22.11.1962
Neðri deild: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

99. mál, framkvæmdalán

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umr, um gengismálið, en ég vildi aðeins vekja athygli á einu atriði í þessu sambandi, og það er það, að ef ríkisstj. ráðstafar þessu fé ein, vita byggðarlög úti á landi lítið um, hvort þau muni eiga kost á lánum til hafnargerða og annarra slíkra framkvæmda. Vitanlega ræður viðkomandi ríkisstj. á hverjum tíma, hvernig fé er úthlutað, alveg jafnt hvort sem hún gerir það sjálf, hvort hún gerir það í samráði við fjvn. eða þingið, því að á hverjum tíma er ríkisstj. vitanlega í meiri hl. Það veldur því sennilega, að ríkisstj. vill síður leggja þetta fyrir þingið, að slíkt tefji málið, að það verði miklar umr. um það og þóf. En eðlilegast er vitanlega, að Alþingi ákveði svona hluti. Ríkisstj. ræður eftir sem áður, því að stjórnarflokkarnir eru jafnan í meiri hl. En gallinn við þetta er, ef er pukrað með þetta um of, að viðkomandi byggðarlög áti á landi geti ekki komið á framfæri óskum sínum. Ég skal játa, að vitamálastjóri hefur yfirsýn yfir hafnarmál að nokkuð miklu leyti. En þó er það svo á hverjum tíma, að ég hygg, að byggðarlög úti á landsbyggðinni óskuðu eftir því að vita af, ef kostur væri á fjárveitingum, annaðhvort til hafnarmála, rafmagnsmála eða annarra nauðsynjamála, svo að þau gætu komið óskum sínum á framfæri. Það er ekki deilt um það, hvort ríkisstj. eða stjórnarflokkarnir eigi að ráða eða ekki, heldur að menn viti um þetta, viti um, að það er kostur á einhverju fé til framkvæmda. Þá gefst öllum kostur á að koma á framfæri sinum sjónarmiðum og sínum óskum.

Þetta er aðalatriðið að mínu áliti. Ég hef heyrt, að það hafi verið úthlutað fé til hafnarframkvæmda, lánsfé eða framlögum, án þess að þingið vissi um það. Ég hef ekki kynnt mér það svo rækilega, að ég viti, hve mikið þetta er, en ég tel æskilegt, að það gangi jöfnuður þannig yfir, að í hvert sinn, sem kostur er á einhverju fé, hafi allir aðilar jafnan rétt til að kynna sér þann möguleika, sem þeir hafa til þess að afla sér fjár til framkvæmda. Að öðru leyti er ég samþykkur því og greiði atkv. með því, að þetta lán sé tekið. Ég efast ekki um, að það er nóg þörf fyrir það. Það er margt ógert. En það er fyrst og fremst þetta sjónarmið, sem ég vil koma á framfæri.