26.03.1963
Neðri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Með frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að tekið verði 50 millj. kr. lán handa ríkisábyrgðasjóði. Það er sem sé gert ráð fyrir því í fyrsta skipti, að haldið verði út á þá braut, að ríkið taki lán til þess að greiða töp á ríkisábyrgðum.

Eins og hér hefur verið bent á, er ekkert flókið að átta sig á því, hvað hér er í raun og veru að gerast, þó að óneitanlega sé ýmislegt gert til að flækja það nokkuð fyrir mönnum.

Árið 1961 voru veittar 38 millj. á fjárlögum ríkisins til þess að mæta töpum á ríkisábyrgðum. Þetta fé v ar ekki notað til þess á því ári, það var ekki greitt, eins og hér hefur verið bent á. Og vegna þess að þetta fé var ekki borgað í þessu skyni, hefur ríkisábyrgðasjóðurinn, sem er bara eins konar reikningur í ríkisbúskapnum, komizt í þrot. Og í staðinn fyrir að greiða þetta fé úr ríkissjóði á nú að taka lán. Í staðinn fyrir að borga af ríkistekjunum 38 millj. á árinu 1961 á nú að taka lán. Og eins og hv. 3. þm. Vesturl. réttilega lagði áherzlu á, þá var greiðsluafgangurinn á árinu 1961 talinn 38 millj. kr. hærri, vegna þess að féð var ekki lagt fram til ríkisábyrgðasjóðsins. En nú kemur í ljós, að það þarf á fénu að halda, og þá á að taka það að láni og skjóta því yfir á framtíðina að standa straum af þessum útgjöldum. Þetta er vitanlega gert til þess að punta á pappírnum upp á afkomu ríkissjóðs 1961. Sannleikurinn er sá, að ef ríkissjóður hefði átt að standa undir greiðslum af ríkisábyrgðum á árinu 1961 af tekjum sínum, eins og áður tíðkaðist að gert væri, þá hefði enginn greiðsluafgangur orðið á því ári, heldur þvert á móti nokkur greiðsluhalli, því að greiðslur af ríkisábyrgðum urðu á því ári rúmlega 70 millj. Þeim var skotið yfir á þennan sérstaka reikning, sem skírður var ríkisábyrgðasjóður, og með því móti fékkst eitthvað á milli 60 og 70 millj. króna greiðsluafgangur.

Þetta var það, sem gerðist 1961. Og einnig hefur það gerzt í þessum málum, að það hefur ekki verið greitt fé úr ríkissjóði sjálfum á árinu 1961 og ekki nema tiltekin fjárveiting á árinu 1962, en ríkisábyrgðatöpunum velt yfir á sjávarútveginn með þeirri fjárupptöku, sem gerð var í sambandi við gengislækkunina 1961, þegar hækkunin á útflutningsvörubirgðunum var tekin eignarnámi og færð inn í ríkisbúskapinn, fyrst og fremst til þess að standa undir ríkisábyrgðatöpunum.

Nú, þegar það kemur í ljós, að þetta fé er ekki nógu mikið til að standa undir töpunum, og enn fremur með tilliti til þess, að ríkissjóður lagði ekki fram á árinu 1961 þessar 38 millj., þá er ætlunin með þessu frv. að ákveða lántöku handa ríkisábyrgðasjóðnum, sem er raunverulega lántaka ríkissjóðs. Sú stefna hefur sem sé verið tekin upp að velta ríkisábyrgðunum yfir á sjávarútveginn með eignaupptökunni 1961, sem ég var að lýsa, og svo yfir á framtíðina með lántöku, í stað þess að áður var ævinlega höfð sú stefna að greiða það, sem greiða þurfti af ríkisábyrgðaskuldunum, með sjálfum ríkistekjunum, en velta engu af því yfir á framtíðina né yfir á einstakar atvinnugreinar í landinu, eins og óneitanlega hefur verið gert nú með eignaupptöku gengishagnaðarins af sjávarvörubirgðunum á árinu 1961. En allar þessar sjónhverfingar, allar þessar færslur fram og aftur virðast vera gerðar að verulegu leyti til þess að leyna því, að þrátt fyrir gífurlegar skattaálögur á síðustu árum hefur ekki búnazt betur en svo, að ríkistekjurnar hafa i raun og veru samt sem áður ekki hrokkið til að greiða ríkisábyrgðatöp eftir hendinni, eins og áður var gert.

