12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1115)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er leitt til þess að víta, að hæstv. ráðh., sem sett hefur þessi brbl., skuli ekki telja sér fært að vera viðstaddur þessar umræður. (Forseti. Ráðherrann er í húsinu og lét vita af því, þegar hann vék af fundinum. Það er hægt að sækja hann, ef þess er óskað.) Já, er ekki sjálfsagt að sækja manninn? Það er miklu skemmtilegra 9ð ræða um þetta mál þannig, að hæstv. ráðh. sé staddur í þd.

Í fyrri ræðu minni um málið beindi ég nokkrum fsp. til hæstv. ráðh., og ég heyrði, að fleiri ræðumenn hafa gert það líka. Það væri nú ekki með öllu óeðlilegt, að hæstv. ráðh. svaraði fsp., sem fyrir hann eru lagðar og mjög snerta þetta mál. Það var hv. 5. þm. Vestf., sem beindi nokkrum fsp. til hæstv. ráðh. fyrr í dag, þegar ráðh. var ekki viðstaddur umr., og annar ráðh., hæstv. dómsmrh., tók að sér að flytja ráðh. þessar spurningar, sem ég vænti nú að hann muni hafa gert. En vegna þess að þessar spurningar snerta mjög þetta mál, sem hér liggur fyrir, og gang þess allan, þá finnst mér, að þessum umræðum geti hreinlega ekki lokið án þess, að hæstv. samgmrh. svari þessum spurningum. Ég tel, að við alþm. eigum kröfu á því, að hann veiti svör við þessum spurningum. Þessar spurningar voru m.a. snertandi það, þegar ríkisstj. sjálf og þá alveg sérstaklega sá hæstv. ráðh., sem stóð að því að setja brbl., stóð fyrir því, að samgmrn. réði til sín verkfræðinga og það með þeim hætti, að samtök verkfræðinga töldu sér óhjákvæmilegt að víkja þeim mönnum, sem ráðninguna höfðu tekið, úr samtökunum. Ég skal hér endurtaka nokkrar af aðalspurningunum, sem lagðar voru fyrir hæstv. ráðh.

Í fyrsta lagi var hann spurður: Var þeim verkfræðingum, sem vegamálaskrifstofan réð til sín, boðin eftirvinna og gert við þá fast samkomulag um hana? Hversu mikla eftirvinnu fá verkfræðingarnir greidda, og er sú eftirvinna unnin, en sumir vilja halda því fram, að svo sé ekki? Það skiptir vitanlega ekki litlu máli í sambandi við gang þessa máls, hvort það er svo, að þetta, sem er haldið fram af samtökum verkfræðinga, er rétt eða ekki. Og við alþm. eigum fullan rétt á því að krefja hæstv, ráðh. svara um það, hvort hann eða sú stofnun, sem hann er ráðh. yfir, hefur staðið að einhverjum samningum, sem ganga út fyrir þau launakjör, sem átti að halda sér við.

Önnur spurningin var á þessa leið: Var verkfræðingunum einum eða öllum veitt 60 þús. kr. lán til bifreiðakaupa vaxtalaust, lán til 5 ára í því skyni, að þeir gætu eignazt bifreið, svo að hægt væri að greiða þeim sérstakan bifreiðarstyrk? Er þetta rétt? Þetta á vitanlega hæstv. samgmrh. að upplýsa.

Þriðja spurningin, sem lögð var fyrir hæstv. ráðh., var á þessa leið: Er það rétt, að verkfræðingunum sé greiddur bifreiðarstyrkur og þá hve mikill og að styrkur sá verði ekki talinn fram til tekna, þ.e.a.s. sé skotið undan skatti?

Fjórða spurningin var á þessa leið: Hve mikil eru raunveruleg laun þessara verkfræðinga, sem sagðir eru á kjörum samkv. kjaradómi? Kjaradómskjör 10 ára verkfræðinga eru 14400 kr. Það er fróðlegt að fá orð ráðh. sjálfs um þessi efni.

Er það líka rétt, að verkfræðingar, sem starfa á vegum landssimans, hafi fengið 25% álag fram yfir kjaradómskjör, eins og almannarómur segir og stéttarsamtök verkfræðingar halda alveg hispurslaust fram?

