25.03.1963
Efri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður var að tala um, að það væri sterk stjórn í Frakklandi, hún hefði nú fengið reynsluna af því, hvernig það væri að slást við hinar vinnandi stéttir. Ég held, að það hefði fáum dottið í hug, að þetta væri heppilegur samanburður, að ræða um kjör kolanámuverkamanna í Frakklandi og þær kröfur, sem verkfræðingar á Íslandi hafa gert með sinni nýju gjaldskrá.

Þegar hv. síðasti ræðumaður er að tala um vald hinna vinnandi stétta og samtök, að það sé sterkt, þá ætla ég ekki að gera lítið úr því. En hinar vínnandi stéttir, sem eru kallaðar svo, — sem er náttúrlega út af fyrir sig rangnefni, því að allir eru nú vinnandi, — ég geri ekki ráð fyrir því, að þær hafi mikla samúð með þeim kröfum, sem hafa komið fram í hinni nýju gjaldskrá, sem lítils háttar hefur verið gerð hér að umræðuefni. Ég held, að það sé ákaflega erfitt að blanda því saman. En hv. þm. lét það augljóslega í ljós, að það er ekki hagur hinna vinnandi stétta, sem hann kallar, sem hann telur aðallega ástæðu til þess að berjast fyrir, því að hann vill augljóslega berjast fyrir því, að launamismunurinn verði sem mestur, að þeir, sem hæst laun hafa, fái meira, án þess að þeir, sem minnst hafa, fái nokkrar viðbætur.

Nú ætla ég ekki að segja, að allir eigi að hafa jöfn laun. Þeir, sem hafa miklu til sín kostað og gegna miklum ábyrgðarstöðum, eiga vissulega skilið að hafa góð laun, og ég er því eindregið fylgjandi, að verkfræðingarnir fái þau laun, sem þjóðfélagið hefur efni á að greiða þeim. Og það er ekki af skilningsleysi á gildi þeirra starfa, sem verkfræðingar vinna hér í landi, að þessi bráðabirgðalög voru sett. Þau eru ekkí sett til að vinna að því að flæma þá úr landi, heldur miklu fremur til þess að tryggja það, að við hefðum eitthvað við verkfræðinga að gera við uppbyggingu og hin ýmsu störf í landinu. Það er þarna, sem er ágreiningur.

En nú er það svo, að hv. síðasti ræðumaður ber það alls ekki utan á sér, og mér finnst það alltaf ótrúlegt, að hann vilji haga baráttu sinni þannig, að efnahagskerfi landsins fari alveg í rúst. Og ef það er ekki svo, þá verður að virða þessum hv. þm. það til vorkunnar, að hann hefur ekki gert sér grein fyrir því, hvað í gjaldskránni felst, enda forðaðist hann að ræða hana að nokkru ráði. Hann lét sér aðeins sæma að viðhafa hér ýmsar fullyrðingar um það, að gjaldskráin væri alls ekki eins og sagt væri í forsendum fyrir lögunum, án þess að reyna að finna orðum sínum nokkurn stað. Ég segi aðeins: þetta er ekki sæmilegur málflutningur — á engan hátt. Það er á það bent, að í gjaldskránni má finna ýmis dæmi, þar sem hækkunin er 320%, og verkfræðingarnir sjálfir reyna ekki í sinni greinargerð að mótmæla því, vegna þess að það stendur í gjaldskránni. Í gjaldskránni stendur það, að tímakaup skv. hinni fyrirhuguðu gjaldskrá skuli vera 350 kr. á klst. að viðbættum 40%, þegar um er að ræða efnaverkfræðinga við venjulegar efnagreiningar og efnaprófanir. Þessi 40% eru 140 kr., þá verður gjaldið fyrir tímann 490 kr., en skv. gildandi gjaldskrá eru þetta kr. 116.72. Hækkunin er því 319.8%, og mér finnst það dálítið undarlegt, þegar hv. þingmenn koma í ræðustól á Alþ. og ætla sér að mótmæla því, sem stendur svart á hvítu. Ég held, að hv. þm. ættu að venja sig af slíku. Hitt er svo rétt, að það eru ekki allir liðir gjaldskrárinnar, sem hækka um þetta. Hækkunin er venjulegast í gjaldskránni frá 118% og upp í 320%. Það er t.d. eitt dæmi, ef við tökum brú, að skv. nýju gjaldskránni eru 309 kr., sem ætti að greiða fyrir eininguna, en var áður 142. Hækkunin í þessu tilfelli er 318% . Og svo er þar allt á milli, frá 118 upp í 320. Þá er tekið upp nýmæli inn í þessa gjaldskrá, sem hefur ekki verið áður í gjaldskrá hjá verkfræðingum, að það er svo, að það er ófaglært fólk, sem vinnur á skrifstofum hjá verkfræðingum, en þá áskilja verkfræðingar sér rétt til þess að taka 1.2% af árslaunum á klst. Það svarar til, að verkfræðingur fái árslaun þessa annars starfsfólks greidd á 833 klst. Nú vinna þessir starfsmenn yfirleitt 2500 klst. En ef við reiknum með, að þeir vinni aðeins í 2200 klst., 120 kr. á tímann, þá fær verkfræðingafirmað 164 þús. í álagningu á vinnu þessa starfsmanns, sem eru greidd 100 þús., ef miðað er við 2200 tíma, en það eru venjulegast 2500 tímar, .sem þetta fólk vinnur.

