02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil geta þess fyrst, að mér þótti leitt, að hv. 3. þm. Vesturl. skyldi misskilja mjög orð mín, þegar ég ræddi um vanskilastefnuna í þessum ríkisábyrgðamálum. Honum fannst það hart að verða fyrir slíkum ummælum, þar sem það sveitarfélag, sem hann veitti forstöðu, hefði aldrei lent í vanskilum, og í annan stað, þar sem hann sjálfur hefði tekið þátt í því í fjvn. að gera till. um samninga út af eldri vanskilum. Þetta er hvort tveggja alveg rétt. Ég veit ósköp vel, að hans ágæta sveitarfélag hefur staðið í prýðilegustu skilum, og ég veit það líka, að hann tók drengilegan þátt í því í sjálfri fjvn. ásamt öðrum nm, að gera till. Í fyrra um samninga við þá, sem lent höfðu í vanskilum. Hitt var alveg ástæðulaust fyrir hann og misskilningur alger að tengja þetta saman. Þegar ég tala um vanskilastefnuna, sem Framsfl. ber fyrst og fremst ábyrgð á, þá átti ég við þá stefnu, sem hv. 1. þm. Austf. lýsti hér sjálfur, bæði fyrr í þessum umr, og endurtók nú. En hún er í stuttu máli á þá Ieið að veita ríkisábyrgðir vitandi vits um það, að aðilar muni ekki geta staðið í skilum.

Það eru til framhalds því, sem ég sagði áðan, aðeins örfá atriði, sem ég vildi nefna.

Hv. 1. þm. Austf, sagði m.a., að ástæðan til þess, að hinar margumtöluðu 38 millj. í fjárl. 1961 hefðu ekki verið greiddar, hefði verið sú, að ég hefði viljað punta upp á ríkisreikninginn og hefði notað þetta til þess að láta ríkissjóði skila greiðsluafgangi fyrir árið 1961. Þetta er auðvitað alrangt eins og flest annað, sem hann sagði. Í ríkisreikningi 1961 er gerð grein fyrir greiðsluafgangi og þeim mismunandi aðferðum, sem notaðar hafa verið við útreikning á honum. En þær eru aðallega tvær: önnur sú, sem ríkisbókari hefur yfirleitt notað að undanförnu, og hin aðferðin sú, sem Seðlabanki Íslands og ýmsar alþjóðlegar fjármálastofnanir nota og um margra ára skeið hefur komið fram í riti Seðlabankans, Fjármálatíðindum. Og í ríkisreikningi er það tekið fram, að greiðsluafgangur varð árið 1961 57 millj., ef reiknað er með aðferð ríkisbókara, en 72,4 millj., ef reiknað er með aðferð Seðlabankans. Þó að við drögum nú þessar 38 margumtöluðu millj. frá, verður greiðsluafgangur samt sem áður, 19 millj. eftir fyrri aðferðinni og 34,4 millj. eftir siðari aðferðinni, svo að það er gersamlega út í hött, þegar hv. þm. segir, að ástæðan til þess, að ég hef ekki látið greiða þessar 38 millj. út, hafi verið sú, að ég hafi viljað sýna greiðsluafgang hjá ríkissjóði þetta ár. Þó að þær hefðu verið inntar af hendi, var töluverður greiðsluafgangur samt.

Í rauninni þarf ekki að ræða frekar um þessa margumtöluðu upphæð. Ég benti hv. þm. á, að þetta væri alveg sambærilegt við það, að 40 millj. til dýrtíðarráðstafana hefðu ekki verið greiddar af hendi, vegna þess að síðar kom til annar tekjustofn til að standa undir þeim, nákvæmlega eins og var með ríkisábyrgðirnar 1961. Þá eru í rauninni engin svör við því önnur en þau, að það sé synd að ætla honum slíkt, að hann hafi eitthvað viljað gabba, því að hann er svo saklaus og frómur, en ég hins vegar sjónhverfingamaður. Það vita auðvitað allir menn og hv. þm. sjálfur, að þetta er gersamlega sambærilegt tilfelli. Ég hef ekki deilt á hann fyrir það, að hann lét ekki ríkissjóðinn inna af hendi þessar 40 millj. 1958. Ég tel einmitt þvert á móti, að sú ráðstöfun hafi verið rétt, eftir að AIþ. hafði ákveðið, að aðrir tekjustofnar skyldu standa undir dýrtíðarráðstöfunum, og þess vegna þurfti ekki á þeim tekjustofni að halda fyrir það ár, alveg eins og 1961 þurfti ekki á þessum 38 millj. að halda til þess að standa undir ríkisábyrgðum, vegna þess að búið var með lögum að sjá fyrir öðrum tekjustofni, sem nægði til þess. Að átt hafi svo, vegna þess að nú kemur í ljós um síðustu áramót, að ríkisábyrgðasjóður hefur ekki nægilegar tekjur árið 1962, — þess vegna hafi árið 1961, ári áður en þetta var vitað, átt að greiða út þessar 38 millj., þetta er bara tóm vitleysa, sem þýðir ekkert að vera að eyða orðum að.

