22.11.1962
Neðri deild: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

99. mál, framkvæmdalán

Fjmrh:

(Gunnar Thoroddsen): Herra forseti. Í framsöguræðu minni hér í gær gat ég þess, að vextir og afborganir af erlendum lánum Íslendinga mundu nema á þessu ári um 550 millj. kr. Hv. frsm. minni hl. vék að þessu í ræðu sinni áðan, og ég tel rétt, að hér komi fram þær réttu tölur í þessu efni, hundraðstölur um þessa greiðslubyrði, því að þær tölur, sem hann notaði þar, eru ekki alveg réttar.

Það er þannig, að greiðslubyrðin á s.l. ári, árinu 1961, þ.e.a.s. afborganir og vextir, var 524 millj. kr. Þá voru gjaldeyristekjur landsins í heild um 4530 millj. Greiðslubyrðin varð því á s.l. ári um 11.5%. Nú í ár munu afborganir og vextir, eins og ég gat um í gær, nema um 550 millj. kr., og þá má áætla, að heildargjaldeyristekjur þjóðarinnar verði um 5000 millj., en það þýðir, að greiðslubyrðin er þá um 11% í ár af heildargjaldeyristekjunum eða nokkru lægri en á s.l. ári.