26.03.1963
Efri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Að mínu áliti er mál það, sem hér liggur fyrir, angi af því þjóðfélagsvandamáli, sem við Íslendingar eigum við að búa og fólgið er í því, að launakjör og launagreiðslur sérmenntaðra manna og sér í lagi háskólamenntaðra manna eru lægri en gerist í nágrannalöndum okkar. Að vísu tel ég, að þann samanburð, sem í þessu efni hefur oft verið gerður t.d. við hin Norðurlöndin, beri að taka með nokkurri varúð. Ber þess að gæta í því sambandi, að það gefur ekki rétta mynd af launakjörum hér á landi annars vegar og hins vegar í öðrum löndum, þó að laun séu umreiknuð eftir gengi, vegna þess að það er svo margt fleira, sem áhrif hefur á kjör manna, svo sem skattar, bótagreiðslur skv. almannatryggingum o.fl. Enn fremur hlýtur sú spurning að vakna, þegar slíkur samanburður er gerður, hvort íslenzka þjóðfélagið sé þess umkomið að greiða jafnvel fyrir þessi störf og aðrar auðugri þjóðir.

Til þessa hefur það verið svo, að háskólamenntaðir menn hér á landi og sérmenntaðir menn, sem helgað hafa Íslandi starfskrafta sína, hafa orðið að hlíta því, að launakjör þeirra eru lægri en þeir margir hverjir hefðu getað fengíð, ef þeir hefðu starfað erlendis. Ég er hræddur um, að þannig verði það einnig enn um skeið, að þeir, sem ákveða að starfa hér, en eiga kost á störfum erlendis, verði að fórna nokkru í því efni. En eitt er að segja það, að erfitt sé fyrir Íslendinga að greiða sambærileg laun við það, sem gerist í öðrum auðugri þjóðfélögum, og annað að fullyrða það, að enga breytinga sé hægt að gera í þessum efnum frá því, sem nú er. Það er mín skoðun, að þetta vandamál verði með einhverju móti að leysa, að íslenzka þjóðfélagið komist ekki hjá því að greiða þessi störf hærra verði en nú er gert. Í því efni er ég samþykkur þeim ályktunum, sem gerðar hafa verið af Stéttarfélagi verkfræðinga og birtar eru hér sem fylgiskjal með nál. hv. 9. þm. Reykv.

