20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

101. mál, kal í túnum o.fl.

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. 1. flm. þessarar till., hv. þm. Valtýr Kristjánsson, er ekki hér á Alþingi nú, og vil ég því — með leyfi forseta — gera nokkra grein fyrir till. þessari.

Það er öllum kunnugt, hversu kalskemmdir á ræktuðu landi voru miklar á s.l. sumri. Nokkuð var þetta misjafnt eftir landshlutum, en þó bar alls staðar nokkuð á kali. Nú orðið er hið ræktaða land orðið fjárhagsleg undirstaða landbúnaðarins. Bregðist heyöflun, eru skuldir og basl á næsta leiti, og margir bændur eru það hart leiknir, að þeir bíða kattjónsins seint eða aldrei bætur.

Kalskemmdir í túnum eru engin nýlunda hér á landi. Á öllum öldum hafa komið sumur, þar sem gróðurfar var mjög lítið, þótt orsakir þess hafi verið misjafnar, en venjulega einhver tegund kals. á þessari öld skera sig nokkur sumur úr, þar sem töðufengur var lítill, og sumarið 1918 er talið, að töðufengur hafi verið um það bil helmingur á við það, sem var árin þá á undan. Kalskemmdirnar 1918 eru þær mestu, er menn vita um hér á landi til þessa. Árið 1949 bar talsvert á kali á túnum, enda vorið bæði kalt og snjóasamt. Árin 1951 og 1952 kól tún mikið, einkum nýræktir, þótt kal fyndist einnig í hinum gömlu túnum. Þessar kalskemmdir hafa verið metnar til tjóns árin 1951 og 1952 á 50 millj. kr. til samans, og það er ekki svo lítil upphæð.

Snemma á þessu þingi var útbýtt hér á hv. Alþingi riti frá Atvinnudeild háskólana um rannsóknir á kali túna fyrir þessi ár, 1951 og 1952. Þar skrifar Sturla Friðriksson grasafræðingur um þessi efni, en hann hefur manna mest fengizt við þessar rannsóknir hér á landi. í riti þessu er talað um, að kal verði aðallega til með fernum hætti, þ.e. frostkal, svellkal, klakakal og rotkal. Ég skal ekki hér fara fræðilega inn á þessa hluti, en vil benda þeim hv. þm., sem hafa áhuga í þessum efnum, á að lesa þetta rit Sturlu Friðrikssonar.

Það, sem er eftirtektarverðast við kalskemmdirnar árin 1951 og 1952 og einnig árið 1962, er það, hversu nýræktin er miklu viðkvæmari fyrir kali en gömlu túnin. Sjálfsagt er það margt, sem veldur því, t.d. grastegundir, sem þola ekki okkar kalda loftslag, og einnig hitt, að framræsla lands og vinnsla þess er ekki nógu vel af hendi gerð. Það hefur tekið okkur Íslendinga sinn tíma að læra að beita tækninni rétt og á sjálfsagt eftir að taka nokkur ár enn þá, þar til fullkomin æfing og leikni fæst í þeim efnum.

Í Árbók landbúnaðarins, síðasta hefti s.l. árs, ritar ritstjórinn, Arnór Sigurjónsson, um kalskemmdir og þó einkum það kal, sem átti sér stað a. l. ár. Þar segir ritstjórinn, með leyfi hæstv. farseta:

„Gizkað hefur verið á, að töðufengurinn hafi orðið allt að 1/6 minni en þessi tvö undanfarin sumur, og því að þessi ágizkun sé e.t.v. í frekasta lagi, mun óhætt að fullyrða. að töðufengurinn er a.m.k. 10% minni eða 320–350 þús. hestum minni en þá. Og auk þess kemur ekki íram 160 þús. hesta aukning vegna nýrra túna. Þetta er 60–80 millj. kr. skaði fyrir bændastétt landsins, því að kostnaður við hirðingu og vinnslu túnanna og töðufengsins var lítið eða engu minni þrátt fyrir þennan uppskerubrest, þar sem ekkert hafði sparazt í áburðarkaupum. Þetta er átakanleg staðreynd fyrir þá, sem fyrir þessu tjóni urðu, en mestu kalskemmdirnar urðu á svæðinu austan Vaðlaheiðar og allt austur á Fljótsdalshérað, en kalskemmdir munu hafa orðið nokkrar svo til á öllu landinu.“