Ástæðan til þess, að þessi bráðabirgðalög voru sett, er eingöngu sú, að það þurfti að koma í veg fyrir, að aðrir léku þetta eftir. Ef verkfræðingarnir hefðu komizt upp með þetta, þá var ekki aðeins það, að öll sú vinna, sem það opinbera og aðrir þurftu að kaupa af því, hefði hækkað sem þessu nemur, heldur hitt einnig, að aðrir aðilar hefðu komið á eftir og hækkað sinar gjaldskrár.

Hv. þm., sem talaði hér síðast, minntist á það, að ríkisstj. gripi fljótt til hnefans og vildi sýna vald sitt af barnaskap. Ég get upplýst hv. þm. um það, að þjóðin hefur ekki þessa skoðun á málinu. Þjóðin er þakklát fyrir það, þegar komið er í veg fyrir stöðvun atvinnulífsins og glundroða í fjármálum og atvinnumálum. Og ríkisstj, hefur aldrei gripið til þessara ráðstafana, að gefa út brbl., nema þegar hagsmunum þjóðarinnar hefur verið ógnað með óbilgjörnum kröfum.

Hv. þm., sem talaði hér síðast, minntist á læknana og meðferðina á þeim. Ég hélt, að hv. þm. mundi ekki minnast á þá, vegna þess að það mál leystist öllum í hag, án þess að vera þeim til sæmdar, sem börðust fyrir því, að önnur lausn fengist á málinu. Hv. þm. talaði um, að læknar hefðu átt í baráttu við stjórn Sjúkrasamlagsins, vegna þess að þeir fengu ekki fyrirhafnarlaust allt að 100% hækkun. Var það af samúð við fátækar fjölskyldur hér í Reykjavík, sem vissulega hefðu þurft að hækka sín sjúkrasamlagsgjöld, að þessi barátta var hafin af hendi lækna? Nú ætla ég ekki að fullyrða neitt um það, hvort læknar hafa yfirleitt fengið eðlilega há laun eða ekkí, en óneitanlega varð mörgum að orði: Er nú svo illa að læknunum búið, að það sé eðlilegt, að þeir berjist svo fast fyrir þessum miklu hækkunum, þar sem kjaradómurinn er á næsta leiti og þar sem Sjúkrasamlagið er annars vegar, og tekjur þess eru að miklu leyti undir því komnar, að oft og tíðum fátækt fólk geti borgað sín gjöld mánaðarlega? — Ég minnist á þetta hér vegna þess, að hv. þm., sem talaði hér síðast, hefur oft viljað láta í það skína, að hann væri málsvari þeirra fátæku og þeirra, sem erfiðast ættu. En ræða sú, sem hann flutti hér áðan, gerði nokkuð til þess að afsanna, að svo sé alltaf, því að skv. þeirri kenningu er það meginatriðið að auka launamismuninn og berjast jafnhart eða harðar fyrir kjarabótum til handa þeim, sem bezt eru megandi, heldur en handa hinum, sem minnst eiga undir sér.

Í rauninni er ekki þörf á því að gera fleiri athugasemdir við það, sem þessi hv. þm. sagði. Ég verð að afsaka hann með því, að hann í blindni gerðist talsmaður þess, að brbl. verði ekki staðfest. Það er sú eina afsökun, sem hægt er að færa fram fyrir hann.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. talaði hér af mikilli hógværð. Mér. er enn ráðgáta, hvers vegna hann vill beita sér fyrir því, að brbl. verði ekki staðfest. Ég hef ekki fundið ástæðuna. Ég veit, að hv. þm. gerir sér grein fyrir því, hvað í gjaldskrárhækkuninni felst. Ég tel einnig sjálfsagt, að hann með því að hugsa málið, sem ég tel víst að hann hafi gert, geri sér grein fyrir því, hvaða afleiðingar það gæti haft, ef gjaldskráin nýja tæki gildi.

