31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í D-deild Alþingistíðinda. (3288)

51. mál, misnotkun deyfilyfja

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það gefur auga leið, að á svo stuttum tíma sem liður, frá því að fyrirspurnir eru barnar fram og þeim skal svara, er ekki hægt að kanna ofan í kjölinn slíkt vandamál, svo viðurhlutamikið sem hér um ræðir. En ég hef fengið skýrslur um málið frá nokkrum embættismönnum, sem varpa 1 jósi yfir það, og hygg ég, að ég svari fyrirspurnunum bezt með því að lesa aðalefni þeirra upp, með leyfi hæstv. forseta.

Það er fyrst bréf frá landlækni, daga. 30. okt. 1982:

„Með bréfi ráðuneytisins, dags. 26. þ. m., er óskað umsagnar minnar við fyrirspurn til dómsmrh. varðandi misnotkun deyfilyfja hér á landi, er borin hefur verið fram á Alþingi.

Til svars bréfinu skal eftirfarandi tekið fram:

1) Í blaðaskrifum þeim, sem að undanförnu hafa orðið hér í bænum vegna misnotkunar „deyfilyfja“, hefur það orð verið notað í miklu víðtækari merkingu en venjulegt er og rétt þykir. Fræðilega er með deyfilyfjum átt við sérstakan flokk lyfja, sem eru verkja- og sársaukastillandi, en koma neytendum auk þess í annarlegt sæluástand. Til slíkra lyfja teljast t.d. morfín, ópíum, kókaín, heróín og petidín. Við langa notkun þeirra er jafnan hætt við, að neytendur verði smám saman alteknir af ástríðufullri ílöngun í þau, og má því nefna þau ástríðulyf (addiction producing drugs).

Einkenni lyfjaástríðu eru:

a) óviðráðanleg þörf til að halda áfram notkun lyfsins, b) tilhneiging til að auka skammtinn, c) sálræn og líkamleg undirokun af áhrifum lyfsins, d) óbærilegar þjáningar, þegar sjúklingur er sviptur lyfinu, svo að hann svífst einskis til að afla sér þess og verður því beinlínis hættulegur samfélaginu.

Um langan tíma hefur notkun þessara lyfja verið háð ströngu eftírliti í flestum menningarlöndum. og svo hefur verið hér um áratugi. Ávísanir á lyfin gilda aðeins í eitt skipti, og lyfjabúðum er skylt að færa afgreiðslu þeirra í sérstakar bækur, svonefndar eftirritunarbækur. Misnotkun þessara lyfja hefur aldrei orðið þjóðfélagslegt vandamál hér á landi, þó að einhver misnotkun þeirra sé óhjákvæmileg, svo fremi að þau séu yfirleitt notuð.

Auk hinna eiginlegu deyfilyfja er svo mikill fjöldi nýtilkominna efnasmiðjulyfja, sem einnig eru almennt nefnd deyfilyf, þó að ekkert eigi þau skylt við áðurnefnd lyf. Þessi lyf má einu nafni nefna ávanalyf (habituation producing drugs). Sum þeirra eru örvandi, t.d. amfetamín, dexamfetamín, rítalín, prelúdfn, fenmetrazín o.fl., önnur ráandi (tranquillizers), svo sem ýmiss konar barbftúrsýrulyf og fleiri lyf. Lyf þessi, notuð á viðeigandi hátt, eru mjög mikilvæg við meðferð ýmiss konar sálrænna truflana. Með þeim er fjölda einstaklinga, sem án þeirra mundu verða óvinnufærir að meira eða minna leyti eða valda vandamönnum sínum ómældum erfiðleikum, haldið vinnufærum og sambúðarhæfum á heimili. Óhófleg notkun slíkra lyfja veldur hins vegax ávana, og annarlegum viðbrögðum neytenda.

Einkenni lyfjaávana eru: a) ílöngun í lyfin vegna þægilegra verkana þeirra, en yfirleitt ekki óviðráðanleg þörf til að neyta þeirra, b) litil eða engin tilhneiging til að auka skammtinn, c) nokkur sálræn, en ekki líkamleg undirokun af áhrifum lyfjanna, og ekki líkamlegar þjáningar, þótt sjúklingur sé sviptur þeim. Slíkur sjúklingur er því ekki nándar nærri eins hættulegur samfélaginu og ástríðulyfjaneytandi.