Nú vill svo til, að einmitt sá hæstv. ráðh., sem settí brbl. og stóð fyrir því, að kjaradómur ætti að ákveða kjör verkfræðinga, hann er jafnframt ráðh. yfir vegamálaskrifstofunni og einnig ráðh. yfir pósti og síma. Það er orðinn alleinkennilegur leikur, sem hér fer fram, ef sami hæstv. ráðh. beitir sér fyrir slíkri lagasetningu sem þessari, sem er alveg einsdæmi í sinni röð gagnvart þessu stéttarfélagi, en heldur svo í framkvæmdinni á málinu á þessa lund. Þessar spurningar hafa verið settar hér fram, og við þm. viljum fá svör við þessum spurningum. Ég veit, að það er orðin mikil tízka í þessu landi, ekki sízt hefur ríkisstj. verið hrifin af þeirri tízku, að innleiða þá reglu að vera í feluleik með kaupgreiðslur, skrifa gjarnan á blað öllu lægri tölur — og láta þær ganga opinberlega — heldur en hinar, sem eru greiddar fram í peningum eða á annan hátt. En þessi tízka er ekki skemmtileg og hún þjónar engu góðu. Ég veit, að tilgangur hæstv. ríkisstj., þegar hún hefur staðið fyrir slíkum ákvörðunum eins og þessum, hefur verið sá að reyna að halda því fram við ýmsar aðrar launastéttir í landinu. Þið sjáið þarna, að þessir menn fá ekki meira en þarna er skrifað, og nú skuluð þið sætta ykkur við miklu minna. — Og ég þykist vita það líka, að þessi alveg einstæða framkoma ríkisvaldsins gagnvart verkfræðingum á m.a. að hafa það gildi í deilum ríkisstj. við launþegasamtökin almennt í landinu, að með þessum aðgerðum ætlar ríkisstj. að segja: Þið sjáið nú, hvernig við tókum verkfræðingana, við vorum nú ekkert billegir við þá. — Og það á að vera viss áminning til annarra launþega í landinu í sambandi við launamálabaráttu þeirra.

Þeirri spurningu var hér einnig beint til hæstv. ráðh., hvort honum væri ókunnugt um það, að ríkisstj. hefði greitt útlendum verkfræðingum allmiklu meira en samkv. þeim reglum, sem hún hefur staðið fyrir að binda íslenzka verkfræðinga við. Og hvernig er það, er ekki sá sami hæstv. ráðh., sem stóð að setningu brbl. þeirra, sem hér eru nú til umr., líka ráðh. raforkumála? Mig minnir það. Ætli hafi ekki verið eitthvað af erlendum verkfræðingum í þjónustu raforkumála? Ég held það. Það væri mjög fróðlegt að fá upplýsingar um það í sambandi við afgreiðslu þessa máls, hvernig launagreiðslur hafa verið til þessara erlendu verkfræðinga, sem hér hafa unnið að þessum undirbúningsmálum. Við alþm. hljótum líka að eiga rétt á því að fá upplýsingar um þessi atriði. Þetta eiga ekki að vera gagnvart okkur nein felumál.

Mér finnst, að sú meðferð, sem íslenzkir verkfræðingar hafa orðið fyrir af hæstv. ríkisstj., þar sem þeir hafa alveg greinilega einir verið teknir út úr og beittir allt öðrum reglum en aðrar starfsstéttir í landinu, — mér sýnist, að þetta bendi einna helzt á það, að ríkisstj. líti á þessa starfsstétt eins og nokkurs konar sakamenn, það sé ekki hægt að láta þá njóta sömu réttinda og aðra, þeir séu svo miklu óbilgjarnari í kröfum en aðrir. En ég held nú, eins og ég hef sagt hér áður í þessum umr., að það sé engin ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að líta þannig á íslenzka verkfræðinga, og satt að segja verð ég að segja það, eftir að ég hef litið svolítið á þau launakjör, sem þeim eru ætluð, að ég er ekki hissa á þeim launum, miðað við það, sem við þekkjum í svo fjöldamörgum tilfellum orðið nú í okkar þjóðfélagi, síður en svo. Ég trúi því þess vegna ekki, að það sé ekki alveg eins hægt að semja við samtök verkfræðinga eins og stéttarsamtök margra annarra aðila í landinu.

Það eru ein rök, sem hæstv. ráðh. hefur flutt fram fyrir setningu þessara brbl., að nauðsyn hafi borið til að setja lögin vegna þess, að hætta væri á því, að verkfræðingar, sem vinna hjá öðrum en ríkinu, semdu um hærri laun en sambærilegir starfsmenn áttu að fá skv. kjaradómi opinberra starfsmanna. Í rauninni eru þessi rök, sem eru flutt fyrir setningu brbl., hin furðulegustu. Rökin einmitt fyrir lögunum um launakjör opinberra starfsmanna voru þau, að það ætti að ákveða laun opinberra starfsmanna með hliðsjón af því, sem launagreiðslur væru hjá öðrum en ríkinu. En svo á allt í einu að fara að snúa þessu við og segja: Nú ber nauðsyn til þess, að ríkið ákveði launin hjá öðrum en ríkinu, svo að þau séu í samræmi við það, sem verður ákveðið hjá opinberum starfsmönnum. Þessi rök fá auðvitað ekki staðizt, þau eru mótsögn í sjálfu sér, og ef ríkið færi að gera þetta í öðrum tilfellum, — en vitanlega er hægt að finna mörg önnur starfssvið í þjóðfélaginu, þar sem starfsmenn vinna hjá öðrum en ríkinu, sem hægt er að gera vissan samanburð á gagnvart þeim störfum, sem unnin eru hjá ríkinu, — ef ríkisvaldið færi yfirleitt út á þessa braut, þá mundi þetta fljótlega jafngilda því, að það væri búið að lögbinda öll kjör í landinu.

