08.03.1963
Sameinað þing: 37. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í D-deild Alþingistíðinda. (3105)

157. mál, hagnýting síldarafla við Suðurland

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg í sambandi við þessa till., sem nú er til umr. Sumpart er það vegna þess, að ég tel, að það mál, sem till. fjallar um, sé eitt hið allra þýðingarmesta varðandi afkomumöguleika landsmanna í framtíðinni, og sumpart er það að gefnu tilefni í þeim — ég vil leyfa mér að segja furðulegu ræðum, sem hæstv. viðskmrh. flutti hér um þetta mál, þegar það var til umr. á dögunum. Till. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta fara fram ýtarlega rannsókn á því, hvernig hagnýta megi síldaraflann við Suðurland á sem beztan og verðmætastan hátt, og gera að þeirri rannsókn lokinni áætlun um það, á hvern hátt ríkið geti bezt stuðlað að því, að upp byggist iðnaður, er vinni sem fullkomnastar vörur úr þessum afla.“

Þannig hljóðar þessi till. En eina og grein er gerð fyrir í þeim athugasemdum, sem till. fylgja, og raunar öllum landsmönnum er kunnugt, hefur síldveiðin farið stórkostlega vaxandi við Suðausturland og raunar alls staðar við landið, og kemur þar til ekki sízt hin nýja veiðitækni, sem menn hafa nú náð tökum á og verður til þess, að möguleikar, sem ekki var áður hægt að notfæra sér, koma nú að fullum notum. Nú er hægt að finna síldina, þó að hún vaði ekki. Nú er hægt að veiða hana, þó að hún standi djúpt, vetur og sumar.

Það hefur orðið bylting í síldveiðitækninni, og framleiðslan hefur aukizt stórkostlega frá því, sem áður var. En sáralítið af þessari síld er hægt að selja sem matvöru, langmest af henni verður að fara í bræðslu og er selt út úr landinu fyrir sáralítið verð. En hér er um einhverja beztu fæðutegund að ræða, sem mjög mikið er notað af í heiminum. Það er því þjóðarnauðsyn — það er lífsnauðsyn að finna nýjar leiðir og nýja möguleika, til þess að hægt verði að selja síldina sem matvöru út úr landinu. Og um þetta fjallar þessi till., sem hér liggur fyrir, og orðalagið heyrðu menn áðan.

En þegar þessi till. kemur fram við 1. umr., rís upp einn af hæstv. ráðh., viðskmrh., og segist sjá alveg sérstaka ástæðu til þess að benda á það í sambandi við þessa till., að hér sé farinn að tíðkast sá ósiður að flytja till. að tilefnislausu og till., sem geti varla talizt þinghæfar, en í þeim flokki sé alveg ,hiklaust þessi till. Hún sé dæmigerð slík till., sem geti ekki talizt þinghæf, og með öllu ástæðulaus. Því sé sérstök ástæða til að vekja athygli á henni. Ég hef tekið hér orðrétt upp, að hæstv. ráðh. sagði, að till. væri eingöngu áróður af lélegasta tagi.

Ég vil fyrst í þessu sambandi minna á það, að 1960 var samþ. hér á Alþingi till. um síldarmálin, svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að athugaðir verði til hlítar möguleikar á því að hagnýta síldarafla landsmanna betur en nú er gert og þá einkum með það fyrir augum, að sem mestur hluti síldarinnar verði fluttur út sem fullunnin neyzluvara.“

Þessi till. var samþ. á Alþingi einróma, þ.e.a.s. með atkv. allra, sem atkv. greiddu, 27. maí 1960. Ekki lítur út fyrir, að hv. alþm. hafi verið hæstv, ráðh. sammála um það þá, að till. eins og þessi væri óþinghæf eða áróður af lélegasta tagi, því að sú till., sem þá var samþ. einróma hér á Alþingi og fjallaði um síldarafla landsmanna yfir höfuð, má heita nær alveg efnislega samhljóða þeirri, sem nú er flutt hér, en fjallar að vísu aðeins um síldaraflann við Suðurland.

Hitt er svo annað mál og hefur kannske átt einhvern þátt í hinum furðulegu viðbrögðum hæstv. ráðh., að mönnum er ekki kunnugt um, að hæstv. ríkisstj. hafi gert nokkurn skapaðan hlut til að framkvæma þingviljann frá 1960, sem kemur fram í þeirri ályktun, sem ég var að lesa. En þá ályktaði Atþingi, að hæstv. ríkisstj. skyldi beita sér fyrir því, að athugaðir yrðu til hlítar möguleikar til að hagnýta betur síldarafla landsmanna en nú er gert. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki, svo að kunnugt sé, látið fara fram neina heildarathugun á því máli skv. þál., eins og henni var þó skylt að láta gera. Og þá hefur auðvitað engin skýrsla komið um almennt ástand þessara máta, nema ef menn eiga að kall það niðurstöðu rannsókna um þessi mál, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. og ég skal nú víkja að smátt og smátt í fáum orðum.

Ég vil leyfa mér að finna að því við hæstv. ráðh., að hann skuli leyfa sér að flytja ruddalegan skæting í staðinn fyrir rök, þegar um málefni er að ræða eins og þessa þáltill., sem engum dylst að er ekki aðeins fullkomlega þinghæf og þingleg og í fullkomnu samræmi við alla þingvenju frá fyrstu tíð, heldur fjallar þar að auki um eitthvert þýðingarmesta nauðsynjamál landsins, sem sé að fram fari heildarathugun á því, hvað hægt sé að gera til að nota betur hinn mikla síldarafla við Suðurland. Ég vil leyfa mér að finna að þessu við hæstv. ráðh, og láta í ljós undrun mína yfir þessu. Og ég vil gjarnan segja það um leið, að þetta var ólíkt hæstv. ráðh., og ég varð alveg undrandi, þegar ég heyrði þetta, og ég vil vona, að þetta verði einsdæmi og til þessa hafi legið einhverjar ástæður, sem mönnum eru óljósar, fremur en þetta sé upphaf þess, að hæstv. ráðh. eða aðrir temji sér þess konar málflutning, sem hæstv. ráðh. varð hér á.

