15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég varð harla lítið fróðari af svarræðu hæstv. ráðh. Ekki fékkst neitt upplýst um það, hver fjárhagsgrundvöllur þessa frv. er, — um það var spurt, — og litið um það, hvernig þessar íbúðir ættu að vera frábrugðnar öðrum með tilliti til þess, að þær eru sérstaklega fyrir aldrað fólk, og um það, að það væri nokkuð vel um það búið, að íbúðir, sem byggðar væru í upphafi fyrir aldrað fólk, yrðu það framvegis, nema þær væru byggðar á vegum sveitarfélaga. Það vissi ég mætavel. En þetta, að byggingarnar séu gerðar af sveitarfélögum, er samkv. frv. aðeins einn möguleiki af þremur, sem nefndir eru í frv. Að öðru leyti er gert ráð fyrir, að byggt verði samkv. ákvæðum þessa frv. af öðrum aðilum, sem sveitarstjórnir mæla með og takast á hendur að reisa íbúðir handa öldruðu fólki. Um þessa aðila, hverjir sem þeir nú eru, — ég veit ekki einu sinni, hverjir þeir eru, og ég hygg, að þingmenn viti það ekki almennt, — eru engin skilyrði um það, hvernig eigi að búa um, að þær íbúðir, sem þessir aðrir aðilar en sveitarfélögin byggi, verði framvegis fyrir gamalt fólk. Þess vegna spurði ég. Svo kemur í 6. gr., að tryggingaráð geti ákveðið, að hluti sjóðsins komi til úthlutunar á vegum húsnæðismálastjórnar ríkisins og þessi lánastarfsemi á vegum húsnæðismálastjórnar skuli vera innan þess ramma að lána einstaklingum yfir 67 ára aldri til kaupa á íbúðum, sem verða þá persónuleg eign þessa fólks. En ég sé hvergi, að nein ákvæði séu um það að tryggja, að þessar íbúðir, sem fá fé úr sjóðnum sem lánsfé, verði áfram íbúðir fyrir gamalt fólk, og þess vegna spurði ég hæstv. ráðh., og hann gaf engin svör við þessu. Það hefur m.ö.o. enn þá ekki fengizt svar við því, hvernig það verði tryggt, nema þegar um fyrsta aðilann er að ræða, sveitarfélögin, að þessar íbúðir, þó að þær séu byggðar fyrir gamalt fólk, verði áfram til þeirra nota.

Hæstv. ráðh. taldi, að það hefði andað heldur köldu frá mér til málsins. Ég lýsti því yfir, að ég mundi fylgja frv., en lét hins vegar í ljós, að ég óttaðist, að þetta yrði ekki að mjög almennum notum af því, hversu fátt það yrði af öldruðu fólki, sem réðist í það að kaupa yfir sig íbúð hátt á sjötugsaldri. Finnst mér líklegast, að það fólk á þessum aldri, sem vel væri stætt, hafi á ævinni fram að þessum aldri með einhverjum hætti leyst sín húsnæðismál. Það af því, sem væri svo báglega statt, að því hefði ekki tekizt það fram að 67 ára aldri, finnst mér ákaflega ólíklegt, að geti a.m.k. notað sér möguleikana samkv. 6. gr. Það gæti notið góðs af því, ef sveitarfélag byggði slíkar íbúðir. En eitt skal ég taka fram í sambandi við það, sem ég sagði um húsnæðisþörf og þörf sérstakrar löggjafar til þess að greiða fyrir húsnæðismálum ungs fólks, af því að það hefði svo almenna þýðingu í þjóðfélaginu og þá væri verið að hjálpa á þeim aldri, sem fólk þyrfti fyrst og fremst að koma fótum undir heimili, að það er ekki af því, að ég telji ekki gamla fólkið, sem búið er að skila sínum langa vinnudegi til þjóðfélagsins, þess verðugt, að því sé hjálpað. Ég tel bara, að hjálp á því aldursskeiði, sem hér um ræðir, muni í svo tiltölulega fáum tilfellum koma að gagni, og einungis er það þess vegna, sem ég læt í ljós, að ég óttist, að frv. hafi ekki mjög almenna þýðingu. Ég tel það mjög gott í þeim fáu tilfellum, sem það kann að koma öldruðu fólki að gagni til þess að leysa sín húsnæðismál, — það sé mjög gott, komi í verðugan stað niður. Ég vil taka það fram, svo að hvorki hæstv. ráðh. né aðrir geti lagt það út á hinn versta veg fyrir mér, en viljann skortir ekki til þess, það var mér ljóst.

Að lokum skal ég svo segja það, svo að mín afstaða til þessara mála verði ljósari, að ég sætti mig betur við þá lausn á húsnæðismálum gamals fólks, að því sé gert fært að vera annaðhvort á heimllum sinna aðstandenda eða þar, sem hjón geti verið meira út af fyrir sig heldur en almennt hefur verið hægt á hinum opinberu stofnunum, elliheimilunum. Ég held, að opinberar stofnanir, elliheimili, með mörg hundruð gamals fólks, sé ekki hin æskilegasta þjóðfélagslausn á málum gamla fólksins. Ég held, að æskilegast sé, að hægt sé að búa gamla fólkinu heimili sem mest í námunda við heimili fólks á öllum aldri, og að sérstaklega sé gamla fólkinu meira yndi að því að vera í námunda við barnafjölskyldur og börn missi mikils í að geta ekki haft samneyti við gamla fólkið. Þess vegna er það óeðlileg þjóðfélagsráðstöfun að safna mörgum hundruðum gamals fólks saman í opinberum stofnunum og aðskilja það þannig frá hinu venjulega lifandi lífi og aðskilja alveg sérstaklega börn og gamalmenni, sem eru hvor annarra yndi og stoð.