Það fer auðvitað heldur ekkert á milli mála, að þau kjör, sem verkfræðingum hefur verið boðið upp á skv. þessu, eða sá réttur, sem þeim er boðið upp á varðandi launakjör þeirra, hann er miklum mun skertari og lélegri en opinberum starfsmönnum hefur verið boðið upp á. Opinberir starfsmenn áttu þó skv. lögunum um launakjör opinberra starfsmanna vissan samningsrétt, og þeir áttu beina aðild síðan að þeim kjaradómi, sem e.t.v. þurfti að grípa til. En verkfræðingar áttu ekki kost á neinu slíku sem þessu. Af þeim var raunverulega tekinn allur samningsréttur, og þeir áttu síðan enga aðild að þeim dómi, sem átti að kveða upp úrskurð um þeirra laun. A allan hátt er því þessi lagasetning óeðlileg og ósanngjörn.

Þessi lagasetning var alveg tvímælalaust, eins og ég sagði hér fyrr í dag, sett til þess að koma í veg fyrir samninga, sem voru að takast á milli réttra aðila. Það liggur fyrir í þeirri grg., sem fylgir með úrskurði gerðardómsins, að þessu var svona háttað. Verkfræðiskrifstofur voru þegar búnar að komast svo langt í samningunum við Stéttarfélag verkfræðinga, að samningar voru að takast. En ríkisstj. vildi koma í veg fyrir það, að samningar tækjust, sem þó fóru fram á allan hátt skv. lögum. Það var verið að hindra samningagerð, og auðvitað hefur ríkisstj. vitað það, að með þessum vinnubrögðum gat hún varla ráðið öðru en því að halda nokkurri leynd yfir því, hvað raunverulega væri greitt fyrir þessi störf. Það var nokkurn veginn gefið mál, að hún mundi þurfa að greiða bæði útlendum starfsmönnum og reyndar innlendum líka í ýmsum tilfellum mun hærra en átti að ákveða á pappírnum.

Samkvæmt lögunum um opinbera starfsmenn er líka gert ráð fyrir því, að þeir eigi þann rétt, að verði verulegar launabreytingar eða aðrar breytingar í sambandi við kjaraaðstöðu vinnustétta í landinu, eigi þeir þann rétt, að launakjör þeirra skuli endurmetin. En skv. þessum lögum, sem hér liggja fyrir, þá er þessu í rauninni ekki svona varið með a.m.k. suma þætti launakjara verkfræðinga. Það er ekki annað fyrirsjáanlegt, en að gjaldskráratriðin öll séu bundin og verði bundin a.m.k. út allt næsta ár.

Nú er auðvitað, bæði gagnvart opinberum starfsmönnum og eins gagnvart verkfræðingum og öllum öðrum, hrein fjarstæða að ætla sér að binda launakjör til langs tíma, algerlega án tillits til þess, hvernig háttað er verðlagsmálum öðrum í landinu. Þegar kjaradómurinn um laun opinberra starfsmanna var kveðinn upp á s.l. sumri, mun vísitala vöru og þjónustu hafa verið um 153 stig. Nú er þessi sama vísitala orðin 184 stig, eða dýrtíðin hefur samkvæmt þessari vísitölu hækkað um 31 stig. Og það er svo upplýst af þeim, sem bezt vita til um gang dýrtíðarmálanna, þeim, sem standa algerlega fyrir því að halda vextinum þar í gangi, af fulltrúum ríkisstj., að væntanleg séu 9 vísitölustig á næstu vikum og mánuðum inn í þessa skráðu vísitölu, vegna þess að skattar hafi hækkað og muni valda hækkun á vísitölunni, þrátt fyrir frv., sem legið hefur fyrir þessu þingi um að lækka skatta, og svo auðvitað afleiðingar af ýmsum öðrum verðhækkunum, sem átt hafa sér stað. Þegar þau 9 vísitölustig eru komin til skila, hefur þessi vísitala vöru og þjónustu hækkað um 40 stig, síðan launakjör opinberra starfsmanna voru ákveðin.

Það er auðvitað alveg augljóst mál, að þessi dýrtíðaraukning hefur raskað gersamlega þeim grundvelli, sem miðað var við um kjör þessara starfsstétta, Og það á jafnt við opinbera starfsmenn sem verkfræðinga, en þeirra launakjör voru ákveðin rétt um sama leyti eða stuðzt a.m.k. við þennan dóm.