Ef svo reynist, þá má þetta frumhlaup hæstv. ráðh. gjarnan vera gleymt af minni hendi, og þannig held ég að sé um fleiri. En óhugsandi er, að það fari þegjandi fram hjá mönnum, þegar þannig er tekið á málum eins og hæstv. ráðh. gerði sig sekan um að þessu sinni.

Í þessum umr. hélt hæstv. ráðh. því fram, að það væri hrein blekking, að ríkisvaldið ætti nokkuð ógert í þessum málum, og orðrétt sagði hæstv. ráðh.: „Hér er í sannleika sagt ekki um að ræða nein veruleg rannsóknarefni, sem upplýsa þarf.“ Þetta átti að vera rökstuðningurinn fyrir því, að það væri nánast móðgun við þingið að flytja till. um, að heildarathugun færi fram á þessum málum. Hér væri í sannleika sagt ekki um að ræða nein veruleg rannsóknarefni.

Enn fremur sagði hæstv. ráðh. orðrétt, að „innan atvinnuveganna væri mjög víðtæk þekking á þeim vandamálum, sem hér er bent á.“ En ályktunarorðin voru þau, sem ég sagði áðan.

Ég verð enn að láta í ljós undrun mína yfir því, að einn af hæstv. ráðh. skuli leyfa sér að flytja fram þetta sjónarmið, og sannast að segja verður augljóst, hversu fráleit þessi skoðum hæstv. ráðh. er, þegar rökin fyrir henni eru krufin ofur lítið til mergjar, eins og þau komu fram hjá hæstv. ráðh.

Fyrstu rökin, og að því er manni skildist aðalrökin, voru þau, að SÍS hefði ekki komið upp niðursuðuverksmiðju. Vegna þess að SÍS hefði ekki komið upp niðursuðuverksmiðju, þyrfti ekki að fara fram nein heildarathugun á því, hvort mögulegt væri að gera síldaraflann verðmætari en þetta. Þetta var hugsunargangur hæstv. ráðh. ag það, sem kom fram hjá honum um þetta.

SÍS hefur ekki komið sér upp neinni niðursuðuverksmiðju enn þá. En auðvitað skiptir það engu máli, þegar það er metið, hvort ástæða sé til þess að láta fara fram heildarathugun á síldarmálunum eða ekki.

Hæstv. ráðh. lét sér tíka sæma í þessu sambandi að deila á SÍS fyrir að hafa ekki komið upp niðursuðuverksmiðju. Hann fór hörðum orðum um Sambandið fyrir að hafa ekki komið sér upp niðursuðuverksmiðju. Nú fjallar þessi þáltill. ekki aðeins um niðursuðu á síld, heldur að athugun fari fram á öllum hugsanlegum möguleikum til þess að verka síld til manneldis og selja hana þannig úr landi. En ef hæstv. ráðh. sér ástæðu til þess að ámæla SÍS stórkostlega fyrir að hafa ekki komið upp niðursuðuverksmiðju nú þegar á síld, þá hlýtur hæstv. ráðh. að álita, að það séu miklir möguleikar til þess að reka niðursuðu hér með sæmilegum árangri, því að annars mundi hann ekki táta sér sæma að deila á Sambandið fyrir það að hafa ekki komið upp verksmiðju.

Í þessu sambandi er rétt að benda á, að það hefur verið hér heimild í lögum lengi til að koma upp niðursuðu á vegum ríkísins. En slíkri niðursuðuverksmiðju nefur ekki verið komið upp eða hún rekin, fyrr en niðurlagningu var komið upp nú fyrir stuttu, sem ég mun koma að siðar. Og ef SÍS er ámælisvert fyrir að hafa ekki komið upp niðursuðuverksmiðju enn þá, hvað má þá. segja um allar þær ríkisstjórnir, sem setið hafa og ekki hafa komið upp neinni niðursuðuverksmiðju á vegum ríkisins á undanförnum árum, fyrr en lagt var út í þá tilraun með niðurlagningu á Siglufirði, sem ég mun koma að síðar og ríkisstj. hefur ekki átt neinn þátt í að neinu leyti. Það var ekki að neinu leyti að frumkvæði ríkisstj., sem sú niðurlagning var seti á fót, og hún hefur ekkert hana stutt, nema aðeins með því að veita ríkisábyrgð fyrir þeim lánum, sem síldarverksmiðjustjórnin hefur útvegað til niðurlagningarinnar.

Í þessu sjáum við, að það rekur sig hvað á annars horn hjá hæstv. ráðh. í þessu efni. Og það er bara sýnishorn af röksemdafærslunni, þegar hæstv. ráðh. segir í öðru orðinu,

að það sé engin þörf á því, að fram fari heildarathugun á möguleikum til þess að verka síld til manneldis, vegna þess að SÍS hafi ekki enn þá komið sér upp niðursuðuverksmiðju, en tekur sig síðan til og deilir harðlega á SÍS fyrir ósæmilega vanrækslu að hafa ekki komið álíkri verksmiðju upp.

Þó að SÍS hafi enn þá ekki komið sér upp niðursuðuverksmiðju síldar, er ekki þar með sagt, að slíkt geti ekki komið til greina. SÍS hefur í mörg horn að líta og þarf að sinna mörgum rekstri og getur ekki vegna rekstrarfjárskorts sinnt nema sumum þeirra verkefna, sem það gjarnan vildi sinna.

Þessi skætingur hæstv. ráðh. í garð SÍS út af þessu er náttúrlega alls óviðkomandi efni þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, og undanbrögð af hendi hæstv. ráðh. frá því að horfast í augu við efni hennar.

