19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

1. mál, fjárlög 1963

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Á þskj. 218, undir lið XVIII, hef ég ásamt hv. 1. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Norðurl. v. leyft mér að flytja brtt. við 22. gr. fjárlaganna. Sú till. er um það að heimila ríkisstj. að taka allt að 14 millj. kr. lán til að greiða kostnað við jarðgöng á Siglufjarðarvegi, þ.e.a.s. Strákavegi, sem stundum er nú kallaður Siglufjarðarvegur ytri.

Ég þarf í raun og veru ekki að fara mörgum orðum um þessa till. Það mál, sem hún lýtur að, er hv. alþm. þegar allvel kunnugt. Það hefur verið alloft á dagskrá hér á þingi áður í ýmsum myndum, án þess að það hafi hlotið viðunandi afgreiðslu.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Siglfirðingar hafa frá öndverðu búið við afar erfiðar samgöngur á landi. Því valda fyrst og fremst staðhættir. Fjörðurinn er umluktur háum fjöllum á þrjá vegu, og þar við bætast fádæma snjóþyngsli að vetri til, þannig að allar samgöngur á landi eru mjög miklum erfiðleikum bundnar. Þau samgönguvandræði urðu auðvitað sérstaklega bagaleg fyrir Siglufjörð, eftir að þar hófst mikill atvinnurekstur og Siglufjörður varð ein af aðalsíldveiðiverstöðvum hér á landi og eftir að fólki fjölgaði þar mjög mikið og eftir að fólk hvaðanæva af landinu fór að sækja þangað, sérstaklega um sumartímann. Á þessum samgönguvandræðum Siglfirðinga var nokkur bót ráðin, er nýr akvegur var gerður yfir svokallað Siglufjarðarskarð fyrir rúmum tveim áratugum. Það var þó þegar frá öndverðu ljóst, að sá vegur mundi verða ófullnægjandi, vegna þess að hann er aðeins fær yfir hásumarið. Það sýndi sig fljótt, að þessi vegur var algerlega ófullnægjandi, bæði vegna þess, hve hann var opinn skamman tíma, hve kostnaðarmikið var að reyna að halda honum opnum og hve viðhald á þeim vegi var kostnaðarsamt og hve hann er í raun og veru illfær yfirleitt og erfiður til aksturs, eins og þeir þekkja, sem yfir þann fjallveg hafa farið. Þess vegna var fyrir nokkrum árum horfið að því ráði að leita þarna að nýrri leið, þar sem hagkvæmara væri að leggja veg, og einkanlega þá með tilliti til þess, að vegurinn mundi haldast auður lengur og verða fær allt árið um kring. Ég rek ekki þá sögu hér, en niðurstöður þeirra rannsókna, sem þá fóru fram, voru þær, að valin var leið út svokallaða Almenninga um Dali og fyrir fjallið Stráka, en það er talið, að sú leið muni lengst af haldast fær yfir vetrarmánuðina.

Hv. Alþ. hefur viðurkennt þetta úrræði með því, að allmörg undanfarin ár hefur verið veitt — að vísu ófullnægjandi — upphæð á fjárlögum til þessarar vegagerðar. Í þessum vegi hefur því verið unnið nokkur undanfarin ár, og er hann nú kominn nokkuð áleiðis út á hina svokölluðu Almenninga. En öll er vegagerð þessi hin erfiðasta og verður kostnaðarsöm, en þó tekur út yfir, er kemur að hinu svokallaða Strákafjalli, vegna þess að þar þarf að gera jarðgöng í gegnum klettabelti, sem þar er um 900 metra að lengd. Þau jarðgöng eru langsamlega kostnaðarsamasta framkvæmdin á þessum vegi. Og það er alveg sýnilegt, að sú framkvæmd verður ekki gerð, nema til hennar sé tekið lán. Framkvæmdin er þess eðlis, að hana verður að gera í einu lagi, en hins vegar er ekki líklegt, því miður, og allra sízt þegar litið er til fjárveitinga hv. Alþ. á undanförnum árum til vegar þessa, að í einu og í fjárlögum fyrir eitt ár verði veitt sú fjárhæð, sem nægir til þess að koma þessum jarðgöngum á. Það er því öldungis víst, að þetta mál verður ekki leyst nema með lántökum, og það er þeim mönnum, sem þessum málum eru kunnugastir og mestan áhuga hafa á þeim, löngu orðið ljóst. Það hafa verið reyndar, eins og ég drap aðeins á í upphafi máls míns, ýmsar leiðir til þess að afla fjár til þessarar framkvæmdar. Bæði hafa verið fluttar hér á Alþ. till., sem hafa gengið í þá átt, að myndaður væri sérstakur sjóður, jarðgangasjóður, til þess að standa undir framkvæmdum sem þessum, og enn fremur hafa oftar en einu sinni verið flutt hér lagafrv., þar sem óskað hefur verið eftir heimild til handa ríkisstj. til þess að taka lán til þessara framkvæmda. En þessar till., í hvaða mynd sem þær hafa verið, hafa ekki náð fram að ganga til þessa.

