02.04.1963
Efri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

217. mál, happdrætti háskólans

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er að heimila Háskóla Íslands að fjölga hlutamiðum í háskólahappdrættinu. Um ástæðurnar fyrir því, að frv. þetta er fram borið, má vísa til grg. frv. og framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir frv. við 1. umr. Það er þó e.t.v. ástæða til þess að skýra aðeins nánar eitt atriði.

Í 1. gr. frv. er talað um heimild til þess að gefa út nýjan flokk hlutamiða, B-flokk, er tengist við þau númer, sem heimilt er að gefa út samkv. ákvæðum þessa töluliðs, eins og það er orðað í frv., sbr. og grg., þar sem rætt er um það, að þetta nýja fyrirkomulag muni spara til muna vinnu við útdrátt o.fl. Það, sem hér er um að ræða, er, að gert er ráð fyrir því, að það verði gefinn út nýr flokkur, B-flokkur, með númeraröð frá 1, og mundi það þá verða þannig, að ef númer kemur upp með vinning í þeim flokki, sem fyrir er, sem mundi þá framvegis verða kallaður A-flokkur, þá mundi það einnig verða vinningsnúmer í B-flokki. Þannig er það, sem sparnaðurinn við útdráttinn, sem um er talað í grg., kemur fram.

Hv. þdm. munu e.t.v. hafa veitt því athygli, að bæði lagafrv. og nál. hafa verið prentuð upp, en ástæðan til þess er þó ekki sú, að um neina efnisbreytingu sé að ræða, heldur var það eingöngu vegna prentvillu. Í hinu upphaflega þskj. var talað um frv. til l. um stofnun happdrættis á Íslandi, en í l. frá 1933 er það nefnt stofnun happdrættis fyrir Ísland, og var þetta auðvitað leiðrétt.

Fjhn. hefur athugað frv., og eins og nál. á þskj. 485 ber með sér, mælir hún eindregið með því, að það verði samþ. óbreytt.