01.04.1963
Efri deild: 65. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

196. mál, almannatryggingar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hér er til umr. stórt mál, fjölþætt og veigamikið, sem í sjálfu sér gæti orðið grundvöllur að miklum umr. Ég mun þó ekki ræða um málið almennt, enda hefur af öðrum ræðumönnum verið gerð grein fyrir afstöðu Framsfl. til þessa máls, og ég mun láta nægja að víkja hér að örfáum atriðum.

Ég get þó ekki stillt mig um að vekja athygli á þætti almannatrygginganna í fjárhagskerfi þjóðarinnar. Hinir sérstöku lífeyrissjóðir eru byggðir upp með sjóðastofnun. Þeir styðja bankakerfið í landinu að vissu leyti, með því að þar er dregið saman fé, sem síðan er notað til útlána að vissu marki, og þá eru þau útlán háð ákvörðun stjórna sjóðanna og ef til vill tekið tillit til hinna almennu útlána í landinu í því sambandi. Meðan lögin um alþýðutryggingar, er sett voru að ég ætla 1937, voru í gildi, var grundvöllur þeirra sjóðmyndun. En þegar horfið var frá að grundvalla almannatryggingarnar á sjóðmyndun og horfið að niðurjöfnun í þess stað og dreifa síðan því fé út árlega, þá sýnist mér, að í raun og veru hafi tryggingakerfið, hækkun bótanna og útþensla tryggingakerfisins í því formi, svipuð áhrif á fjárhagskerfi þjóðarinnar og kauphækkun. Það eykur kaupgetu fólksins, t.d. fjölskyldubæturnar, kaupgetu almennings í landinu, og sú aukna kaupgeta eykur vitanlega eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri á sama hátt og kauphækkanir gera.

Ég vil vekja athygli á þessu einkum vegna þess, að af hálfu hæstv. ríkisstj. eru þessir þættir mála ekki nefndir í samhengi, og málgögn stjórnarflokkanna ræða þetta mál hvort í sínu lagi, annars vegar fjárhagskerfið og vara við kauphækkunum og ofþenslu, en forðast að ræða þetta í samhengi, hinar auknu tryggingar að þessu leyti. Þetta finnst mér að því leyti eftirtektarverðara, að ég geri ráð fyrir því, að af hálfu stjórnarflokkanna sé tilhneiging til þess að hafa þessi mál sem allra skýrust almenningi, svo og hver sé grundvöllur þess kerfis, sem þeir hafa sjálfir nefnt viðreisn.

Síðast voru tryggingalögin endurskoðuð t heild 1956, og þá var formi heildarlöggjafarinnar breytt í verulegum atriðum og hún að sumu leyti gerð einfaldari í sniðum en hún hafði áður verið. En með verðlagsbreytingum, sem orðið hafa síðan, hafa alloft verið gerðar minni háttar breyt. á tryggingalöggjöfinni síðan 1956 um einstök atriði hennar. Einkum hefur orðið að grípa til þess að hækka ákvæðin um bæturnar í krónutölu í samræmi við hækkandi verðlag. Og sú venja hefur skapazt í þessu máli, bæði hjá núv. hæstv. ríkisstj. og öðrum ríkisstj., sem áður hafa setið, að hafa hliðsjón af almennum launakjörum í landinu og þá ekki sízt launakjörum opinberra starfsmanna, þegar bætur almannatrygginganna, a.m.k. aðalbæturnar, svo sem ellilífeyrir, örorkulífeyrir, eru ákveðnar. Þessu til sönnunar leyfi ég mér að benda á það, að lög nr. 95 frá 1961, sem fella á úr gildi samkv. þessu frv., voru sett að tilhlutan og fyrir forgöngu núv. hæstv. ríkisstj. Og í grg. með því stjfrv., sem var hér til afgreiðslu haustið 1961, segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Oftast hafa bætur verið hækkaðar um sama hundraðshluta og laun opinberra starfsmanna. Slík laun hafa nú verið hækkuð um 13.8% frá 1. júlí 1961, og ákveðin er viðbótarhækkun á launin, eins og þau nú eru orðin, sem nemur 4% frá 1. júní 1962. Í frv. þessu er lagt til, að bætur almannatrygginganna hækki, eftir því sem við getur átt, um sömu hundraðstölu og laun opinberra starfsmanna og frá sama tíma og þau.“

