12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Mér kom í hug áðan, þegar hv. 5. þm. Reykv. sagði, að það væri ekkert undanhald hjá hæstv. ríkisstj., þó að hún hætti við að láta afgreiða þetta mál á hv. Alþingi að þessu sinni, ein fyrsta saga, sem ég heyrði af stjórnmálafundi, þegar ég var eitthvað 10–12 ára gamall. Það var á stjórnmálafundi vestur í Stykkishólmi, að þeir þreyttu þar miklar kappræður, Jónas frá Hriflu og Jón heitinn Þorláksson. Þegar orrusta þeirra stóð sem hæst, sneri einn fundarmaður, sem var fylgismaður Jóns Þorlákssonar, sér að konu einni innan úr eyjum og sagði við hana: „Já, fallega stendur nú Jón sig.“ Þá svaraði konan: „Ójá, hann liggur laglega á lensinu.“ Ég held, að það væri ekki óskynsamlegt fyrir hæstv. ríkisstj., ef hún tæki þá stefnu að liggja nú laglega á lensinu og hætta að knýja þetta mál fram. Það verður að segja í sambandi við þinghaldið í vetur og önnur þau mál, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að fást við, að það hefur yfirleitt verið um tómt undanhald að ræða, en það hefur ekki verið þannig gert, að það sé hægt um það að segja, að hún hafi legið laglega á lensinu. Hún á eitt tækifæri enn þá til þess að haga seglum svo, að vel fari á lensinu, og það er að hætta við að knýja þetta mál í gegn. En ég hef mjög takmarkaða trú á því, að svo verði gert, heldur mun það nú fara svo sem horfir, að hún knýr málið fram með meirihlutavaldi sínu og gefst svo upp við að framkvæma það að verulegu leyti, og svo á það að gufa upp eftir rúmt ár, eins og sjáanlegt er á frv.

Annars er það dálítið skemmtilegt við þetta frh., sem var lagt fram hinn 22. okt. s.l. og er mál nr. 36, að það skuli vera til meðferðar ú síðustu dögum þingsins, og þá að ekkert væri annað en það, sýnir það þó betur en margt annað, að hæstv. ríkisstj. er orðið það ljóst, að þarna hefur hún gert glappaskot, sem hún er feimin við að fást við. Þinghald er búið að standa í 7 mánuði, og það er búið að vera mjög aðgerðalítið þinghald, a.m.k. síðan á áramótum. Það var nógur tími til þess að koma áfram þessu máli hæstv, ríkisstjórnar, ef hún hefði ekki sjálf verið feimin við að sýna það hér á hv. Alþingi. Og það var dálítið broslegt fyrir nokkrum dögum, þegar verkfræðingar fjölmenntu hér á þingpalla, þá var verið að reyna að komast hjá því að taka málið á dagskrá í áheyrn þeirra. Og þetta var gert með því að þreyta þá fram á nótt og með alls konar hléum í von um það, að þeir gæfust upp og færu heim. En það voru ekki þeir, sem gáfust upp, heldur var það augljóst, að hæstv. ríkisstj. sjálf var feimin við að fást við málið. Oll hennar vinnubrögð, allar hennar vinnuaðferðir í sambandi við þetta mál, eru eins og þegar er verið með feimnismál, það er reynt að leyna því, það er reynt að koma því áfram, þegar sem minnst ber á, og hafa vinnubrögðin þannig, að ekki séu margir, sem á horfi eða á hlýði. En samt hefur nú farið svo, kannske vegna þess, hvernig á þessu hefur verið haldið, að þetta er orðið mál, sem mjög vel hefur verið fylgzt með, og það er suðvitað að vonum.