Varðandi það, að ég hefði átt að sjá það fyrir löngu áður, þá virðist hv. þm. ætlast til mjög mikillar forsjálni og að maður sjái langt fram í tímann, — að ég hefði átt að sjá fyrir, að ríkisábyrgðasjóður mundi á árinu 1962 þurfa á þessu fé að halda, þá skal ég upplýsa það, að ríkisábyrgðasjóður hafði á árinu 1962 hvorki meira né minna en 63.4 millj. í tekjur, og miðað við alla reynslu undanfarinna ára hefði það átt að nægja.

Hitt er svo annað mál, að varðandi ríkisábyrgðasjóð er ákaflega erfitt að sjá fram í tímann, vegna þess að margar stærstu greiðslurnar, sem á hann falla, byggjast fyrst og fremst á því, hver aflabrögð verða hjá sjávarútveginum. Og í sambandi við þetta óskar hv. þm. eftir áætlun um tekjur og gjöld ríkisábyrgðasjóðs á þessu og jafnvel næsta ári. Auðvitað er hægt að setja saman einhverja áætlun, en hún verður meira og minna út i bláinn vegna þess, að m.a. voru á síðasta ári nýju togararnir fimm þungur baggi á ríkisábyrgðasjóði. Og það, hvort þeir verða þungur baggi á árunum 1963 og 1964, veltur auðvitað fyrst og fremst á aflabrögðum togaranna og sölu þeirra og afkomu í heild. Það mætti vel svo fara, að ef aflabrögð togaranna og afkoma þeirra yrði svipuð og hún var á árinu 1958, mundi ekki einn einasti eyrir falla á ríkisábyrgðasjóð, meðan svo væri, heldur mundu togararnir sjálfir geta undir þessu staðið. Ef hins vegar yrði aflaleysi og erfiðleikar hjá togurunum, eins og var á árunum 1959, 1960, 1961, þá gegnir auðvitað allt öðru máli.

Þær upplýsingar, sem hann óskaði eftir að fá varðandi væntanlegar greiðslur vegna þessara fimm togara, getur hann auðvitað fengið, og ég hef hér yfirlit, sem hann getur ákaflega vel fengið, um það, hverjir eru vextir og afborganir á hverjum gjalddaga af þessum lánum, en lánin voru tekin árið 1959 og síðustu afborganir eru á árinu 1971. Það, sem eftir stendur af þessum lánum nú, samtals af þessum 5 togurum, eru tæplega 172 millj. kr., þ.e.a.s. eftirstöðvar lánanna sjálfra. Þar við bætast vextir. En að reikna t.d. með því, að öll þessi upphæð falli á ríkisábyrgðasjóð, það er meiri svartsýni en ég vil taka þátt í. Og ég vona, að flestir þm. standi saman um það að óska þess og vænta þess, að þeir erfiðleikar, sem að togurunum hafa steðjað nú síðustu árin, haldi ekki áfram til langframa, heldur verði þess ekki langt að bíða, að svo réttist þeirra hagur og bætist þeirra afli, að þeir geti staðið undir því, sem á fellur, og einnig farið að greiða eitthvað til baka af því, sem hefur orðið að leggja út fyrir þá á síðasta ári.