Þetta er aðeins staðfesting á því, sem ég sagði um þá almennu venju, sem skapazt hefur í sambandi við tryggingamálin, að hafa hliðsjón af launakjörum opinberra starfsmanna.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að laun opinberra starfsmanna eru í endurskoðun hjá samninganefndum, og e.t.v. verða úrslit þeirra mála hjá kjaradómi nú á fyrri hluta þessa árs, því að kjaradómur mun eiga að hafa lokið störfum 1. júlí í sumar. Mér sýnist því, að með tilliti til þess, að annars vegar hefur bótaupphæðin verið ákveðin í krónutölu í þessu frv. og hins vegar, að verið er að vinna að heildarendurskoðun á launum opinberra starfsmanna, — og þó að ég geti ekki fullyrt, hvernig niðurstaða þess máls verður, þá hygg ég, að það sé nú almenn skoðun og eðlileg ályktun af þeim till., sem komið hafa fram, að þeir samningar muni enda með verulegri launahækkun til opinberra starfsmanna, — út af þessu sýnist mér þrennt koma til greina: Eitt er það að hverfa nú frá þeirri venju, sem fylgt hefur verið á undanförnum árum, að láta bætur almannatrygginganna í krónutölu haldast í nokkru hlutfalli við launabreytingar hjá opinberum starfsmönnum. Annað er það, að beinlínis sé stefnt að því með opnum augum að breyta þessum lögum aftur í haust, þessari heildarendurskoðun tryggingalaganna, sem nú er verið að fjalla um. Og hið þriðja er, að afgreiðslu þessa máls verði endanlega frestað nú og það ekki lögfest fyrr en í haust, enda á það ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót og þá ákvæðin um bótafjárhæðir endurskoðaðar með tilliti til þeirrar niðurstöðu, sem þá er orðin um launakjör opinberra starfsmanna. Af því að ég tók til máls, vildi ég nota þetta tækifæri til þess að spyrjast fyrir um það, hver stefna hæstv. ríkisstj. er að þessu leyti.

Mér er það vel ljóst, að þessi heildarlöggjöf, sem hér er fjallað um, er eins og bygging, þar sem hvað bindur annað. Og það er varhugavert að hreyfa við einstökum atriðum, nema grandskoða um leið, að það hafi ekki áhrif á annað og raski heildarbyggingunni. Þess vegna er nokkrum vandkvæðum bundið að bera fram till., og finnst mér eðlilegra, að þau atriði, sem til greina kemur að breyta, séu íhuguð gaumgæfilega í nefnd, áður en einstakir þm. fara að bera fram brtt. við frv. Ég vil því nú, a.m.k. við þessa umr., hafa þann hátt á að vekja hér athygli á örfáum atriðum, sem ég vænti þess, að hv, heilbr.-og félmn. og hæstv. ráðh. hlusti á og taki til íhugunar, ef þeim þykir ástæða til fyrir 3. umr. mátsins.

Það hefur verið gert allmikið að því, bæði við endurskoðun tryggingalaganna og breyt. á einstökum atriðum málsins að undanförnu, að afnema skerðingarákvæði og þær takmarkanir á ýmsum greiðslum, sem settar voru í öndverðu. Ég tel þetta rétta stefnu og vel farið, að sá árangur hefur náðst í því efni, sem orðinn er. En í 35. gr. þessa frv. og í 50. gr. er fjallað um dagpeninga, annars vegar í sambandi við slysabætur og hins vegar í sambandi við sjúkrabætur. Þar eru dagpeningar ákveðnir í krónutölu, geta orðið hæst fyrir kvæntan mann, sem nýtur slysabóta, 80 kr., en til þess, sem nýtur sjúkrabóta, 68 kr. En jafnframt því, að þessar tölur eru ákveðnar í löggjöfinni, fylgja þeim skerðingarákvæði, þannig að greiðslur þessar mega ekki fara fram úr 3/4 af vinnutekjum bótaþega.

