14.11.1963
Neðri deild: 15. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hv. 5. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Austf., þótt þeir mæli gegn þessu frv., þá er það auðheyrt, að í hjarta sínu telja þeir frv. gott og nauðsynlegt, og ekki hægt að lesa annað út úr þessum veiku ræðum, sem þeir hafa flutt hér, því að ég býst við, að hv. þm. og aðrir, sem á þá hafa hlustað, hafi til þess fundið, að þeir hefðu ekki sannfæringu fyrir því, að það væri rétt að mæla gegn þessu. Og þau rök, sem fundin voru, eru harla veigalítil.

Hv. 5. þm. Reykv. talar um, að þetta frv. sé stefnuyfirlýsing, einhver ný stefna mörkuð í þessu frv., af því að í 2. gr. frv. segi, að gerðardómur skuli hafa hliðsjón um kjör verkfræðinga, sem vinna hjá öðrum en ríkinu, af nýgerðum kjaradómi. Hverjum dettur í hug, að það væri unnt að sætta þessi mál með því, að gerðardómur kvæði upp þann úrskurð, að verkfræðingar, sem vinna annars staðar en hjá ríkinu, fái mun lægri laun en gerist hjá ríkinu. Þá væri vissulega verið að marka nýja stefnu, því að sú hefur reynslan verið, og það er orðin gömul hefð, að verkfræðingar hafa áður haft miklu meira en 5–11% hærri laun, þeir, sem hafa ekki unnið hjá ríkinu. Það er sú hefð, sem hefur verið, og þetta frv. og gerðardómurinn, sem nú er nýlega fallinn, hafa að því leyti tekið upp nýja stefnu að úrskurða, að verkfræðingar, sem vinna ekki hjá ríkinu, hafi tiltölulega lægri laun en áður, miðað við það, sem verkfræðingar hafa hjá ríkinu, þannig að samkv. úrskurði gerðardómsins er munurinn miklu minni en hann hefur áður verið. Þetta veit ég, að hv. 5. þm. Reykv. sér, ef hann vill kynna sér málið. Að því leyti er ný stefna með kjaradómnum og frv., að það er verið að gera muninn minni hjá þeim, sem vinna ekki hjá ríkinu, heldur en áður var, því að áður fengu þeir miklu hærri laun, enda kom það fram í samningatilraununum, að verkfræðingar, sem vinna ekki hjá ríkinu, töldu eðlilegt, að þeir fengju um 20 þús. kr. á mánuði, þegar verkfræðingar samkv. kjaradómi, sem vinna hjá ríkinu, áttu að fá 14 440 kr. Og ég segi það, að þegar jafnvanur ræðumaður og stundum rökvís, eins og hv. 5. þm. Reykv. er, kemur og mælir á þann hátt, sem hann áðan gerði, gegn þessu frv., þá hlýtur það að vera af því, að hann hefur verið skikkaður af sínum þingflokki til þess að mæla gegn þessu máli, en ekki af því, að hann hafi haft sannfæringu fyrir því, að það væri rétt að gera það. En það er með þetta mál eins og annað, að stjórnarandstaðan virðist sjá ástæðu til þess að vera gegn því, eins og flestu öðru, sem ríkisstj. flytur, og það má undrunarefni kallast, að stjórnarandstaðan skuli telja, að það hafi verið að þarflausu gert að grípa inn í, þegar verkfræðingar höfðu verið búnir að vera í algeru verkfalli um tveggja mánaða skeið, ekki var hægt að fá verkfræðilega þjónustu, sem nauðsynlegt var, og alveg var slitnað upp úr samningum.

Þessi löggjöf eða þetta frv. truflaði ekki samningana. Það var ekki gripið inn í, fyrr en það var slitnað upp úr. Það bar svo mikið á milli verkfræðinganna annars vegar og atvinnurekenda hins vegar, að það var alveg vonlaust að brúa það bil með frjálsum samningum. Annars vegar voru kröfur verkfræðinganna um 20 þús. kr. á mánuði. Hins vegar var kjaradómurinn og vilji atvinnurekenda að greiða eitthvað lítilsháttar hærra en kjaradómurinn hafði úrskurðað, t.d. 5–10%. Þetta bil var þess vegna ekki hægt að brúa. Og þessi lög eru ekki sett vegna þess, að ríkisstj. telji ekki sjálfsagt, að það ríki samningsfrelsi í landinu. Það vitanlega á að ríkja, og það á að reyna það hverju sinni til þrautar. En þegar alþjóðarheill krefst og samningsfrelsi dugir ekki, þá er auðvitað ekki um annað að gera en að grípa inn í. Og eins og ég sagði í frumræðunni hér, þá er það og víst, að ef gengið hefði verið að kröfum verkfræðinganna, hefði launakerfið hrunið með öllu. En eins og málin stóðu, var það reyndar vonlaust, verkfallið hefði staðið áfram, ríkið hefði ekki fengið verkfræðilega þjónustu, engir verkfræðingar fengizt til að ráða hjá ríkinu, og hin nauðsynlegu verk, sem á döfinni voru, hefðu þess vegna strandað. — Þess vegna er það, að það getur ekki verið af sannfæringu mælt hjá þessum hv. þm., að ríkisstj. hafi að nauðsynjalausu gripið inn í. Það var gert af ríkri nauðsyn, þrátt fyrir það að ríkisstj. vill hafa samningsfrelsi. Og þegar hv. 5. þm. Reykv. talar um, að hér sé um nýja stefnu að ræða, þá er það rétt að því leyti, að munurinn hjá þeim verkfræðingum, sem vinna hjá ríkinu, og hinum, sem vinna ekki hjá ríkinu, er samkv. þessum úrskurði mun minni en áður. Og þegar við tölum um kjaradóminn, hefur ekki verið fundið að því, að verkamenn, sem vinna hjá ríkinu, hafi fengið svo mikla hækkun samkv. kjaradómi. Þeir hafa ekki fengið meiri hækkun en svo, að þeir eru nú á svipuðum launum - og kannske tæplega það — og þeir, sem vinna hjá einkafyrirtækjum.