Annars er það næsta einkennilegt, hversu tíðrætt hv. 1. þm. Austf. verður um þessar sjónhverfingar og bókhaldsbrellur og ég noti alls konar töfrabrögð til þess að sýna sem bezta útkomu hjá ríkissjóði, og m.a. þetta að greiða ekki þessar nafntoguðu 38 millj. Ég hef nú sýnt fram á, að þó að þær hefðu verið inntar af hendi að fullu, hefði samt sem áður orðið greiðsluafgangur og hann nokkur á árinu 1961. En þessi viðkvæmni hv. þm. út af því, að greiðsluafgangur hefur orðið á hverju ári i tíð núv. ríkisstj., er skiljanleg, þegar athuguð er hans eigin fortíð í þessu efni. Að vísu var það þannig í ráðherratíð hv. 1. þm. Austf., að það var engin almenn regla til þá um, hversu skyldi reikna greiðslujöfnuð. Og þegar hann var að gefa Alþ. upp tölur um greiðslujöfnuð, þá voru þær hvorki í samræmi við þær reglur, sem alþjóðlegar stofnanir eða Seðlabankinn notar, og oft og tíðum alls ekki í samræmi við þær reglur, sem ríkisbókhaldið hefur notað, heldur líklega eitthvað, sem hann hefur reiknað út á hné sér, enda stóðst það líka eftir því.

En ef við athugum afkomu ríkissjóðs siðasta áratug eftir þeirri aðferð, sem nú er að verða alviðurkennd, sem sagt aðferð Seðlabankans og alþjóðlegra peningastofnana, til þess að reikna út greiðsluhalla eða greiðsluafgang, þá kemur í ljós, að á árunum 1950–1958, eða þau 9 ár, sem hv. 1. þm. Austf, samfleytt var fjmrh., var greiðsluhalli 5 árin, en greiðsluafgangur 4 árin. M.a. er það nú þannig með vinstri stjórnina sálugu, að það eina heila ár, sem hún lifði eða skrimti, árið 1957, var greiðsluhalli, og það hvaða aðferð sem notuð er, hvort sem það er Seðlabankans, ríkisbókhaldsins eða einhverjar einkaaðferðir hv. 1. þm. Austf. Hins vegar er það líka tvímælalaust, að ekki aðeins eftir reikningsaðferð Seðlabankans og alþjóðapeningastofnana, heldur einnig öðrum aðferðum við uppgjör á greiðslujöfnuði hefur orðið greiðsluafgangur á árunum 1959, 1960, 1961 og 1962. Kannske er það viðkvæmni hv. þm. út af þessum atriðum, sem veldur langlokuræðum hans hér nú og um daginn.

Hv. þm. segir, að með því að veita ríkisábyrgðasjóði heimild til þess að taka lán, eins og hér er farið fram á, allt að 50 millj. kr. lán, þá sé verið að velta yfir á framtíðina útgjöldum. Hér er málunum svo kirfilega snúið við sem hægt er. Með þeirri aðferð, sem hér er iagt til að hafa, er einmitt gert ráð fyrir því, að almenningur sé ekki látinn borga þessi töp. Hv. 1. þm. Austf. virðist vilja, að þetta sé greitt allt saman beint úr ríkissjóði sem óafturkræft framlag, m.ö.o. með sköttum og tollum, álögum á almenning. Till. mín er gagnstæð þessu. Hún er einmitt, að þetta lendi ekki á almenningi, heldur taki ríkisábyrgðasjóður lán til skamms tíma, sem á að endurgreiðast, þegar vanskilalánin verða endurgreidd. M.ö.o.: sú fjárþörf, sem ríkisábyrgðasjóður hafði á siðasta ári og hefur e.t.v. á þessu ári umfram sínar eðlilegu tekjur, greiðist ekki af almennum sköttum og tollum, heldur af vanskilaaðilunum sjálfum.

