30.01.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (2999)

72. mál, bankaútibú á Snæfellsnesi

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég tel ekki óeðlilegt, að þessi till., sem hér er flutt, komi fram á Alþingi. Ég vil benda á, að það er ekki í fyrsta skipti, sem slík till. er borin fram hér á hinu háa Alþingi í sambandi við bankaútibú á Snæfellsnesi. Hún var flutt fyrir að ég hel 45 árum, 191,7 eða 1918, hér í hv. Nd. og fékk þinglega meðferð, og var samþ. í báðum deildum áskorun til stjórnar Landsbankans að setja bankaútibú á Snæfellsnesi, svo fljótt sem bankastjórn og bankaráð teldi fært að gera það. Það var bundið við Stykkishólm á þeim tíma. Þessi till. til þál. var send til umsagnar bankaráði og bankastjórum Landsbankans, og töldu þeir tímabært að stofna bankaútibú á Snæfellsnesi. En síðan eru liðin 45 ár, og gleðst ég yfir þeim framförum, sem hafa orðið innan bankanna á Íslandi, að þeir skyldu bregðast svona fljótt við, þegar áskorun kom um bankaútibú á Húsavík, að það skuli ske á því sama ári og það var rætt hér á hinu háa Alþingi.

Ekki mun hafa staðið á því, að það hafi borizt óskir úr héraðinu um stofnun bankaútibús á Snæfellsnesi á undanförnum árum, svo að þess vegna mátti framfylgja þeirri samþykkt Alþingis, sem var samþ. fyrir 45 árum. En það virðist vera þannig, að allt bankakerfið þurfi helzt af öllu að vera hér á Suðurlandi eða í höfuðstaðnum, og af þessum vandkvæðum hafa sprottið þau nauðsynlegu vinnubrögð hjá héruðunum úti á landi, að t.d. á Snæfellsnesi norðanverðu eru starfandi fjórir sparisjóðir, sem hafa vissulega gert mikið og gott gagn fyrir héraðið í heild.

Ég tel því, að það hafi verið mjög gott, að hv. 5. þm. Vesturl. skuli hafa flutt þessa þáltill., í trausti þess, að hún fái hér þinglega afgreiðslu í annað sinn hvað varðar Snæfellsnes. Ég veit, að allir hv. alþm. eru þeirrar skoðunar, að þessi þjónusta sé nauðsynleg, ekki síður á Snæfellsnesi eða við Breiðafjörð en í öðrum héruðum landsins, sem eru flest búin að fá útibú frá bönkunum hér í Reykjavík. Ég vona, að þessi till. fái að þessu sinni betri árangur en sú till., sem var samþykkt fyrir 45 árum og fékk þá svo vinsamlega afgreiðslu, bæði hjá Landsbankanum og í meðferð Alþingis.