Fram til þessa hefur óvíða verið fyrirskipuð skráning á þessum lyfjum, en hér á landi eru þó skráð í eftirritunarbækur amfetamín, dexamfetamín og rítalín. Ég sumum nágrannalöndum okkar (Bretlandi, Þýzkalandi) hefur verið leyfilegt að láta sum þessara lyfja út án lyfseðils fram á síðustu ár.

Ýmislegt virðist nú benda til þess, að misnotkun ávanalyfja fari vaxandi hér á landi, og er notkun sumra þeirra algeng í sambandi við áfengisneyzlu. Þess vegna hef ég tvívegis gert notkun þeirra að umræðuefni á erlendum læknaþingum (á fundi landlækna frá öllum Norðurlöndum í Stokkhólmi í aprílmánuði s.l. og í framkvæmdanefnd Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Genf í maí s.l.). Ekki var talið þar, að þetta vandamál væri svo almennt, að taka bæri til þess afstöðu á slíkum vettvangi. Þó er vitað, að á fyrstu árunum eftir síðustu heimsstyrjöld var ofnautn þessara lyfja algeng í Japan. Er það skv. skýrslum eina dæmið um, að stofnað hafi verið til sérstaks eftirlits með þessum lyfjum.

Erfitt er að gera sér grein fyrir því, hve mikið vandamál er hér um að ræða, á meðan ekki er vitað með vissu, hve mikið af ávanalyfjum er látið út úr lyfjabúðum né hve mikil brögð kunna að vera að ólöglegum innflutningi þeirra til landsins og dreifingu innanlands. Að því er varðar hið fyrra, hef ég þegar ritað öllum lyfjabúðum og lyfjainnflytjendum í landinu og óskað eftir greinargerð þeirra um innflutning lyfjanna s.l. 5 ár. Með þessum hætti ætti að vera hægt að fá rétta hugmynd um löglegan innflutning og notkun þessara lyfja og þá einnig um aukningu, ef um hana er að ræða. Þau erindi, sem varða ólöglegan innflutning og dreifingu og skrifstofa mín hefur fengið til meðferðar, hafa verið send réttum aðilum til frekari aðgerða. Enn fremur hafa fyrri blaðaskrif orðið til þess, að ég hef farið fram á rannsókn á grunsamlegri meðferð þessara lyfja.

Um aðrar gagnráðstafanir skal tekið fram, að ég hef þegar ritað öllum læknum landsins og áminnt þá um að gæta fyllstu varkárni í útgáfu lyfseðla á hvers konar ástríðu- og ávanalyf. Enn Fremur tel ég rétt að taka nú þegar upp skráningu fenmetrazins, enda þótt sumar lyfjabúðir hafi skráð það lyf undanfarið, og jafnframt að takmarka magn það, sem mest má láta úti hverju sinnt af því lyfi og nokkrum öðrum lyfjum. Hefur dómsmrn. þess vegna verið ritað og farið fram á breytingu á reglugerð um sölu lyfja (reglugerð nr. 273 frá 1950, 15. gr.). Ef í ljós kemur við áðurnefnda athugun á innflutningi, að sala á þessum lyfjum hafi aukizt óeðlilega undanfarin 5 ár, ber vitanlega að herða á eftirliti með henni, og kemur þá m.a. til álita, hvort framkvæmanlegt þyki að skrá öll þessi lyf í eftir ritunarbækur lyfjabúða, þótt það mundi kosta óhemju vinnu og ég viti þess hvergi dæmi í öðrum löndum.

2) Ef frv. það til lyfsölulaga, sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi, nær fram að ganga, tel ég, að fullnægjandi séu lagaákvæði um eftirlit með löglega innfluttum lyfjum, ávísunum á þau og notkun þeirra. Ég læt hins vegar öðrum eftir að dæma um, hvort fullnægjandi séu ákvæði annarra laga, sem koma eiga í veg fyrir ótöglegan innflutning, dreifingu og sölu, svo og refsiákvæði gegn slíku athæfi.

Sigurður Sigurðsson.“

Ég vil taka það fram, að ég hef þegar gert ráðstöfun til þess, að gerð verði sú reglugerðarbreyting, sem landlæknir hefur gert till. um.

Þá er hér bréf frá lögreglustjóranum í Reykjavík, dags. 29. okt. 1962:

„Hið háa ráðnuneyti hefur með bréfi, dags. 26. þ. m., óskað umsagnar minnar um fyrirspurn þá um misnotkun deyfilyfja hér á landi; sem lögð hefur verið fram á Alþingi.