Nú er enn þess freistað með þeirri till., sem hér liggur fyrir, að fá Alþ. til þess að veita ríkisstj. heimild til þess að taka lán í þessu skyni, allt að 14 millj. kr. Það er ekki lengur hægt að hafa á móti slíkri heimild á þeim grundvelli, að með því sé skapað fordæmi, vegna þess að það fordæmi er þegar skapað með stórfelldri lántöku vegna Keflavíkurvegar, sem ég vil ekki á nokkurn hátt telja eftir, en vil jafnframt undirstrika og leggja áherzlu á, að vissulega á þá jafnframt að líta á annarra þörf, og ég býst varla við, að það gerizt nokkur til þess að draga í efa þá hina miklu þörf, sem er á þeirri miklu samgöngubót, sem hér er um að tefla, fyrst og fremst fyrir Siglfirðinga, sem að sjálfsögðu hafa mestan áhuga á þessum vegi og hafa mestra hagsmuna að gæta í sambandi við þessa fyrirhuguðu vegagerð, en jafnframt líka fyrir allar sveitir í Austur-Skagafirði er þetta hið mesta hagsmunamál, og ég vil bæta við: í raun og veru fyrir landsmenn alla, því að það vita allir, að það eru margir, sem til Siglufjarðar sækja og hafa sótt á undanförnum árum í atvinnuleit. Og víst er um það, að á undanförnum árum hafa Siglfirðingar með sinni framleiðslu og sínu framlagi til útflutningsframleiðslu þessa lands lagt fram þann skerf, að vissulega eiga þeir skilið, að litið sé með velvilja og vinsemd á þeirra þörf. Og það er áreiðanlegt, að það eru Siglfirðingum sár vonbrigði, að þeir telja sig ekki hafa mætt fullum skilningi í þessu máli hér á hv. Alþ.

Það er alveg víst, að í þessu máli eru allir Siglfirðingar einhuga, hvar í flokki sem þeir standa. Þeim er það að sjálfsögðu öllum jafnmikið hagsmuna- og áhugamál að fá þennan veg, sem tengir hið einangraða byggðarlag þeirra við aðra hluta landsins, önnur héruð. Og að hér sé farið rétt með, sýnir og sannar það bezt, að til síðasta Alþ. var send áskorun, undirrituð af 785 kjósendum á Siglufirði, sem hljóðaði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirritaðir Siglfirðingar skora hér með eindregið á hv. ríkisstj. og Alþ, að tryggja nægjanlegt fé til að ljúka vegalagningu fyrir fjallið Stráka ásamt tilheyrandi jarðgöngum á næstu einu til tveim árum og rjúfa þannig þá einangrun, sem er helzt orsök fólksflótta úr Siglufirði og háir eðlilegum vexti og samskiptum Siglufjarðarkaupstaðar og sveitanna austast í Skagafirði.“

Og nú nýlega mun bæjarstjórn Siglufjarðar hafa gert ályktun um málið, sem mjög gekk í svipaða átt og þessi áskorun hinna 785 kjósenda á Siglufirði. Ég álit, að það sé naumast hægt, eins og á stendur og þegar litið er á allar kringumstæður, að daufheyrast með öllu við óskum þessara manna.

Við framsóknarmenn í Norðurlandskjördæmi vestra flytjum hér engar brtt. til fjárveitinga til vegagerðarframkvæmda í Norðurlandskjördæmi vestra, ekki af því, að þar sé ekki mikil, já, mjög mikil þörf fyrir aukið fé til vegaframkvæmda, heldur af hinu, að við viljum með því að flytja þessa einu till. um þetta eina vegagerðarmál í okkar kjördæmi leggja á það áherzlu, hve hér er um einstætt, sérstætt og stórt mál að ræða. Við viljum því taka það alveg sérstaklega út úr og flytjum brtt. um það eitt.

Ég leyfi mér að vænta þess, að þessi brtt. mæti skilningi hjá hv. alþm. og þeir sjái sér fært að greiða henni atkv., — greiða henni já atkv. Fljótt á litið kann að vísu að virðast, að hér sé um talsverða fjárhæð að tefla. En þegar málið er athugað og litið er til þess, hver önnur verðmæti t.d. má fá fyrir þá fjárhæð, sem hér er um að ræða, 14 millj, kr., t.d. eitt gott fiskiskip, þá verður það ljóst, að hér er ekki farið fram á mikið fyrir heilt byggðarlag, sem á í raun og veru sína framtíðarlífsafkomu undir því, að hér sé skörulega haldið á málum og þessi framkvæmd ekki látin dragast úr hófi fram hér eftir, heldur sé nú horfið að því að gera þessa framkvæmd. Ég vænti þess sem sagt, að hv. alþm, fylgt nú þessari till., svo að það þurfi ekki oftar að leita á náðir þeirra um lántökuheimild vegna þessara jarðganga. Að sjálfsögðu þarf svo fjárveitingar bæði til þess að standa undir þessu láni síðar svo og til að gera veginn að þessum jarðgöngum. Ég verð að segja það, að ég á ákaflega bágt með að trúa því, að hæstv. ríkisstj. þverskallist við jafneindregnum óskum og hér er um að ræða. Eins og nú standa sakir, þegar hæstv. ríkisstj. hefur fengið heimild til og hefur tekið allstórt framkvæmdalán í Bretlandi, þá er vissulega auðvelt fyrir hana að verða við óskum Siglfirðinga og miklu fleiri landsmanna í þessu efni. Ég lít svo á, að það hljóti að verða svo, að Siglfirðingum verði gefinn kostur á einhverjum hluta þessa láns. Og ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, af því að það er búið oft áður að tala um þetta mál hér á þingi, svo að ég veit, að hv. alþm. eru því mjög vel kunnugir. En ég vil ítreka það, að hér er vissulega ekki farið fram á óhóflega mikið og hér er um eitt hið allra mesta nauðsynjamál að ræða, vegna þess að ég fullyrði það, að ef ekki verður undinn bráður bugur að því að leysa þetta mál, þá verður það til þess, að margir Siglfirðingar hugsa til brottflutnings úr byggðarlaginu á næstu árum.