En lausn þess máls verður auðvitað að byggjast á raunsæi og staðreyndum í íslenzkum efnahagsmálum. Það er ekki nóg að láta óskhyggjuna eina ráða í því efni. Og auðvitað verður að gera sér það fyllilega ljóst og horfast í augu við þann vanda, að þetta kostar fjármuni. Það þýðir ekki að ætla að fela þessa hlið málsins. Það að gera það mundi ekki leiða til lausnar á því. Þvert á móti verður að horfast í augu við þennan vanda eins og annan, sem hér er um að ræða, og leysa hann. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá er nú einmitt unnið að því að taka upp nýja skipan þessara mála, þar sem hv. Alþingi samþ. á s.l. ári lög um samningsrétt opinberra starfsmanna og kjaradóm. Hver sem verða úrslit þessa máls, hvort sem samningar nást milli samtaka opinberra starfsmanna og ríkisstj. eða málið fer til kjaradóms að meira eða minna leyti, þá geri ég mér vonir um það, að niðurstaðan verði sú, sem allir aðilar geta unað við eftir atvikum. Og þegar lausn er fengin á því máli, standa að mínu áliti góðar vonir til, að samkomulag náist um kjör verkfræðinga. En hitt finnst mér augljóst, og það er ein af meginástæðunum til þess, að ég hef skrifað undir meirihlutanál., að meðan þessi mál í heild eru í deiglunni, hlýtur það að verða ákaflega erfitt fyrir ríkisstj. að semja um launakjör einstakra starfsstétta, sem hér eiga hlut að máli, og breytir það að mínu áliti ekki neinu í því efni, þó að verkfræðingar séu að vísu utan samtaka opinberra starfsmanna og hafi myndað sitt eigið stéttarfélag, því að ég hygg, að hvað sem líði ágreiningi um annað, þá ættu menn að geta verið sammála um, að það verður að vera samræmi á milli launagreiðslna til verkfræðimenntaðra manna og annarra, sem svipaða menntun hafa. Bæði ríkisstj. og samtök opinberra starfsmanna hafa verið sammála um það, að eðlilegt væri, að þessi mál væru leyst í heild, en ekki með samningum ríkisvaldsins við einstök stéttarfélög. Að vísu, — eins og ég sagði áðan og kunnugt er, hafa verkfræðingarnir þá sérstöðu, að þeir hafa sitt eigið stéttarfélag. En það breytir engu um það, að sérsamningur við þá, í hvaða mynd sem hann væri og hvort sem hann fjallaði um mánaðarlaun, gjaldskrá eða annað, hlyti að hafa veruleg áhrif á samninga við aðra, sem svipaða menntun hafa, og ég tel mjög óeðlilegt, hvað sem öðru liður, að því stórmáli, sem hér er um að ræða og svo vandlegur undirbúningur hefur verið gerður að að leysa, yrði raunverulega ráðið til lykta með samningum við einstakt stéttarfélag. Ef sú leið væri farin, er hætta á, að niðurstaðan yrði svo tilviljunarkennd, að það yrði hvorki í hag ríkinu né þeim aðilum, sem þar eiga hlut að máli. Ef á það sjónarmið er fallizt, að það hafi ekki verið eðlilegt, að ríkisstj. tefði slíka sérsamninga, meðan á heildarsamningunum stóð, þá voru aðeins tvær leiðir fyrir hendi. Önnur leiðin var sú að láta gjaldskrána afskiptalausa, en greiða hins vegar ekki í samræmi við hana. Það hefði þýtt stöðvun þeirra framkvæmda hjá ríkinu, þar sem þjónusta verkfræðinga er nauðsynleg. Hefði það verið nokkrum í hag að fara þá leið? Að mínu áliti er svo ekki, og ég tel, að það hefði sízt verið verkfræðingunum í hag, sem einnig, eins og hæstv. samgmrh, upplýsti, hafa sýnt þegnskap gagnvart þessum lögum, þó að þeir hafi að vísu mótmælt þeim. Þá var ekki nema um þriðju leiðina að ræða, þá að setja bráðabirgðalög þau, sem hér eru til umræðu. Þó að ég telji þá leið að ýmsu leyti óhugnæma og neyðarúrræði, tel ég þó, að eftir atvikum hafi ekki verið um annað að ræða, eins og á stóð, eða aðrir kostir hefðu a.m.k. verið verri.

Ég tel það á nokkrum misskilningi byggt, sem virðist vera það meginsjónarmið, sem legið hefur fyrir grundvallarafstöðu hv. framsóknarmanna, bæði í þessari hv. deild og Nd., að þeir telja, að aðstaða verkfræðinganna sé svipuð aðstöðu tannlækna, endurskoðenda, arkítekta og jafnvel lögmanna, en það er rétt, að þessar stéttir setja sinar gjaldskrár, sem ríkið hefur ekki séð ástæðu til að hafa afskipti af, og starfa skv. þeim. Hér er þó að mínu áliti um meginmun að ræða, sem gerir þetta ekki sambærilegt við það mál, sem hér er til umræðu. Það er nefnilega þannig með áður nefndar stéttir, tannlækna, endurskoðendur o.s.frv., að viðskiptavinir þeirra eru almenningur. Þeir skipta við almenning. Ef þeir settu miklu hærri taxta en væri í samræmi við almennt verðlag og kaupgetu í landinu, þá gefur það auga leið, að viðskipti þeirra mundu dragast mjög verulega saman. Það gera þessir aðilar sér fyllilega ljóst. Kaupgeta almennings verður m.ö.o. hemill á þeirra gjaldskrá, og það er ástæðan til þess, að þeir aðilar, sem hér er um að ræða, hafa aldrei gefið sérstakt tilefni til þess, að ríkið hefði þar afskipti af. Þá þjónustu, sem hins vegar er um að ræða í því efni, sem hér liggur fyrir, kaupir í meginatriðum aðeins ríkið eða opinberir aðilar. Stafar þetta bæði af því, að verklegar framkvæmdir eru fyrst og fremst á vegum þessara aðila, og í öðru lagi af því, að að því leyti sem einkaaðilar reka þá starfsemi, sem hér er um að ræða, þá hafa þeir gengið að ráðningarsamningi Verkfræðingafélagsins, sem ríkisstj. hefur enn ekki séð sér fært að ganga að vegna þess ósamræmis, sem þá hefði skapazt í launakjörum verkfræðinganna annars vegar og hins vegar þeirra, sem taka laun skv. launalögum, en meðal þeirra eru einnig nokkrir verkfræðimenntaðir menn. Af þessu leiðir, að það mundu nær eingöngu vera opinberir aðilar, sem kæmu til að greiða skv. þessari gjaldskrá, hún mundi fyrst og fremst hafa þýðingu gagnvart þeim. En þá kemur aftur að því, sem ég áður nefndi, að það verður að vera samræmi á milli launagreiðslna til þessara manna, í hvaða formi sem þær eru, og annarra háskólamenntaðra manna. — Þetta var um afstöðu hv. framsóknarmanna til þessa frv., sem, eins og ég hef leitt rök að, er á röngum forsendum byggð.