Það er annar kafli í sambandi við málflutning hæstv. ráðh. að þessu leyti, að hann var líka svo smekklegur, að hann sá ástæðu til þess að hreyta ónotum í SÍS fyrir að hafa komið upp tilraunastöð í Hafnarfirði, sem á að hafa það með höndum að gera tilraunir með ýmsar nýjungar í verkun fiskafurða. Ráðh. sá alveg sérstaka ástæðu til að hreyta skætingi að þessari starfsemi. En maður hefði átt að geta búizt við, að það andaði öðruvísi í garð slíkrar framtakssemi af hendi ráðamanna landsins, að þeir skildu og hefðu vit á því að þakka það, að einstök fyrirtæki í landinu og félagasamtök hefðu forgöngu um eitthvað nýtt í þessu efni. En auðvitað er það ekkert nema skætingur, þegar hæstv. ráðh. leyfir sér hér að gera lítið úr þessari starfsemi, vegna þess að það hafi ekki verið flutt út enn þá nema 1/2 tunna eða svo af reyktri síld.

Einhvern tíma verður að byrja, ekki aðeins á fyrstu hálfu tunnunni, heldur meira að segja á fyrstu síldinni. En það virðist hæstv. ráðh. alls ekki vera ljóst. Og þess vegna heyra menn það hér á Alþingi, að einn af hæstv. ráðh. hefur það eitt til þessara mála að leggja að hreyta ónotum að þeim, sem eru að reyna að ryðja nýjar brautir í þessum efnum, hreyta ónotum fyrir það, að þeir hafi ekki séð sér fært að sinna öllu í senn, og hreyta ónotum að þeim tilraunum, sem vitanlega verða ætíð fyrst að vera í mjög smáum stíl, það verður að þreifa sig áfram.

Ég hef nú farið örfáum orðum um þessa fyrstu röksemd hæstv. ráðh. fyrir því, að ástæðulaust væri, að nokkur heildarathugun færi fram á þessum málum, ef röksemd skyldi kalla, og skal ekki fara lengra út í það.

Næsta röksemd hæstv. ráðh. var svo sú, að það hefði aukizt mjög mikið söltun á Suðvesturlandssíld og nýjar verkunaraðferðir í því sambandi komið til greina upp á siðkastið. Þetta var önnur röksemd hæstv. ráðh. fyrir því, að till. væri ekki aðeins óþörf, heldur nánast móðgandi fyrir Alþingi. Athugum þessa röksemdafærslu hæstv. ráðh. með aðeins örfáum orðum.

Langmestur hluti eða nær öll sú síld, sem enn er flutt út frá Lalandi til manneldis, er saltsíld í tunnum, og það er aðeins hverfandi lítið brot enn sem komið er, sem flutt er út öðruvísi, þegar frá er tekið það, sem er fryst af síldinni og þannig flutt út, og svo nokkuð um súrsun og annað slíkt. En það er vitanlega öllum ljóst, sem hafa komið nálægt þessum málum, að aðrar þjóðir, sem framleiða síld, framleiða síld til sölu bæði innanlands hjá sér og líka til útflutnings út úr löndunum með margvíslegum öðrum hætti.

Þetta er vandamál, sem sífellt þarf að vera að skoða og reyna að leysa með því að finna upp fleiri verkunaraðferðir á síldinni til manneldis og nýjar leiðir til þess að pakka síldinni og gera hana þannig úr garði, að neytendur í öðrum löndum vilji kaupa hana. Það er bókstaflega ekki hægt að sætta sig við það, að hér verði ekki breytingar, ef ekki stökkbreytingar, þá a.m.k. smátt og smátt breytingar í þá átt að gera verkun síldarinnar fjölbreyttari. Hér er ekki aðeins um að ræða niðursuðu og niðurlagningu, heldur að pakka síldinni öðruvísi en í tunnur, tilreiða síldina á margvíslegan hátt.

S.l. sumur hef ég dálítið verið riðinn við síldarmál, vegna þess að ég hef átt sæti í stjórn síldarverksmiðja ríkisins, og ég hef ferðazt nokkuð um Norðurland á sumrin af því tilefni. Ég hef gert mér far um að koma á söltunarstöðvarnar og rætt við ýmsa þá, sem reka þær og hafa söltunina með höndum. Ég hef mikið rætt þessi efni við þá, hvort ekki væri hægt að finna upp nýjar leiðir til þess að pakka síldinni og verka hana á annan og fjölbreytilegri hátt en nú er gert. Og venjulega hafa menn sagt, að þeir efuðust ekkert um, að þetta væri mögulegt, en þeir teldu, að það væri þýðingarlaust að vera að kynna sér neyzluvenjur í öðrum löndum og eftirspurn eftir síld, sem væri verkuð með öðru móti og pökkuð á annan hátt en í tunnur, vegna þess að þeir fengju ekki að stofna til beinna viðskiptasamninga erlendis, því að þessi mál, útflutningur síldarinnar, væru að öllu leyti á vegum síldarútvegsnefndar.

Þetta voru svörin, sem ég fékk sumarið 1960 og sumarið 1961. Ég tók þá þetta mál hér upp í þinginu ásamt öðrum þm. og stakk upp á því, að síld, sem væri í neytendapakkningum, þ.e.a.s. öll önnur síld en sú, sem sett væri í tunnur til útflutnings, yrði gefin frjáls, yrði tekin undan sölumeðferð síldarútvegsnefndar og yrði gefin frjáls, og þá í þeirri von, að ef þetta væri gert, sæju einstaklingarnir sér hag í því að fara að kynna sér af kappi neyzluvenjur erlendis, mundu stofna til sinna eigin sambanda um sölu á síld, sem pökkuð væri og tilreidd með öðru móti, og þannig mundi vera hægt að leysa kraft úr læðingi til að auka fjölbreytnina í þessari þýðingarmiklu grein.

Þessi mál tóku síðan þá stefnu, að hæstv. ríkisstj. tók inn í frv. sitt um breyt. á l. um síldarútvegsnefnd, er samþ. var á síðasta þingi, ákvæði um, að ef síld væri sett í neytendapakkningar, skyldi verkun og verzlun með hana vera frjáls. Og þetta ákvæði gilti s.l. sumar.