Eins og ég áðan sagði, væri það eitt, hvernig ú þessu máli hefur verið haldið hér á Alþingi, næg sönnun þess, hvernig málið er vaxið. Það, sem hér er um að ræða, er í grundvallaratriðum það, að það er verið að ráðast á þann rétt manna, sem er helgastur, og það er samningsrétturinn. Verkfræðingar höfðu tryggt sér samningsrétt, og hæstv. ríkisstj. hefur verið í eilífu stríði við verkfræðingana mestallt sitt stjórnartímabil. Og ég er að velta því fyrir mér, hvort verkfræðingarnir hafi eitthvað skapraunað hæstv. landbrh. og samgmrh., því að það er eins og honum sé í sérstakrí nöp við þá. Og máli mínu til sönnunar vil ég — með leyfi hæstv. forseta — lesa hér upp úr blaðinu Suðurlandi, en það er blað, sem hæstv. ráðh. kemur greinum sínum í. Laugardaginn 28. sept. 1963 skrifar hæstv. landbrh. og samgmrh. í blað sitt Suðurland, og þar byrjar hann greinina með þessum venjulega formála sínum fyrir öllum ræðum og greinum, að vinstri stjórnin hafi verið vond, hún hafi skilið illa við og hann sé nú búinn að bjarga miklu og eiginlega bjarga því, sem bjarga þurfti, og þetta sé nú allt í lagi. Og svo fer hann að ræða um það, að menn séu nú kröfuharðir og hinir og þessir hafi gert þessar kröfur og hinar og m.a. hafi embættismennirnir farið fram á l20% launahækkun. Þeir hafi svo verið með kjaradóminum afgreiddir með 1/3 af því, sem þeir fóru fram á, segir hann, það er meðaltalið, sem þar er átt við, og mönnum sýnist nú sitt hverjum um þetta, en þó verði það að viðurkennast, að þeir hafi dregizt aftur úr. Og svo kemst hæstv. ráðh. svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Verkfræðingar gerðu miklar kröfur, sem kunnugt er, en þeir voru afgreiddir með brbl. og munu fá gert út um sín kjör samkv. gerðardómi.“

Við þá þarf nú ekki að vanda kveðjuna. Þegar búið er að semja við aðra, þá eru verkfræðingar afgreiddir með brbl., og þeir verða að hlíta dómi. Og hver er ástæðan til þess, að hæstv. ráðh. fer þannig að verkfræðingum frekar en öðrum stéttum í þjóðfélaginu? Að vísu er það rétt, eins og kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv., að hæstv. ríkisstj. ætlaði sér síðari hluta sumars og í haust að gera út um kjaramál með gerðardómi og lögbindingu, en hún gafst upp við þetta, eins og kunnugt er, og var þar á sínu fræga undanhaldi, sem ekki verður nú um sagt, að hún hafi legið laglega á lensinu. En það er um verkfræðingana og ríkisstj. að segja, að þar hefur verið eilíft stríð mestallt stjórnartímabilið s.l. og heldur áfram, eins og kunnugt er. Og nú á að knýja þetta lagafrv. hér í gegn á síðustu dögum þingsins gegn vilja þeirrar stéttar, sem á að búa við það, og án þess að séu nokkur skynsamleg rök fyrir því, að það eigi að gera út um mál verkfræðinga með kjaradómi, þegar lögfræðingar og aðrar slíkar stéttir fá sjálfir að setja sína gjaldskrá og ákveða sín kjör. Og þessi afstaða hæstv. ríkisstj. er í alla staði furðuleg, og ekki sízt er hún furðuleg, ef á það er lítið, hvernig málefni þjóðarinnar hafa breytzt ú síðari árum og eru að breytast, því að svo mikla þörf sem þjóðin hafði fyrir sérmenntun verkfræðinga áður fyrr, hefur hún þó aldrei verið jafnmikil og nú. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að nú erum við að leggja í hvert verkið á fætur öðru, sem kostar tugi millj. og jafnvel hundruð millj., og þess vegna þarf ekki að eyða mörgum orðum að því, hvað það getur kostað mikið, ef slík verk eru illa undirbúin eða eru eftirlitslaus af hálfu verkfræðinga. Þess vegna eru það hreinir smámunir, hvaða kjör þessir menn hafa, ef verk þeirra eru þannig af hendi leyst, að það megi treysta þeim og þeir vegna kunnáttu sinnar geta þess vegna sparað stórar fjárhæðir.