Hv. 5. þm. Austf. vildi reyna að mæla gegn frv., tala um samningsfrelsi, tala um það, að ríkisstj. hefði truflað verkfræðistörfin, bæði með útgáfu þessara laga og hinna fyrri. Ég vil minna hv. 5. þm. Austf. á það, að þegar fyrri lögin voru gefin út, varð það til þess að hindra, að sú gjaldskrá, sem verkfræðingafélagið hafði gefið út og var í sumum tilfellum þannig, að verkfræðistörfin hefðu hækkað um 320%, ef eftir henni hefði verið farið, að þau lög voru gefin út til að hindra þessa nýju gjaldskrá, sem hefði verkað í mörgum tilfellum eins og verkfall, vegna þess að hvorki ríkið né aðrir, sem á verkfræðiþjónustu hefðu þurft að halda, gátu keypt verkfræðistörfin með 320% hækkun. Og það er enginn vafi á því, að vegna útgáfu þeirra laga og eins vegna þessara hefur því verið bjargað við, að verkfræðingar hafa unnið — ég vil segja með eðlilegum hætti — að hinum ýmsu og nauðsynlegu verkum. Það hefur á ýmsan hátt breytzt þannig, að verkfræðingar hafa tekið í ákvæðisvinnu ýmiss konar störf. Þannig var það t.d. hjá Vegagerð ríkisins, meðan ekki voru verkfræðingar þar, þá voru verkin boðin út, og brúarteikningar og önnur verk, sem vegagerðin þurfti að láta vinna, voru boðin út og vegagerðin fékk ágætis kjör, einmitt vegna þess, að nýja gjaldskráin var ekki látin ganga í gildi. Ef hún hefði gengið í gildi, hefðu verkfræðingar orðið að fara eftir henni. Og það er ekki aðeins vegagerðin, sem þetta á við, þetta á við allar opinberar stofnanir, og þetta á einnig við einkafyrirtæki, sem hafa þurft á verkfræðiþjónustu að halda.

Svo kemur hv. 5. þm. Austf. og segir, að afskipti ríkisstj. af þessum málum hafi verið til þess að hindra eðlileg verkfræðistörf. Hvað hefði gerzt, ef ríkisstj. hefði látið þetta afskiptalaust? Ef ríkisstj. hefði látið deiluna afskiptalausa í fyrra sinnið og látið nýju gjaldskrána koma í gildi, þá væri hún í gildi í dag, verkfræðingar ynnu eftir hinni nýju gjaldskrá, enginn verkfræðingur fengist til þess að ráða sig hjá ríkinu fyrir mánaðarkaup og verkfræðiþjónustan væri margfalt dýrari en hún er núna. Og ég geri ekki ráð fyrir, ef nýja gjaldskráin hefði gengið í gildi, að það hefði orðið nokkurt verkfall á s.l. vori. Þá hefðu vitanlega verkfræðingar ekki þurft að vera að fara í neitt verkfall, þeir hefðu bara unnið eftir nýju gjaldskránni, að svo miklu leyti sem verkefni fékkst fyrir þá. En allt hefði þetta orðið dýrara og erfiðara.

Ég verð að segja það, að þeir, sem eru í öðru orðinu að tala um, að framkvæmdir séu dýrar, t.d. húsbyggingar og annað þess konar, ættu ekki að harma það, þó að verkfræðingar hafi verið hindraðir í því að fara eftir hinni nýju gjaldskrá, sem þeir gáfu út. Það er ekki byggð svo íbúð, hvorki hér í bænum né annars staðar á landinu, að ekki þurfi járnateikningar og verkfræðiþjónustu þar við, og ég hef oft heyrt hv. 5. þm. Reykv. tala um það, að byggingarkostnaðurinn væri hár. Ekki væri það til að draga úr byggingarkostnaðinum að láta verkfræðinga leika alveg lausum hala í þessu efni.

Ég vil segja það, að ég kann vel að meta störf verkfræðinga og þau eru mikils virði og þau eru nauðsynleg. En af einhverjum ástæðum hefur Verkfræðingafélag íslands núna um 3 ára skeið ætlað sér of mikið. Þeir hafa spennt bogann of hátt, og þess vegna hefur ríkisvaldið orðið að hafa afskipti af þeirra málum. Og ég ætla nú, að með þessum lögum, sem hér er um að ræða, sé þessi hnútur leystur, að verkfræðingarnir muni vel við una eftir atvikum, enda þótt gerðardómurinn úrskurði þeim miklu lægri laun en þeir vildu hafa og gerðu kröfu um, meðan leitazt var við að semja á frjálsum grundvelli. Og ég veit, að hv. 5. þm. Reykv. rekur sig á það, að sú stefna, sem feld í gerðardómnum, gengur alveg í öfuga átt við það, sem hann vildi halda fram áðan. Það má segja á vissan máta, að það sé stefna að því leyti, að launamunurinn hjá þeim, sem vinna hjá ríkinu og hjá einkafyrirtækjum, er miklu minni en hann var. En að svo miklu leyti sem það er ný stefna, þá gengur hún algerlega í öfuga átt við það, sem hv. 5. þm. Reykv. vildi segja, og undrast ég það, hvernig á því stendur, að hann skyldi bera á borð slíka rökvillu sem hann viðhafði hér áðan.