Nú skal ég ekki segja, hvort þessi breyting, sem ég taldi mjög hyggilega og ég beitti mér fyrir ásamt öðrum, verði að því gagni, sem við vonuðumst eftir, sem beittum okkur fyrir henni. En ég vona, að þegar stundir líða, verði hún að einhverju gagni. Hitt dylst mér ekki og verð sannfærðari og sannfærðari um, eftir því sem ég hugsa meir um þessi mál og kynnist þeim meira í sambandi við starf mitt á sumrin nyrðra og eystra í síldarverksmiðjustjórninni, að það þarf að koma flefra til en bara það að gefa viðskiptin með síldina í neytendapakkningunum frjáls. Ég sannfærist um það betur og betur og líka í sambandi við þá, reynslu, sem ég hef fengið sem einn af stjórnarnefndarmönnum fyrir niðurlagningarverksmiðjunni nýju á Siglufirði, að það þarf að koma annað og meira til. Það þurfa að fara fram ýtarlegar og nákvæmar neyzlurannsóknir, ef svo mætti orða það, á síld og síldarafurðum í öllum löndum, sem koma til greina. Þessar rannsóknir verða íslendingar að framkvæma og einnig markaðsrannsóknir, og það kostar áreiðanlega mikið fé að framkvæma slíkar rannsóknir. Og þessar rannsóknir er ekki hægt að framkvæma til neinnar hlítar, eða svo að tæmandi sé, nema með því, að hið opinbera hafi forgöngu um þær að einhverju verulegu leyti til viðbótar því, sem einstaklingarnir sjálfir vilja gera, eftir að meira frelsi hefur verið innleitt í þessum málum.

Það leikur því enginn vafi á því, að þarna er stórkostlegt verkefni, sem þarf að leysa, og það er ekki nóg, að það aukist söltun á síld, eins og hæstv. viðskmrh. virðist álita. Hér verða að koma til nýjar verkunaraðferðir. Og það er alveg vist, að hér dugir ekki það, sem síldarútvegsnefnd gerir í þessu efni, það er ekki nægilegt eitt út af fyrir sig, og ekki heldur það, sem einstaklingarnir gera, þó að þeir kunni eitthvað að aðhafast í framhaldi af því frelsi, sem þeir nú hafa fengið. Og ég vona, að þeir geri það, þó að maður hafi ekki orðið var við það enn þá.

Til viðbótar því, sem gert er á vegum síldarútvegsnefndar, og til viðbótar því, sem gert er á vegum einstaklinganna, þurfa að koma til afskipti þess opinbera og þau allvíðtæk, og þá ekki sízt neyzlurannsóknir í nálægum löndum, sem verða að vera kostaðar að verulegu leyti af því opinbera, og markaðsrannsóknir. Og síðan í framhaldi af því verða að eiga sér stað framleiðslutilraunir. Og það er alveg víst, að þær framleiðslutilraunir verða ekki gerðar í sumum greinum, sem til álita koma, nema með stuðningi ríkisvaldsins, nema þær séu að einhverju leyti styrktar.

Það mun sýna sig, að sumar þeirra tilrauna, sem þarf að gera í framhaldi af rannsóknunum, neyzlurannsóknunum og markaðsrannsóknunum, eru svo kostnaðarsamar og jafnvel svo áhættusamar, að það er óhugsandi, að einstaklingar geti lagt í þær. Það er alveg óhugsandi.

Og ef ríkjandi verður í þessum efnum fullkomið tómlæti og hið opinbera er ekki reiðubúið að fórna hér bæði fé og fyrirhöfn og takast í hendur við einstaklingsframtakið til að ryðja hér nýjar brautir, þá. munu ekki gerast nein veruleg stórmerki í þessu máli á næstunni til stórtjóns fyrir þjóðfélagið. En það er á hinn bóginn alveg áreiðanlegt, að ef við náum réttu tökunum á þessum málum, er hægt að koma upp mörgum nýjum framleiðslugreinum með síldina sem hráefni og hægt að tilreiða hana og pakka með margvíslegu öðru móti en nú er gert til útflutnings úr landinu.

Ég get sagt það rétt til dæmis um þetta, að ég kom í hittiðfyrrasumar á litla síldarstöð úti á Amager í Kaupmannahöfn. Þetta var lítil stöð, það unnu eitthvað um 15 manns á stöðinni. Þangað komu inn síldartunnur frá Íslandi og frá Noregi og síldin var tekin upp úr þessum tunnum og pökkuð þar í ýmiss konar neytendaumbúðir og henni breytt með ýmsu móti. Ég vissi ekki, hve margar vörutegundir það voru, sem afgreiddar voru frá stöðinni. En þær skiptu áreiðanlega tugum, þær tegundir af síldarvörum, sem þaðan voru svo aftur afgreiddar út um borgina. Og þannig stöðvar eru náttúrlega víðs vegar í síldarneyzlulöndunum.

Allt þetta þarf að rannsaka til hlítar. Það kostar mikið erfiði og mikið fé, og mér dettur ekki í hug að kasta neinni rýrð á síldarútvegsnefnd og störf hennar, sem áreiðanlega hafa verið að mörgu leyti mjög merkileg. Ég hef það fyrir satt, að það séu duglegir menn sumir hverjir, sem þar starfa að síldarsölumálunum. En það er auðvitað fjaratæða að halda, að 2 eða 3 sölumenn, hversu duglegir sem þeir kunna að vera, geti bæði annað því að selja allt það óhemjumagn, sem hér er framleitt af saltsíld og einstökum öðrum tegundum, sem framleiddar eru í stórum stíl, og jafnframt fylgzt með eða látið rannsaka eða rannsakað alla möguleika til þess að selja síld með öllu öðru hugsanlegu móti í öllum löndum jarðarinnar. Það er náttúrlega með öllu gersamlega óhugsandi, að tveir eða þrír menn geti annað þessu verkefni. Og sannleikurinn er sá, að þegar menn hafa svona stórkostleg mál með höndum, eins og að selja þetta gífurlega magn af saltsíldinni og fjalla um þessi óskaplega stóru vöru-„partí“, þá hættir slíkum mönnum — það er ekki nema mannlegt — auðvitað við því að líta á það sem smávægilegri verkefni, sem verði að sitja á hakanum, að sinna örsmáum pöntunum um einhverjar sérstakar pakkningar af síld og öðru slíku.