Ég vil nú varpa fram þeirri hugmynd, hvort það er ekki kominn tími til þess við þá heildarendurskoðun l., sem hér er gerð, að afnema þessi skerðingarákvæði og láta þær fjárhæðir, sem ákveðnar eru í frv., gilda án tillits til tekna aðila. Hér getur ekki verið um svo háa fjárhæð að ræða, að hún hafi veruleg áhrif á heildarafkomu Tryggingastofnunarinnar, einkum þegar þess er gætt, að heildarvelta Tryggingastofnunarinnar mun nú nema milli 800 og 900 millj. kr. á ári. Og grundvöllur almannatrygginga er sá að styðja þá, sem höllum fæti standa. Skerðingarmörkin, sem takmarkað hafa greiðslur á undanförnum árum að ýmsu leyti, hafa verið miðuð við miklar tekjur. Það hefur verið skerðing ofan frá. En þessi skerðingarmörk, sem ég geri hér að umtalsefni, eru miðað við litlar tekjur, í raun og veru skerðing neðan frá, og samrýmast að sumu leyti ekki grundvallarhugsun almannatryggingastarfseminnar.

Í því sambandi vil ég víkja að atriði, sem fram kom hér hjá hv. 9. þm. Reykv. og ég hafði áður gefið gætur. Það er ákvæði 50. gr. um það, að tekjur húsmóður vegna fullrar atvinnu á heimili sínu skuli í þessu sambandi, þ.e. þegar þessi skerðing er metin, metnar jafnar lífeyrisupphæð samkv. 13. gr. frv. Nú er sá lífeyrir, sem þar er ákveðinn, örorkulífeyrir, á ári 18240 kr. Það þýðir 1520 kr. á mánuði. Og sé deilt í það með 30 dögum, þá verður hámarkið 50.67 kr. á dag. Og sé miðað við 3/4 þessara tekna, verða dagpeningar 30–40 kr. M.ö.o.: með þessu er girt fyrir það, að húsmóðir geti einu sinni nokkurn tíma náð því 60 kr. marki um sjúkradagpeninga, sem þó á að vera hin almenna regla samkv. frv. Ég spyr nú: Er ekki með þessu í raun og veru verið að ráðast á garðinn, þar sem hann er lægstur? Og vegur þetta svo mikið í tryggingalöggjöfinni í heild? Er ekki langeðlilegast að stíga þetta skref nú alveg til fulls og afnema þessi mörk? En verði nú ekki horfið að því ráði eða fáist það ekki samþ., þá vildi ég mega benda á það, að í ýmsum greinum er mjög erfitt að setja fastar reglur í þessu sambandi. Ég get tekið sem dæmi bónda, sem stundar sauðfjárframleiðslu aðallega eða garðrækt. Tekjur hans falla aðallega til á einum mánuði ársins eða mjög stuttum tíma ársins, en allt árið er hann í raun og veru að vinna fyrir þessum tekjum, þó að það megi segja, að yfir vetrarmánuðina, þegar hann er að gegna bústofninum, sé hann kannske í raun og veru tekjulaus og sérstaklega er það erfitt, ef á að meta tekjur þessa bónda um eins eða tveggja mánaða skeið um veturinn, að setja um það fastar reglur eða glöggva sig á því, hverjar þær raunverulega eru, og byggja svo greiðslur trygginganna á því mati. Hér segir, að þetta eigi að ákveða í reglugerð, og út af fyrir sig er það eðlilegt, því að það er erfitt að setja þetta alveg bindandi í lög. En ef þessu á að halda, vildi ég gjarnan, að þetta kæmi fram hér, áður en þetta mál fer út úr d., hvað fyrirhugað er um meginreglur í þessu sambandi.

En það er þó einn þáttur í raun og veru af þessu sama máli, sem ég vil gera sérstaklega að umtalsefni og leggja nokkra áherzlu á. Það er stafl. a. í 37. gr. frv.

Að undanförnu hefur sá háttur verið á hafður samkv. gildandi l. um almannatryggingar að greiða dánarbætur ekkju eða afkomendum manns, sem látizt hefur af slysförum, með heildargreiðslu í eitt skipti fyrir öll. Með þessu frv. á að gera á þessu þá skipulagsbreytingu, að í staðinn fyrir heildargreiðslu í eitt skipti fyrir öll komi mánaðarleg greiðsla, 2000 kr. á mánuði í 8 ár. Það er áreiðanlega ýmislegt, sem mælir með því, að þessi háttur sé upp tekinn, og að mínum dómi annað, sem mælir gegn því. Ég ætla ekki að fara að rökræða það og ekki beita mér á móti þessari skipulagsbreyt., en þessi stafl. 17. gr. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekkja eða ekkill, sem var samvistum við hinn látna eða á framfæri hans, hljóta bætur, 2000 kr. á mánuði í 8 ár, þó aldrei hærri mánaðargreiðsla en sem svarar 3/4 af vinnutekjum hins látna við þá atvinnu, er hann stundaði, þegar hann varð fyrir slysinu, sbr. 4. málsl. 36. gr. og 5. mgr. 50. gr. Bætur samkv. þessum stafl. falla ekki niður, þótt ekkja eða ekkill stofni til hjúskapar á ný.“