Þá vil ég leyfa mér að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 9. þm. Reykv. við byrjun umr. þessa máls. Hann fór mjög hörðum orðum um þessa lagasetningu og taldi hana mesta gerræði, skerðingu á eðlilegum samningsrétti þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, og frelsi þeirra til þess að verðleggja sína þjónustu. Hv. þm. benti á það, sem rétt er, að ágreiningur er um það milli Verkfræðingafélagsins og ríkisstj., hvað mikil hækkun hafi raunverulega orðið á töxtunum. Mig brestur nú kunnugleika til þess að skera úr þessu atriði út af fyrir sig. En þó að við höldum okkur eingöngu að þeim skýrslum frá Verkfræðingafélaginu, sem fylgja hér sem fskj. með nál. hv. þm., þá er það augljóst, að hér er um: mjög verulega hækkun að ræða og meiri hækkun en almennt er, að verkkaup yfirleitt hækki hér á landi. En í þessari grg. Verkfræðingafélagsins segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Tímagjaldstaxtinn samkv. gömlu gjaldskránni var kr. 116.72 árið 1960, en hafði hækkað í 153 kr., þegar gjaldskrárbreytingin skyldi taka gildi. Ríkisstofnanir hafa raunar mótmælt hækkuninni frá 1960, en vefengt er, að þau mótmæli eigi stoð í lögum.“

Enn fremur segir svo:

„Samkv. nýju gjaldskránni yrði tímagjaldstaxtinn breytilegur frá 120 kr. á klst. í 350 kr. á klst. eftir sérþekkingu og hæfni.“

Jafnvel þó að við miðum við hærri taxtann, sem tekið er þó fram að vefengdur sé af hálfu ríkisstj., en hann er 153 kr., þá er nýi taxtinn samkv. upplýsingum Verkfræðingafélagsins frá 120 kr. upp í 350 kr. Það er að vísu ekki birt hér nein meðaltala, en mér sýnist það þó gefa auga leið, að það getur varla verið um minni hækkun að ræða en 50–100%. En til þess að segja um það, hvar hún liggur þar á milli, þyrfti auðvitað nánari upplýsingar, en ólíklegt má telja á grundvelli þessara upplýsinga, að hækkunin geti verið minni en 50% og sennilega varla að meðaltali verið öllu meiri en 100%. Hvað sem þessu líður, er auðsætt, að hér er um miklu meiri hækkun að ræða en venja er til, að verkkaup hækki í eitt skipti.

Hvað sem þessu líður, get ég endurtekið það, sem ég sagði í upphafi, að ég tel nauðsynlegt, að unnið sé að því að lagfæra það mál, sem hér er um að ræða, skapa sérmenntuðum mönnum þau kjör, að landið geti notið svo mikils af þeirri þjónustu, sem þeir veita, sem nauðsynlegt er, og það tel ég út af fyrir sig öllum aðilum í hag. Annað mál er það, að ekki er óeðlilegt, að það standi nokkuð í mönnum að samþykkja tafarlaust, að ríkið skuli hækka þessar greiðslur um 50–100% í einu.

