17.12.1962
Efri deild: 30. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

4. mál, ráðherraábyrgð

Dómsmrh, (Bjarni Benediktssen):

Herra forseti. Eins og ég sagði við 1. umr. þessa frv., tel ég, að það fjalli ekki um ýkjaraunhæft efni, og ég er sammála hv. frsm. minni hl. um, að ég tel ekki æskilegt, að sá háttur verði upp tekinn, að Alþingi fari að höfða mál á hendur ráðh. fyrir þeirra embættisglöp. Ég tel, að í langflestum tilfellum og þeim, sem við getum séð fyrir, muni þingræðisábyrgðin nægja í því sambandi. Engu að síður tel ég, að sú löggjöf, sem hér er til umr., sé til bóta, og vil sérstaklega vekja athygli á því eða taka undir það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að í raun og veru beinist andstaða hv. minni hl. hér að röngu málsatriði.

Hv. frsm. meiri hl. vakti athygli á því, að málshöfðunarréttur Alþingis er ákveðinn í stjórnarskránni. Þessi réttur helzt, þangað til því stjórnarskrárákvæði verður breytt. Það má segja, að að óbreyttri löggjöf frá því, sem nú er, sé sá málshöfðunarréttur óframkvæmanlegur. En það er ekki vegna ófullkomleika gildandi ráðherraábyrgðarlaga, heldur vegna ófullkomleika landsdómslaganna, þannig að ef hv. frsm. minni hl. vill í alvöru draga úr líkunum fyrir því, að Alþ. noti sinn málshöfðunarrétt, þá hefði verið skiljanlegt, að hann hefði snúizt á móti frv. um landsdóm, vegna þess að meðan ekki er sett ný löggjöf um landsdóm, er ómögulegt að koma ákæru gegn ráðh. fram að réttum lögum, því að landsdóm er ekki hægt að skipa samkv. þeirri löggjöf, sem nú gildir um hann, og þar af leiðandi ekki að dæma um það mál, sem Alþingi kynni að ákveða. En það er hægt alveg eins, þó að þessi lagabreyt. verði ekki samþ., sem felst í ráðherraábyrgðarlögunum.

Hv. frsm. meiri hl. sýndi einnig fram á, að það er misskilningur hjá hv. frsm. minni hl., að þessi breyting á ráðherraábyrgðarl. geri ábyrgð ráðh. víðtækari en verið hefur. Það er þvert á móti, að hún gerir hana ekki eins víðtæka og er samkv. gildandi löggjöf. Hv. frsm. meiri hl. minnti á þau tvö meginatriði, sem hér koma til greina; annars vegar fyrningarákvæðið og hins vegar það, sem enn þá meira máli skiptir, að samkv. þeim fræðikenningum a.m.k., sem mér voru kenndar og ég kenndi, á meðan ég fjallaði um þessi mál, ber ráðh. ábyrgð á öllum embættisathöfnum síns samráðh., meðan hann mótmælir þeim ekki með því að segja af sér, a.m.k. öllum þeim embættisathöfnum, sem á að bera upp á ráðherrafundi eða í ríkisráði. Úr þessu er verulega dregið með því frv., sem hér liggur fyrir, og ég vildi segja. að það væri e.t.v. meginbreytingin, sem felst í þessu frv. frá því, sem hefur verið gildandi réttur.

Ég held því, að hvernig sem á verður litið, þá sé þetta frv. til bóta einmitt út frá sjónarmiði hv. frsm. minni hl. Það dregur úr líkunum fyrir því, að ráðh. verði dæmdur, ef svo má segja, fyrir pólitískan illvilja Alþingis og vegna þess að það verði að hengja sig í úreltan lagastaf.

Ég tek undir það með hv. frsm. meiri hl., að í raun og veru er þýðingarlaust að samþykkja rökstudda dagskrá á þann veg, sem hv. frsm. minni hl. leggur til, einmitt út frá hans eigin forsendum, vegna þess að hann er á móti því, að löggjöfinni verði í heild breytt. Ég fullvissa hann um, að einmitt út frá hans eigin rökfærslu er þessi löggjöf til bóta, og það eru ekki miklar líkur til þess, að henni verði breytt frekar í þá átt við nýja endurskoðun málsins. Þetta frv, er vel samið og byggt á þeim athugunum, sem átt hafa sér stað á öðrum Norðurlöndum og í öðrum þingræðislöndum seinni árin. Ég tek hins vegar undir það með hv. frsm. minni hl., að ég óska eftir því, að til þessarar löggjafar þurfi aldrei að grípa, og ég tel, að íslenzkt þingræði væri illa komið, ef menn færu að elta fyrrv. ráðh. með slíkum málsóknum. En meðan stjórnarskrárákvæðin eru í gildi, er nauðsynlegt, að löggjöfin þeim til framkvæmdar sé framkvæmanleg og a.m.k. ekki með þeim megintæknigöllum, eins og löggjöfin um ráðherraábyrgð er nú og hefur raunar ætíð verið, en varð einkum eftir að ráðh. var fjölgað.

Sök sér væri, þó að menn létu lögin um ráðherraábyrgð eiga sig, ef þeir gerðu það einnig um landsdóminn og sýndu þannig, að þeir teldu stjórnarskrárákvæðin um þetta allt vera orðin úreltan bókstaf. Það er sjónarmið fyrir sig. En þá er að mínu viti fyrst og fremst að gera sér þess grein varðandi landsdómslagafrv. og víkja því þá frá eða salta, ef menn vilja draga, úr líkunum fyrir því, að þessum ákvæðum verði nokkru sinni beitt. Og vissulega væri það mikilsverð stjórnskipuleg ákvörðun, ef Alþingi legði þessi frv. til hliðar einmitt með slíkri yfirlýsingu, ekki um, að það ætti að athuga málið frekar, heldur að það væri talið, að hér væri um úreltan bókstaf að ræða og þingræðisábyrgðin ein nægði. Það er atriði, sem ég fyrir mitt leyti er alveg til viðræðu um, ef það hefur byr.

En Alþingi var búið einum rómi fyrir 2 árum, að því er ég hygg, að skora á ríkisstj. að endurskoða landsdómslögin. Þeirri áskorun var fylgt í samræmi við þingvilja og í samræmi við gildandi stjórnarskrá, og þess vegna væri það alveg ný stefna, ef menn vildu nú að betur athuguðu máli láta allt sitja við það sama, en þá hreinlega út frá þeirri forsendu, að öll slík löggjöf tilheyri liðnu tímabili og einnig sá bókstafur stjórnarskrárinnar, sem um þessi efni fjallar. Mér finnst, að ræða eigi um málið á þessum grundvelli og gera sér grein fyrir því, hvort þm. í raun og veru eru á þessari meginskoðun eða menn vilja halda fast við það, á meðan stjórnarskrárákvæðin gera ráð fyrir þessari ábyrgð, þá verði þau ákvæði stjórnarskrárinnar eins og önnur að vera framkvæmanleg. Og víst getur það hent og hefur hent, þar sem stjórnmálaofstæki er þó minna en í okkar landi hefur verið, að lög um landsdóm og um ráðherraábyrgð hafa verið talin nauðsynleg og til þeirra hefur veríð gripið. Hvort það hefur hins vegar verið nokkuð til bóta einnig í þeim löndum að taka upp þann hátt, er allt annað atriði.