26.11.1962
Neðri deild: 21. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður lýsti fylgi sínu við frv., og er ekkert nema gott um það að segja, en honum finnst það ganga of skammt. Það má rétt vera, að æskilegt væri, að það gengi lengra og að strikið væri dregið ofar en við 15 hektara. Það hefur nú verið svo, að það hefur verið látið við það sitja að hækka strikið um 5 hektara í hverjum áfanga, og hygg ég, að það sé eftir atvikum gott að miða að þessu sinni við 15 hektara. Og ég vil vekja athygli á því, af því að ég hef annaðhvort heyrt skakkt til hv. ræðumanns eða hann hefur misskilið frv., að þetta frv. á að gegna tvenns konar hlutverki. Það eru 650 þús. kr. veittar til nýbýla, en ekki í heild til landbúnaðarins, eins og mér heyrðist hv. ræðumaður segja, en 2 millj. 250 þús. í heild til nýbýla og til eldri jarða, sem hafa orðið aftur úr.

Ég vil taka undir með hv. ræðumanni um það, að jarðræktarlögin eru vitanlega orðin að mörgu leyti úrelt, vegna þess að þeim hefur ekki verið breytt núna á annan áratug, og það hefur margt gerzt síðan. Jarðræktarstyrkurinn nú er um 1200 kr. á hektara, eins og hann var 1947. En það hefur vitanlega aukizt ákaflega mikið ræktunarkostnaðurinn á þessu tímabili. Búnaðarþing mun hafa skipað nefnd 1960 eða 1961 til þess að endurskoða jarðræktarlögin, og hún lauk starfi á s.l. sumri og sendi frv. í ráðuneytið. Ég lét fara fram nokkra athugun á frv. í rn., og síðan skipaði ég nefnd þriggja manna til að endurskoða þetta frv., og í bréfi til n. var tekið fram, að óskað væri eftir, að endurskoðun yrði hraðað eftir föngum. í þessari n. eru: Pétur Gunnarsson tilraunastjóri, formaður, Kristján Karlsson fyrrv. skólastjóri og Birgir Finnsson alþm.

Samkv. frv. þeirrar n., sem búnaðarþing kaus, er gert ráð fyrir allvíðtækum breyt. á núgildandi jarðræktarlögum auk sérstaklega mikillar hækkunar, og út af fyrir sig er ekki nema eðlilegt, að það sé athugað í stórum dráttum, hvort þetta frv. búnaðarþingsnefndarinnar er þannig, að það sé eðlilegt að leggja það fram óbreytt, eða hvort rétt er að gera vissar breyt. á því. Ég get t.d. bent á eitt atriði í því frv. af mörgum, að það er gert ráð fyrir að hækka styrk á heyhlöður um 400%. Það má vel vera, að þetta sé nauðsynlegt. Það er líka nauðsynlegt að veita styrk á súgþurrkun, til þess að helzt allir bændur geti komið upp súgþurrkun og varið sig gegn óþurrkum. En það eru ýmis atriði í frv., sem er eðlilegt að athuga og samræma, ef þörf gerist.

Ég er innilega sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að jarðræktarlögin þarf að endurskoða, það þarf að hækka hinn almenna jarðræktarstyrk frá því, sem nú er, því að það hlutfall, sem nú er í styrk á móti tilkostnaði, er vitanlega ekkert í samræmi við það, sem áður var, og þannig er þetta búið að vera lengi. Þetta er búið að vera lengi, en hefur vitanlega farið versnandi, eftir því sem ræktunarkostnaðurinn hefur aukizt.

Það hefur kannske dregið úr eða friðað menn þrátt fyrir þetta að sjá, að ræktunin eykst stöðugt samt sem áður og hefur ekki dregið úr henni. En eigi að síður hlýtur að vera sanngjarnt að hraða endurskoðun þessara l. Hvort frv. verður lagt fyrir þetta þing eða ekki, það fer eftir því, hvenær við fáum frv. Vonandi verður það svo fljótt, að það verði hægt eftir áramótin. Ég vil þó ekki að svo komnu fullyrða um það, en ég veit, að frv. er í góðra manna höndum, þar sem þessi n. er. Og það er rétt einnig, það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að í sambandi við byggingar í sveitum eru þær náttúrlega orðnar dýrar eins og annars staðar.

En það er rétt að geta þess, að 1960 var samþ. frv. til l. um breyt. á þessum 1., þannig að byggingarstyrkur til þeirra bænda, sem áttu eftir að byggja, var hækkaður, óafturkræfur styrkur, úr 25 þús. í 40 þús., og samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að hækka styrkinn úr 40 þús. í allt að 55 þús. Auk þess hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að stofnlánadeild landbúnaðarins láni 150 þús. kr. út á hvert íbúðarhús í sveitum, þannig að samanlagður styrkur og lán eru þá rúmlega 200 þús., sem bændur eiga kost á að fá, og það er áreiðanlega ekki lægri hundraðshluti en verið hefur áður. Ég geri ráð fyrir, að það sé hægt að byggja íbúðarhús í sveit fyrir 300–400 þús. Ef það væru 400 þús., þá er styrkur og lán 50%. En árin 1957 og 1958 mun lán úr byggingarsjóði hafa numið 30% af kostnaðinum.

Þetta tel ég rétt að komi fram, þótt ég sé því sammála, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það væri æskilegt að gera meira og gera betur í þessu efni. En þetta er spor í rétta átt. Og hvað jarðræktarlögin snertir, þá vildi ég aðeins upplýsa þetta: Frv., sem frá mþn. kom, er í athugun hjá n., sem ég hef skipað og óskað eftir að hraði störfum. Og verði þeirri endurskoðun lokið svo fljótt, að unnt sé að leggja það fram hér á þessu þingi, geri ég ráð fyrir, að það verði gert, vegna þess að ég tel eðlilegt, að jarðræktarstyrkurinn verði hækkaður frá því, sem nú er.