Þetta kom mjög greinilega fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. hér áðan. En í þessu sambandi get ég ekki stillt mig um að minna á, að nú er svo komið, að álögur til ríkissjóðs munu hafa hækkað um nærfellt 1 milljarð og 400 millj. kr. síðan 1958. Það er sem allra næst þeirri fjárhæð, þegar fjárlögin 1958 og fjárlögin 1963 eru borin saman, og er þá tekið tillít til þess fjár, sem notað hefur verið til þess að greiða niður vöruverð bæði tímabilin, og þessar tölur því algerlega sambærilegar. En það, sem skeð hefur, er, að allt þetta gífurlega fjármagn, sem mokað hefur verið á með nýjum álögum og tveimur stórfelldum gengislækkunum, hefur því miður ekki enzt til þess að standa undir öllum þeim greiðslum, sem ríkissjóður raunverulega þurfti að inna af hendi, ef vel hefði verið. Það er sérstaklega áberandi, að ríkissjóður hefur ekki verið þess megnugur að standa undir greiðslunum af ríkisábyrgðalánunum, heldur velt þeim að verulegu leyti, sem ég kalla, yfir á sjávarútveginn í sambandi við upptöku fjárins af útflutningsvörubirgðunum. Og nú er ætlunin að velta verulegum hluta af þessari byrði vegna ríkisábyrgðalánanna yfir á framtíðina með þeirri lántöku, sem hér er ráðgerð.

Enn fremur er nauðsynlegt að geta þess í þessu sambandi, sem hv. 3. þm. Vesturl. gerði raunar hér áðan mjög rækilega, að fyrir utan þetta er nú farið að taka lán, gera ráðstafanir til þess að taka lán til að greiða margvísleg ríkisútgjöld, sem áður voru greidd af tekjunum, og þessar ráðstafanir eru þannig vaxnar, að þetta er dulbúinn greiðsluhalli á ríkisbúskapnum, sem ekki er einu sinni enn sem komið er kominn inn í reikningsskilin. Þetta er dulbúinn greiðsluhalli, því þó að hér sé oft um fjárfestingarútgjöld að ræða, sem er þannig haldið utan við og gert ráð fyrir lántöku til, þá er hér um dulbúinn greiðsluhalla að ræða á ríkisbúskapnum miðað við þann hátt, sem áður var á hafður.

Í þessu sambandi vil ég vísa til þess, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan, þar sem hann benti á, að ekki er nú aðeins ráðgert að taka lán til þess að greiða upp ríkisábyrgðatöpin, sem áður voru greidd af tekjunum jafnóðum, heldur eru nú einnig ráðgerðar í stórum stíl lántökur í eina vegagerð, og það er líka nýjung í ríkisbúskapnum, því að vegaframlög hafa áður ævinlega verið greidd af ríkistekjunum. Enn fremur er nú gert ráð fyrir lántöku til að byggja lögreglustöð í Reykjavík og til skólabygginga í vaxandi mæli og ýmissa annarra framkvæmda, enn fremur til að greiða lögboðið framlag ríkissjóðs til atvinnuleysistryggingasjóðs. Allt þetta benti hv. 3. þm. Vesturl. á, og þetta sýnir þrátt fyrir þessar óskaplegu álögur, þar sem ríkistekjurnar hafa meira en þrefaldazt á örfáum árum, hvernig útgjöldum er í vaxandi mæli skotið yfir á framtíðina.

