01.11.1962
Efri deild: 10. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

2. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég átti ekki samleið með meðnm. mínum í hv. fjhn. um afgreiðslu þessa frv. Hef ég skilað séráliti á þskj. 75 og gert þar grein fyrir afstöðu minni. Það, sem ágreiningnum olli við meiri hl, n., eins og hv. frsm. meiri hl. hefur nú líka gert grein fyrir, er 5. gr. frv. í þeirri grein segir:

„Gilda skulu til ársloka 1963 ákvæði um 8% viðbótarsöluskatt á innfluttar vörur í a-lið bráðabirgðaákvæða við lög nr. 10 1960, um söluskatt.“

Framlengingu bráðabirgðaákvæðisins um þennan viðbótarsöluskatt var stungið inn í þetta margþætta, árvissa framlengingarfrv. í fyrra. Annars var viðbótarskatturinn lögleiddur 22, marz 1960 og hafin innheimta á honum í ríkissjóð frá 1. apríl 1960. Atti hann þá, svo sem margoft hefur verið á minnzt, að gegna sérstökum hlutverkum til ársloka 1960, aðalhlutverkí, sem tilheyrði því ári. Gaf hann það ár í tekjur samkvæmt ríkisreikningi kr. 126610071.94. Þegar leið að árslokum 1960, taldi hæstv. ríkisstj. sig ekki mega missa þennan skatt árið 1961 og lét liðsmenn sína framlengja hann til ársloka 1961. Voru tekjur af skattinum fyrir það ár áætlaðar 168 millj. kr., en reyndust í innheimtu samkv. ríkisreikningi 1961 kr. 186457547.03.

Fyrir árslokin 1961 kom í ljós, að ríkisstj. taldi sig alls ekki geta lagt upp á árið 1962 án þessa viðbótar-bráðabirgðasöluskatts. Hún sýndist vera orðin svo dauðhrædd við fjárhagskerfi sitt, að hún var búin að gefa upp alla von um, að hún gæti losnað við þessa leiðu fylgju sína. Greip hún þá til þess ráðs að binda hana við gömul framlengingarákvæði, sem eru í þessu frv.

Á fjárlagafrv. fyrir 1962 er viðbótarskatturinn áætlaður 202 millj. kr. Ekki er vitað, hvað hann fer fram úr þeirri áætlun. Á fjárlagafrv. því, sem lagt hefur verið fram fyrir árið 1963, er skatturinn áætlaður 259 millj. og 400 þús. kr. Skattauki þessi hefur frá upphafi verið 8.8 % í framkvæmd, en árlegi grundvöllurinn hefur hækkað eins og heildartölurnar, sem ég hef nefnt, bera vott um. Skattauki þessi hefur því gert hvort tveggja að hækka í heild með aukinni dýrtíð og að auka dýrtíðina. Talið var 1960, að afnám hans mundi nema 3% lækkun á lífskostnaði hjá vísitölufjölskyldu, og varla væri það minna nú, eins og líka hv. frsm. meiri hl. gekk inn á áðan í ræðu sinni.

Hæstv. ríkisstj. átti áreiðanlega þau áform, þegar viðbótarskatturinn var settur, að afnema hann eftir árið. Ég efa það ekki. Ýmsir aðrir trúðu því líka, að hún mundi afnema hann að árinu loknu. Hún var í þá árdaga sína bjartsýn á efnahagskerfi hagfræðinga sinna, og sú bjartsýni náði til stuðningsflokka hennar. Hún virtist helzt álíta, að kerfið væri eins konar vél, er gerði að gulli eða gullsígildi allt, sem í hana væri látið. En það hefur nú reynzt öðru nær. Framlenging viðbótarskattsins er auðvitað aðeins eitt lítið sýnishorn vonbrigðanna af hinu hagfræðilega efnahagsmálakerfi, sem hin svonefnda „viðreisn“ var reiknuð eftir og áætluð samkvæmt.

Fyrsta afmæli sinna góðu áforma í sambandi við viðbótarsöluskattinn hélt hæstv. ríkisstj. upp á með því að framlengja hann, eins og ég sagði áðan, til ársloka 1961. Það var léleg veizla fyrir almenning, sem borgar þennan brúsa, og auðvitað veit ég, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki verið hún geðfelld heldur. Annað afmæli var með sama sniði, nema reynt var að láta minna á því bera með því að gera skattinn þá að lið í bandorminum svokallaða. Nú er þriðja afmæli hinna góðu áforma, og enn á að framlengja þennan bráðabirgðaskatt um eitt ár. Mér finnst, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar ættu að taka rögg á sig og framkvæma nú sín þriggja ára góðu áform að fella þennan skattauka niður. Það er ekki seinna vænna fyrir hæstv. ríkisstj., eins og hún hlýtur að gera sér grein fyrir, vegna þess m.a., að árið 1963 er kosningaár. Dýrtíðin liggur þungt á almenningi, verður þyngri og þyngri með hverjum degi sem liður. Afnám þessa söluskattsauka mundi verða almenningi verulega til léttis.

Ég vil gefa meiri hl. þessarar hv. d. tækifæri til þess að sýna hug sinn í þessu máll. Flyt ég á þskj. 76 brtt. við 5. gr. frv. um, að niður falli þar fyrirmælið um framlengingu viðbótarsöluskattsins. Vitanlega veldur niðurfelling viðbótarsöluskattsins röskun á frv. því til fjárlaga fyrir 1963, sem þingið hefur fengið til meðferðar. En af því að langt er enn til afgreiðslu þess, rétt byrjuð athugun þess, gefst nægur tími til breytinga á því frv.

Ég mæli með því, að frv. það, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, verði samþykkt að öðru leyti en 5. gr. og að hún verði samþykkt með þeirri breytingu, sem ég legg til á þskj. 76 að á henni verði gerð.