17.12.1962
Efri deild: 30. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

4. mál, ráðherraábyrgð

Frsm. meiri hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Stjórnarskráin segir, að ráðherra beri ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum og ráðherraábyrgð sé ákveðin með lögum. Þessi ákvæði stjórnarskrárinnar hafa hér hjá okkur verið skilin á þann veg, að það þyrfti að hafa sérlög um ábyrgð ráðh. Og sérstök lög um það efni voru sett mjög skömmu eftir eða raunar þegar eftir að þessi ákvæði komust inn í stjórnarskrána. Þau lög, sem þá voru sett, nr. 2 frá 1.904, hafa síðan gilt hér um ráðherraábyrgð, en þau eru miðuð við það ástand, þegar ráðh. var hér einn, og eiga þess vegna, a.m.k. samkv. orðum sínum, ekki að öllu leyti vel við, eftir að ráðh. hefur fjölgað. Þau lög hafa einnig að sumu leyti þótt talsvert gölluð, þó að á þá vankanta þeirra hafi aldrei reynt í framkvæmd, eins og kunnugt er, þar sem hér á landi hefur aldrei verið höfðað mál á hendur ráðh. fyrir landsdómi og ráðh. því aldrei sóttur til ábyrgðar samkv. ráðherraábyrgðarlögum.

Þegar ákveðin var endurskoðun landsdómsl. samkv. þál. samþ. hér á Alþingi, var af ríkisstj, eða hæstv. dómsmrh. ákveðið, að samtímis skyldu endurskoðuð lögin um ráðherraábyrgð. Það frv., sem hér liggur fyrir, er árangur þeirrar endurskoðunar. Það má segja um það, að það sé í meginatriðum byggt á svipuðum sjónarmiðum og núgildandi ráðherraábyrgðarlög, og er í þessu frv. ekki um veigamiklar breyt. að ræða frá. núgildandi ábyrgðarlögum, en þó eru þar að vísu nokkrar breyt. og einkanlega er reynt að gera reglurnar um það efni fyllri og þá alveg sérstaklega það, hvenær ráðh. verði ábyrgur fyrir stjórnarathöfnum. Samkv. þessu frv. getur ráðherraábyrgð komið til greina með fernum hætti. Það er kveðið á um það, hver ráðh, beri ábyrgð hverju sinni vegna embættisathafna forseta Íslands. Það er í öðru lagi að sjálfsögðu svo, að ráðh. ber ábyrgð á þeim embættisathöfnum, sem hann gerir í eigin nafni. Í þriðja lagi er svo reynt að ákveða það eða afmarka, hvenær ráðh. geti orðið ábyrgur vegna hlutdeildar í embættisbrotum sinna samráðh., og svo í fjórða lagi, hvenær hann getur orðið ábyrgur vegna athafna eða vanrækslu sinna undirmanna. Reglurnar um þessi tvö síðasttöldu atriði eru nýjar í þessu frv., þar sem hliðstæðar reglur er ekki að finna í gildandi lögum um ráðherraábyrgð.

Það geta sjálfsagt verið skiptar skoðanir um, hvort það sé í sjálfu sér þörf á sérstökum lögum um ráðherraábyrgð. En um hitt verður ekki deilt, að á þá lund hefur stjórnarskráin hér verið skilin, þannig að það verður að álita, að það sé skylt, að þessi sérstöku lög um ábyrgð ráðh. séu til. Og með þá staðreynd í huga hefur meiri hl. allshn., 4 af 5, orðið sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. Einn nm. skilar hins vegar séráliti og gerir væntanlega grein fyrir því hér á eftir.