Hverjum dyljast þau vandkvæði, sem stafa af þessu við afgreiðslu fjárlaga á næstu árum, þegar stórkostlegar afborganagreiðslur og vaxtagreiðslur af vegagerðarlánum, skólabyggingarlánum, lögreglustöðvarlánum og öðrum slíkum lánum og lánum til að greiða lögboðið framlag ríkissjóðs til atvinnuleysistryggingasjóðs, þegar allt þetta bætist inn á fjárlögin á næstu missirum og næstu árum sem bein afleiðing af þessu búskaparlagi, sem nú hefur verið tekið upp? Efnt er til þess, að ríkissjóður hafi í framkvæmd mjög mikil fjárfestingarútgjöld án þess að greiða þau af tekjum sínum. Þetta þýðir lántökur til framkvæmda, sem ekki gefa ríkissjóði sjálfum neitt í aðra hönd, þó að þær út af fyrir sig séu nauðsynlegar. Enn fremur eru stórir póstar, sem í raun réttri eru greiðslur á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs, greiddir með lántökum, eins og t.d. framlagið til atvinnuleysistryggingasjóðs. Það er rekstrarútgjaldaliður í ríkisbúskapnum, sem allt í einu er tekið upp á að greiða með lánum.

En þetta er gert út úr vandræðum vegna þess, hvernig ríkisbúskapnum hefur verið stefnt, þar sem hinar gífurlegu álögur hafa ekki enzt til þess að halda uppi nauðsynlegustu verklegum framkvæmdum. Stjórnin hefur hrökklazt út á þessa braut, að taka lán og skjóta yfir á framtíðina ýmsum framkvæmdum, sem áður voru greiddar jafnóðum af tekjunum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er einn liður í þessu. Það er mjög alvarlegt, að þær stórkostlegu ríkistekjur, sem efnt hefur verið til, skuli ekki hafa enzt betur en þetta til að standa undir beinum þörfum og allra lífsnauðsynlegustu framkvæmdum. Hitt er svo ekki síður óviðkunnanlegt, að núverandi hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. skuli vera að reyna að leyna þessu með alls konar reikningsfærslubrellum, eins og óneitanlega stofnun þessa ríkisábyrgðasjóðs er. Þetta er ekkert annað en reikningsfærslubrella, til að rugla fyrir mönnum samhengið í þessum efnum. Þessi ríkisábyrgðasjóður er ekkert annað en reikningur í ríkisbúskapnum, en hann er settur upp til þess að vefa þennan vef, sem lítillega og lauslega hefur nú verið rakinn í sundur.

Eins er það t.d. með lánaviðskiptin út af Keflavíkurveginum, þeim hefur verið haldið utan við ríkisbókhaldið. Eg vona, að það sé búið að lagfæra það núna eftir þá sennu, sem um það varð í vetur, þegar menn urðu að standa hér í stórrifrildi til þess að reyna að fá þau viðskipti, Keflavíkurframkvæmdirnar, reikningsfærðar eftir eðlilegum leiðum í fjárlögin og ríkisbókhaldið. Ég vona, að þetta sé komið í lag, en mönnum er minnisstætt, hvernig þetta var, og það er ekki einu sinni, að greiðslur af lánunum til Keflavíkurvegarins séu ráðgerðar í fjárlögunum. Þó að þar sé ríkislán, sem allir vita að þarf að greiða af með ríkisfé, þá er ekki einu sinni sett inn í fjárlögin sú fjárhæð, sem þarf til að standa undir lánunum vegna Keflavíkurvegarins. Það er einn liður í þessum leiðinlega, hvimleiða sjónhverfingaleik. Og það er engin ánægja að þurfa að standa í að ræða um svona lagað, en óhugsandi annað en að jafnóðum sé bent á slíkar misfellur. En þetta er liður í því að setja þetta ekki upp hreint og beint eins og þetta er, vegna þess að menn virðast kinoka sér við að sýna af þessu rétta mynd. En auðvitað er slíkt skammgóður vermir, að þykjast ekki sjá þetta, því að auðvitað kemur að því, að það þarf að borga af þessum lánum, sem alls staðar er nú verið að efna til. Náttúrlega verður það að mestu leyti eftir kosningarnar, sem eiga að fara fram í vor, þannig að það er kannske hægt að punta sig eitthvað í nokkrar vikur enn þá á þessa lund. En það kemur auðvitað að því, að það þarf að greiða af þessum lánum. Það verður að greiða af lánunum, sem tekin voru vegna Keflavíkurvegarins, og þá kemur það beint inn í bókhaldið og í fjárlögin að lokum. Það þarf að fást við þær greiðslur.