Það er ekki nokkur vafi á því, að leitin að því nýja hefur orðið útundan að nokkru leyti, og ég get sagt mönnum það líka, af því að það er fróðlegt fyrir hv. þm. að vita það, að öngþveitið í þessum málum var svo alvarlegt, að þegar ég fór að ganga á síldarstöðvarnar og spyrja síldarsaltendurna, af hverju þeir legðu ekki út á nýjar brautir, af hverju þeir byggðu ekki pökkunarstöðvar og verkunarstöðvar, framhaldsverkunarstöðvar, út frá síldarstöðvum sínum, en hefðu verið í þessu kannske 20–30 ár, þá sögðu þeir sumir: Það er fyrst og fremst vegna þess, að þetta er allt saman bundið á vegum síldarútvegsnefndar. Hún veitir öll útflutningsleyfi. Hún vill selja síldina ein, og það þýðir ekki fyrir okkur að leita nýrra sambanda eða nýrra aðferða. Þegar ég svo vakti athygli á þessu hér á Alþingi í þskj. og flutti till. um það ásamt öðrum að gefa þetta frjálst til þess að leysa þennan vanda, þá hljóp til formaður síldarútvegsnefndar og gaf það út í fréttatilkynningu og setti í öll blöð landsins, að það, sem ég sagði um þetta eftir síldarsaltendum, væri misskilningur, síldarútvegsnefnd hefði ætlazt til þess, að þetta væri frjálst. En það bara vissi enginn síldarsaltandi, að þetta væri frjálst, eftir því sem þeir sögðu mér. Það vissi enginn, að það væri frjálst.

Þannig var þetta í þessari bjánalegu sjálfheldu, að formaður síldarútvegsnefndar hélt því fram, þegar ég fór að benda á ástandið í þessum málum og að hér þyrfti að gera nýjar ráðatafanir og í grg. fyrir málinu sagði, hvað mér hefði verið sagt um þetta á síldarverkunarstöðvunum, — þá hélt form. því fram, að þetta hefði verið frjálst. Svo fór ég að athuga þá pappíra, sem ráðh. hafði gefið út til síldarútvegsnefndar, og þá sá ég, að síldarsaltendurnir höfðu rétt fyrir sér, því að síldarútvegsnefndin hafði fengið — það var orðað þannig — hafði fengið einkarétt til þess að fjalla um alla saltsíld, og það var ekkert undan tekið, ekki neytendapakkningar eða neitt þvílíkt. Og það hefur sjálfsagt verið tilkynnt og þeir, sem söltuðu síldina, dregið af því alveg réttar ályktanir. En formaður síldarútvegsnefndar taldi sig ekkert hafa með þetta að gera og ekki síldarútvegsnefndina, eftir því sem hann síðar sagði. en hinir töldu, að síldarútvegsnefndin hefði þetta ein. Þannig hefur ástandið verið í þessum málum.

En útkoman úr þessu dæmi varð svo sú, þegar farið var að róta upp í þessu, að inn í síldarútvegsnefndarlögin var sett ákvæði um, að mönnum skyldi vera frjálst að setja síld í neytendapakkningar og flytja hana út og selja hana sjálfir þannig úr landinu. Þessa breytingu tel ég til bóta. En það er hin mesta fjarstæða, ef hæstv. ráðh. meinar, að þetta sé nóg og það þurfi ekkert meira að gera, það þurfi ekkert meira að gera t.d. en það, sem síldarútvegsnefnd hefur gert, og það, sem hugsanlegt er að muni ske í framhaldi af þessu frelsi fyrir síldina í neytendapakkningunum.

Ég vona af heilum hug, að margir einstaklingar, sem fást við síldina, fari út í að pakka í neytendapakkningar sjálfir og kynni sér neyzluvenjur og framkvæmi markaðsrannsóknir. Ég vona af heilum hug, að þeir gert það. En ég veit hitt af mínum kynnum af þessu máli, að það er ekki nóg, að þeir geri það einir. Það verður að gera í þessu stórkostlegt átak líka af hálfu þess opinbera. En sannarlega blæs ekki byrlega fyrir slíku,

þegar við heyrum úr ráðherrastólum hér á Alþingi setningar eins og þessa: „Hér er í sannleika sagt ekki um að ræða neitt verulegt rannsóknarefni, sem upplýsa þarf.“ Það blæs sannarlega ekki byrlega fyrir framtíð þessarar mikilvægu atvinnugreinar, meðan slíkar yfirlýsingar koma frá hæstv. ráðh.

Þriðja ástæðan, sem hæstv. viðskmrh. færði svo fyrir því, að till. væri ekki aðeins óþörf, heldur einnig sýndi hún takmarkalaust ábyrgðarleysi og væri raunar óþinghæf, var svo það, að niðurlagningarverksmiðjan á Siglufirði hefði ekki uppfyllt þær vonir, sem til hennar voru gerðar, og af því áttu menn víst að álykta, að það þyrfti þess vegna ekki meira að hugsa um niðurlagningu á síld.

Vegna þess að mér er þetta mál nokkuð sérstaklega kunnugt, þar sem ég er í stjórn síldarverksmiðja ríkisins og síldarverksmiðjur ríkisins reka þessa niðurlagningarverksmiðju, hafa komið henni á fót og stjórn síldarverksmiðjanna er stjórn hennar, þá langar mig til þess að segja um þetta efni nokkur orð. En orðrétt sagði hæstv. ráðh. um þetta, eða þær upplýsingar, sem hann gaf Alþingi um þetta, voru þessar:

„Fyrir nokkrum árum var nefnilega einmitt með tilstilli hins opinbera og á vegum síldarverksmiðja ríkisins reist mjög fullkomin niðursuðuverksmiðja á Siglufirði, en því miður hafa ekki þær vonir, sem tengdar voru við þá framkvæmd, rætzt, því að sala til útflutnings hefur gengið mjög illa.“

