28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (2923)

44. mál, fiskiðnskóli

Jón Skaftason:

Herra forseti. Á þskj. 44 höfum við hv. 4. þm. Norðurl. e., hv. 7. landsk. þm. og hv. 3. þm. Norðurl. e. flutt till. til þál. um fiskiðnskóla, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér hið fyrsta fyrir setningu löggjafar um fiskiðnskóla, er ætlað sé það hlutverk að búa menn undir fiskmatsstörf, verkstjórn, kennslu og leiðbeiningastarfsemi í fiskiðnaði.“

Mér þykir hlýða í fjarveru fyrsta flm. að fylgja till. þessari úr hlaði með örfáum orðum. Við höfum flutt till. þessa, fjórmenningarnir, á tveim þingum áður, og hefur hún í hvorugt skiptið náð fram að ganga. Þó verður varla talið, að mönnum sé ekki ljós nauðsynin á því að stofna skóla sem þennan. í grg. er nokkuð ýtarlega rakið, hvernig þessum málum hefur verið háttað hér hjá akkur íslendingum á undanförnum 13 árum eða svo, og er öllum kunnugum ljóst, að hér þurfa verulegar aðgerðir til að koma til þess að bæta úr því ófremdarástandi, sem í þessum málum ríkir. Fiskmatsmenn hafa um langan tíma haft mikinn áhuga á því, að skóla sem þessum yrði komið á fót. Og á það má minna, að aðaifundur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna samþykkti á árinu 1960, þ.e.a.s. á því ári, sem þessi þáltill. var fyrst flutt, óbreytt eins og hún nú er, þá samþykkti aðalfundur Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna áskorun til Alþingis um að samþykkja till. þessa.

Síðan 1947 hefur verið haldið uppi nokkurri fræðslu á vegum atvmrn. í fiskiðnaði, og hefur þeim námskeiðum verið stjórnað af Bergsteini Á. Bergsteinssyni fiskmatsstjóra. Yfir 500 manns munu hafa sótt þessi námskeið, og það mun vera samdóma álit þeirra og annarra, er fylgzt hafa með þeim, að ávinningurinn af þessum námskeiðum sé alveg óumdeilanlegur. Einnig hafa samtök fiskframleiðenda í landinu, svo sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga, haldið námskeið í fiskiðnaði á nokkrum undanfarandi árum með góðum árangri. Það er hins vegar öllum ljóst, að námskeið þessi eru hvergi nægjanleg til þess, að þau gefi þann árangur, sem nauðsynlegur er fyrir þjóð sem íslendinga, sem byggir afkomu sína svo mjög á fiskveiðum og fiskiðnaði. Því hafa þær raddir gerzt æ háværari á undanförnum árum, sem talið hafa þess brýna þörf, að komið yrði á fót sérstökum fiskiðnaðarskóla, sem yrói rekinn af myndarskap og gæti veitt þeim, er þar kynnu nám að stunda, alhliða fræðslu um fiskiðnað.

Enda þótt till. þessi hafi ekki mætt miklum skilningi á hv. Alþingi þau tvö ár, sem hún hefur legið fyrir því, þá geri ég mér vonir um, að hugur hv. þm. kunni að hafa breytzt eitthvað í þeim efnum, ef marka má þau skrif, sem nú hafa séð dagsins ljós síðustu daga um þörfina fyrir slíkan skóla, ef þau eru af einhverri alvöru skrifuð. í stjórnarblöðunum, Vísi og Alþýðublaðinu, frá 27. nóv. s.l., er að finna leiðara um þetta mál. Ég leyfi mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp örfá orð úr leiðara Vísis um þetta mál, en þar segir svo m.a.:

„Hér ber allt að sama brunni. Við þurfum sem allra fyrst að stofna fullkominn fiskiðnaðarskóla. Þar sé ungum mönnum kennt allt það, sem til fiskiðnaðar heyrir, verkun, frysting, reyking, söltun og niðursuða, svo að eitthvað sé upp talið. Slíkur skóli er grundvöllur þess, að við verðum samkeppnisfærir á hinum miklu Evrópumörkuðum, sem innan skamms munu opnast fyrir íslenzkan fisk. Þetta er þjóóhagsmunamál, sem þegar þarf að hrinda í framkvæmd.“

Alþýðublaðið skrifar sama dag leiðara, sem það nefnir: „Að dragast aftur úr“. Þar er mjög sterklega undirstrikuð þörfin fyrir skóla sem þennan og á það bent, að það sé einkennilegt, að þjóð, sem heldur uppi jafnvíðtæku skólakerfi og íslendingar gera, skuli til þessa hafa látið undir höfuð leggjast að stofna og efla fiskiðnaðarskóla, svo mikil þörf sem einmitt er fyrir slíkan skóla og svo óumdeilanlega sem lífsafkoma þjóðarinnar er að verulegu leyti undir því komin, að okkur takist að kunna og læra rétt vinnubrögð og rétta meðferð þess fisks, sem fiskimenn okkar afla og leggja hér á land.

Ég geri mér vonir um, að sá andi, sem kemur fram í leiðurum þessara tveggja stjórnarblaða, bendi eindregið til þess, að till. þessi muni hljóta greiðan gang í gegnum þetta þing, og vil ég fagna þeirri breytingu, sem ég þykist mega vænta að hafi þarna á orðið.

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að umr. um þetta mál verói frestað og því vísað til hv. allshn.