Í tilefni þessa vil ég leyfa mér að taka fram eftirfarandi:

Eigi liggur fyrir heildarskýrsla um tölu þeirra mála, er snerta ofneyzlu deyfi- eða örvunarlyfja og lögreglan hefur haft afskipti af. Umsögn mín byggist því á einstökum lögregluskýrslum og dagbókarfærstum, svo og upplýsingum frá þeim varðstjórum hér við embættið, er yfirheyra aðila þá, sem hlut eiga að máli.

Á síðastliðnum árum hefur það greinilega færzt í vöxt, að lögreglan þurfi að hafa afskipti af fólki, sem er miður sín vegna ofneyzlu deyfi- eða örvunarlyfja af ýmsum tegundum. Ekki er þó um að ræða neytendur morfíns, ópíums, kókaíns, heróíns né annarra eiturlyfja á borð við þau, heldur vægari deyfi- eða örvunarlyfja. Hefur lögreglan ekki orðið vör við áberandi ofneyzlu hinna sterkari lyfja.

Eins og áður segir, liggja ekki fyrir heildartölur um mál þau, sem hér um ræðir, enda erfitt að vinna slíkar tölur á fullnægjandi hátt úr gögnum þessa embættis. Málin fara yfirleitt til framhaldsrannsóknar til embættis yfirsakadómara, en auk þess er lyfjanotkunin aðeins eitt af fleiri atriðum, sem fram koma við rannsókn brots. Skv. upplýsingum frá starfsmönnum mínum tel ég þó óhætt að fullyrða, að lögreglan þurfi að lafnaði oftar en einu sinni á viku að hafa afskipti af mönnum, sem eru undir áhrifum framangreindra lyfja. Afskipti lögreglunnar eru ýmist vegna þess, að viðkomandi aðili er hjálpar þurfi eða grunaður um að hafa framið refsiverðan verknað.

Oftast verður lögreglan vör við neyzlu umræddra lyfja hjá ofdrykkjumönnum, sem af sjúkleika sínum hafa leiðzt til ofnotkunar þeirra. Er ekki ótítt, að ofdrykkjumenn, sem færðir eru í fangageymslu, hafi í fórum sínum notaða lyfseðla eða tóm glös undan ýmiss konar deyfi- eða örvunarlyfjum. Bendir þetta til þess, að vandamál í sambandi við neyzlu umræddra lyfja sé að verulegu leyti í sambandi við óhóflega notkun áfengis. t nokkrum tilfellum hafa lögreglumenn grunað ökumenn um að vera undir áhrifum áfengis við akstur bifreiða, en nánari athugun hefur leitt í ljós, að um ofneyzlu deyfi- eða örvunarlyfja hefur verið að ræða. Í því sambandi er rétt að benda á, að það er vandi vandamál fyrir lögreglu og dómstóla, hversu erfitt er að fá fullnægjandi læknisfræðilega rannsókn á þeim, sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum deyfi- eða örvunarlyfja. Er mér tjáð af borgarlækni, að til slíkrar rannsóknar þurfi bæði sérmenntun, sem læknar hér hafi yfirleitt ekki, og sérstök rannsóknartæki.

Alloft kemur fyrir, að lögreglan er kvödd á heimili hér í borginni vegna erfiðleika í sambandi við ofneyzlu deyfi- eða örvunarlyfja. Verður stundum að láta í té lögregluvörð um stundarsakir til þess að koma í veg fyrir, að viðkomandi aðili fari sjálfum sér eða öðrum að voða eða haldi áfram neyzlu lyfjanna. Einnig eru þess nokkur dæmi, að lögreglan hafi fundið fólk ósjálfbjarga eða sofandi á almannafæri vegna ofneyzlu deyfilyfja. í ýmsum tilfellum hefur lögreglan flutt deyfilyfjaneytendur á Slysavarðstofuna til skjótrar læknismeðferðar. Skylt er að geta þess, að nokkrir borgarar hafa komið til mín til viðræðna um vandamál aðstandenda sinna, sem hneigjast að ofneyzlu umræddra lyfja.