Eins verður það um lánin, sem tekin hafa verið til greiðslu á lögboðnu framlagi til atvinnuleysistryggingasjóðs. Það var einn liður í þessum sjónhverfingaleik, að lögboðin gjöld til atvinnuleysistryggingasjóðs voru felld niður í einum fjárl. og ekki tekin með í útgjöldunum. Það var sagt, að það ætti að greiða þau með lánum. Það var sagt, að bókhaldsaðferðin væri rétt þannig, að það væri ekki fært inn í gjöld fjári., sem ætti að borga með lánum. En hvað kemur svo í ljós? Svo kemur það auðvitað í ljós, að það verður að ætla greiðslum af láninu sæti í fjárl. og ríkisreikningnum. Eins verður það með greiðslur af öllum þessum lánum, sem verið er að efna til hingað og þangað og haldið er utan við rétt í bili til að gera myndina aðeins snotrari. Það þarf að greiða af öllu þessu, og þá kemur það blákalt fram og veldur alveg jafnmiklum erfiðleikum í framtíðinni, þótt því sé á þessa lund haldið utan við að svo vöxnu.

Það hefur oft verið talsvert mikið rætt um ríkisábyrgðirnar, og það er ekki nema eðlilegt, því að ríkisábyrgðastarfsemin hefur verið mikill þáttur í ríkisbúskapnum í raun og veru og er enn. Það haía stundum verið ýmsir dómar felldir um, að þessi mál hafi ekki verið í eins góðu lagi, eða hvernig menn hafa orðað það, eins vel stýrt og átt hefði að vera. Auðvitað getur verið ákaflega mikið álitamál, hvernig stefna eigi varðandi ríkisábyrgðir. Sumir segja, að ríkið eigi aldrei að taka ábyrgð á neinu, nema það liggi alveg á borðinu, að það þurfi aldrei að leggja neitt fram úr ríkissjóði vegna erfiðleika með að standa í skilum. Mér er nú ekki alveg ljóst, hvort hæstv. núv. fjmrh. hefur beinlínis lýst þessu yfir sem alveg fastri stefnu sinni, en nær er mér að halda það. Ég álít, að þegar um opinberar framkvæmdir er að ræða, t.d. hjá sveitarfélögum og hjá kaupstöðum, þá geti oft verið lífsnauðsyn að veita ríkisábyrgð, jafnvel þótt menn telji sig vera í vafa um, að hlutaðeigandi kaupstaður eða byggðarlag geti staðið fullkomlega í skilum frá byrjun með greiðslur af lánum.

Ég hef sagt það hér áður, og ég skammast mín ekkert fyrir að upplýsa það, að á meðan ég hafði með þessi mál að gera, þá kom það fyrir, að ábyrgðir voru teknar fyrir framkvæmdir í einstökum byggðarlögum, þótt augljóst væri, að byggðarlögin mundu ekki geta staðið að fullu í skilum frá byrjun. Ég nefni dæmi. Ég nefni af handahófi, en stórar framkvæmdir þó. Ég nefni t.d. Þorlákshöfn. Það hefði aldrei verið farið af stað með hafnargerð í Þorlákshöfn, ef sú regla hefði verið víðhöfð að neita algerlega ríkisábyrgðum, nema fyrir fram væri hægt að sýna fram á, að ekkert þyrfti að leggja út úr ríkissjóði vegna ábyrgðarinnar í byrjun starfrækslu mannvirkjanna. Þá hefði aldrei verið farið af stað með Þorlákshöfn. Það hefur talsvert fé verið lagt út vegna ríkisábyrgða fyrir Þorlákshöfn, en ég tel, að sú stefna hafi verið hárrétt samt sem áður að taka ríkisábyrgð fyrir hafnargerð í Þorlákshöfn. Ég nefni líka Akraneshöfn í þessu sambandi, sem nokkuð hefur orðið að leggja út fyrir. Þannig mætti halda áfram að taka dæmi um hafnargerðir víðs vegar um landið, sem hefur þurft að leggja nokkuð út fyrir. Og ég efast um, að ríkissjóður muni tapa nokkru á þessum ábyrgðum um það bil, sem upp verður staðið, því að þó að þessi byggðarlög og mörg önnur hafi ekki getað staðið í skilum með fyrstu greiðslur af lánunum, þá mun það í mörgum dæmum verða þannig, að það mun breytast, þegar frá líður, og lánin munu innheimtast.