Með tilliti til þeirra hörðu orða, sem hv. 9. þm. Reykv. hafði um þá löggjöf, sem hér er um að ræða, þegar hann taldi hana barnaskap og fram eftir þeim götunum, þá get ég ekki látið hjá líða í þessu sambandi að rifja upp eitt eða tvö atvik frá þeim tíma, þegar hv. þm. var í stjórnaraðstöðu — eða frá dögum vinstri stjórnarinnar — um þá afstöðu, sem sú stjórn hafði til þessara mála. Þá var yfirleitt ekki léð máts á því, að hlutur þeirra aðila, sem hér eiga hlut að máli, yrði lagfærður, en tvisvar sinnum í lok stjórnartímabils vinstri stjórnarinnar komu mál þessi þó á dagskrá: Í annað skiptið, þegar bjargráðalögin svokölluðu voru sett vorið 1958, en í þeim var ákveðið, að laun skyldu hækka yfirleitt í landinu um 5%, til þess að bæta launþegum að nokkru upp þá kjaraskerðingu, sem þeir urðu fyrir af völdum bjargráðanna. Mér er nú sagt, að það hafi ekki legið algerlega laust fyrir, að opinberir starfsmenn fengju þessa launauppbót. Ég hef heyrt ýmsa forustumenn samtaka opinberra starfsmanna úr herbúðum þáv. stjórnarsinna segja það á fundum, að það hafi kostað þá allmikla baráttu að fá því yfirleitt til leiðar komið, að opinberir starfsmenn fengju líka þessi 5%. Hvað er það rétta í því, skal ég hins vegar ekki segja um, því að mér er ókunnugt um, hvað kann að hafa farið fram bak við tjöldin í því efni. En hitt er víst, að ríkisstj. gerði það að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir því, að yfirleitt yrði á það fallizt, að opinberir starfsmenn fengju þessi 5%, að það næði aðeins til þeirra, sem hefðu ekki hærri laun en þá voru greidd innan Alþýðusambandsins. Þeir, sem voru fyrir ofan þau laun, fengu ekki þessi 5%, svo að með þessu var skertur hlutur þeirra, sem gegndu hinum ábyrgðarmestu stöðum í þjóðfélaginu, frá því, sem áður var. Að vísu voru það ekki mjög margir einstaklingar, sem þetta tók til, en það er þó óumflýjanleg staðreynd. — Á haustinu 1958, eða skömmu áður en vinstri stjórnin fór frá völdum, komu launamál opinberra starfsmanna aftur til hennar kasta. Þá var það þannig, að meginhluti verkafólks og þeirra, sem eru innan Alþýðusambandsins, höfðu fengið 9% kauphækkun, nokkrir þeirra hærra launuðu höfðu þá að vísu fengið minna, en opinberir starfsmenn eða þorri þeirra fékk hins vegar ekki nema 6% kauphækkun. Það var aðeins örlítill hluti þeirra, sem eru í allra lægstu launaflokkunum, sem fékk 9%. Þetta þýddi líka, að hlutdeild þeirra skertist miðað við það, sem áður hafði verið. Síðan hafa samtök opinberra starfsmanna unnið að því að fá bætta upp þá skerðingu, sem þeir urðu fyrir haustið 1958, og mun það nú hafa tekizt að einhverju leyti.

Þessi var afstaða vinstri stjórnarinnar til þessara mála, og er mér ekki kunnugt um, að hv. 9. þm. Reykv. hafi þá látið það á einn eða neinn hátt í ljós, að hann væri þessari afstöðu ósamþykkur. En nú get ég ekki stillt mig um að spyrja: Hvað veldur þeirri hugarfarsbreytingu, að hv. þm. áleit fyrir 4 árum, að efnahagsástand þjóðarinnar væri þannig, að það væri ekki eingöngu svo, að það gæti alls ekki komið til mála að leiðrétta nokkuð hlut hinna sérmenntuðu manna, heldur yrði þvert á móti að skerða kjör þeirra miðað við það, sem aðrir fengu, en nú tekur þessi hv. þm. þannig til orða, að það sé barnaskapur að ganga ekki tafarlaust að því að hækka laun þeirra, sem eru þó bezt settir af þeim, um a. m, k. 50–100%? Hver er skýringin á þessu? Er hún sú, að hv. þm. og aðrir hv. stjórnarandstæðingar hafi nú öðlazt skilning á þessu máli, sem þeir höfðu ekki fyrir 4 árum, þegar þeir höfðu aðstöðu til þess að hafa áhrif á gang málanna? Því bæri auðvitað að fagna, ef svo væri, því að batnandi mönnum er bezt að lifa. Eða er það þannig, — það gæti líka verið önnur skýring, — að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar hafi batnað svo mjög á þessum 4 árum, að nú gætu mjög stórfelldar leiðréttingar í þessum efnum komið til greina og verið raunhæfar, þótt þær væru óraunhæfar á þessum tíma? Það gæti líka verið skýringin. En allmjög mundi það þó koma í bág við málflutning hv. stjórnarandstæðinga um efnahagsmálin, eins og hann hefur verið undanfarin ár, því að þeir telja, að vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið af núv. hæstv. ríkisstj., hafi afkomu þjóðarinnar stöðugt farið hrakandi. En e.t.v. bendir sú afstaða, sem þeir hafa tekið í þessu máli, til þess, að þeir hafi í þessu skipt um skoðun, og væri það út af fyrir sig vel.

