06.03.1963
Sameinað þing: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (3346)

171. mál, brú yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgmrh. fyrir greinargóð svör, og ég fagna því að hafa heyrt það, að nokkur undirbúningsvinna hefur farið fram þegar í vetur og að fyrirhugað er að halda því áfram í sumar, svo að væntanlega er ekki langt undan að fá úr því skorið, hvort lagt verður í þessar framkvæmdir eða ekki. Það þarf ekki að minna á þá þýðingu, sem þessi byggðarlög, Eyrarbakki og Stokkseyri, hafa fyrr meir haft fyrir Suðurlandsundirlendi sem verzlunarmiðstöð og útgerðarstöð. Ýmsar opinberar ráðstafanir hafa verið gerðar síðustu áratugina, sem hafa eflt nýja þungamiðju á þessu sviði, en frá þessum fyrri tíma eru á Stakkseyri og Eyrarbakka margvísleg verðmæti, bæði frá þeim tíma og síðar, og það er nú einu sinni svo, að það er bágt að standa í stað og annaðhvort munar eitthvað aftur á bak eða nokkuð á leið. Ég vil því alveg sérstaklega fagna þeim ummælum ráðh., að hann tók undir það sjónarmið, sem kom fram hjá mér, að a.m.k., ef ekki yrði af þessu mannvirki, þá yrði nauðsynlegt að gera aðrar ráðstafanir til eflingar þessum byggðarlögum, og nefndi þar einmitt lendingarbætur, eins og ég hafði að vikið. — Ég þakka fyrir svörin.