En þetta er fjárfesting fyrir ríkissjóð, sem þarna á sér stað. Og ég segi, að ef hæstv. ríkisstj. ætlar að framfylgja þeirri stefnu eða láta

Seðlabankann fyrir sína hönd framfylgja þeirri stefnu að neita um allar ríkisábyrgðir nema þær, sem hægt er að sýna hreinlega fram á fyrir fram, að ekki geti komið til greina að verði nein töp á eða þurfi neitt að leggja út fyrir úr ríkissjóði, — ef hæstv. ríkisstj. ætlar að taka upp þá stefnu, þá verður annað tveggja að ske, að það verða stöðvaðar ýmsar þýðingarmestu framkvæmdir í landinu, víðs vegar um landið, hafnargerðir o.fl., þær verða hreinlega stöðvaðar, eða þá að ríkisstj. og Alþ. verður að taka að sér að leggja af ríkisfé miklu meira fram til þessara framkvæmda en enn þá hefur verið gert.

Hvað sem yfirlýsingum hæstv. ríkisstj. í þessum efnum kann að liða, þá þykist ég sjá það, að ríkisstj. muni verða að framkvæma hafnarábyrgðirnar svipað og gert hefur verið. Ég tel mig sjá fram á, að hún muni þurfa og verða að gera það, ef hún ætlar ekki að stöðva flestar meiri háttar hafnarframkvæmdir í landinu. Ég segi þetta til að sýna, að það er varhugavert að fella órökstudda dóma, skjótræðisdóma um ríkisábyrgðirnar og áfellisdóma í sambandi við það, þótt ríkið hafi orðið að leggja nokkurt fjármagn fram á undanförnum árum til þess að greiða af ríkisábyrgðalánum, því að á bak við þær greiðslur standa ýmsar af merkustu framfaraframkvæmdum, sem gerðar hafa verið í landinu á síðustu áratugum og enginn mundi nú vilja segja að hefði verið rétt að stöðva eða neita um ríkisábyrgð. Þar með er ekki sagt, að það hafi ekki í þessu getað orðið, eins og í mörgum öðrum málum, einhver mistök. Það hafa ekki allar framkvæmdir heppnazt jafnvel, sem ríkisábyrgðir hafa verið veittar til. En ég segi þetta til þess að vara við því, að menn felli órökstudda áfellisdóma um þessi efni, heldur verða menn, ef menn ætla að dæma um þessi mál, að gefa sér tíma til að skoða þau ofan í kjölinn.

Nú vil ég aðeins minna á í þessu sambandi, að greiðslur vegna ríkisábyrgðalána, sem útlagðar eru fyrir aðra, hafa verið miklu stórfelldari á síðasta kjörtímabili en nokkru sinni áður, þannig að það er ekki á nokkurn hátt sambærilegt. T.d. upplýsti hv. 3. þm. Vesturl. áðan, að það, sem búið væri að leggja út samtals vegna ríkisábyrgða í árslok 1960, nam 120 millj. kr. samtals. En á árinu 1961 munu hafa verið lagðar út vegna ríkísábyrgða eitthvað milli 70 og 80 millj. Á árunum 1961 og 1962 virðast hafa verið lagðar út í sambandi við þessi mál eitthvað um 180 millj., á þessum tveimur árum, en allan tímann fram að árslokum 1960, ef ég hef tekið rétt eftir, þá hafa það verið samtals um 120 millj.

