráð fyrir því, að þó að eitthvert svæði hafi verið opnað fyrir dragnót, þá sé samt hægt að loka einhverjum hluta svæðisins, ef fram kemur sérstök ósk um það frá hlutaðeigendum.

Nú var það svo, ég ætla á árinu 1960, eftir að lögin voru gengin í gildi, að þá var leitað álits sveitarstjórna og annarra aðila samkv. lögum þessum víða um land. Og varð þá niðurstaðan, að landhelgin var opnuð fyrir dragnót á allmörgum stöðum, aðallega við Suðvesturland, en að einhverju leyti fyrir Austfjörðum og Vestfjörðum. Hins vegar var hvergi opnað fyrir Norðurlandi, og var það vegna þess, að ég ætla, að hvergi var óskað eftir, að landhelgin yrði opnuð þar fyrir þessi veiðarfæri, heldur því alls staðar andmælt af hlutaðeigendum eða meiri hl. þeirra, sem íhlutunarrétt eiga um þetta mál, og þannig ætla ég, að það sé enn, að á Norðurlandi sé mjög almennt álit manna, að ekki eigi að opna norðlenzka fiskveiðilandhelgi fyrir þessu veiðarfæri. Nú er það hins vegar svo, að samkv. l. má gera ráð fyrir því, að ár hvert leitist stjórnarvöld við að kanna það, hver vilji manna sé í þessu máli í einstökum landshlutum, hvort hann hafi breytzt frá því, sem áður var. En að því er miðin fyrir Norðurlandi varðar, þá virðist mér, að það muni óþarfi fyrir yfirvöld að vera að gera sér þá fyrirhöfn árlega að leita eftir því, hvort breyting hafi orðið á áliti manna. Ég ætla, að það sé þannig almenningsálit í þeim landsfjórðungi, að dragnótarinnar verði ekki óskað eða henni hleypt þar inn á miðin með vilja hlutaðeigandi aðila í náinni framtíð. Þess vegna er það, að við tveir þm. kjördæmanna á Norðurlandi, við hv. 1. þm. Norðurl. v., höfum rætt um það okkar á milli að bera fram brtt. við þetta frv. þess efnis, að ákvæðin í frv., sem undanskilja heimildarákvæði l. Faxaflóa og Patreksfjarðarflóa, nái einnig til Norðurlands. Þó að áliðið sé þings og trúlegt, að málið hljóti ekki fullnaðarafgreiðslu, þá er það þó ekki útilokað, að svo kunni að fara, og því vil ég leyfa mér að bera fram og afhenda forseta hér fyrir okkar hönd skrifl. brtt. þess efnis, og vona, að hv. n. væntanleg athugi hana ásamt frv., ef hún tekur málið til meðferðar.