06.02.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (3021)

96. mál, jarðhitarannsóknir á Norðurlandi eystra

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins í tilefni af þessari þáltill. beina þeirri spurningu til hv. flm., hvort hann og þeir aðrir hv. flm., sem flytja með honum till., hefðu nokkuð á móti því, að inn í till. yrðu sett ýmis önnur svæði á landinu en hér er talað um, sem hafa jafna aðstöðu til hitagjafar. Það er vitanlega ekki hægt að neita því, að ef þessi till. er samþ. eins og hún liggur fyrir, þá eru veitt hér nokkur forréttindi því héraði, sem hér er um rætt. Og það er vitað, að það eru ýmsir aðrir staðir á landinu, sem líkt etendur á um, m.a. á Vestfjörðum og víðar, og þess vegna vildi ég spyrja um, hvort það væri þeim nokkuð á móti skapi, að brtt. um að bæta þeim landshluta inn í till. yrði flutt. Mundi ég þá bera fram slíka brtt.

Það er vitað, að það stendur eins á um Reykhóla á Reykjanesi. Reykhólaæðin sýnist ganga alla leið frá Dalasýslu um Barðastrandarsýslu, kemur upp á Barðaströnd, einnig í Arnarfirði, Tálknafirði, og ekki ólíklegt, ef farið væri að rannsaka þetta, að í ljós kæmi, að hita mætti hús með þeim hita, sem þar er í jörðu, og stendur svo á víðar á Vestfjörðum.

Ef þáltill. er samþykkt hér óbreytt, er verið að veita, eins og ég sagði áðan, forréttindi um fjáreyðslu úr jarðhitasjóði til ákveðins héraðs, sem á að ganga á undan öðrum héruðum í landinu.

Úr því að ég stóð upp, vildi ég mega beina því til hæstv. forseta, hvort ekki sé hægt að taka upp þá reglu hér að láta fara fram atkvgr. um mál og fresta ekki atkvgr., eins og gert er hér, til þess að tefja ekki mál a.m.k. um heila viku. Ég sé enga ástæðu til þess, að hæstv. forseti þoli það, að menn mæti ekki hér á þingfundi til þess að greiða atkv. um mál, sem eru á dagskrá. En sú regla hefur verið tekin upp hér, ekki sérstaklega í dag, heldur oft áður, að fresta atkvgr. og þar af leiðandi -fresta afgreiðslu mála um heila viku. Ég vildi beina því til hæstv. forseta, sem væntanlega tekur það til athugunar.