13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í D-deild Alþingistíðinda. (3364)

251. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Jón Árnason:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem fram hafa farið varðandi dragnótaveiðar í Faxaflóa undir vísindalegu eftirliti, vildi ég aðeins segja nokkur orð.

Á þskj. 282 hef ég leyft mér að bera fram frv. til l. um breyt. á l. nr. 40 frá 1960, um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands undir vísindalegu eftirliti. Efni þess frv. felur það í sér, að dragnótaveiðar verði með öllu bannaðar í Faxaflóa.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í hvert skipti, sem útfærsla landhelginnar hefur átt sér stað eða aukin friðun á fiskimiðunum með þau veiðarfæri, sem valda mestu tjóni á ungfiskinum, en það eru tvímælalaust dragnótaveiðar og hvers konar botnvörpuveiðar, þá hefur það haft veruleg áhrif til aukningar á fiskistofnum á öllum grunnmiðum umhverfis landið. Þessi staðreynd kemur glöggt fram í bréfi og skýrslum, sem atvinnudeild háskóla Íslands, fiskideildin, skrifar til sjútvmrh. eða sjútvmrn. þann 5. nóv. 1958. Það, sem mest er áberandi og talar skýrustu máli um þá hagstæðu þróun, sem á sér stað undir þeim aðstæðum, sem skapast við friðunina, er, að hvort tveggja fer saman aukin fiskmergð eða fjöldi fiska á hvern togtíma, auk þess sem meðalþyngd fisksins hefur stóraukizt. Þeir menn, sem gerzt hafa harðastir talsmenn dragnótaveiðanna, hafa fært sem rök fyrir sínu máli, að gífurlegt magn sé á fiskimiðunum af ýmiss konar flatfiski, sem verði ekki veiddur með nokkrum árangri með öðru veiðarfæri en dragnót eða botnvörpu. Það kom og skýrt í ljós við þær umr., sem fram fóru hér á Alþingi 1960, þegar lögfest var að nýju heimild um takmarkað leyfi til dragnótaveiða í fiskveiðilandhelginni undir vísindalegu eftirliti, að það var ótvíræð skoðun þeirra dragnótarmanna, að flatfiskurinn lægi jafnvel í lögum hver ofan á öðrum á sjávarbotninum og bíði þess eins að verða ellidauður.

Það ber vissulega að viðurkenna, að flatfiskurinn er bæði verðmikil útflutningsvara og hagnýting hans í fiskiðjuverum landsins skapar mikla atvinnu. En hitt ber einnig að hafa í huga, að sá góði fiskur getur verið keyptur of dýru verði, ef ekki reynist unnt að hagnýta aflann með öðrum hætti en nota til þess veiðarfæri, sem miskunnarlaust tortíma uppfæðingi annarra nytjafiska, sem allt til þessa hafa verið traustari uppistaða í þeim sjávarafla, sem íslenzka þjóðin hefur um aldir byggt líf sitt og afkomu á. Sú reynsla, sem þegar er fengin af dragnótaveiðunum, sýnir, að því fer víðs fjarri, að uppistaðan í afla dragnótabátanna, sé flatfiskur. Kemur það skýrt fram í þeim athugunum, sem atvinnudeild háskólans, fiskideildin, hefur gert og fram kom í þeirri skýrslu, sem hæstv. ráðh. las hér áðan. Á árinu 1961 er heildarafli dragnótabátanna hér, eins og þar segir, 7717 tonn. En það er eftirtektarvert. hvernig skiptingin er. Af afla þessum eru 3800 tonn þorskur, 2268 tonn ýsa, en aðeins 650 tonn skarkoti eða flatfiskur, en annar fiskur er þá tæplega 1000 tonn. Af þessu er ljóst, að ef dragnótabátarnir ættu að byggja afkomu sína á skarkolaveiðunum, nægði það hvergi nærri til þess að ná endunum saman.

