12.03.1963
Efri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur rætt þetta frv. og mælir einróma með því, að það sé samþ.

Eins og fram kemur í áliti milliþn., sem var kosin af Alþingi 11. maí 1959, aflaði hún sér bæði erlendra og innlendra upplýsinga. Þær leiddu í ljós, að á undanförnum áratugum hefur meðalmannsævi lengzt verulega, og er talið víst, að enn eigi hún eftir að lengjast verulega á næstu áratugum. Ellilífeyrisaldur hér á landi er nú miðaður við 67 ár. Sem betur fer bendir athugun, er fram hefur farið á fólki, sem er að nálgast þann aldur, til þess, að 8–9 af hverjum 10 geti haldið áfram að vinna sama eða svipað starf og þeir hafa unnið. Langflestir vildu þeir líka halda áfram að vinna, en nokkrir óskuðu eftir styttri vinnutíma eða léttari vinnu. Það hefur einnig komið í ljós, að það er ekki aðeins, að þetta aldraða fólk geti og vilji vinna, heldur er það heilsubetra og hamingjusamara, ef það fær starf áfram við sitt hæfi.

Þetta er mjög mikilsvert fyrir fámenna þjóð eins og okkur Íslendinga, þar sem fjöldi verkefna kallar á hverja vinnufúsa hönd. Sjálfsagt er að greiða fyrir þessu fólki, svo að það megi sem lengst njóta þess að vinna með félögum sinum. Það, sem einkum er þörf á, er að hjálpa þeim, sem þurfa eða óska eftir að stytta vinnutíma sína eða fá léttari störf. Þetta verkefni ætti að vera auðvelt að leysa í samvinnu við þær vínnustofur, sem nú eru að rísa upp í Reykjavík fyrir öryrkja og til endurhæfingar sjúkra. Þessar vinnustofur og heimili eru að vísu reist að frumkvæði einstakra hópa eða félaga, eins og t.d. S.Í.B.S., en þróunin hlýtur og að verða sú, að þær taki við öllum, sem þurfa, án tillits til fyrri sjúkdóms eða aldurs.

Þetta, hvað fólk endist betur en áður, vekur einnig til umhugsunar um það, eins og hæstv. ráðh. og hv. 3. þm. Norðurl. v. minntust á við 1. umr. þessa máls, hvort aldurshámark embættismanna er ekki of lágt eða a.m.k. of rígbundið. Það er full ástæða til að athuga það nánar, og ef ekki þykir ráðlegt að slaka á aldurshámarkinu, er nauðsynlegt að finna ráð til þess að nota sérþekkingu og reynslu þeirra, sem verða að láta af störfum fyrir aldurs sakir, bæði þeirra vegna og þjóðfélagsins. Ég minnist þess, að einn þekktasti heilaskurðlæknir heims þurfti að láta af störfum nýlega í heimalandi sínu. Hann fluttist til annars lands og veitir þar nú forstöðu sjúkrahúsi, þar sem hin frábæra þekking hans, reynsla og tækni fær enn þá notið sín um hríð.

Það var sammála álit okkar, sem vorum í n., sem vann að þessu máli, að það, sem mest þörf væri á að gera fyrir þennan stóra hóp aldraðs fólks, væri að greiða fyrir því, að það gæti fengið þægilegar og hentugar íbúðir. Til þess að stuðla að því er þetta frv. um byggingasjóð aldraðs fólks samið og flutt. Frv. var breytt lítils háttar frá því, að n. skilaði því af sér, en fullt samkomulag náðist um breytingarnar milli okkar, sem vorum í n., og forustumanna D.A.S. Við erum sammála um, að þetta hljóti að stuðla að því, að aldrað fólk hafi sem lengst skilyrði til þess að lifa og starfa sem virkir þátttakendur í önnum daglega lifsins og að því að búa þjóðinni og börnum hennar betri og bjartari framtíð.

Þær tekjur, sem vænta má að sjóðurinn fái til að byrja með, eru að vísu ekki miklar. Þó má búast við, að árlega verði unnt að styrkja a.m.k. 10 íbúðir, er hver væri ætluð hjónum eða 2 einstaklingum. A aðeins 5 árum væri þannig hægt að stuðla að því, að 100 manns fengju hentugar íbúðir. Í þessu sambandi má geta þess, að talið er, að 2 manna íbúð kosti álíka mikið og eitt rúm í elliheimili eða dvalarheimili fyrir aldrað fólk.

Við, sem vorum í n., sem undirbjó þetta frv., og aðrir, sem um þetta mál hafa hugsað, bæði hér á landi og erlendis, eru sammála um, að aldrað fólk eigi í lengstu lög að búa á eigin heimilum. Til þess að stuðla að því má margt gera, t.d. sjá um, að það, sem þess þarf með, eigi kost á heimilisaðstoð og hjúkrun. Um dvalarheimili aldraðs fólks er talið, að þau eigi að vera í sem nánustum tengslum við það umhverfi, sem fólkið hefur lifað í og vanizt. Heimilin eiga helzt ekki að vera stór. Nokkur lítil heimili eru talin heppilegri en eitt stórt. Okkur, sem að þessu frv. höfum unnið, er ljóst, að þessar aðgerðir leysa ekki allan vanda þessa fólks, en víð erum viss um, að það er spor í rétta átt.