Framangreindir varðstjórar hér við embættið telja, að meginhluti þeirra lyfja, sem misnotuð hafa verið á þann hátt, að til kasta lögreglunnar komi, séu keypt í lyfjabúðum hér í borginni. Styðst sú skoðun þeirra við það, að mjög margir af þeim, sem lögreglan hefur afskipti af vegna ofneyzlu umræddra lyfja, eru með lyfseðla eða pilluglös merkt lyfjabúðunum hér. Hafa varðstjórarnir tjáð mér, að tiltölulega lítill hópur lækna gefi út áberandi marga af þeim lyfseðlum, sem hér um ræðir. Enn Fremur telja þeir, að einhverju magni deyfi- eða örvunarlyfla sé smyglað inn í landið frá þeim stöðum í útlöndum, þar sem ekki þarf lyfseðil til innkaupa. Loks eru dæmi þess, að menn hafi falsað lyfseðla til þess að svíkja út umrædd lyf, brotizt inn í lyfjabúð til þess að stela þeim, og jafnvel hefur komið fram við yfirheyrslur, að lyfin hafi fengizt í egnum kunningsskap við starfsfólk lyfjabúða.

Telja verður með hliðsjón af framanrituðum upplýsingum, að vaxandi noktun deyfi- og örvunarlyfja sé vandamál, sem þarfnist athugunar sérfróðra manna. Er eigi ólíklegt, að endurskoðun gamalla lagaákvæða og aukið eftirlit gæti dregið úr ofneyzlu umræddra lyfja.

Sigurjón Sigurðsson.“

Þá er það bréf frá yfirsakadómaranum í Reykjavík, dags. 29. okt. 1962:

„Eftir móttöku bréfs hins háa ráðuneytis, dags. 26. þ. m., þar sem óskað er umsagnar minnar um tvær fyrirspurnir varðandi misnotkun deyfilyfja hér á landi, sem lagðar hafa verið fram á Alþingi, vil ég taka eftirfarandi fram:

1) Rannsóknarlögreglan hefur haft það sem af er þessu ári allmikil afskipti af mónnum, sem í óhófi hafa virzt neyta róandi eða örvandi lyfja, og er ekki annað að sjá en málum þessum hafi fjölgað talsvert frá fyrra ári og þá einnig frá næstu árum þar á undan. Yfirlit (statistik) um fjölda mála og manna, þar sem þessi lyf hafa komið við sögu, er ekki til hér við embættið, og mjög erfitt mun að gera slíkt yfirlit, enda kemur alloft fram í rannsókn mála, sem varða hin óskyldustu efni, um notkun manna á greindum lyfjum, t.d. í rannsókn mála um ætlaðan ölvunarakstur, um þjófnað, um skjalafals, um dauðsföll o.fl. Einnig ber við, að menn, sem handteknir hafa verið á, almannafæri, hafa reynzt vera undir áhrifum lyfja, en ekki áfengis. Vegna notkunar örvandi eða deyfandi lyfja, án þess að um önnur atriði hafi verið að ræða, hefur rannsóknarlögreglan þurft á þessu ári að taka skýrslur í um 20 tilvikum. Tveir menn hafa verið látnir sæta sektum fyrir ólöglegan innflutning og sölu á örvandi lyfi, amphetamine. Ákæru hefur verið frestað að því er varðar fölsun konu nokkurrar á lyfseðli fyrir róandi lyfi. Í rannsókn er sams konar mál tveggja manna. Nú er hér til rannsóknar mál manns nokkurs, sem grunur hefur leikið á að selji slík lyf. Við húsleit hjá honum fannst talsvert magn lyfja þessara.

Þá kemur fyrir, að fólk snúi sér til embættisins hér vegna óhóflegrar notkunar ættingja og venzlamanna á lyfjum þessum, og af þessum sökum hefur orðið að vista menn í hegningarhúsinu.

Í langflestum tilvikum hata neytendur lyfjanna fengið þau úr lyfjabúðum eftir lyfseðlum útgefnum af læknum, sbr. að framan að því er varðar falsaða lyfseðla og ólöglegan innflutning, en því er ekki að leyna, að þeir rannsóknarlögreglumenn, sem um mál þessi hafa mest fjallað og eru þeim kunnugastir, telja frá leikmannssjónarmiði séð marga lækna allósínka á útgáfu lyfseðla fyrir lyfjum þessum. Má ætla, að rannsókn sérfróðra manna á máli þessu mundi varpa skýrara ljósi á, hvernig háttað er með neyzlu þeirra.

Ég læt fylgja hér með lista yfir þær lyfjategundir, sem teknar hafa verið af mönnum og eru í vörzlu rannsóknarlögreglunnar.