Á síðari árum hefur það færzt mjög í vöxt, að bæjar- og jafnvel sveitarfélög eru farin að vinna margs konar verk, sem verkfræðinga þarf til, eins og gatnagerð. Skipulagsmál bæjar- og sveitarfélaga hafa, eins og kunnugt er, verið mjög á eftir, þeim stöðum til mikils tjóns. Á síðari árum hefur það færzt í vöxt, hvaða nauðsyn ber til að vinna að skipulagsmálum, áður en farið er að byggja upp bæina. Það hefur kostað margt bæjar- og sveitarfélagið stórfjárhæðir, að skipulagsmál þeirra hafa ekki verið komin í lag, áður en byggingarframkvæmdir hafa verið gerðar. Nú er mönnum að verða ljóst, að þennan kostnað mega þeir ekki taka á sig. En til þess að það megi verða, verða þeir að hafa aðgang að verkfræðingum og mönnum með sérþekkingu á þessum málum. Fleiri og fleiri bæir taka verkfræðinga í sína þjónustu og fleiri og fleiri bæjar- og sveitarfélög hafa samið við verkfræðingaskrifstofur til þess að annast ýmis verk. Ekki orkar það tvímælis, að þessir menn eru búnir að vinna þar nú þegar mikið verk og koma í veg fyrir alls konar óhöpp, sem hefur verið komizt hjá vegna þessara breyttu vinnuaðferða, að leita til sérfræðinganna þegar í upphafi. Það eru því engin ánægjuefni fyrir almenning í landinu, að stjórnvöldin skuli vera í eilífu stríði við þessa stétt, og það eru heldur engin ánægjuefni fyrir þá, sem þessi viðskipti eiga, að það skuli raunverulega hafa verið með aðgerðum ríkisvaldsins gert erfiðara að eiga í samningum við verkfræðiskrifstofur vegna þessara afskipta ríkisvaldsins. En það er vitanlegt, að einmitt fyrir brbl, og afskipti ríkisvaldsins af málefnum verkfræðinganna í tíð núv. hæstv. ríkisstj, hafa verið mjög torveldaðir samningar þessara aðila.

Þá þarf ekki orðum að því að eyða, hvernig það er fyrir ríkisstofnanirnar, sem eiga að fara að vinna mörg og stór verk — og það stærri verk en áður hefur verið — að vera verkfræðingalausir. Við, sem þurfum að eiga skipti við stofnun eins og vitamála- og hafnarmálaskrifstofuna, höfum kynnzt þessu að nokkru. Og til hvers leiðir það svo, þegar gengið er fram hjá íslenzkum verkfræðingum. Það er ekki hægt að byggja höfn, án þess að verkfræðikunnátta komi til, og mér er nú næst að halda, að það megi ekki verða takmarkaðri þjónusta en þar er veitt í sambandi við hinar stærri hafnir. En hvað gerist svo hjá þessum stóru skrifstofum? Það sem gerist, er það, að það er leitað til annarra landa til þess að láta þar vinna verk, sem væri hægt að vinna hér á landi af íslenzkum verkfræðingum, ef það væri farið að þeim eins og eðlilegt er í samskiptum ríkisvaldsins og stétta. Þannig hefur orðið að fara með hinar stærri hafnir, sem ég þekki til, eins og hafnirnar á Snæfellsnesi, bæði Rifshöfn og Ólafsvíkurhöfn, það eru danskir verkfræðingar, sem hafa verið látnir leggja grunninn að þeirri framkvæmd. Og það þarf enginn að segja mér eða öðrum, að það sé hægt að komast hjá þessum kostnaði, sem leiðir af verkum verkfræðinga í sambandi við slíkar framkvæmdir, enda er ég sannfærður um, að það væri það dýrasta, sem gert væri. En ég er líka sannfærður um það, að vegna þess að íslenzkir verkfræðingar eru svo sniðgengnir sem gert er, verður ekki hægt að fá þá verkfræðiþjónustu, sem nauðsynleg er og eðlileg er, þó að það sé verið að leita til erlendra manna um framkvæmd á íslenzkum verkum. Mér er kunnugt um það, að a.m.k. einn íslenzkur verkfræðingur er sérstaklega að búa sig undir það að vera sérfræðingur í hafnargerð og er nú við nám erlendis. En að hverju eiga þessir menn að hverfa, þegar þeir koma hér, þegar ríkisvaldið hefur þá raunverulega í banni? Til hvers leiðir það, þegar menn eru búnir að taka sérfræðinám ofan á sitt dýra verkfræðinám, þegar ríkisvaldið kemur þannig fram við þá eins og hér er gert? Það leiðir ekki til annars en þess, að þessir menn hverfa úr landi. Heimurinn í dag er orðinn tiltölulega lítill, og menn með slíka þekkingu búa ekki hér við skert kjör og sultarlaun, enda er það staðreynd, að ríkisfólkið hefði sannarlega þörf fyrir fleiri og yngri verkfræðinga í sína þjónustu en nú er. Og ef við ætlum að leysa þau verkefni, sem við tölum um að leysa í hafnargerðum, vegagerðum og fleiri stórverkefnum framtíðarinnar, þá verða íslenzkir verkfræðingar að komast í sátt við ríkisvaldið og vinna að lausn þessara mála.