Það er því eitt út af fyrir sig auðvitað alveg tómt mál að tala um að ætla sér að binda launakjör, sem ákveðin voru á þennan hátt undir allt öðrum kringumstæðum, að binda þau til langframa. Það er sama og að` neita staðreyndum. Þetta hlýtur að rifna í sundur. Það er ekki hægt að framkvæma þetta.

Það er auðvitað alveg nákvæmlega eins með gjaldskrána, sem í gildi á nú að vera skv. þessu a.m.k. til ársloka 1965. Sjálfur gerðardómurinn hafði viðurkennt þá staðreynd, sem verkfræðingar höfðu haldið fram, að gamla gjaldskráin væri orðin úrelt, fengi ekki staðizt, vegna þess að það væru alltaf að koma fram nýjar og nýjar breytingar í þessum störfum, ný og ný starfssvið, sem þyrfti vitanlega að ákveða launakjör fyrir. Og það er auðvitað enginn vafi á því, að ef þessi lagabinding á að gilda til ársloka 1965, þá fær þessi gjaldskrá ekki staðizt. Í mörgum tilfellum verður þá orðið nauðsynlegt að breyta henni, eða þá að engin ákvæði eru raunverulega til, sem hægt er opinberlega að fara eftir. Þetta hefði reynslan átt að vera búin að kenna hæstv. ráðh., sem blandaði sér í þessi mál á þann hátt, sem hann hefur nú fengið sjálfur dóm um frá sínum eigin kjaradómi. Reynslan hefði átt að kenna honum það, að það er með öllu tilgangslaust að ætla að binda slíka gjaldskrá sem þessa um langan tíma, því að það er alveg óhjákvæmilegt að gera á henni breytingar, miðað við breyttar aðstæður, og það verða þeir að gera, sem bezt þekkja til í þessum málum. Og það verður vitanlega að trúa í þeim efnum þessu stéttarfélagi eins og mörgum öðrum og svo þá viðsemjendum þeirra fyrir þessum málum, eins og gert er í mörgum öðrum tilfellum.

Það væri að vísu umræðuefni út af fyrir sig í sambandi við þetta mál að reyna að gera sér nokkra grein fyrir því, hvernig í ósköpunum stendur á því, að núv. hæstv. ríkisstj. þarf að standa á þann hátt, sem hún hefur staðið, í þessum eilífu deilum frá mánuði til mánaðar, frá ári til árs, við flestar launastéttir í landinu. Hvernig stendur á því, að ríkisstj. verður að grípa til þessara ráða, sem hún hefur gripið til varðandi þessi mál? Og hvernig stendur á því, að hún verður nú að standa í almennum samningum um launakjör í landinu við verkalýðssamtökin? Skyldi það ekkert hvarfla að hæstv. ráðherrum, hvernig getur staðið á þessu? Ætli það komi þeim ekki í hug, að dýrtíðin eigi nokkurn þátt í þessu öllu saman, að þessi steina ríkisstj. að reyna að framkvæma almenna kjaraskerðingu í landinu með því að hækka verðlagið eigi sök á því, að ríkisstj. þarf að lenda í öllum þessum deilum við allar vinnustéttir í landinu? Það er viðurkennt, enda ekki hægt annað en viðurkenna það, að launagreiðslur hér á Íslandi eru yfirleitt lægri í flestöllum greinum en hér í nálægum löndum.

Sumir virðast halda við fyrstu athugun, að þetta muni stafa af því, að við séum svo fátækir, við getum í rauninni ekki borgað jafngóð laun og t.d. nágrannar okkar á Norðurlöndum eða í Bretlandi eða annars staðar hér í kringum okkur, við séum svo fáir og smáir og fátækir, eins og stundum er talað um. En þessu er í rauninni allt öðruvísi farið. Og meira að segja sérfræðingar hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum, þeir menn, sem hún virðist jafnan hafa heldur of mikla trú á, að mér finnst, í ýmsum greinum, þeir verða að viðurkenna þetta.