Mér virðist hugsunin í þessari grein vera ekki alls kostar rökrétt. í fyrsta lagi segir, að það séu 2000 kr. á mánuði í 8 ár. Það virðist því eiga að skilja það þannig, að hafi komið til skerðingar, sem getur komið til samkv. áframhaldi í gr., þá verði það ekki bætt, greiðslan falli niður að 8 ára tímabili liðnu. Í öðru lagi virðist það hugsunin með þessari grein að láta efnahag og tekjur aðila ekki hafa áhrif á þessa sérstöku greiðslu. Til þess bendir niðurlagsákvæðið: Bætur samkv. þessum stafl. falla ekki niður, þótt ekkja eða ekkill stofni til hjúskapar á ný. — En vitanlega getur það breytt aðstöðu ekkjunnar eða ekkilsins mjög mikið, ef aðili stofnar til hjúskapar á ný. Samt sem áður á hann að halda þessum greiðslum, og það tel ég eðlilegt, því að hér getur aldrei verið um nein vafamál að ræða. Dauðaslys segir til sín örugglega. En þrátt fyrir þessa hugsun er hér skerðingarákvæði þannig, að ef vinnutekjur hins látna við þá vinnu, er hann stundaði, þegar hann varð fyrir slysinu, hafa verið mjög lágar, þá á þessi greiðsla að skerðast. Mér finnst, að það geti vel komið fyrir þau atvik, að þetta ákvæði hafi áhrif. Hér er gert ráð fyrir, að ekkill hljóti bætur, ef konan ferst af slysförum, og m.a. með tilliti til þess, sem ég hafði áður tekið fram í öðru sambandi um mat á vinnutekjum konu, þá sýnist mér vel geta komið til skerðingar vegna þessa ákvæðis. Ég tel því langeðlilegast að fella þetta skerðingarákvæði niður og þessar greiðslur verði inntar af hendi alveg skilyrðislaust, eins og meginákvæði gr. segir til um.

Næst mun ég víkja að ákvæðum 57. gr., í raun og veru í því skyni að leita upplýsinga hjá n. um eitt atriði. Ákvæði þeirrar gr. fjalla um það, að fólk, sem búið hefur saman ógift tvö ár eða lengur eða það hefur átt saman börn, öðlist rétt til bóta á sama hátt og hjón, þar sem kemur til greina barnalífeyrir og ekkjubætur o.fl. Út af þessu vil ég spyrja: Er það ekki rétt skilið, að þegar sambúðarfólk, sem um ræðir í 57. gr., hefur uppfyllt þau skilyrði, sem þar eru greind, og öðlazt sama rétt til bóta og hjón, er því þá ekki greiddur hjónalífeyrir, þ.e.a.s. ellilífeyrir hjóna, en ekki ellilífeyrir tveggja einstaklinga? (KJJ: Jú, það er rétt.) Og ef svo er, sem ég hef þegar fengið svar við og ég taldi mig raunar hafa hugmynd um, hvernig er þá háttað um iðgjald þess fólks? Hvort greiðir það fólk iðgjald hjóna, sem er nokkru lægra en tveggja einstaklinga, eða iðgjald tveggja einstaklinga? Þetta virðist ekki tekið fram í frv., en í 26. gr., 2. mgr. segir um iðgjöldin: „Skal iðgjald kvenna sem næst fjórðungi lægra en karla og iðgjald hjóna sem næst 1/10 hærra en karla.“ Hér er ekkert um iðgjald þessa sambúðarfólks, sem öðlast vissan rétt og vissar skyldur samkv. 57. gr. (KJJ: Þau greiða sem einstaklingar.) Já, ef svo er, sem ég raunar taldi mig renna grun í, er þá fulls samræmis gætt gagnvart þessu fólki, og í sambandi við þessa heildarendurskoðun erum við að leita að samræmi milli hinna einstöku þátta í löggjöfinni? Er þá fulls samræmis gætt að þessu leyti?