Við þm. erum nú daglega að ræða um það, sem eðlilegt er, að við þurfum að gera okkar atvinnuvegi fjölbreyttari. Við þurfum að fara í stóriðju og koma á íslenzkum atvinnuvegum til útflutnings umfram fiskveiðarnar. En hvernig byggjum við upp þessa atvinnuvegi, ef við ætlum ekki að hagnýta okkur íslenzka verkfræðinga? Þó að það sé hægt að vinna að sérstökum verkum, eins og hér mun hafa verið gert nokkuð á vegum raforkumálastjórnarinnar í sambandi við virkjunarathuganir, með erlendum verkfræðingum, þá á stefna okkar fyrst og fremst að vera sú, að þeir íslenzku leysi verkið af hendi, og ég er líka sannfærður um það, að þeir eru alltaf að verða betur og betur undir það búnir, og þeir hafa mikinn áhuga einmitt á því, hinir yngri verkfræðingar, að sérmennta sig til þess að geta tekið sérstaka þætti í uppbyggingarverkum framtíðarinnar. En allt þetta er tómt mál að tala um, ef þeir eiga að vera í eilífu stríði við ríkisvaldið, eins og hefur verið hjá hæstv. núv, ríkisstj.

Eins og ég drap á áðan, byggist framtíðin meira á því en nokkru sinni fyrr, að sérþekkingin komi til, vegna þess hvað okkar þjóðmál hafa breytzt á síðari árum, þannig að við færumst meira og meira inn á viðskiptabúskap og reksturinn verður dýrari og dýrari. Ég vil t.d. nefna atvinnugrein eins og landbúnaðinn. Áður fyrr voru t.d. áburðarkaup mjög lítill þáttur í rekstrarkostnaði íslenzks landbúnaðar. Nú eru áburðarkaup orðin stór þáttur í íslenzkum landbúnaði. Þess vegna skiptir það meira máli nú en nokkru sinni fyrr, að það sé nokkurn veginn vitað, hvað á að bera á, hvernig á að bera á þann tilbúna áburð, sem keyptur er til landbúnaðarins. Einmitt það, að notagildi hans verði sem mest, er hin hagnýta þýðing í rekstri landbúnaðarins. Þess vegna þarf sérþekkingin að skera úr um þetta. Það er staðreynd núna, þó að við höfum komizt af áður, þar sem við notuðum svo litið af áburðinum til landbúnaðarrekstrarins. Sama er að segja um fóðurbæti og fleira, allt hefur þetta færzt inn á þann vettvang að verða viðskiptabúskapur, þar sem sérfræði getur leyst mörg atriði, ef við kunnum að hagnýta okkur þá þekkingu, sem til er í landinu í þeim efnum.

Við erum meira og meira að verða iðnaðarþjóð. Bygging eins iðnaðarhúss, skipulagningin við bygginguna, þar sem tillit er tekið til vinnuhagræðingar og annars þess, sem nauðsynlegt er að gert sé, þegar húsið er byggt, getur haft meiri áhrif á rekstrarkostnað iðnaðarfyrirtækisins heldur en við gerum okkur grein fyrir í fljótu bragði. En ef svo er, þá verðum við einnig að gera okkur grein fyrir því, að við verðum að leita til þeirra sérmenntuðu manna, sem við eigum, til þess að vinna að þessari skipulagningu. Og almennt er fólkið í landinu að skilja það, að þetta samstarf sérfræðinganna og almennings í landinu er nauðsynlegt og er að verða það meira og meira, þó að hæstv. ríkisstj. eigi erfitt með að átta sig á því.

Ég skal ekki þreyta þessa umræðu lengi, þó að ég hafi viljað benda á þessi atriði, sem ég hef hér tekið fram. En ég vil að lokum endurtaka það, sem ég sagði hér í upphafi: Það skynsamlegasta, sem hæstv. ríkisstj. hefði getað gert, var að láta þetta mál daga uppi og samningsréttinn njóta sín og málið komast í eðlilegan farveg á nýjan leik. En ég ber ekki það traust til hæstv. ríkisstj., að hún taki svo skynsamlega leið, að hún liggi svo vel á lensinu, heldur hygg ég hún reyni að böðlast áfram enn á ný og brjótast í gegn með þetta frv. sitt, þótt seint sé, og koma feimnismálinu sínu í gegn á síðasta degi þingsins, enda þótt henni sé ljóst að það gufi upp fyrr eða síðar og sé nú þegar að engu haft.