Í þjóðhags- og framkvæmdaáætlun þeirri, sem ríkisstj. gaf út á s.l. ári, skrifaði aðalsérfræðingur ríkisstj. í efnahagsmálum, Jónas Haralz, mjög fróðlegt efnahagslegt yfirlit um þróun mála á Íslandi og stöðu okkar í samanburði við ýmsar aðrar þjóðir. Í þessu yfirliti segir þessi aðalsérfræðingur ríkisstj. um tekjuaðstöðu okkar Íslendinga, hann segir orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv, forseta: „Að því er bezt er vitað, eru þjóðartekjur á mann á Íslandi fyllilega sambærilegar við það, sem yfirleitt gerist meðal iðnaðarþjóða í norðurhluta Vestur-Evrópu.“ Já, það er sem sagt viðurkennt nú fyrir tveimur árum, þegar þetta hafði verið samið, að við stóðum hér fyllilega jafnfætis á við það, sem einna hæst er meðal Vestur-Evrópuþjóða um árlegar þjóðartekjur, tekjur á mann. Og síðan þetta var samið, hafa okkar þjóðartekjur sannarlega aukizt meir en þjóðartekjurnar hér í nálægum löndum. Við höfum búið við gott árferði, við höfum tekið tæknina í okkar þjónustu á ýmsum sviðum. þjóðartekjurnar hafa vaxið hratt, svo hratt, að margt hefur gengið úr skorðum í efnahagsmálum þjóðarinnar, eins og sagt er. Það er enginn vafi á því, að þegar samanburður er gerður á þjóðartekjum Íslendinga á hvert höfuð í landinu, borið t.d. saman við þjóðartekjur Norðmanna og Dana, sem við höfum allgóðar upplýsingar um, þá eru þjóðartekjurnar á hvert höfuð á Íslandi mun meiri en þar. Það er sannleikur málsins, að maður nú ekki tali um það, hvað það væri auðvelt fyrir okkur að stíga stór skref fram á við til verulegrar aukningar á þessum þjóðartekjum, ef réttilega væri á haldið. En þrátt fyrir þessar miklu þjóðartekjur verðum við að greiða, jafnt verkamönnum sem yfirleitt öllum öðrum launþegum í okkar landi, mun lægra kaup fyrir hverja unna vinnustund heldur en nágrannar okkar gera: Þetta er staðreynd. Þessu verður ekki neitað.

Ég veit það, að hæstv. viðskmrh., sem þekkir allvel til þessara mála, þekkir þessar staðreyndir vel. Honum dettur væntanlega ekki í hug að mótmæla því, að raunverulega ætti að vera hægt að greiða jafnhátt kaup hér á landi eins og í nágrannalöndum okkar, og það sé í rauninni engin ástæða til þess að borga t.d. verkfræðingum á Íslandi miklu lægra kaup en verkfræðingum í nágrannalöndum okkar, engin ástæða önnur en sú, að ríkisstj. hefur ákveðið, að það þurfi að framkvæma ákveðna breytingu á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Því er haldið fram, að raunverulega séu atvinnurekendur á Íslandi ekki nægilega ríkir, þeir þurfi að fá að safna meiri hagnaði en þeir hafa gert, þeir þurfi að verða sjálfstæðari. Og ég býst við því, að það sé rétt út af fyrir sig, að hinir fjölmörgu atvinnurekendur á Íslandi, vegna þess, hvernig okkar atvinnulíf er upp byggt, séu hver út af fyrir sig miklu efnahagslega veikari en margar atvinnustofnanir eru hér í nálægum löndum. Þar hefur atvinnureksturinn í mörgum greinum þjappazt á færri hendur og er í höndum allauðugra fyrirtækja. En hvað um það, það fyrirkomulag, sem hér gildir, stendur undir fyllilega eins miklum árlegum þjóðartekjum á mann og fyrirkomulagið, sem ríkir hér í löndunum í kringum okkur, gerir þar.

En svo er bara þessi vandi, að launastéttirnar á Íslandi hafa ekki viljað samþykkja þessa pólitík ríkisstj. Þær hafa ekki viljað fallast á, að það ætti að skerða launakjör þeirra frá því, sem þau hafa verið ákveðin, og það í miðju góðæri og það í vaxandi framleiðslu. Í þessum vanda hefur ríkisstj. síðan staðið og verið síðan í látlausri styrjöld við flesta þætti atvinnulífsins, verið að berjast við flest stéttarfélög í landinu og viljað knýja þau til að fallast á hina nýju tekjuskiptingu, sem ríkisstj. hefur ákveðið.

Ég vék nokkuð að því í minni fyrri ræðu, að ríkisstj. ætti að sjá að sér í þessu máli og hætta við að knýja málið í gegn, því að það breytti í rauninni það litlu, að ríkisstj. gæti vel við unað. Eins og hér hefur komið fram í umr., þá er vitað um mörg dæmi þess, að brbl: hafa ekki verið staðfest á Alþingi, hafa ekki verið samþykkt, þau hafa verið látin liggja. Í það gæti sá hæstv. ráðherra vitnað, sem yrði nú að standa frammi fyrir því, að þetta mál fengi ekki afgreiðslu. Það er sem sagt ekki meira en gerzt hefur áður. En þá er bara þessi spurning: Hvað mundi gerast í þessu máli, ef frv. yrði ekki afgreitt, ef það yrði látið liggja? Hvað mundi gerast? Gerðardómurinn, sem settur var til þess að kveða upp úrskurð um launakjör, um mánaðarlaun og önnur kjör verkfræðinga, sem starfa hjá öðrum en ríkinu, hefur starfað. Hann er búinn að kveða upp sinn dóm. Það þarf ekki að staðfesta þessi lög til þess, að það eigi sér stað. Gjaldskráin, sem lögbundin hefur verið, mun vera að miklu leyti sniðin eftir þeirri gjaldskrá, sem samtök verkfræðinga höfðu sjálf ákveðið, í þessari seinni lotu. Jú, það er líklega rétt, að niðurstaðan yrði sú, ef þetta frv. yrði ekki gert að lögum eða staðfest nú, að þá mundu hefjast samningar á milli samtaka verkfræðinga og þeirra vinnuveitenda, annarra en ríkisins.