Þar með er það mál úr sögunni, að dómi hæstv. ráðh. En í tilefni af þessu vil ég taka eftirfarandi fram: Eins og ég gat um áðan, er búin að vera frá 1946 heimild í lögum til að reisa og reka á Siglufirði verksmiðju til að sjóða og leggja niður síld í dósir. Þessi lög höfðu ekki verið framkvæmd, og ég get nú ekki stillt mig um að minna á það enn, að sé það á rökum reist hjá hæstv. ráðh., að Samband ísl. samvinnufélaga hafi vanrækt eitthvað með því að vera ekki búið að koma upp niðursuðuverksmiðju, hvað má þá segja um það, að allar götur frá 1946 og þangað til nú fyrir tæpum tveimur árum var ekkert gert til þess að framkvæma þessi lög, sem eru um að reisa og reka á Siglufirði verksmiðju til þess að sjóða og leggja niður síld í dósir? Og áreiðanlega eru ekki fáir sjútvmrh. búnir að sitja á þessum árum, t.d. úr Alþfl. En ég ætlaði ekki að fara að deila um þetta meira, heldur ætlaði ég að segja í fáum orðum sögu niðurlagningarverksmiðjunnar á Siglufirði, þessarar nýju.

Þá er það fyrst að segja, að stjórn síldarverksmiðjanna ákvað að beita sér fyrir því, að komið yrði upp niðurlagningarverksmiðju á Siglufirði, og hafði þá m.a. í huga þessa lagaheimild, sem ég var að minnast á áðan, ekki niðursuðuverksmiðju, eins og hæstv. ráðh. heldur, heldur niðurlagningarverksmiðju. Og síldarverksmiðjustjórnin átti frumkvæði að þessu máli og leitaði til ríkisstj. um fjárframlög í þessu skyni. Sannleikurinn var sá, að hér var farið mjög smátt af stað, og ég man ekki betur en stofnkostnaður væri áætlaður eitthvað 2–3 millj. kr., því að meiningin var að fara smátt af stað í tilraunaskyni.

Það kom þá í ljós, að hæstv. ríkisstj. taldi ekki mögulegt að leggja fram neitt fé til þessarar niðurlagningarverkamiðju af því fé, sem hún hafði til umráða. Það eina, sem hægt var að fá hjá hæstv. ríkisstj., var ríkisábyrgð eða réttara sagt leyfi til þess, að síldarverksmiðjustjórnin færi af stað með þetta, ef hún gæti útvegað fé til þess, og ríkisábyrgð má kannske kalla það að forminu til, þ.e.a.s. það var eiginlega aðeins leyfi til þess að fara af stað með slíka tilraunaverksmiðju til niðurlagningar á síld.

Síldarverksmiðjustjórnin skrapaði svo saman með ýmsu móti þá peninga, sem þurfti til þess að koma þessu af stað, og varð að fara á fleiri en einn stað til þess. En það tókst nú, og var fyrst farið af stað eftir að búið var að útvega nauðsynlega sérþekkingu, sem tókst að útvega frá Noregi. Þá var farið af stað og lagt niður s.l. vetur úr nokkur hundruð tunnum. Það var gert án þess að hafa fullkomnustu vélar til þess, og þess vegna varð framleiðslukostnaður nokkuð mikill, enda var þetta fyrst og fremst gert til að finna, hvort ekki væri hægt að komast upp á lag með að framleiða góða vöru, sem væri samkeppnisfær að gæðum. Og það tókst strax að framleiða vöru, sem að dómi sérfræðingsins er samkeppnisfær að gæðum.

Þá var tekin ákvörðun um að kaupa vélar til þessarar niðurlagningarverksmiðju, þannig að hún yrði vélvædd í bezta lagi, þótt hún væri smá, þannig að hægt væri að koma við hentugum vinnuaðferðum og þá með það fyrir augum að koma framleiðslukostnaðinum niður. Það var strax eftir fyrstu tilraunina talið ljóst, að það væri allt í lagi með gæðin, og sú sérþekking og þær sósur, sem fengnar voru að, talið reynast vel. Síldin þótti sem sé strax sambærileg að gæðum við það, sem menn höfðu kynnzt annars staðar. Og þá var næsta skrefið að vélvæða verksmiðjuna, þannig að hægt væri að koma framleiðslukostnaðinum niður. Og ég get sagt mönnum þær fréttir, að talið er, að fullyrða megi, að þær tilraunir, sem síðan hafa verið gerðar um að leggja niður með hjálp nýju vélanna, sýni, að það sé hægt að leggja hér niður síld og gera hana samkeppnisfæra að gæðum og samkeppnisfæra að verði. Og er þá miðað við, að umbúðamálið, þ.e.a.s. dósamálið, sé leyst á hagfelldastan hátt. Það hafa ekki enn verið fengnar nægilega fullkomnar vélar til að leysa umbúðamálið á hagfelldasta hátt. En sé reiknað með því í framleiðslukostnaðinum, að umbúðamálið, sem auðvitað verður gert, verði leyst á hagfelldasta hátt, þá sýnir reynslan, að það mun vera hægt að framleiða hér eða leggja hér niður síld og bjóða hana með samkeppnisfæru verði við þá síld, sem aðrar þjóðir bjóða.

Það er þess vegna alger misskilningur, að niðurlagningarverksmiðjan sjálf hafi ekki uppfyllt þær vonir, sem tengdar voru við hana að þessu leyti. Ég mundi vilja segja, að þær hefðu rætzt þær vonir, sem menn gerðu sér, þegar til þessarar tilraunar var stofnað, að þessu leyti.

En þá mætti spyrja: Er þá ekki allt í lagi, og var ekki einsýnt að auka mikið framleiðstuna og stækka verksmiðjuna? En þá kemur í tjós, að aðalvandinn liggur í því að selja vöruna. Ég geri ráð fyrir því, að við höfum þarna vöru, sem sé alveg sambærileg að gæðum við það bezta, sem aðrar þjóðir bjóða. Við erum búnir að lækka verðið núna á þessum vörum, og við tókum okkur það leyfi að bjóða síldina með verði, sem svarar til þess, að umbúðamálið væri líka í fyllsta lagi, vegna þess að við teljum, að þessa tilraun erlendis til að setja verði að gera með samkeppnisfæru verði og með því verði, sem við sjáum að fullkomin verksmiðja gæti klárað sig með. Sem sagt, við megum ekki hækka verðið á vörunni með tilliti til byrjunarörðugleika, sem stafa af því, að okkar verksmiðja er ekki nægilega vélvædd. Við miðum því verðið núna við það, sem við sjáum að muni geta orðið viðvarandi í vel vélvæddri niðurlagningarverksmiðju.

