13.12.1962
Sameinað þing: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

1. mál, fjárlög 1963

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er augljóst við þessa fjárlagaafgreiðslu, að við fjárl. eru nú fluttar miklu færri brtt. en nokkru sinni fyrr á seinni árum. Eins og var bent á í kvöld, hefur svo að segja tekið alveg fyrir það, að stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. flytji brtt. við afgreiðslu fjárl., og um stjórnarandstöðuna er það að segja, að að þessu sinni eru fluttar miklu færri brtt. en áður hefur verið. Þetta er suðvitað bein afleiðing af því, að það hefur naumast komið fyrir á þessu kjörtímabili, stjórnartímabili hæstv. núv. ríkisstj., að nokkur till., smá eða stór, frá stjórnarandstöðunni hafi fengizt samþ. í sambandi við afgreiðslu fjárl. Það er svo sem ekkert verið að breiða yfir það, að minni hl. er ekki talinn eiga hér neinn rétt, og það er því ekki óeðlilegt, að þm., sem ár eftir ár hafa horft upp á það, að engin brtt. frá þeim fáist samþykkt, hversu smá sem hún er, hversu sanngjörn og sjálfsögð sem hún er, gefist smátt og smátt upp á því að flytja brtt., og sé ég ekki betur en þingræðið sé í nokkurri hættu, þegar svo er komið.

Ég hef leyft mér í þetta sinn að flytja aðeins eina brtt., og hún er upp á 20 þús. kr. Þó býst ég við því, að hennar örlög séu ráðin og það verði ekki farið að brjóta neina meginreglu með því að samþykkja hana, og þó er hún alveg sjálfsögð.

Á mörgum undanförnum árum hefur verið smáupphæð á 13. gr. fjárl. til þess að halda einstökum býlum í byggð í námunda við erfiða og langa fjallvegi, til þess að draga úr slysahættu og skapa vegfarendum um þessa erfiðu fjallvegi nokkurt aukið öryggi með því, að að byggðu bóli sé að venda, þegar kemur af löngum og erfiðum fjallvegi. Á þessa árs fjárl. var 160 þús. kr. fjárveiting á 13. gr. til að halda einstökum býlum í námunda við langar og erfiðar heiðar í byggð. Þetta er þannig, að nokkrir ábúendur slíkra jarða hafa fengið um 15 þús. kr. styrk til þess að halda býli sínu í byggð vegna öryggis vegfarenda aðallega. Nú er í till. hv. fjvn. till. um að hækka á næsta árs fjárl. þennan 160 þús. kr. lið um 30 þús. kr., líklegast til tveggja býla, sem svo stendur á sem ég nú hef rætt um, og leggur fjvn. til, að liðurinn verði nú 190 þús. kr. Ég held, að þessu fé sé vel varið, og ég er fyllilega samþykkur þessari brtt. hv. fjvn. og tel, að það sé ekkert sjálfsagðara en verja þessum tæpum 200 þús. kr. í þessu skyni.

En ég hef í huga einn stað, sem ég tel að eins standi á um og þá staði, sem þessi fjárveiting er ætluð til. Það er Kirkjuból í Langadal í Norður-Ísafjarðassýslu. Það er fyrsta byggða bólið, Kirkjuból, sem komið er að, þegar menn koma af hinni löngu og torsóttu Þorskafjarðarheiði. Þorskafjarðarheiðin er með lengri og erfiðari fjallvegum þessa lands. Það eru um 60 km milli bæja, heiðin er 500 m yfir sjó, og Langidalur er í framhaldi af þessari heiði allsporadrjúgur, hefur reynzt það mörgum og hefur þó vegurinn heldur lengzt, vegna þess að fremsta byggða bólið, sem í þessum dal var, Bakkasel, er nú lagzt í eyði, og Kirkjuból er nú næsti bær við heiðina að norðanverðu. Næsti bær neðan við Kirkjuból er þegar lagztur í eyði, Brekka, og Arngerðareyri sömuleiðis, og ef Kirkjuból leggst í eyði, þá er sem sé að engum bæ að venda norðan við Þorskafjarðarheiði þeim megin í Langadal, sem vegurinn liggur, og yrði þá að leita utar í sveitina til að fá náttból.

