01.04.1963
Efri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 788 í B-deild Alþingistíðinda. (701)

5. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Meginefni þessa frv. er það, að ríkið taki meiri þátt í lögreglukostnaði en verið hefur. Jafnframt er svo um búið, að meiri líkur eru til þess, að fullnægjandi löggæzla fáist víðs vegar um landið, heldur en hingað til hefur átt sér stað. Frv. hefur þegar verið afgr. í hv. Nd., og varð þar ekki ágreiningur um það að meginstefnu, heldur einungis hitt, að sumum þótti of skammt gengið í þátttöku ríkisins í kostnaði sveitarfélaganna við löggæzlu. Um slíkt má auðvitað lengi della, hversu langt skuli fara í breytingum á fyrri lagaákvæðum, en enginn mælti því í mót, að hagur sveitarfélaganna yrði þó mun betri samkv. þessu frv. en hingað til hefur verið, svo að jafnvel frá sjónarmiði þeirra, sem telja, að stefna beri að því, að ríkið eigi smám saman að taka við allri löggæzlu, verður ekki um það deilt, að þetta frv. er spor í rétta átt og mjög verulegt spor í þá átt að færa kostnaðinn af sveitarfélögunum yfir á ríkið.

Frv. var lagt fyrir hv. Nd. snemma þings, og var þá ráðgert, að það tæki gildi þegar um áramót. Af ýmsum ástæðum varð á því nokkur dráttur, að það fengi fullnaðarafgreiðslu í hv. Nd., og var þá gildistímanum breytt og þar með brott numið það ákvæði til bráðabirgða, að sveitarfélögin fengju nokkra leiðréttingu sinna mála þegar á þessu ári. Ég hef orðið var við nokkra óánægju hjá sumum þm. af þessum sökum. Þeir hafa tjáð mér, að sum sveitarfélög hafi reiknað með því framlagi frá ríkinu í sínum fjárhagsáætlunum á þessu ári, því framlagi, sem þeim var ætlað samkv. bráðabirgðaákvæðinu, eins og það var í fyrstu. Ég hef ekkert á móti því, að þessu verði breytt í það horf, sem upphaflega var, ef mönnum sýnist það réttara, og fjmrh. er því einnig samþykkur. Hv. n. tekur það þá til athugunar, hvort hún telur ástæðu til breyt. á þessu ákvæði.

Ég sé svo ekki ástaæðu til þess að fjölyrða meira um málið á þessu stigi, en legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.