28.11.1962
Sameinað þing: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (2952)

57. mál, heyverkunarmál

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem segir í grg. þessarar till., með leyfi hæstv. forseta: „Þá er tæknin komin á það stig, að oftast eða jafnvel alltaf má með aðstoð véla verka góð hey, þó að tíðarfar sé votviðrasamt. Er þar átt við súgþurrkun og votheysgerð.“ Er þetta í samræmi við það, sem hv. 1, flm. þessarar till, sagði áðan í framsöguræðu sinni, að með þeirri tækni, sem nú er fyrir hendi, er oftast hægt að verka góð hey, þ.e.a.s. ef tæknin er notuð. Og ástæðan til þess, að bændur hafa ekki almennt tekið þessa tækni í þjónustu sína, er vitanlega að nokkru eða kannske miklu leyti sú, að það hefur skort fjármagn til þess að kaupa þær vélar og þau tæki, sem þarf til þess. Þekkinguna vantar ekki. En þá er spurning, hvort það er ráðið að kjósa sex manna nefnd til að gera þetta fært eða gera aðrar ráðstafanir. Ég held, að ég hafi lýst því hér á síðasta þingi, að ég hefði ekki trú á því, að beinn árangur fengist með nefndarskipun í þessu efni. En ég var sammála hv. flm. um, að það væri nauðsynlegt eitthvað að gera. Það er nauðsynlegt að tryggja bændur gegn rosanum, eftir því sem unnt er, og það gerist með því að hafa nægilegar votheysgeymslur á hverju heimili og koma upp súgþurrkunarkerfi í allar þurrheyshlöður. En þetta kostar fé. Og ég er hræddur um, að þótt skipuð verði nefnd, þá skapist ekki mikið fjármagn við það.

Ég held, að stjórn Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands hafi einnig gert sér grein fyrir því, og á þeim stéttarsambandsfundum, sem ég hef verið, hafa verið gerðar samþykktir um það og áskoranir að útvega fjármagn í þessu skyni, og það skal viðurkennt, að það hefur ekki verið gert í eins ríkum mæli og nauðsyn ber til. Þó hefur þegar verið byrjað á því að lána út á súgþurrkunarkerfi. En sá hundraðshluti er ekki nógu hár enn sem komið er, vegna þess að stofnlánadeild landbúnaðarins hefur enn of takmarkað fjármagn til umráða. Það er æskilegt að hækka þessi lán, og það er enn fremur æskilegt að hækka styrkinn út á súgþurrkunartækin og það, sem þeim fylgir. Níu eru jarðræktarlögin í endurskoðun, og stéttarsambandsfundirnir hafa bent á þessa nauðsyn, og ég tel alveg sjálfsagt að nota tækifærið nú við endurskoðun jarðræktarlaganna og hafa þetta alveg sérstaklega í huga, því að það má segja, að það sé til lítils að vera að stækka túnin og rækta gras, ef ekki er aðstaða fyrir hendi til þess að nýta grasið, þegar það er sprottið, og verka heyið rétt. Þess vegna þarf að bæta þessu inn í jarðræktarlögin og veita háan styrk á súgþurrkunarkerfi.

Bændur hafa einnig kvartað undan því, að rafmagn til súgþurrkunar sé of dýrt frá rafmagnsveitum ríkisins. Og það er náttúrlega alveg sjálfsagt að athuga það líka.

Þegar það er nú athugað, að það vantar ekki þekkingu á því, hvernig á að verka heyið, heldur vantar fjármagn og aðstöðu til þess að gera það ódýrara en verið hefur, þá er það raunverulega fjáröflunin, sem þarna er um að reeða. Og þá þarf þrennt að gerast. Það þarf að auka lánin, það þarf að lækka rafmagnsverðið og það þarf að hækka styrkina. Ég álít, að stjórn Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélag Íslands geti haft eins mikil áhrif í þessa átt og sex manna nefnd, sem hér er um að ræða. Og ég held satt að segja, að þessi mál séu nú þegar komin nokkuð áleiðis, en alls ekki nóg. Það er komið það áleiðis, að þegar er farið fyrir stuttu að veita út á súgþurrkunarkerfi, og það er, að ég má segja, unnið að því, að það geti orðið meira en verið hefur. Það er komið það áleiðis, að það er í athugun að lækka raforkuverðið til súgþurrkunar frá rafmagnsveitum ríkisins, og það er nauðsynlegt og ég hef alltaf talið, að það væri hægt að gera, vegna þess að þessi raforka er notuð um sumartímann, þegar maður gæti haldið, að það væri afgangsorka. Eigi að siður hefur verið á það bent af fagmönnum, að þetta væri ýmsum erfiðleikum bundið, og ekki enn verið skorið á þann hnút. Nú við endurskoðun jarðræktarlaganna þarf að leggja megináherzlu á það að hækka styrkina út á votheysgeymslur og súgþurrkunarkerfi. Og það er eins og segir í till., það er alveg rétt, það eru margs konar tæki og vélar, sem er þörf við þetta. Það þarf þá einnig að taka til athugunar, hvort hægt er að veita lán út á þau tæki, sem til þarf, en ekki hefur verið hægt enn þá vegna fjárskorts.