Loks er rétt að minnast á það, sem hv. 1. þm. Austf. var tíðræddast um, og þar er náttúrlega mjög komið við hans viðkvæmu sál og tilfinningar í þessum efnum, þar sem hann er af miklum móði að verja aðgerðir sínar og stefnu og skoðun í ríkisábyrgðamálum. Nú reynir hann að snúa þessu þannig í vonlausri vörn sinni í málinu að krefja mig sagna um að nefna það, hvaða ríkisábyrgðir hafi á undanförnum árum ekki átt að veita. Og svo telur hann upp nokkrar: ríkisábyrgð fyrir Þorlákshöfn, fyrir Andakílsvirkjun, fyrir Skeiðsfossvirkjun o.fl., og spyr, hvort ég hafi viljað neita um þessar ríkisábyrgðir. Náttúrlega bera þessi viðbrögð vott um vonleysi og ég held jafnvel samvizkubit hv. þm., því að hann veit ósköp vel sjálfur, hversu hans aðfarir í þessum efnum liggja undir gagnrýni og hafa verið óverjandi á undanförnum árum. Ég tók það fram áðan og hef margsinnis tekið það fram, að núv. ríkisstjórnarflokkar telja sjálfsagt að veita ríkisábyrgðir til þess að stuðla að framkvæmdum og uppbyggingu í landinu og ekki sízt úti um hinar strjálu byggðir. En um leið og þessari stefnu er yfirlýst og henni er framfylgt, teljum við, að þegar ríkisábyrgðir eru veittar, eigi að reyna að búa svo um hnútana, að aðili geti staðið í skilum og verði ekki vanskilamaður. Og við teljum þetta nauðsynlegt, bæði af almennum fjármálaástæðum og enn fremur hreinlega af siðferðis- og siðgæðisástæðum í landinu, því að það, að hið opinbera, að Alþ., ríkisvald og ríkisstj. sé vitandi vits að gera einstaklinga, félög eða sveitarfélög að vanskilamönnum, getur ekki staðizt í einu þjóðfélagi og leiðir þá einnig aðra spillingu yfir landið á eftir.

Við skulum taka eitt dæmi, sem hv. þm. var tíðræddast um, og það er Þorlákshöfn. Og hann spyr: hefði ég viljað neita um ábyrgð fyrir Þorlákshöfn? Það er ágætt, að hann tekur þetta dæmi. Það hafa verið veittar mjög miklar ábyrgðir til byggingar Þorlákshafnar eða hafnargerðar í Þorlákshöfn. Hvernig var búíð um hnútana nú? Það var m.a. búið þannig um hnútana nú, að þegar fjárlög fyrir árið 1963 eru afgreidd, er athugað, hversu mikið þurfi til framkvæmda á þessu ári og hversu mikið þurfi í vexti og afborganir af lánum þessarar hafnar. Og fjárveitingar Alþ., ýmist beinar fjárveitingar á 13. gr. til Þorlákshafnar og enn fremur það, sem ráðgert er að Þorlákshöfn fái úr hafnarbótasjóði, eru einmitt miðaðar við það, að hægt verði að standa í skilum með þau lán, sem þarna er um að ræða, þannig að ekki þurfi að lenda í vanskilum. Og auðvitað þarf, þegar um er að ræða nauðsynlegar framkvæmdir, að hafa margvíslegan hátt á, veita ríkisábyrgð, stuðla að því, að fyrirtækið eða mannvirkið komist upp, en búa þó þannig um hnútana um leið, að staðið verði í skilum. Stundum er nauðsynlegt, eins og ég gat um áðan, að veita styrki — sem hluta af stofnkostnaði eða til hjálpar við reksturinn fyrstu árin.

Í öðru lagi er oft hægt að bjarga málunum með því, að umrædd lán verði afborgunarlaus fyrstu árin, þangað til fyrirtækið eða mannvirkið fer að fá tekjur og getur staðið undir sér. Sem dæmi má nefna, að þegar brezka framkvæmdalánið var tekið nú um síðustu áramót, var svo um samið, að það lán yrði afborgunarlaust fyrstu sex árin, bæði með það í huga, að greiðslubyrði landsins í heild út á við er svo þung, að þetta er nauðsynlegt þess vegna, og enn fremur til að geta haft það í huga við endurlán slíkra lána, að þar sem á þyrfti að halda óhjákvæmilega, verði hægt að sleppa afborgunum fyrstu árin. Þannig má ýmist með styrkveitingum eða með tilhögun afborgana og vaxtagreiðslna og með ýmsum öðrum hætti búa svo um hnútana í upphafi, að aðilar geti staðið í skilum, og það er, miðað við allt fjármálasiðferðið, nauðsynlegt, að þetta verði gert.

Sú stefna, sem hv. 1. þm. Austf. heldur hér fram alveg fram í rauðan dauðann og er forhertur í þeirri skoðun, er þessi, að það á alls ekki að hafa það með í dæminu, hvort aðilar geti staðið í skilum eða ekki, það er aukaatriði. Og það er þessi hugsunarháttur, það er þessi úrelta stefna, sem ég hef kallað vanskilastefnu og ég held að menn í sívaxandi mæli hverfi frá og fordæmi.