En nú kynnu menn að spyrja: Er nokkur hætta á því, að Kirkjubólsbændur gefist upp og sá staður leggist í eyði? Ég vona, að svo sé ekki. En þarna er barizt harðri baráttu og erfiðleikarnir hafa aukizt. Skal ég aðeins benda á eitt í því sambandi. Nú er stórbýlið Laugaból lagzt í eyði, það liggur í næsta dal við Langadal, og af þessu leiðir það, að Kirkjubólsbændur, sem eru tveir, verða nú að smala auk Langadals og Kirkjubólslands alla Laugabólslandareign, sem er allvíðlend, og enn leitar fé þeirra Kirkjubólsmanna ekki aðeins um Laugabólsland, heldur líka um allan Ísafjörð og inn í Ísafjarðarbotn um Gervidalsland, en Gervidalur hefur einnig lagzt í eyði, og á s.l. ári horfðust Kirkjubólsmenn í augu við það, að þeir hefðu engan mannafla til þess að smala allt þetta víðlendi og því síður væru þeir færir um að bjarga fé sínu undan illviðrum, ef þau bæri brátt að, þegar það dreifði sér um alla þessa viðáttu. Þeir sáu því ekki annað ráð en koma sér upp fjárgeymslugirðingu og keyptu efni í 14 þús. m langa fjárhelda girðingu til þess að hafa fé sitt þar á vorin og haustin, og efnið í þessa girðingu eina kostaði 160 þús. kr. En þetta urðu þeir að gera eða gefast upp, þegar Laugaból lagðist í eyði, og þetta hafa þeir gert. En til slíkrar girðingar er enginn styrkur fáanlegur, af því að hér er ekki um girðingu að ræða um ræktað land. Ég benti á þetta til að sýna, að erfiðleikar þessa býlis, sem þarna er næst Þorskafjarðarheiði að norðanverðu, hafa stóraukizt og full hætta á því, að búendurnir gefist þar upp við þessa auknu erfiðleika, sem stafa af því, að byggðin strjálast og eyðist þarna í kring. En hins vegar er Kirkjuból góð bújörð, gamalt embættismannasetur, sýslumannssetur og ágæt sauðjörð. Enn eru þeir þannig staddir, Kirkjubólsmenn, að vegurinn, framhaldið af Þorskafjarðarheiðarvegi yfir dalinn, er niðurgrafinn og á hann rennur vatn undireins á haustin, og þegar frystir að verður vegurinn einn svellabunki, og hefur oft legið við banaslysum á undanförnum vetrum, þegar bóndinn hefur verið að reyna að koma mjólk sinni til hafnar að Arngerðareyri, þar sem ferjubáturinn, Djúpbáturinn, kemur, því að vegna hliðarhallans hefur bíll hans með mjólkurvagninum aftan í runnið tvívegis niður í Langadalsá, en bóndinn bjargaðist þó í bæði skiptin. Ég segi þetta til þess að sýna, að þarna er full hætta á, að byggð eyðist og mundi þá enn aukast vegalengdin milli bæja sunnan Þorskafjarðarheiðar og að næsta byggðu bóli, ef Kirkjuból legðist í eyði, um 10–11 km í viðbót. Það, sem ég fer fram á, er, að í viðbót við þau býli, sem styrkt eru af sömu ástæðum og fjvn. öll hefur mælt með, verði tekinn 15—20 þús. kr. styrkur, — ég fer nú fram á 20 þús., — til Kirkjubólsábúendanna til þess að afstýra, því, að sá bær leggist í eyði, með tilliti til þess, að þarna er um að ræða fyrsta byggða bólið norðan Þorskafjarðarheiðar.

Ég vænti þess, að hv. fjvn. fallist á, að þarna beri að rétta hjálpandi hönd, og mundi það kosta það, að liðurinn þyrfti að hækka úr 190 þús. í 210 þús. kr., og það er það, sem ég legg til í minni litlu brtt. Ég hygg, að það sé hér við að glíma sams konar erfiðleika og hv. fjvn. hefur viljað mæta með sinni hækkunartill. á þskj. 175, þegar hún leggur til, að liðurinn hækki um 30 þús. kr. Ég fjölyrði ekki frekar um þetta. Ef ég fæ ekki neina vísbendingu um það frá hv. fjvn., að till. verði samþ. eða á hana fallizt, þá mun ég reyna að bjarga henni um stund með því að taka hana aftur til 3. umr., en tel hins vegar, að fyllstu rök liggi til þess, að þessi brtt. við brtt. fjvn. verði samþ., og vona, að svo verði. En að öðru leyti reynir á fjvn. um það, hvort hún vill ekki fallast á að taka þetta þá upp í sínar till. við 3. umr.