19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

1. mál, fjárlög 1963

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt nokkrum öðrum þm. tvær till., og er önnur till. á þskj. 210, nr. IX. Hún er flutt af mér ásamt 4. þm. Vestf. og hv. 4. landsk. Ég ætla að mæla fyrir þessum till. með nokkrum orðum, en mér sýnist nú svo fáir þm. til að sannfæra, að það er þýðingarlaust að hafa þetta langt mál.

till., sem er á þskj. 210, er þess efnis, að framlag til ferjubryggna verði hækkað upp í 800 þús., þar af til Óspakseyrar og Borðeyrar 300 þús. kr. á hvorn stað.

Það hefur færzt í þá átt undanfarið, að ferjubryggjur hafa verið byggðar fyrir ríkisfé eingöngu. Hefur þetta verið gert á stöðum, þar sem ekki er fjármagn fyrir hendi heima fyrir til þess að leggja á móti, og á stöðum, þar sem bryggju hefur verið þörf til þess að flytja að og frá vörur sjóleiðis. Á Óspakseyri og Borðeyri hagar þannig til um flutninga, að verulegt magn af þeim vörum, sem eru fluttar til staðarins og frá, er flutt á sjó. Og þetta mundi vera miklu meira, ef aðstaða væri betri en hún er nú. Nú er aðstaða þannig, að hvað litið skip sem kemur með varning eða flytur varning frá þessum stöðum, verður að skipa upp og fram í bátum, án þess að það sé nokkur bryggjusporður til þess að leggja bátunum að. En aðstaðan til bryggjugerðar á þessum stöðum er mjög góð og það mundi ekki kosta mikið fé að gera þarna sæmilegar bryggjur, sem strandferðaskip af minni gerð og flóabátar gætu lagzt við, og væri það til mikilla hagsbóta fyrir þessa staði. Báðum þessum stöðum er þannig háttað, að þeir fullnægja að öllu leyti þeim skilyrðum, sem fyrir hendi þurfa að vera, til þess að þessi framkvæmd sé gerð, samkv. þeim meginreglum, sem fylgt hefur verið, þegar slíkar bryggjur hafa verið gerðar. Það er þess vegna sanngirnismál, að þessir staðir fái nokkurt framlag til þeirrar bryggjugerðar, og á þeim rökum er till., sem hér er flutt, reist. Ég vænti þess, að hv. þm. geti fallizt á það, að þessi till. sé réttmæt.

Hin till. er á þskj. 218, XIX. till., við 22. gr. Till. flytja ásamt mér 5 þm. af Vestfjörðum og Austfjörðum ásamt 4. landsk. þm. Í till. þessari er lagt til, að lán verði tekið, 9.5 millj., til vegagerðar á Vestfjörðum og Austfjörðum, eftir því sem nánar er tilgreint í till.

Þetta mál, vegagerð á Vestfjörðum og Austfjörðum, hefur verið svo mikið rætt hér á Alþingi, að það er óþarfi að reifa það í löngu máli fyrir hv. þm. Fyrir liggur, svo að ekki verður um deilt, að Vestfirðir og Austfirðir hafa verið afskiptir um vegagerð umfram alla aðra landshluta. Fé hefur að vísu verið veitt á fjárl. til vegagerðar á þessum stöðum fullkomlega móts við það, sem lagt hefur verið til vegagerðar annars staðar á landinu, og vel það. En vegna mikilla vegalengda og landslags, sem er erfitt til vegagerðar, hefur tiltölulega stórum minna orðið ágengt um vegabætur á þessum stöðum en annars staðar í þessu landi. Af þessum ástæðum búa Austfirðir og Vestfirðir við allt önnur vegaskilyrði og verri en þeir, sem annars staðar búa í þessu landi. Margendurtekin reynsla sýnir og sannar, að þetta misrétti verður ekki leiðrétt með beinum fjárveitingum á fjárl. Til þess að rétta hlut þessara tveggja kjördæma þarf svo háa fjárveitingu, að hún fæst ekki samþ., vegna þess að með þeim vinnuaðferðum telja þm. annarra kjördæma um of skertan sinn hlut og sinna umbjóðenda.

Eina leiðin, sem er fær í þessu máli til þess að leiðrétta misréttið, er lántaka. Sú aðferð virðist bæði eðlileg og réttmæt. Fordæmi eru tvö fyrir hendi, annað svipað, hitt hliðstætt. Margar millj. eru nú teknar árlega með benzínskatti og lagðar í brúasjóð. Þetta er gert til þess að safna fé í sjóð til að brúa stórárnar. Ekki þótti fært að taka fjárveitingar til brúa á stórfljótin inn á fjárlög sem fjárveitingu til einstakra kjördæma. Þess vegna var þetta m.a. gert. Vestfirðir hafa aldrei fengið neitt fé úr brúasjóði, en það má sannarlega telja fjallgarðana á Vestfjörðum og Austfjörðum svipaðar torfærur og stórfljótin, og öll sanngirni mælir með því, að báðum þessum vandamálum, brúun stórfljótanna og vegagerð yfir erfiða fjallvegi, sé mætt með svipuðum ráðstöfunum.

Hin hliðstæðan er lánið, sem á að taka í steinsteyptan veg til Keflavíkur. Það fordæmi er algerlega hliðstætt þeim ráðstöfunum, sem hér er gert ráð fyrir að gera. Um þennan veg er bifreiðaumferð svo mikil, að venjulegir malarvegir þola hana ekki. Ekki þykir fært að veita fé úr ríkissjóði, því að fjárhæðin er svo há til þessarar vegagerðar, eins og hv. þm. er kunnugt. Þess vegna er sú leið valin að taka lán til framkvæmdanna, um 80 millj. kr. Þetta er sannarlega nauðsynleg framkvæmd. En hvaða sanngirni mælir með því, eftir að lánaleiðin hefur verið farin í svo stórum stíl, að neita Austfjörðum og Vestfjörðum um hliðstæða fyrirgreiðslu, þó ekki hliðstæða að því leyti, að ekki er um eins háa fjárhæð að ræða, ekki til þess að leggja malbikaðan eða steyptan veg, heldur til þess að gera vegi, þar sem nú eru algerar ófærur og ekki fært bifreiðum, gera við vegi, sem eru oftast nær lítt færir, og leiðrétta misrétti, sem enginn þm. hefur mótmælt, að þarna hafi átt sér stað.

Ég sagði í upphafi máls míns, að ég mundi ekki tala langt mál fyrir þessum till., og ég held, að ég láti þessi rök nægja. Ég vil vona í lengstu lög, að þm. hv. geti fallizt á að samþykkja þessar tillögur.