19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

5. mál, lögreglumenn

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur á nokkrum fundum sínum farið yfir og rætt frv. til l. um lögreglumenn, og leggur n. til í heild, að frv. verði samþ. Með þeim breytingum, sem hún gerir sérstakar till. um og prentaðar eru á þskj. 409. Tveir nm., hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 11. landsk. þm., áskilja sér þó rétt til þess að flytja og fylgja öðrum brtt., sem fram kunna að koma við frv.

Allshn. sendi frv. til umsagnar og athuganir Dómarafélagi Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga, og mæla þessi félagssamtök bæði með samþykkt frv. í öllum höfuðatriðum.

Frv. þetta, ef að lögum verður, kemur í stað gildandi l. um lögreglumenn, nr. 50 1940, ásamt nokkrum breyt., sem á þeim l. hafa síðan verið gerðar. Er frv. miðað við breyttar aðstæður frá því, að áðurnefnd lög voru sett, og vaxandi þörf fyrir aukna og örugga löggæzlu í bæjum og héruðum. Einnig er með frv. komið til móts við eindregnar óskir sveitarfélaganna um, að ríkissjóður taki meiri þátt í kostnaði við löggæzlu en hingað til hefur verið gert.

Eins og í grg. með frv. segir, eru þessar breyt. frá gildandi l. veigamestar:

Í fyrsta lagi: Rýmkaðar eru reglur um heimild til lögreglumannahalds með tilstyrk ríkissjóðs, þannig að ríkisstj. er heimilt, að fengnum till. sveitarstjórnar eða sýslunefndar, að fyrirskipa, að í sveitar- eða sýslufélagi, þar sem eru 500 íbúar eða fleiri, skuli vera allt að einum starfandi lögregluþjóni á hverja 500 íbúa. Í gildandi l. er hins vegar miðað við, að í kaupstöðum eða kauptúnum, þar sem eru þúsund íbúar eða fleiri, megi hafa tvo lögreglumenn.

Í öðru lagi: Ríkissjóður greiði almennt helming lögreglukostnaðar í stað 1/6 hluta í gildandi 1., og má segja, að þetta sé í rauninni veigamesta breyt., sem gerð er í frv. frá gildandi l. Þá er felld niður í frv. sú takmörkun gildandi l. um þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við löggæzlu, að hún komi ekki til, nema a.m.k. einn lögreglumaður komi á hverja 700 íbúa, en í frv. er miðað við, að einn lögreglumaður verði á hverja 500 íbúa, eins og áður sagði.

Í þriðja lagi er gerð sú undantekning frá þeirri reglu, að ríkissjóður greiði almennt helming kostnaðar af löggæzlu á móti sveitarfélögunum, að í Reykjavík skuli ríkissjóður aðeins greiða 1/3 hluta kostnaðarins. En allshn. hefur flutt brtt., þar sem hún leggur til, að í Reykjavík greiði ríkissjóður 2/5 hluta af þessum kostnaði. Það sjónarmið, að ríkissjóði beri ekki að greiða jafnmikinn hluta kostnaðarins af löggæzlu í Reykjavík og annars staðar á landinu, byggist á því, að Reykjavíkurborg nýtur að langmestu leyti þjónustu ríkislögreglumannadeildar, og er í frv. gert ráð fyrir, að tala ríkislögreglumanna verði ekki lægri en þriðjungur borgarlögreglumanna, en ríkissjóður greiði einn allan kostnað af ríkislögreglumannahaldi.

Í fjórða lagi er heimilað að ákveða, að lögreglumenn sveitarfélaga gegni jafnframt tollvarðarstöðum og þá með aukinni hlutdeild ríkissjóðs í kostnaði. Í þessu sambandi má geta þess, að á Alþ, hefur oftar en einu sinni verið látinn í ljós sá vilji með samþykkt þáltill., að hafið yrði nánara samstarf milli tollgæzlu og löggæzlu til hagræðis og sparnaðar fyrir þá aðila, sem eiga að bera kostnað af þessum tveim þáttum löggæzlunnar.

Í fimmta lagi: Markaðar eru reglur um störf héraðslögreglumanna, sem hafi fasta þóknun, en fái auk þess greiðslur fyrir unnin störf. Fasta þóknun héraðslögreglumanna og allan annan kostnað á sýslusjóður að greiða, en ríkissjóður endurgreiðir síðan helminginn. Ríkissjóður greiðir þó að öllu leyti kostnað við þjálfun, einkennisfatnað og annan búnað héraðslögreglumanna.

Í sjötta lagi: Við embætti lögreglustjórans í Reykjavík verði starfræktur lögregluskóli, og er með því staðfest sú framkvæmd, sem orðin er á heimild gildandi i. um námskeið fyrir lögreglumenn. Verður að telja þessi nýmæli eðlileg og æskileg.

Um brtt. allshn. á þskj. 409 er þetta að segja í fáum orðum:

1. brtt. n. er um það, eins og ég áður drap á, að ríkissjóður skuli endurgreiða 2/5 hluta af lögreglukostnaði í Reykjavik í stað 1/3 hluta, eins og ráðgert er í frv. Það er ekkert leyndarmál, að forráðamenn Reykjavíkurborgar töldu talsvert á sig hallað með því ákvæði frv., að ríkissjóður skyldi aðeins endurgreiða borgarsjóði 1/3 hluta löggæzlukostnaðar, miðað við það, að öðrum sveitarfélögum yrði endurgreiddur helmingur þessa kostnaðar. Þótti að athuguðu máli rétt að koma til móts við eindregnar óskir forráðamanna borgarinnar um, að þessu ákvæði yrði breytt þannig, að ríkissjóður greiddi 2/5 hluta kostnaðarins í stað 1/3 hluta, eins og frv. gerir ráð fyrir. Hins vegar stendur það óhaggað, að Reykjavíkurborg lýtur að langmestu leyti þjónustu ríkislögreglumannanna, en ríkissjóður greiðir allan kostnað af því lögreglumannahaldi, eins og ég áður sagði.

Önnur brtt. n. er aðeins orðalagsbreyt., sem ekki er ástæða til að ræða.

Í þriðja lagi leggur n. til að sú breyt. verði gerð á 5. gr. frv., að núv. tollvörðum verði ekki gert skylt að vinna störf lögreglumanna gegn vilja sínum, en í frv. er gert ráð fyrir, að þeim tollvörðum, sem ráðnir hafa verið til starfa, eftir að gildandi lög um lögreglumenn tóku gildi, sé skylt að vinna slik störf sem ríkislögreglumenn. Eðlilegt verður þó að telja og sjálfsagt, að hér eftir verði þeir tollverðir, sem ráðnir verða til starfa, þjálfaðir í lögregluskóla ríkisins.

3. og 4. brtt. n, leiðir aðeins af því, að þessu frv. hefur seinkað nokkuð, og er gildistaka l. af þeim sökum færð aftur um eitt ár, svo og tímamarkið fyrir þátttöku ríkissjóðs í kostnaði við löggæzlu og lögreglu.

Ég tel svo ekki ástæðu til á þessu stigi að fara fleiri orðum um frv., en eins og ég áður tók fram, leggur allshn. í heild til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hún gerir till. um á sérstöku þskj.