05.04.1963
Efri deild: 68. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

5. mál, lögreglumenn

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Á þskj. 520 flyt ég eina brtt. við þetta frv. til 1. um lögreglumenn. Brtt. snertir 1. gr. frv. og er á þá leið, að í stað orðanna „ríkisstj. er heimilt, að fengnum till. sveitarstjórnar eða sýslunefndar, að ákveða, að í sveitar- eða sýslufélagi“ o.s.frv., að í stað þessara orða komi: „ríkisstj. er heimilt að fengnu samþykki sveitarstjórnar eða sýslunefndar“. Ég lít svo á, að það sé réttara að gera ráð fyrir, að samþykki sveitarstjórnar þurfi til varðandi ákvæðið um tölu lögreglumanna á viðkomandi stað.

Það eru aðallega tvær ástæður fyrir því, að ég tel rétt að flytja þessa brtt. Fyrri ástæðan er sú, að ég tel það ekki nema sanngjarnt, að þegar tveir aðilar hafa á hendi sameiginlegan rekstur og standa sameiginlega undir kostnaði, þá hafi báðir úrskurðarvald í þeim efnum, sem snerta samstarfið. Þess vegna þykir mér ekki sanngjarnt, að ríkisstj. ein geti ákveðið tölu lögreglumanna í sveitarfélagi, án þess að samþykki sveitarstjórnar liggi fyrir. Það er ríkisstj. eða ríkissjóður og sveitarstjórnin eða sveitarsjóður, sem sameiginlega standa undir kostnaði í sambandi við þessi störf. Aðeins þessi ástæða ein finnst mér nægja til þess, að hér standi í lögum: „að fengnu samþykki sveitarstjórnar“ í stað „að fengnum till. sveitarstjórnar“.

En það er einnig önnur ástæða til þess, að ég flyt þessa brtt., og hún er aðstaða sveitarfélagsins í þjóðfélaginu. Mér finnst ég verða var við það á síðari árum, að viss tilhneiging sé til að taka fleiri og fleiri mál úr höndum sveitarstjórna og afhenda þau ríkísvaldinu. Slík þróun er að mínum dómi mjög óheppileg í lýðfrjálsu landi. Það er mikill kostur, að sveitarfélögin hafi visst sjálfsforræði um sín mál og fái að halda því. Hins vegar er skiljanlegt, að tilhneigingin til þess að svipta sveitarfélögin sjálfsforræðinu smátt og smátt sé rík. Ríkisvaldið leitast við að auka sín völd og sín áhrif, og ríkisvaldið hefur sérstaklega góða aðstöðu gegnum löggjafarvaldið að fá sitt fram á kostnað sveitarfélaganna. Hér er eitt dæmi af mörgum um það, að vald, sem að mínum dómi ætti að vera í höndum sveitarstjórnar, skal frá henni tekið. Þetta tel ég óheppilegt, ekki aðeins í þessu tilfelli, heldur yfirleitt þá tilhneigingu, sem þetta er dæmi um, — tel það mjög óheppilegt í okkar lýðfrjálsa landi. Það má segja, að það sé kostur að hafa öflugt ríkisvald, en það er ekki gildandi nema að vissu marki. Mjög öflugt ríkisvald er hættulegt, og það er lýðræði og þjóðræði til tryggingar að dreifa valdinu, eins og gert er ráð fyrir með vissu sjálfsforræði sveitarstjórna.

Það eru þannig tvær meginástæður fyrir því, að ég flyt þessa tili., og ég hygg, að enginn sanngjarn maður og réttsýnn geti borið á móti, að þessar ástæður eru báðar veigamiklar, annars vegar sú, að sá, sem ber kostnað, á líka að ráða, og hins vegar sú ástæðan, að hættulegt sé að skerða mjög vald sveitarfélaganna.