Hv. 9. þm. Reykv. klykkti út með því að fullyrða, að engin hætta væri á því, að sú hækkun, sem hér er um að ræða, þó að samþ. væri, mundi hafa óheppileg áhrif á efnahagskerfi þjóðarinnar, það væri grýla ein og bábiljur. Ég skal ekki ræða um þetta atriði, það mundi leiða of langt. En ég vil ljúka máli mínu hér með því að leggja eina eða tvær spurningar fyrir þennan hv. þm., sem ég býst við að honum verði ljúft að gefa greið svör við: Ef sú hækkun til verkfræðinganna á sér stað, sem hér er um að ræða, hver er þá skoðun hv. þm. á því, hvað eigi að verða með þá verkfræðinga, sem þegar eru á launalögum, eins og t.d. prófessorar við verkfræðideildina og nokkrir yfirverkfræðingar o.s.frv.? Telur hann þá ekki eðlilegt, að laun þeirra hækki einnig um 50–100%? Hvað álitur hv. þm. um sína eigin stéttarbræður, læknana? Telur hann eðlilegt eða eðlilegt ekki, að þeirra launakjör væru samræmd þeirri hækkun, sem hér er um að ræða? Og ef verkfræðingar og læknar eiga að fá þessa hækkun, mundi hann þá telja sanngjarnt eða ósanngjarnt, að aðrir háskólamenntaðir menn, svo sem menntaskólakennarar, prestar, lögfræðingar o.s.frv., fengju sambærilega hækkun? En ef allir þessir aðilar fá 50–100% hækkun, hver er þá skoðun hv. þm. á því, hvort ekki eigi að hækka a.m.k. til samræmis við þetta kaup verkamanna, iðnaðarmanna, sjómanna o.s.frv., að ógleymdum bændunum, telur hann þá ekki eðlilegt, að afurðaverð þeirra hækki í sama hlutfalli? Mig langar til að biðja hv. þm. að gera grein fyrir afstöðu sinni í þessu efni, áður en lengra er haldið í því efni að ræða það, hvort efnahagskerfi þjóðarinnar stafi hætta af þeirri hækkun, sem hér er um að ræða, eða ekki. Ég vil strax taka fram, að ég mundi álíta það svar út í hött, þó að sagt væri, eins og hér kemur fram í grg. verkfræðinganna, að hér sé ekki um að ræða launagreiðslur, heldur þóknun. Mér er að vísu ljós sá munur, sem á þessu er. En auðvitað er hér fyrst og fremst um að ræða launagreiðslur, þó að þær séu í þessu formi, að það er talin þóknun fyrir unnin störf, þannig að auðvitað kemur eitthvað til frádráttar því, sem þeir fá, sem þessi störf taka að sér.

Að síðustu get ég ekki stillt mig um það, að mér fannst það dálítið einkennilega að orði komizt, þegar hv. þm. talaði um það, að ríkisstj. mundi ekki haldast uppí að halda niðri lífskjörum launastéttanna í landinu. Það var eins og hv. þm. væri þeirrar skoðunar, að lífskjör almennings í landinu séu á hverjum tíma ákvörðuð af þeirri ríkisstj., sem við völd situr, það, að menn beri ekki það úr býtum, sem þeir telja æskilegt, stafi af því einu, að ríkisstj. af illvilja sinum vill ekki skammta meira en raun er á. Ef þessi skoðun væri rétt, þá væri vandamál fátæktarinnar ekki eingöngu hér á landi, heldur alls staðar í heiminum, auðveldara úrlausnar en það raunverulega er. Og einnig hlýtur sú spurning að vakna, hvort það sé algerlega á valdi ríkisstj. hverju sinni að ákveða það, hvaða lífskjör almenningur býr við. Ef svo er, hvers vegna voru þá ekki lífskjörin stórbætt á vinstristjórnarárunum? Vægast sagt vil ég segja um slíkan málflutning, að mér finnst hann varla samboðinn svo greindum og vel menntuðum manni sem hv. 9. þm. Reykv. er.