20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2771)

137. mál, ráðstafanir til verndar íslenska erninum

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að endurflytja í aðeins breyttu formi þáltill., sem ég flutti hér á Alþingi í fyrra ásamt 2. þm. Norðurl, v., Gunnari Gíslasyni, 6. landsk., Birgi Kjaran, og 4. þm. Reykn., Jóni Skaftasyni. Þetta mál var nokkuð rætt þá, er ég hafði framsögu um þetta mál, og ég tel ekki ástæðu til að fara mörgum orðum um það nú, enda fylgir frv. nokkur grg. og flest fram tekið í henni, sem þetta mál varðar í aðalatriðum.

Það er vitað mál, að örninn er ekki nytjafugl og hefur verið mjög ofsóttur gegnum aldirnar, og er nú svo komið, að það eru aðeins örfáir fuglar eftir hér á landi. Og það hnígur að því, meira að segja mun þess vera. mjög skammt að bíða, að þessi merkilegi og tígulegi fugl verði aldauða, ef ekkert er að gert fram yfir það, sem gert hefur verið. Hann hefur um langan tíma verið alfriðaður, en fækkað samt. Þá er það það, hvort þjóðfélagið vill horfa á það aðgerðarlaust, að hann hverfi algerlega úr sögunni. Ég fyrir mitt leyti tel það vera ekki viðunandi, að merkileg náttúrufyrirbæri, hvort sem þau er úr dýraríki, jurtaríki, steinaríki eða öðru hér á landi, eyðist og spillist, því að landið verður fátækara eftir en áður, þegar þau eru horfin. Ég held og það er álit náttúrufræðinga, að unnt muni vera að bjarga stofninum, ef hægt er að stemma stigu við því, að þessi fugl eyðist af þeim ástæðum, sem hann hefur mest eyðzt, bæði af eitri og í öðru lagi að honum sé eytt, þar sem hann hefur hreiður og þeir, sem í grennd búa, telja sig verða fyrir sköðum af honum og þar af leiðandi freistast til þess að koma honum með einhverju móti fyrir kattarnef. Það eru náttúrlega engar sannanir um þetta atriði, en ákaflega miklar líkur til þess, að á þennan hátt hafi fuglinum fækkað mjög í seinni tíð. Það er sjálfsagt ekki hægt að ætlast til þess, að þeir bændur, sem verða fyrir sköðum af þeim fáu fuglum, sem eftir eru, beri það bótalaust, og ég held, að það hafi verið allt of seint komið til móts við þá í því efni að sætta þá við, að fuglinn æli upp unga sína í nágrenni við þá, með því að bæta þeim það á einhvern hátt. En út í það ætla ég ekki að fara. Ég sem sagt tel ekki ástæðu til að ræða þetta mál hér eða hafa neina verulega framsögu í því. Ég vísa til þeirrar grg., sem fylgir, og óska eftir, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað öðru sinni til fjvn., en hún fékk málið til meðferðar á síðasta þingi, en skilaði þá ekki áliti.