2) Mér er ekki kunnugt um nein lagaákvæði, sem leggja refsingu við neyzlu manna á örvandi eða deyfandi lyfjum. Séu þau ólöglega flutt inn til landsins, varðar slík háttsemi við ákvæði laga um tollheimtu og tolleftirlit, nr. 68 1956, 1. mgr. 38. gr., sbr. 4. mgr. að því er upptöku varningsins snertir. Um óheimila sölu lyfja virðast gilda ákvæði í tilskipun um tækna og lyfsala frá 4. des. 1672, 30, og kansellíbréf (til stiftamtmanns) um lyfjasölu frá 16. sept. 1798. Ákvæði þessi eru að sjálfsögðu orðin allúrelt og refsingar eftir þeim vægar. Þá er og ástæða til að neina lög nr. 14 1923, um tilbúning og verzlun með ópíum o.fl.

Í III. kafla (um skottulækningar) laga nr. 47 1932, um lækningaleyfi, um réttindi og skyldur lækna og annarra, sem lækningaleyfi hafa, og um skottulækningar, eru ákvæði um ýmsum á lyf og sölu þeirra í 4. og 5. tölulið 15. gr., sbr. 1. tölulið, en refsiákvæði eru í 18. gr. laganna, sbr. við 268. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19 1940.

Logi Einarsson.“

Loks er bréf frá saksóknara ríkisins, einnig dags. 29. okt. 1962. Þar eru fyrst rakin nokkur, ekki mjög mörg mál, þar sem komið hefur til ákvörðunar saksóknara um málshöfðun og slík lyf að einhverju leyti skipta máli. Þar er um einstök mál að ræða, og ég tel ekki hlýða og engan að bættari, þó að sá kafli bréfsins sé lesinn hér upp. En niðurlag bréfsins hljóðar svo, og það er niðurstaðan, sem skiptir öllu máli, en hitt er, eins og ég segi, frekar sakaskrá, sem óþarft er að kynna Alþingi, en menn geta fengið að lesa hver og einn, ef þeir vilja og hafa löngun til:

„Eins og sjá má af því, sem nú hefur verið rakið, fjalla þessi mál um hin svonefndu „deyfilyf“ og misnotkun þeirra. mál út af smygli raunverulegra eiturlyfja eða misferli með slík lyf hafa eigi komið hingað, og er mér eigi kunnugt um, að neitt slíkt mál sé nú til meðferðar fyrir dómstólum eða lögreglu.

Rannsóknir deyfilyfjamálanna fara eftir venjulegum réttarfarsreglum, og virðist eigi vera ástæða til breytinga í því efni.

Þar sem lyf þessi eru fyrirferðarlitil, er án efa vandkvæðum bundið fyrir tollgæzluna að finna þau, sé reynt að smygla þeim inn í landið, en erfitt er að koma auga á, hvernig við slíku verði séð öðruvísi en nú er, svo að komið verði í veg fyrir, að viðleitni til slíks smygls beri árangur. Verður í því efni að treysta árvekni og glöggskyggni tollgæzlunnar.

Refsimörk laga nr. 68/1956, um tollheimtu og tolleftirlit, eru svo rúm, að fullnægjandi hljóta að teljast í þessu tilliti. Meginatriði úrbóta í málum þessum virðist að minni hyggju vera það, að læknar gæti framvegis mun meiri varúðar en nú um skeið undanfarið við útgáfu ávísanaseðla á lyf þessi.

Fyrirspurnin endursendist hér með.

Valdimar Stefánsson.“

Ég hygg, að þessi gögn sýni, að máli þessu sé ekki hreyft að ófyrirsynju. Hitt er Ljóst, að það þarf frekari rannsóknar við, áður en menn geta til fulls gert sér grein fyrir, hversu vandamálið er víðtækt og hvort þörf er á sérstakri löggjöf af þeim sökum. Ég vil taka það fram, að ég hef þegar óskað eftir skýrslu um þá lækna, sem lögregluvarðstjórar eiga við með þeim ummælum, sem ég las hér upp áðan, og hefur mér borizt hún frá embætti lögreglustjóra. Ég mun tafarlaust láta hana fara til landlæknis, og hann mun þá rannsaka, að hve miklu leyti þar er hægt að festa hönd á og um raunverulega misnotkun eða tortryggilega ofveitingu lyfseðla er að ræða. En ég hygg, að það komi fram af þessum gögnum, að málið er nú þegar í fullkominni rannsókn, og að svo miklu leyti sem í mínu valdi stendur, þá mun ég gera allt, sem ég get, til þess að þessi ófögnuður verði stöðvaður, því að ég er sammála öllum öðrum, — þarf raunar ekki að taka það fram, — að hér er um ófagnað að ræða, sem við verðum að gera allt, sem við getum, til að forða okkar þjóð frá.