En nú kemur í ljós. að þó að við höfum þarna góða síld, í fallegum umbúðum og með samkeppnisfæru verði, eru mjög miklir erfiðleikar á því að selja síldina. Hvernig stendur á því? Það er ósköp einfalt og ætti að vera hverjum manni skiljanlegt. Í þessum löndum eru boðnar þekktar vörur. Það eru vörumerki, það er síld, sem boðin er fram, sem neytendurnir gjörþekkja. Þeir þekkja þessi merki. En aftur á móti nýtt merki, nýja síld, sem kemur, þekkja þeir ekki. Og við vitum, hvað neytendur eru vanafastir að þessu leyti. Við þekkjum söguna um Ludvig David kaffibætinn. Hann þekkir hver einasti íslendingur. Það var ákaflega sterk neyzluvenja hjá mönnum að vilja fá Ludvig David kaffibæti. Og þannig er þetta um fleira. Og þeim, sem leggja fyrir sig að selja þessar vörur í markaðslöndunum, gengur greiðast að selja þekktustu vörurnar, sem eru þekktar fyrir gæði. Þeir hafa miklu meira fyrir því að reyna að koma inn nýjum vörumerkjum og nýjum vörum. Það er margföld fyrirhöfn, jafnvel þó að varan sé jafngóð. Það er nefnilega ekki aðeins smekkur, sem byggt er á, heldur einnig trú. Og þetta höfum við orðið ákaflega greinilega varir við, bara við þessa litlu tilraun með afurðir niðurlagningarverksmiðjunnar á Siglufirði.

Okkur er það alveg ljóst núna, að það verður að leggja í óhemjukostnað. Þó að við hefðum niðurlagningarvörur, sem væru alveg sambærilegar að gæðum og verði, þá verður að leggja í óhemjukostnað við að ryðja þessum vörum braut inn á markaðina. Og þá kemur kannske hæstv. viðskmrh. og segir, eins og hann sagði um daginn: Þetta er bara sönnun þess, að það á ekkert meira að fást við þetta. Við eigum að leggja árar í bát. því miður hafa ekki þær vonir, sem tengdar voru við þá framkvæmd, rætzt, því að sala til útflutnings hefur gengið mjög illa. — Það virðist hæstv. ráðh. álíta að sé nóg til þess, að það eigi að hætta, þó að það liggi fyrir, að við getum framleitt jafngóðar vörur og aðrir eða jafnvei betri en nokkrir aðrir og að við getum framleitt þetta með samkeppnisfæru verði, því að ég tel, að það sé hægt nú þegar að sýna fram á. En það koma í ljós miklir erfiðleikar samt við að selja vöruna. Þá er það sjónarmið hæstv. viðskmrh., kannske allrar ríkisstj., að þess vegna eigi að hætta, það sé a.m.k. engin þörf á neinni frekari athugun á því máli. „Þær vonir, sem við þessa verksmiðju hafa verið tengdar,“ sagði hæstv. ráðh., „hafa ekki rætzt.“

En ég segi: Við eigum ekki að hætta. Við eigum að leggja í kostnað við að setja vöruna. Það er lífsnauðsynlegur stofnkostnaður, sem þarf að leggja fram. En það getur ekki þessi litla niðurlagningarverksmiðja gert, sem er fædd á þennan hátt, að hún hefur ekki fengið eina, kr. frá ríkisstj., og síldarverksmiðjustjórnin hefur reytt saman smálán til þess að koma henni á. fót. En síldarverksmiðjur ríkisins hafa ekkert fjármagn til að standa í þessu, því að þær eru svo fjármagnslausar, að þær geta ekki einu sinni komið í framkvæmd nauðsynlegustu endurbótum á sínum eigin verksmiðjum.

Ríkisstj. hefur búið þannig að síldarverksmiðjum ríkisins, — það er bezt, að ég upplýsi það hér í leiðinni, af því að hæstv. ráðh. gefur tilefni til þess, — það er búið þannig að síldarverksmiðjum ríkisins, að þar voru nýjar framkvæmdir á síðasta ári upp á eitthvað á milli 50 og 60 millj. Og hvað haldið þið, að síldarverksmiðjur ríkisins hafi fengið mikið lánsfé til þess að standa undir þessu? Þær fengu eitthvað í kringum 11 millj. kr. Allt hitt hafa þær orðið að gera svo vel að leggja fram af eigin fé verksmiðjanna. Það er því búið að festa allan ágóðann, sem varð í góðærunum, bæði 1961 og 1962, í þessum framkvæmdum. Síldarverksmiðjurnar geta því ekki einu sinni komið fram nauðsynlegum lagfæringum á sínum eigin verksmiðjum, hvað þá meir. Svo eru þær samt að baksa með þessa tilraun. Þrátt fyrir þetta er verið að baksa þarna með þessa tilraun með niðurlagningarverksmiðjuna, án þess að fá til þess eina einustu krónu nokkurs staðar frá., þar sem ríkisstj. ræður.

Ég segi alveg hiklaust, og það vil ég að hv. þm. viti, að ef það verður búið áfram að þessu eins og hefur verið hingað til, þá verður þessi tilraun kannske ekki að neinu gagni og kannske verr farið en heima setið. Það getur farið svo, að sagt verði: Þetta gekk svo illa, að það varð að hætta, og það er enn ein sönnun fyrir því, að niðurlagning á síld á Íslandi á ekki rétt á sér. Og það virðist hreint og beint nú þegar vera farið að bóla á þessu sjónarmiði hjá hæstv. viðskmrh., og það af því, að fram hafa komið erfiðleikar við að selja afurðirnar. Kannske verður þetta drepið bara vegna þess, að það fáist ekki nægur kraftur í markaðsleitina, ekki fjármunir eða mannafli til þess að standa í henni, þó að við getum framleitt eins góða vöru og aðrir, jafnvel betri, og með samkeppnisfæru verði.