Ég skal að vísu játa, að ég er ekki gerkunnugur málinu, en mér sýnist af þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að miklar líkur bendi til þess, að samningar tækjust með eðlilegum hætti um kjör, sem líklega yrðu ekki langt frá því, sem ákveðin hafa verið með þeim gerðardómi, sem upp hefur verið kveðinn. Það yrðu sennilega ekki neinar stórkostlegar breytingar. Og ég trúi því ekkí, að allt þetta efnahagskerfi ríkisstj. standi nú svo völtum fótum, að það þyrfti að detta á hliðina, þótt það yrðu gerðar einhverjar smábreytingar með samkomulagi. Mér sýnast allar líkur benda til þess, að gjaldskráin mundi í aðalatriðum verða sú sama, nema að því leyti til, sem breyta þyrfti henni, þegar verðlagning á nýjum starfsháttum kæmi til greina.

Ég held því, að það að láta þetta frv. liggja, úr því sem komið er, mundi ekki breyta neinu verulegu, ekki nú a.m.k. á fyrsta stigi málsins, nema því, að það gæti alveg tvímælalaust orðið upphaf að því, að eðlilegt samband yrði tekið upp og samstarf á milli samtaka verkfræðinga og ríkisvaldsins, sem er mjög þýðingarmikið, og það gæti skapazt nokkru eðlilegra ástand varðandi ákvörðun á öllum störfum verkfræðinga en nú er.

Ég held, að það sé líka alveg lífsnauðsyn, að samtök verkfræðinga fái að finna það, að ríkisvaldið vill eiga við þau samskipti á öðrum grundvelli en hingað til, m.a. til þess að fá samtök verkfræðinga til þess að vinna að því, að sá stóri hópur verkfræðinga, sem nú er fluttur úr landi, komi heim til starfa hér.

Ég held, að það sé komin þrjózka í þetta mál. Og ég held, að þessi þrjózka geti leitt til ills. Það er ekki skemmtilegt fyrir neina stétt að finna það, að hún sé sett á lægri bekk en aðrar starfsstéttir eru, að hún sé beitt öðrum lagareglum en aðrar stéttir eru beittar. En því verður vitanlega ekki neitað, að í þessu tilfelli er samtökum verkfræðinga boðið upp á það, sem engum öðrum samtökum er boðið í landinu.

Ríkisstj. hefur ekki tekið að sér að ákveða með lögum launakjör annarra starfsstétta, sem starfa ekki. hjá ríkinu, heldur starfa í þjónustu annarra, nema varðandi verkfræðinga. Og auk þess sýnist mér svo, ef það er rétt, sem ég hef grun um að sé, að ríkisstj. sé búin að ná samningum við sína verkfræðinga í ýmsum tilfellum og sé þegar búin að greiða þeim umframgreiðsluna í ýmsu formi, þá þurfi hún ekki að vera ýkja hrædd um það, að þeir hlaupi nú úr vistinni, þó að nýir samningar kynnu að verða gerðir um störf þeirra, sem vinna hjá öðrum en ríkinu.

Ég vék að því í fyrri ræðu minni í dag, að mér hefði fundizt, að umræður um þetta mál hefðu farið fram með nokkuð sérkennilegum hætti þessa síðustu daga þingsins. Hjá því verður ekki komizt að álíta, að hæstv. ráðherra hafi mjög viljað forðast að ræða þetta mál í áheyrn verkfræðinganna, sem mjög hafa sótt þingfundi síðustu daga. Það er alveg augljóst mál, að málið var ekki tekið fyrir til umr. í Ed. í þeirri röð, sem þetta mál var þó á fyrirliggjandi dagskrá. Og það gat ekki farið fram hjá neinum, að það var engin tilviljun, sem olli þessu. En til viðbótar því, að svona hefur nú verið háttað hér umr. um málið að þessu sinni, hefur svo það gerzt, að hæstv. ráðh., sem stendur að flutningi málsins, vill ekkert um málið tala, þegar hann er hér, og hann er langtímum saman ekki einu sinni staddur í húsinu. Þetta eru auðvitað óþingræðisleg vinnubrögð og í rauninni ekki hæstv. ráðherra samboðin.