Ég hef hér fyrir framan mig efnahagsreikninginn frá 1958, og af honum sést, að á árinu 1958 voru greiddar af ríkisábyrgðalánum tæpar 24 millj. kr. á móti rúmlega 70 millj. 1961 og að því er ég bezt veit rúmlega 100 millj. á árinu 1962. Og þá kemur spurningin: Hvað er það, sem hefur gerzt í þessum málum? Ég get ekki varizt því, að mér finnst stundum eins og hæstv. ríkisstj. vilji gefa í skyn, að þarna sé hún að glíma við einhvern draug, sem aðrir hafi vakið upp og skilið eftir handa henni til þess að fást við. En sjálf hafi hún fært þessi mál öll i heppilegra horf. Ég hef ekkert yfirlít yfir þær ríkisábyrgðir, sem veittar hafa verið nú síðustu missirin, hef það ekki við höndina, og það er sjálfsagt of snemmt að fella nokkurn dóm um það, hvernig þau mál koma út í reyndinni. En ég vil nefna hér tvö atriði, sem valda sýnilega langmestu um, hvað þessar ríkisábyrgðagreiðslur hafa vaxið tröllslega árin 1961 og 1962.

Annað er, að það er augljóst, að á árinu 1961 eru lagðar út mjög stórar fúlgur fyrir fiskiðjuver vegna ríkisábyrgða, sem teknar hafa verið á stofnlánum til þeirra. En fram að þeim tíma voru greiðslur úr ríkissjóði vegna fiskiðjuvera mjög litlar samanborið við það, sem þær eru á árinu 1961. En það var vegna þess, að yfirleitt var höfð sú regla á, að ef fiskiðjuver var í vanskilum, þá var gerð gangskör að því, að það stæði í skilum eða þá að eigendaskipti yrðu að fiskiðjuverinu. Þannig eignaðist ríkið t.d. á sínum tíma fiskiðjuverið í Flatey og fiskiðjuverið á Seyðisfirði, og man ég eftir þeim tveimur, sem ekki gátu staðið í skilum. En vegna þess, að þannig var unnið að þessum málum, að það var upp á þetta passað og fast eftir gengið, þá stóðu fiskiðjuverin yfirleitt í skilum, og ef þau lentu í vanskilum, bættu þau mjög fljótlega úr því, öll þau, sem gátu, og það voru flest þeirra. Þau, sein alls ekki gátu það, urðu, eins og ég sagði, eign ríkisins, og ég man nú ekki nema eftir þessum tveimur, sem þannig fór um.

En á árinu 1961 gerist það, að ríkissjóður fer að leggja út fyrir fiskiðjuverin stórfé, án þess að séð verði, að nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að innheimta þetta jafnóðum. Þetta kemur til sem nýr stórkostlegur liður í ríkisábyrgðunum. Og þessu heldur áfram að nokkru leyti og að mjög verulegu leyti, að því er ég bezt fæ séð, árið 1962. Það er sem sagt skipt alveg um innheimtuaðferð, og má vera, að þetta standi að einhverju leyti í sambandi við þau almennu skuldaskil, sem áttu sér stað fyrir sjávarútveginn á árinu 1961. En þarna festist mikið fé hjá fiskiðjuverunum, vegna þess að það er sýnilega ekki gengið á þessu tímabili jafnhart að því, að þau standi í skilum og áður. Þetta er annar aðalliðurinn, að því er bezt verður séð, sem gerir það að verkum, að ríkisábyrgðargreiðslur hafa hækkað svona gífurlega 1961 og 1962.