Hv. þm. var að tala um, að þetta næði aðeins til þeirra verkfræðinga, sem störfuðu sjálfstætt, en ekki til þeirra verkfræðinga, sem væru í þjónustu ríkisins. Dettur nú þessum hv. þm. í hug, ef Verkfræðingafélag Íslands hefði fengið nýju gjaldskrána viðurkennda, að aðrir verkfræðingar, sem voru á mánaðarlaunum, hefðu látíð sér nægja svipuð laun og þeir áður höfðu? Dettur nokkrum manni í hug annað en þeir hefðu sniðið sínar kröfur nokkuð eftir því, hvað varð um fyrrnefnda gjaldskrá? Og tilvitnun í lögmenn, endurskoðendur og fleiri stenzt ekki, vegna þess að þessir aðilar hafa ekki komið með nýja gjaldskrá, sem talin hefur verið úr hófi fram ósanngjörn; það hefur ekki borið á því. Og þegar hv. þm. talar um, að það sé verið að skerða frjálsræði með því, að ríkisvaldið grípi inn i, eins og hér hefur verið gert, þá er, eins og ég áður sagði, það aðeins gert, þegar kröfurnar keyra fram úr hófi og ógna hagsmunum þjóðarinnar.

Hv. þm. talaði um, að ýmsum öðrum aðilum mundi þykja það hart, ef frelsið væri skert. Ég vil bara benda hv. þm. á það, sem hann reyndar hlýtur að vita, þegar hann hugsar út í þessi mál, að mörg þjónusta er bundin af verðlagseftirliti og öðrum ákvæðum, þannig að það hefur ekki enn þótt fært að gefa einstökum stéttum og aðilum fullt frelsi til ákvarðana á verði hinnar ýmsu þjónustu, sem hefur verið veitt. Ég segi: þetta hefur ekki þótt fært enn, þótt ekki liggi fyrir neinar sannanir fyrir því, að þessir aðilar ættu það ekki að fullu skilið að njóta frelsisins.

Það er á misskilningi byggt hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., þar sem hann lét í skína, að verkfræðingar séu bundnir af sama taxtanum og 1955. Gjaldskráin frá 1955 hefur hækkað í hlutfalli við kauphækkanir, sem orðið hafa frá þeim tíma, enda er það ein forsendan fyrir bráðabirgðalögunum, að gamla gjaldskráin verði hækkuð skv. lögleyfðum hækkunum, en þessar lögleyfðu hækkanir eru í samræmi við þær kauphækkanir, sem orðið hafa. Verkfræðingar hafa þess vegna allt frá 1955 fengið sams konar kjarabætur og aðrir aðilar í þessu landi. En þeir gefa út sína gjaldskrá vegna þess, að þeir vilja ganga miklu lengra og sætta sig ekki við þær kjarabætur, sem aðrir hafa fengið.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að fara öllu fleiri orðum um þetta mál. Það hefur verið rætt allmikið í Nd. Það er ljóst, hvernig málið liggur fyrir. Í byrjun nóvembermánaðar kom grg. frá rn. um þetta mál í öllum dagblöðum, og Verkfræðingafélag Íslands sá sér ekki fært að mótmæla henni. Þar sem allir hv. þm. munu hafa lesið þessa grg. og þar eru tekin upp flest þau rök, sem til þess liggja, að brbl. voru sett, tel ég ekki ástæðu til að lesa hana upp hér, en er í rauninni sáralitlu við það að bæta.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. flytur hér rökst. dagskrá í samræmi við afstöðu framsóknarmanna í Nd. Væri þessi rökst. dagskrá samþykkt, jafngildir það því að fella frv. Nýja gjaldskráin tæki þá gildi með allt að 320% hækkun. Ég er sannfærður um, að ef hv. 3. þm. Norðurl. v. vill hugsa um þetta mál alveg hlutlaust, þá gerir hann sér grein fyrir því, að þetta væri nú ekki hollt fyrir okkar efnahagskerfi, atvinnulif og uppbyggingu í þjóðfélaginu. Ég vil þess vegna segja: Hv. þm. flytur þessa rökstuddu dagskrá í trausti þess, að frv. verði eigi að síður samþ. Ég vil ekki gera þessum hv. þm. neinar getsakir, en afsaka hann með þessu, og það má segja, að með því móti getur hann haldið samvizku sinni sæmilega góðri.