Ef það er svo, að hæstv. ráðherra hefur einhver ný rök fram að færa fyrir nauðsyn þess að staðfesta þessi lög nú á þessu þingi, þá á hann vitanlega að koma fram með þau rök nú. En ef málið er þannig, sem við álitum, sem hér höfum rætt nokkuð um það, þá er líka engin ástæða til þess að afgreiða það. Þá má það liggja. Þá á það að liggja.

Hæstv. samgmrh. veit mætavel, að það ástand, sem skapazt hefur í landinu vegna deilunnar við verkfræðinga, er mjög óþægilegt og kostnaðarsamt fyrir marga aðila í landinu. Ég minnti hér sérstaklega á það, hvernig ástandið er á vitamálaskrifstofunni. Það er af þeirri ástæðu, að ég hef nokkuð rekið mig á það. Hæstv. ráðherra veit, að vitamálaskrifstofan missti vegna þessara deilna allmarga mjög hæfa verkfræðinga, af þó allt of takmörkuðum verkfræðingahópi, sem hún hafði yfir að ráða. Þó er það svo, að í gangi eru víðs vegar um land mjög stór verk á vegum vita- og hafnarmálaskrifstofunnar. Þeir aðilar, sem standa að þeim verkum og eru að leggja í tugmilljóna lántökur vegna þessara verka, eru ekkert ánægðir með það að geta ekki átt neinn aðgang að neinum verkfræðingi mánuðum saman, meðan á framkvæmdum stendur. Vitamálastjórinn er að vísu verkfræðingur, en hann hefur í mörg horn að líta. Hann þeytist á milli landa, það er mér vel kunnugt um, og hann þeytist frá stað til staðar í landinu, og hann kemst vitanlega ekki yfir það að sinna öllum þeim verkfræðistörfum, sem þarf að svara til um á vegum hafnarframkvæmdanna í landinu. Hann er duglegur maður, á því leikur enginn vafi, og ég hef ekkert nema gott um hann að segja. En ég hef rekið mig á það í mínu kjördæmi, að þá hefur fleiri en einn aðili kvartað undan því við okkur þingmenn, að það væri illmögulegt að halda verkunum áfram, sem þeir standa í, vegna þess að þeir geti ekki haft eðlilegt samband við verkfræðinga.

Ég hef líka orðið fyrir aðra aðila að leita með verk, sem vitamálaskrifstofan hafði haft með höndum um langan tíma og við vorum orðnir leiðir að bíða eftir afgreiðslu á, vegna skorts á verkfræðingum, — við höfum orðið að leita með þessi verkefni til verkfræðiskrifstofu hér í borginni og láta vinna verkið þar. Vonandi tekst það verk allt vel. En ég held, að sú skipulagsbreyting sé á engan hátt æskileg, að vitamálaskrifstofan hætti svo að segja að hafa verkfræðinga í sinni þjónustu og geta sinnt fyrir opinbera aðila víða í landinu þeim verkefnum, sem hún hefur sinnt, og þeir verði að leita til annarra aðila, sem vinna fyrir utan vitamálaskrifstofuna. Ég held, að sú skipulagsbreyting sé ekki æskileg, hún sé ekki til bóta. En það er einmitt þetta, sem leiðir af þessari deilu ríkisstj. við verkfræðinga landsins. Svona er þessu farið í mörgum, mörgum fleiri tilfellum. Það er því engin lausn á þessu máli að láta málið hjakka í sama fari. (Fundarhlé.]

Herra forseti. Það er nú svona rétt þar um, að mér hafi gefizt tími til þess að finna þann ræðuenda, sem ég skildi við hér fyrr í kvöld, því að eins og hv, alþm. hafa veitt athygli, er hinum almennu stjórnmálaumr. varla lokið, þegar frv. um lausn kjaradeilu verkfræðinga er nú tekið hér fyrir aftur.