Hinn stóri liðurinn, sem kemur þarna til greina, eru ríkisábyrgðir vegna togara og þá sérstaklega vegna þeirra togara, sem keyptir voru til landsins eða samið var um á árinu 1959. Ég hygg, að það hafi verið samið um þá yfirleitt á árinu 1959, og ríkisábyrgðagreiðslur vegna þessara togara, sem samíð var um á árinu 1959, eru svo tröllauknar, að aðrar ríkisábyrgðagreiðslur verða eins og hreinn hégómi í samanburði við þær. Það gefur því að skilja, að ef menn eru að reyna að láta líta svo út sem hér sé um einhvern gamlan arf að ræða, þá er slíkt með öllu óréttmætt, því að greiðslur vegna þessara togara frá 1959 eru svo stórfelldar, að þ®er valda alveg tímamótum í þessum málum og eru langstórfelldustu greiðslur vegna ríkisábyrgða, sem nokkru sinni hafa komið til greina, a.m.k. ef litið er á þær í heild.

En vegna. þess að hafður er uppi þessi sífelldi áróður, nokkuð ýtinn áróður um það, að hér sé um arf að ræða, sem hafi verið óeðlilegur og gert mönnum erfitt fyrir, þá vil ég leyfa mér að lesa upp nokkrar greiðslur, sem inntar hafa verið að hendi vegna þessara sérstöku togaraábyrgða. Það hefur líka verið lagt út fé vegna fyrri togaraábyrgða, en það er smáræði samanborið við þetta.

Það eru hér greiðslur t.d.: Vegna hlutafélagsins Ásfjalls 1 millj. 374 þús. Vegna Guðmundar Jörundssonar vegna togarans Narfa 4 millj. 400 þús., þetta er á árinu 1961. Vegna Ísbjarnarins í Reykjavík vegna togarans Freys 1 millj. 662 þús. Og vegna togarans Sigurðar 2 millj. 342 þús. Vegna togarans Júpíters 1 millj. 274 þús. Og vegna togarans Víkings á Akranesi 2 millj. 704 þús. Enn fremur eru hér liðir vegna fiskiðjuvera, sem eru mjög stórir, eins og ég hef áður gert grein fyrir. Þetta er á árinu 1961.

Á árinu 1962 er mjög mikið lagt út vegna ríkisábyrgða og þá heldur þessu áfram. Þá er það Bæjarútgerð Hafnarfjarðar vegna togara 5 millj. 705 þús. og vegna fiskiðjuversins 4 millj. Vegna togarans Narfa, togara Guðmundar Jörundssonar, 5 millj. 708 þús. Ísbjörninn h/f í Reykjavík vegna togara líka á því ári 5 millj. 908 þús. Ísfell, aftur vegna togarans Sigurðar á árinu 1952, ég hafði áður lesið, hvað það var á árinu 1961, 7 millj. 778 þús. Og enn vegna fyrirtækis á Akranesi vegna togarans Víkings 6 millj. 558 þús. Þessar fjárhæðir eru svo stórkostlegar, að það dylst engum, þegar þessi dæmi eru nefnd, hvers vegna greiðslurnar af ríkisábyrgðalánunum hafa hækkað svona stórkostlega. Það er vegna þess, að það hefur verið lagt út stórfé í sambandi við ríkisábyrgðir fyrir fiskiðjuver, sem fremur lítið var um áður, og þó alveg sérstaklega vegna þeirra gífurlegu fjárhæða, sem lagðar eru fram vegna ríkisábyrgðarinnar út af togarakaupunum á árunum 1959 og 1960. Og þó að áður hafi verið lagðar nokkrar fjárhæðir fram vegna vanskila í sambandi við togarakaup og fiskiskipakaup, þá eru þær fjárhæðir allar miklu smærri en þessar, því að þá var um lægra verð að ræða á tækjunum og minni vanskil.

Þetta allt er nauðsynlegt fyrir menn að hafa í huga. Ég hef ekki fram að þessu verið svo mjög að skipta mér af umr. um þessi mál, en mér finnst ekki óeðlilegt, að samhengið í þeim sé ofur litið rakið, þar sem það er ekki gert af þeim, sem það væri skyldara en mér.