Þá vil ég að lokum gera að umtalsefni ákv æði í 78. gr. frv. Þar segir svo í stafl. d., að ráðh. geti ákveðið, að lífeyrisdeild greiði „allt að 1 millj. kr. á ári til sjúklinga í utanfararstyrki, sem framlag er ákveðið til á fjárl., í framlög til læknisvitjanasjóða, er starfa samkv. l. nr. 59 1942, og sjúkrasamlaga, sem verða fyrir óvenjulegum gjöldum vegna sjúkraflutninga og læknisvitjana og starfa í héruðum, þar sem ekki eru læknisvitjanasjóðir. Úthlutun fjárins ákveður tryggingaráð, að fengnum till. landlæknis, nema að því er varðar framlög til sjúkrasamlaga.“

Fyrir 20 árum voru sett lög um læknisvitjanasjóði. Þau áttu að stefna að því að létta byrðar þeirra, sem áttu erfiða læknissókn. Ég tel, að á þeim tíma hafi verið mjög eðlilegt að setja þessa löggjöf, og hugsunin, sem að baki hennar liggur, er áreiðanlega mjög eðlileg og réttmæt. Þá voru líka almannatryggingalögin í þeirri mynd, sem þau hafa verið framkvæmd nú um langt skeið, ekki til. Það voru lög um alþýðutryggingar, sem þá voru í gildi. En tekjur þessara sjóða voru ákveðnar með verðlagi, eins og það var fyrir stríð, 1939, þannig að tekjur sjóðanna eru framlag ríkisins, sem má ekki vera hærra en 2 kr. á ári á íbúa þess hrepps eða læknishéraðs, sem starfsemi sjóðsins nýtur. Og á móti því á að koma framlag úr sveitar- eða sýslusjóði, sem nemur 1 kr. á íbúa af því svæði, sem sjóðurinn nær til. Og þetta stendur þannig í lögum enn í dag. Tekjur læknisvitjanasjóðanna eru ekki meiri en þetta. Það þýðir, að í 200 manna hreppi eru árstekjur læknisvitjanasjóðs samkv. þessu 600 kr. Og sjá það allir, að slíkt nær skemmra en skammt, og það er í raun og veru fjarri lagi að halda uppi sérstökum sjóði og sérstakri reikningsfærslu, ef tekjurnar eru ekki auknar verulega frá því, sem nú er. Á hinn bóginn er þess að geta, að hlaupið hefur verið undir bagga með þessum sjóðum af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins, samkv. ákvæði, sem er alveg hliðstætt ákvæði þessa frv., sem ég geri nú að umtalsefni, og að sjóðirnir hafa fengið við og við nokkrar fúlgur frá Tryggingastofnuninni, og er það í raun og veru orðinn aðaltekjustofn þessara sjóða. Á þessu hefur verið vakin athygli á Alþ. áður, og þál. var samþ. 16. apríl 1962 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta endurskoða lög nr. 59 4. júlí 1942, um læknisvitjanasjóði. Endurskoðun þessari skal lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Með þessari þáltill. er skorað á ríkisstj. að taka þetta mál til gagngerðrar endurskoðunar, og með einhverjum hætti virðist þá eðlilegast að fella saman starfsemi læknisvitjanasjóðanna og starfsemi sjúkrasamlaganna. Nú tel ég mig sjá á þessu frv., sem hér liggur fyrir, og grg. þess, að frá þessu er ekki enn gengið, heldur er ætlunin að halda þessari starfsemi í sama horfi um sinn, þrátt fyrir afgreiðslu þessa frv., eins og verið hefur undanfarin ár. Ég vil láta þá skoðun hér í ljós, að ég tel það miður ifarið, að svo er, og hér er ekki um svo stórt mál að ræða, að mér virðist, að ekki sé hægt að marka alveg meginstefnu í því sambandi við það frv., sem hér er til afgreiðslu. Og ég vil þess vegna eindregið mælast til þess við þá n., sem þetta mál hefur til meðferðar, og atbeini ráðh. komi þar til, að það verði unnið að því í sambandi við þetta mál að koma þessu atriði á fastan grundvöll, annaðhvort að leggja starfsemi hinna sérstöku læknisvitjanasjóða niður og efla samlögin sem því nemur eða auka tekjur sjóðanna að miklum mun og í samræmi við það verðlag og kostnað, sem nú gildir, svo að þeim sé kleift að sinna eðlilega því hlutverki, sem þeim er ætlað.