Ég hafði í umr. fyrr í kvöld endurtekið nokkrar spurningar, sem hér voru fluttar í umr., til hæstv. ráðh. og vil enn á ný ítreka það við hann, að hann sjái sér fært að svara þeim spurningum, því að ég tel, að þær skipti allmiklu málí. Ég hafði einnig vikið nokkuð að því, að mér hefði verið tjáð, að þegar hæstv. ráðh. greip til þess ráðs að setja brbl. um lausn á deilu verkfræðinga, hafi verið miklar líkur til þess, að samningar gætu tekizt milli stéttarsamtaka verkfræðinga og eigenda verkfræðistofa, sem eru vinnuveitendur þeirra í mörgum tilfellum. Ég hef nú kynnt mér þetta nokkru nánar og sé, að þetta er beinlínis staðfest í þeirri löngu grg., sem fylgir með niðurstöðum gerðardómsins, sem settur var samkv. þessum brbl., en í þeirri grg, er birt beinlínis umsögn forstöðumanna verkfræðiskrifstofanna, sem áttu að semja við verkfræðingana, og í þessari umsögn þeirra segja þeir mjög skýrt, að allar líkur hafi bent til, að samningar mundu takast á milli aðila um þann grundvöll, sem þá var búið að ræða sig niður á, en hins vegar hafi aldrei komið til þess, að þessir samningar yrðu gerðir, vegna þess að þessi brbl. hæstv. ríkisstj. komu þá til, svo að það liggur sem sagt alveg ljóslega fyrir, að brbl. hafa verið sett á sínum tíma til þess beinlínis að koma í veg fyrir samninga á milli réttra aðila í þessu launamáli, sem hér um ræðir. Slíkt er vitanlega alveg vítavert, þegar ríkisstj. misnotar á þann hátt aðstöðu sína til að grípa inn í í kjaramálum. Ríkisstjórnir hafa helzt reynt að réttlæta inngrip í launadeilur með því, að þjóðfélaginu stafaði hætta af löngum eða alvarlegum vinnudeilum og því hafi nauður rekið til að leysa deiluna með beinni þátttöku ríkisins. En í þessu tilfelli virðist það sem sé alveg liggja fyrir, að ríkisstj. grípur hér ekki inn í til þess að leysa deiluna. Deilan var að leysast alveg sannanlega. Réttir aðilar voru að ná samningum. — En ríkisstj. skerst í málið til þess að koma í veg fyrir, að samningarnir séu gerðir. Þannig verður ríkisstj. þess valdandi að mínum dómi, að öll þessi mál hafa komizt í þann hnút, sem raun ber vitni um og nokkuð hefur borizt hér inn í þessar umr. Ríkisstj. verður beinlínis þess valdandi að trufla margar framkvæmdir í landinu með brbl. setningu sinni. En hún var hreint ekki að leysa neina deilu.

Það er því út af fyrir sig hið mesta rangnefni á þessu frv. að kalla það frv. til l. um lausn kjaradeilu verkfræðinga. Ríkisstj. þurfti ekki að setja nein brbl. í þessum efnum til þess að leysa deiluna. Það er alveg ljóst mál. Samningarnir voru að takast. En það virðist vera svo, að ríkisstj. hafi ekki verið ánægð með þá niðurstöðu, sem var að fást, hafi viljað hafa hana á annan veg, og af því notaði hún sér beinlínis heimild um það að grípa inn í málið með setningu brbl. Nú er það út af fyrir sig misnotkun á stjórnarskrárákvæðinu um setningu brbl. Það er skýrt tekið fram í þeim efnum, að brbl. er því aðeins heimilt að setja, að brýna nauðsyn beri til þess. En það hefur vitanlega enga brýna nauðsyn borið til þess, að ríkisstj. setti lög til þess að leysa deilu, sem var að leysast á eðlilegan hátt og samkv. l. Það er því alveg greinilegt, að setning þessara brbl. er í rauninni brot á stjórnarskránni, vegna þess að það er ranglega skýrt frá ástæðum. Og það vita svo allir, sem fylgzt hafa með því, sem gerzt hefur á eftir, að auðvitað hefur ríkisstj. ekki með þessari lagasetningu leyst þessi deilumál. Raunverulega standa deilumálin enn. Það er nú unnið að ýmsum verkfræðilegum málum á allt annan hátt en mundi vera gert, ef ekki hefði verið efnt til þeirrar deilu, sem enn stendur raunverulega yfir á milli verkfræðinga og ríkisstj.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. þurfi að gera sér þetta ljóst, að málin standa þannig nú, að það ber í rauninni brýna þörf til þess, að þessi deila, sem nú stendur yfir milli ríkisvaldsins annars vegar og verkfræðinga hins vegar, verði leyst. Og ég held, að langeinfaldasta ráðið fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að leysa þá deilu, eins og nú er komið, sé einmitt að leyfa þessu frv. að liggja. En það væri fróðlegt að heyra hér í umr. á eftir, hvort hæstv, samgmrh. er eitthvað nær því nú en áður að fallast á þær till., sem hér hafa verið gerðar í þessum umr., að fallast á það, að frv. verði nú dregið til baka. Það er enginn vafi á því, að það væri hægt að draga talsvert mikið úr þessum umr., sem eflaust verða talsvert langar hér enn, ef ríkisstj. vildi hverfa að því ráði.

Ég skal ljúka máli mínu nú að sinni í sérstakri von um það, að hæstv. samgmrh. sjái sér fært að svara þeim spurningum, sem hér hefur verið beint til hans og varða þýðingarmikla þætti í málinu. E.t.v. kæmi þá upp nýr flötur á þessu máli, sem mætti verða til þess, að hægt væri að leysa það með eðlilegum hætti.