Það er mikið áfall að vakna við það siðla vors, eftir að hafa í engu til sparað að bera áburð á tún, að þar fyrirfinnist ekki stingandi strá. En þetta kom fyrir fjöldamarga bændur á s.l. sumri. Þeirra fjárhagsvandræði af þessum sökum eru margþætt og verða ekki rakin hér. En þó vil ég þakka hv. Alþingi þá lagabreytingu, sem orðin er á jarðræktarlögunum til styrktar þessum bændum. En meira þarf, ef vel á að fara í þessum efnum.

Á s.l. sumri fór fram ýtarleg rannsókn á kali í Suður-Þingeyjarsýslu, og er talið, að þar hafi heyuppskera verið 1/3 minni en undanfarin ár. Þetta eru þungar byrðar.

Herra forseti. Sú till., 5em hér er til umr., beinist einkum að fimm atriðum í rannsóknarstarfseminni. í fyrsta lagi, að hve miklu leyti má rekja orsakir kals til veðurfarsáhrifa, svo sem snjóa- og svellalaga, og við hvaða aðstæður kal myndast af þeim sökum. í öðru lagi, hvort eðlisfræðilegt ástand jarðvegsins og jarðvinnsluaðferðir, þurrkunarásigkomulag ræktunar, haust- og vetrarvatnsstaða í jarðvegi hafa áhrif í sambandi við kalhættu. í þriðja lagi, hvort misnotkun áburðar, svo sem stórir skammtar köfnunarefnis og áburðartími, t.d. áburðargjöf seint að sumri milli slátta, eigi sinn þátt í auknum kalskemmdum. í fjórða lagi, hvort notkun túnanna, svo sem haustbeit og sláttur síðsumars og að hausti, auki kal. Í fimmta lagi rannsókn á þoli stofna, sem notaðir eru í fræblöndur.

Þess skal að sjálfsögðu getið og ber að geta, að margar athuganir hafa verið gerðar á orsökum kals. En það þarf meira en athuga það kal, sem orðið hefur. Það þarf að koma upp tæknilegum rannsóknum á kali, þar sem eru húsakynni og tæki til að framleiða kulda og á þann hátt að prófa frostþolni einstakra grastegunda með fleiru. Þetta kostar sjálfsagt nokkurt fjármagn, en þó ekki nema örlítið brot af því 80 millj. kr. tapi, sem talið er að bændastéttin hafi orðið fyrir á s.l. ári. Og ef það er svo, að bændastéttin geti án mikilla bóta tekið á sig svona gífurlegt tjón, hvað munar þá þjóðarheildina um að taka á sig nokkurn kostnað, sem ætti að geta komið í veg fyrir slíkt tjón í framtíðinni?

Það er talið, að 25% af landi okkar sé gróðurlendi, en fróðir menn telja, að hægt verði í framtíðinni að auka gróðurlendið upp í 75%, bæði með því að velja grastegundir með þetta fyrir augum og dreifa tilbúnum áburði yfir gróðurlendin. Sé svo, að hægt sé að velja grastegundir, sem lifa í 500–800 eða 700 m hæð yfir sjávarmál, þá ætti að vera möguleiki á því að fá túngrös, sem þola betur loftslags- og jarðvegsbreytingar en þær grastegundir, sem nú eru yfirleitt algengastar. Ræktun á grasfræi og framleiðsla þess innanlands er eitt af undirstöðuatriðum þess, að við getum öðlazt þær grastegundir, sem eru þotnar gegn þeim loftfarsbreytingum, sem oft og einatt eiga sér stað hér á landi. Og þetta er eitt af frumskilyrðum þess, að við getum búið nokkurn veginn örugglega hér á landi, að grasræktin bregðist ekki, þar sem allur okkar búskapur má heita að byggist á grasræktinni.

Ég vænti þess, að till. þessi fái góðar undirtektir og skjóta fyrirgreiðslu hér á hv. Alþingi. Og að lokinni þessari umr. legg ég til, að málinu verði vísað til hv. allshn.