Ég held því hiklaust fram, að væri settur upp listi núna, og ég vildi óska eftir því, að sú nefnd, sem fær þessi mál til meðferðar, geri það, — settur upp listi núna yfir það, sem lagt hefur verið út samtals vegna ríkisábyrgða frá fyrstu tíð og skoðað síðan, hvenær þær ábyrgðir eru og hvernig þær eru vaxnar, þá muni samhengi þessara mála upplýsast enn þá betur og þá muni koma í ljós, að þeir fjármunir, sem lagðir hafa verið út vegna byggðarlaganna í sambandi við framkvæmdir á þeirra vegum, hafnaxgerðir og raforkuframkvæmdir og ýmsar slíkar framkvæmdir, eru hégómlega lágar upphæðir samanborið við það, sem hefur verið greitt núna vegna þessara nýjustu ábyrgða.

Ég segi þetta ekki til þess að deila á neinn, ég segi þetta til þess að upplýsa staðreyndir. En ég verð að segja, að mér finnst ýmislegt af því, sem komið hefur fram úr stjórnarherbúðunum, bera nokkurn keim af gagnrýni á það, sem áður hefur verið gert i þessum málum. Ég er ekki að halda því fram, að það geti ekki verið réttmætt að gagnrýna sumt af því. Það verða ætið einhver mistök. En ég vil ekki sitja þegjandi fleiri missiri en ég hef gert og hlusta á, að það sé gefið í skyn, að þessi viðureign við ríkisábyrgðirnar og þessar háu fjárhæðir, sem þar koma til greina, sé arfleifð að mestu eða öllu leyti frá því, að ég og mínir starfsfélagar — úr ýmsum flokkum raunar — stóðum fyrir framkvæmd þessara mála, en síðan hafi runnið upp í þessu tilliti ný öld, ný og betri öld.

Ég vil svo í framhaldi af þessu, sem ég hef rætt um heildarmynd þessara mála, og í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, og það, sem hæstv. fjmrh. sagði því viðvíkjandi, aðeins minnast á einn einasta þátt enn þá. Hæstv. ráðh. sagði, að lántakan væri byggð á því, að forráðamenn ríkisábyrgðasjóðsins litu þannig á, að það mundi mjög fljótlega létta á sjóðnum og jafnvel hagur hans snúast við, þannig að hann færi að hafa tekjur til að greiða niður þetta lán, sem hæstv. ráðh. hyggst útvega handa sjóðnum, eða handa þessum reikningi í ríkisbúskapnum. Út af þessu vil ég spyrja hæstv. ráðh., sem er náttúrlega forráðamaður þessara mála, en ekki þeir, sem framkvæma fyrir hann þessi mál í Seðlabankanum, hvort hann hafi ekki gert áætlun um það, hvað muni vera mikið ógreitt af lánunum, sem tekin voru til þess að kaupa nýju togarana, og hvað ríkisábyrgðasjóður eða ríkissjóður muni þurfa að leggja fram á þessu ári og næstu árum vegna þessara ríkisábyrgða, miðað við að þessi félög, sem hér. eiga hlut að máli, geti ekki greitt af þeim sjálf. M.ö.o.: hvað þarf ríkissjóður að leggja fram vegna þessara ábyrgða á næstu árum, ef hann þarf eins og hingað til að greiða af lánunum fyrir þessa aðila? Ef þetta lægi fyrir, að hæstv. ráðh. upplýsti þetta, þá fæst kannske ofur lítil mynd af því, hverju má búast við í þessu efni. Ég veit, að það er ekki hægt að gera neina áætlun fyrir ríkisábyrgðasjóðinn, en eins og þetta horfir núna, þarf ríkisábyrgðasjóðurinn að leggja fram milljónatugi árlega bara vegna þessara togara, þó að ekkert annað sé tekið með í reikninginn. Og svo: Hverjar eru þessar tekjur, sem hæstv. ráðh. gerir sér von um að gætu komið inn í sjóðinn, ekki aðeins til þess að standa undir þessum útgjöldum öllum saman, heldur líka til að greiða af láni því, sem taka á samkvæmt þessu frv.?