En ég segi enn: Þetta sjónarmið hæstv. ráðh. á engan rétt á sér. Það verður t.d. í þessu falli, með niðurlagningarverksmiðjuna á Siglufirði, þá verður að leggja verksmiðjunni fé, þannig að hún geti tekið á sig verulegan kostnað við markaðsöflun sem stofnkostnað, sem síðar verði afskrifaður eða þá bara tekinn sem tap. Ef meiningin er að reka þetta eins og venjuleg viðskipti, þá getur þetta alls ekki gengið. Það þarf að leggja í mikinn kostnað við að ryðja afurðunum til rúms.

Ég vildi nota þetta tækifæri til að ræða einmitt dálítið ýtarlega um þetta niðurlagningarmál, því að það er einmitt einhver allra gleggsta myndin af þessu vandamáli öllu saman, sem hægt er að skoða, einmitt þetta dæmi um niðurlagningarverksmiðjuna, sem er að gerast núna.

Og ég endurtek enn: Þarna er verksmiðja, sem sér fram á að geta framleitt alveg fyrsta flokks vöru og kannske betri en nokkrir aðrir og með samkeppnisfæru verði. Og þá er spurningin: Á að brjótast í því að reyna að selja þessa vöru eða ekki? Vilja menn ekki horfast í augu við, að það þarf stofnkostnað við söluna? Það er einn þáttur í stofnkostnaðinum við svona fyrirtæki að kynna vöruna, koma nýju vörunni inn á markaðina. Og þegar við athugum þessa reynslu niðurlagningarverksmiðjunnar, sem þarna er verið með, þá sjáum við, hvort það muni vera hægt að treysta eingöngu á einkaframtakið í þessu tilliti og hvort það opinbera muni geta látið að skaðlausu þessi mál afskiptalaus, eins og hæstv. ráðh. virðist í einhverri fljótfærni álíta. Nei, því fer alls fjarri.

Hæstv. ráðh. ræddi nokkuð um það hér á dögunum, að menn ættu að segja nákvæmlega, þegar þeir flyttu till., hvernig ætti að framkvæma þær, annars væru þær með öllu óhæfilegar. Ég ætla ekki að fara að taka að mér fyrir flm. þessarar till. að segja til um þetta. Ég efast ekkert um, að hann hefði getað gert skýra grein fyrir því, til viðbótar því, sem hann hefur þegar gert. En ég ætla samt aðeins að minnast á þetta, þótt sumt af því verði endurtekningar á því, sem ég hef áður sagt, minnast á örfá atriði — aðeins upptalning:

Það er fyrst, eins og ég er þegar búinn að benda á, það, sem ég kalla neyzlurannsóknir. Það þarf að framkvæma í enn ríkari mæli en enn hefur orðið neyzlurannsóknir í mörgum löndum. Þá eru markaðsrannsóknir. Það er óhugsandi að brjótast í gegn með framtíðarvörur okkar unnar til manneldis og sölu, nema þetta verði gert og það verði lagt fram mikið fjármagn í þessu skyni af opinberri hálfu. Enn fremur dreg ég ekki í efa, að við athugun muni koma í ljós, að það þurfi einnig að verja verulegu fé til framleiðslutilrauna. T.d. er það alveg víst, að ef niðurlagningarverksmiðjan á Siglufirði á að verða nokkur tilraun, sem hægt er að gefa það nafn, þá, þarf að leggja henni fé, til þess að hún geti tapað fyrstu árin eða réttara sagt: hún geti lagt í stofnkostnað við að vinna sínum vörum markað. Og þannig mætti nefna ótal dæmi um stuðning við framleiðalutilraunir, sem verða að geta komið til greina. Enn fremur þarf vitaskuld að setja niður nefnd eða starfshóp og vanda vel valið á þeim mönnum, sem til eru kvaddir, til þess að safna saman allri þeirri þekkingu, sem nú þegar er í landinu um þessi efni, bæði frá, síldarútvegsnefnd, síldarsattendum, einstaklingum, sem hafa gert tilraunir með nýjungar, niðurlagningarverksmiðjunni á Siglufirði. Sem sagt, það þarf bæði að rannsaka og safna saman upplýsingum, því, sem menn vita nú þegar um þessi efni, síðan draga ályktanir, reyna að finna, hvar skórinn kreppir, fá upplýsingar frá öllum aðilum, sem hér að standa, finna, hvar skórinn kreppir og hvar það opinbera þarf að hlaupa undir bagga. Og það er alveg augljóst af því, sem hæstv. ráðh. hefur sagt, að það er ekki sízt fyrir hæstv. ríkisstj. ákaflega mikil nauðsyn að safna þessari þekkingu þannig saman, svo að hægt sé að draga af henni ályktanir og stjórnin leiðrétti hugmyndir sínar.

Þá verður að gera áætlanir um stuðning við nýjungar í þessari grein, m.a. um það, hvernig tánastarfsemin eigi að vera, og er mér í því sambandi mjög ofarlega í huga, að Haraldur Böðvarsson upplýsti það í fyrra, að hann hefði missirum saman verið að reyna að kría út lán til þess að koma upp reykingu á síld, en árangurslaust fram að þeim tíma, sem hann greindi frá því í blöðunum. Nú má vera, að eitthvað hafi rætzt úr fyrir honum síðan, en við vitum, að lánastarfsemi til þessara mála er mjög í molum. Og þannig mætti vitanlega halda áfram að sýna fram á þá augljósu nauðsyn, sem á því er, að heildarathugun fari fram á þessum málum.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en ég vil aðeins taka undir það að lokum, sem aðrir hafa sagt, að það væri einnig mjög æskilegt, að athugun á því, hvað sé hægt að gera til að hagnýta betur síldaraflann, nái ekki aðeins til Suðurlandssíldar, heldur einnig þeirrar síldar, sem veidd er fyrir Norður- og Austurlandi.