Til þess að gera dragnótaveiðarnar hættuminni fyrir uppfæðinginn en ella er möskvastærð nótarinnar ákveðin samkv. reglugerð af ákveðinni lágmarksstærð, og er þá ætlað, að allur smæsti fiskurinn sleppi þar í gegn. Það er hins vegar staðreynd. að þrátt fyrir öll slík ákvæði er um óhemjumagn að ræða af smáfiski, sem kemur upp í nótinni og síðan er mokað steindauðum í sjóinn aftur. Um þetta ber öllum sjómönnum saman og þeim, sem staðreyndir vilja viðurkenna í þessum efnum.

Í bréfi atvinnudeildar Háskóla Íslands til sjútvn. Ed. Alþingis nú þann 11. þ. m. í sambandi við umsögn deildarinnar um það frv., sem ég í upphafi minntist á, kemur það m.a. fram, að nú s.l. 2 ár hefur þorskafli í tilraunaveiði að sumarlagi á Bollasviði og í Garðsjó hér í Faxaflóa verið allmiklu minni en hann var árin á undan, meðan dragnótin var enn ekki leyfð. Í þessu sambandi benda fiskifræðingarnir á, að þetta muni stafa að miklu leyti af breytilegum fiskigöngum og sé því hætt við, að fáar veiðitilraunir gefi ekki alls kostar rétta mynd. Þetta kann vel að vera. Hins vegar liggur fyrir það álit hjá fiskimönnum þeim, sem veiðar stunda í flóanum, að fiskimagnið, sem nú er í Faxaflóa eða hefur verið sérstaklega hin tvö síðari ár, sé að miltlum mun minni en það var áður, þegar dragnótaveiðarnar voru leyfðar. Þessi niðurstaða, sem rannsóknirnar í Faxaflóa hafa leitt í ljós um hinn allmiklu minni þorskafla, sem nú er fyrir hendi, tel ég að séu enn þá athyglisverðari, þegar það er haft í huga, að þessir sömu menn, eða a.m.k. annar þeirra, hafði spáð því fyrir vertíðina 1962, að þorskaflinn, sem þá gengi að ströndum landsins, mundi verða a.m.k. 40% meiri en hann var á árinu næst á undan. Það finnst mér vera athyglisvert, þegar þetta skeður, á sama tíma sem spá þessara manna kveður á um, að aflinn muni aukast svona. Samt sem áður á þetta að vera í beinu sambandi við fiskigöngurnar.

Þegar rætt er um og teknar til athugunar þær tölur, sem fyrir hendi liggja varðandi þorskstofninn, sem er hér í Faxaflóa og annars vegar er veiddur í dragnót og hins vegar er veiddur á línu, þá ber að hafa það í huga, að mjög mikið af þeim afla, sem á land er dreginn, sérstaklega af línubátunum, er veiddur langt fyrir utan landhelgislínuna, langt fyrir utan Faxaflóa. Línuveiðarnar geta ekki nú byggzt á þeirri veiði, sem bátarnir geta fengið í flóanum sjálfum, eins og algengt var hér áður, því að þá var yfirleitt ekki róið nema 2–3 klst. frá landi. Nú dugir ekki sólarhringurinn í róðurinn, vegna þess að það þarf að sækja fiskinn út í hafsauga. Þess vegna er það ekki að því leyti rétt, að sá fiskur, sem er talinn með í veiðinni hjá, línubátunum, er raunverulega veiddur langt fyrir utan Faxaflóa, og það ættu fiskifræðingarnir bezt að þekkja.

Það er líka eftirtektarvert í því bréfi, sem hæstv. ráðh. las hér áðan, að þessi geysilegi munur skuli hafa getað átt sér stað á jafnskömmum tíma og hér um ræðir, að 1956 kemur það í tjós, að það fást 800 fiskar af ýsu í einum togtíma. en á s.l. sumri er þetta komið hjá fiskifræðingunum niður í 146 fiska. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar og tölur, sem tala skýru máli um, hvernig hér er komið.

Ég vil að lokum segja það, að með hliðsjón af því, að mál þetta, hvað Faxaflóa við kemur, verður til umr. hér á hv. Alþingi í sambandi við afgreiðslu á þskj. 282, þá sé ég ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að orðlengja frekar að sinni um mál þetta.