Ég út af fyrir sig tel enga ástæðu til þess að vera að mæla gegn þessari till. En ég get ekki að því gert að benda á, að ég er í miklum vafa um, að þessi mál þokist fyrr áfram og leysist farsællegar, þótt skipuð væri nefnd, heldur en ef stjórnir Stéttarsambandsins og Búnaðarfélagsins beita sér fyrir því, að þessi mál komist í höfn. Og ég leyfi mér að vona, að þetta sé á leiðinni. Það er varðandi skilningur fyrir því, að þessi mál leysist. Það er rétt, sem hv. 1. flm. sagði: Þetta er eitt af því allra nauðsynlegasta, að það takist að verka vel hey.

Flm. (Ágúst Þorvaldsson): Herra forseti. Ég er mjög ánægður að heyra það, að hæstv. landbrh. hefur skilning á þessu máli og að hann telur, að hér sé um að ræða mjög þýðingarmikið mál fyrir landbúnaðinn og bændastéttina. Hitt er annað, að ég get ekki verið sammála honum um, að það sé óþarfi að leggja til að setja nefnd í þetta þýðingarmikla mál. Fyrst og fremst er nú það, að flest málefni atvinnuveganna hér á landi hafa upphaflega verið leyst þannig, að nefndir hafa verið settar af Alþingi til þess að rannsaka ýmsa hluti í sambandi við nýmæli, sem uppi eru á hverjum tíma, og frá því sjónarmiði er þessi till. einnig upp byggð, að þær stofnanir, sem bændastéttin aðallega hefur samband við, ættu að tilnefna fulltrúa í nefnd til þess að athuga þetta mál. Og þar á meðal er talað um í till. eða gert ráð fyrir því, að raforkumálaskrifstofan tilefni einn fulltrúa í þessa nefnd til að athuga þetta. Náttúrlega er fyrsta skilyrðið og kannske erfiðasti hlutinn af starfi slíkrar nefndar sá að finna leiðir til að útvega fjármagn í þetta, það skal ég viðurkenna. En það er fleira, sem þarf að athuga, heldur en það eitt. Það þarf einnig að athuga, hvernig þessu fjármagni verður bezt varið og hvort ekki eru á ferðinni einhverjar þær nýjungar, sem vert væri að taka til athugunar í sambandi við málið. Frá þessu sjónarmiði r þessi till. byggð upp.

Mér þykir mjög vænt um að heyra það, sem hæstv. landbrh. sagði, að þetta mál allt í heild sé í raun og veru til nokkurrar athugunar, mér skilst helzt hjá honum og jafnvel hjá Stéttarsambandi bænda að einhverju leyti. Þetta er gott og blessað. En ég hélt kannske, að hæstv. ráðh. væri það ekki á móti skapi að fá enn fremur til liðs við sig í þessu máli marga vel menntaða framámenn frá þeim stofnunum, sem að bændunum aðallega snúa, svo sem Búnaðarfélagi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Tilraunastöð háskólans í meinafræði, tilraunaráði búfjárræktar, verkfæranefnd ríkisins og raforkumálaskrifstofunni. Till. gerir ráð fyrir fulltrúum frá öllum þessum stofnunum í nefndina.

Ég geri ráð fyrir því, að þessi nefnd þyrfti kannske að starfa lengur en eitt ár. Það mætti þegar byrja að framkvæma einhverjar af hennar till., eftir því sem þær bærust. En málið er allstórt og viðamikið, að ég hygg, því að það þarf nákvæmrar athugunar við að fylgjast með tækninni á þessu sviði. Annars er mér það ekkert aðalatriði, í hvaða formi aðstoð er veitt og hvort nefnd er skipuð eða ekki, ef bara eitthvað gerist í málinu. Það er fyrst og fremst aðalatriðið frá mínu sjónarmiði, þó að ég að vísu leggi höfuðáherzlu á að fá þessa till. samþykkta hér.