12.03.1964
Efri deild: 59. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég hef ekki mörgu við að bæta né miklu afi svara ræðu hæstv. ráðh. Hann hafði orð á því, að hann hefði orðið þess var, að ræða mín var ekki vanhugsuð, og þetta tek ég sem hrós, enda held ég, að mín ræða og minn málflutningur yfirleitt hafi ekki verið vanhugsaður. Hæstv. ráðh, reyndi í sinni síðari ræðu að verja gerðir hæstv. ríkisstj. í þessari lagasetningu. Ég lái honum ekki, að hann reyni slíkt. Hann er hingað kominn í hv. d. til þess að standa fyrir máli hæstv, ríkisstj. Mig furðar ekki heldur á, að honum tókst þetta heldur aumlega. Það tel ég ekki tiltökumál, eins og í pottinn er búið, eins og málstaðurinn er. Hann sagði, að verkfræðingar mættu ekki skammta sér kjör, og vildi sjálfsagt meina, að vegna þess að verkfræðingar mega ekki skammta sér kjör, hafi þessi lög verið sett. En mætti ég nú spyrja hæstv. ráðh.: Mega aðrar launastéttir landsins Skammta sér kjör, má læknastéttin skammta sér kjör, mega verkamenn við höfnina skammta sér kjör? Ef hæstv. ríkisstj, er sjálfri sér samkvæm, er svarið gefið. Það má engin launastétt skammta sér kjör, og af því leiðir, að hæstv. ríkisstj. álítur, að setja beri öllum launastéttum svipuð þvingunarlög og verkfræðingum hafa nú verið ætt. Þetta liggur í hlutarins eðli, nema því aðeins að hæstv. ráðh. vilji segja, að það eigi að gilda annað lögmál um verkfræðinga en aðrar launastéttir.

Ég er ekki fulltrúi launastéttanna, það er rétt hjá hæstv. ráðh., en ég er einn úr læknastétt, svo að mér er málið alls ekki fjarri. Og ég hef mikinn beyg af lagasetningu þeirri, sem hér er til umr., og stefnu hæstv. ríkisstj. í þeim efnum. Ég get búizt við því, að aðfarir hæstv. ríkisstj. 1961 gagnvart læknum verði endurteknar og það kannske á þessu ári með þvingunarlögum á borð við þau, sem hér liggja fyrir. Og ég hygg, að hver einasta launastétt í landinu geti búizt við hinu sama af þeirri hæstv. ríkisstj., sem nú situr við völd.

Hæstv. ríkisstj. vill ekki greiða íslenzkum verkfræðingum mjög há laun, en hún hefur verið furðu fús á að greiða erlendum verkfræðingum há laun, fjórföld og fimmföld laun á við það, sem íslenzka verkfræðinga hefur nokkurn tíma dreymt um að fara fram á. Hún er ekki ófróðleg, sagan, sem eitt af dagblöðum bæjarins sagði frá fyrir nokkru. Það var um það leyti, sem var verið að leggja nýjan sæsímastreng á milli Íslands og Ameríku. Þá vantaði póst- og símamálastjórnina verkfræðing. Það var enginn tiltækur í landinu. Þá var hringt til Danmerkur til sérfræðingafyrirtækis þar og það beðið um að senda verkfræðing. Þessu var vel tekið af fyrirtækinu danska og verkfræðingurinn sendur. Stjórnarvöldin íslenzku sendu sina sérstöku móttökunefnd á flugvöllinn með stóreflis blómvönd til að taka á móti hinum danska verkfræðingi á tilhlýðilegan hátt. En n. brá í brún, þegar út úr flugvélinni steig verkfræðingur, ekki danskur, heldur íslenzkur verkfræðingur, sem hafði hrökklazt úr landinu, frá landssímanum, skömmu áður og gengið í þjónustu hins danska fyrirtækis með miklu betri kjörum. Fregnin í blaðinu endaði á því, að móttökunefndin hefði falið blómvöndinn, stungið honum aftur fyrir bak, og það hefði orðið lítið úr hátíðahöldum.

Þetta er að mörgu leyti fróðleg saga. Hún sýnir vel, hvern sérstaka hug ríkisvaldið ber til íslenzkra verkfræðinga og hve lágt hún getur lagzt í duftið, þegar útlendingar eru á hinu leitinu.

Ég nefndi það í minni ræðu áðan, að árið 1957 hefði einn verkfræðingur farið úr landinu í því skyni að leita atvinnu erlendis upp á betri kjör og 1958 hefðu tveir verkfræðingar farið úr landinu af sömu ástæðum. Hins vegar höfðu 1960 hvorki meira né minna en 9 verkfræðingar flúið land í sama skyni. Þessar tölur leyfði hæstv. ráðh. sér að vefengja. Ég hef þær úr skýrslu Hagstofu Íslands um brottflutning fólks frá Íslandi 1953–1960. Skýrslan er út gefin 1962. Ég er með hana hér í höndum og legg hana nú fyrir hæstv. ráðh., svo að hann geti sannfærzt.