13.12.1963
Efri deild: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (113)

97. mál, ríkisreikningurinn 1962

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það hafi nú verið öfgar hjá hæstv. fjmrh., þegar hann segir, að Alþingi hafi stundum fengið fjögurra ára reikning til meðferðar, því að ég minnist þess nú ekki. En hafi það einhvern tíma hent, þá er það hlutur, sem ég vil enga bót mæla. (Fjmrh.: Hvað telur hv. þm., að sé hæfilegur aldur? ) Ég skal óbeint svara því. Ég tel það ósatt hjá hæstv. ráðh. einnig, að við framsóknarmenn sýnum þrákelkni við að halda í gamlan ósið í þessu efni. Við höfum ekki á móti því, að uppgjör eða reikningslok hjá ríkinu fyrir hvert ár séu sem fyrst á ferð, en hinu höfum við haldið fram, að endurskoðun verði líka að hraða. Reikningurinn t.d. í hittiðfyrra, sem lagður var fyrir hv. Alþingi, hafði eftir upplýsingum frá yfirskoðunarmönnum ekki hlotið endurskoðun á bak við sig um eina 50 liði eða rúmlega helming þeirra liða, sem hann er byggður upp af. Umboðslega endurskoðunin var þar á eftir. Það kölluðum við hráan reikning. Það var ekki soðinn reikningur sannarlega eða vel í pottinn búinn, og það töldum við vera of langt gengið í því að hraða þessum afgreiðslum.

Það, sem ég tel hæfilegt í þessu efni, er, að hin umboðslega endurskoðun sé svo langt á veg komin, að telja megi, að forsvaranlegt sé að taka reikninginn til greina til afgreiðslu á Alþingi, og fyrst og fremst tel ég, að yfirskoðunarmenn eigi að lýsa því, að þeir telji henni nægilega langt á veg komið, en það gerðu þeir ekki, frekar hið gagnstæða, þegar við framsóknarmenn gerðum veður út af þessu.

Ég tel það mjög gott, að hæstv. fjmrh. hefur lagt áherzlu á þau, að reikningurinn yrði sem fyrst til. En ég sé ekki, að það skipti neinu höfuðmáli, eins og ég sagði áðan, um reikning eins og þennan, hvort Alþingi samþykkir hann fyrir áramót eða laust eftir áramót. Hann er nægilega nýr til afgreiðslu eftir áramót.

Hæstv. ráðh. sagði, að við hefðum fengið reikninginn fyrir átta vikum lagðan hér fram. Við fengum hann, það er rétt, en honum fylgdu þá engar yfirlýsingar frá yfirskoðunarmönnum, sem eru trúnaðarmenn Alþingis, og meðan svo er, er varla von, að þm. taki sig til að kynna sér reikninginn verulega. Það væri allt of mikið starf og óvinnandi, en með leiðbeiningum yfirskoðunarmanna er þetta miklu léttara.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri bara bókhaldsatriði, hvort Keflavíkurbrautarkostnaðurinn væri færður hjá vegagerðinni frá ári til árs eða hjá ríkinu — eða ríkisbókhaldinu. Þetta er miklu meira en bókhaldsatriði. Það er efnislegt atriði, að það komi fram með þennan veg eins og aðra vegi, hvað ríkið kostar til hans. Að hafa hann þannig utanborðs, sem ég vil kalla, eins og nú hefur verið gert í tvö ár, líkist því helzt, þegar smyglarar setja kútinn út, sökkva honum, svo að hans finnist ekki hjá þeim.

Hæstv. fjmrh. vildi halda því fram, að það hefði orðið mikil fækkun nefnda í sinni stjórnartíð, og hann vitnaði í því sambandi til yfirlýsinga yfirskoðunarmanna, og hann taldi, að samkvæmt yfirlýsingu þeirra og aths. við þennan reikning, sem hér liggur fyrir, þá væru nefndirnar 17 — var það ekki rétt? — aðeins orðnar 17. Það, sem yfirskoðunarmennirnir gera aths. við, er nefndarkostnaður í 17 liðum, það er rétt, kr. 1358 272.17. Þeir lýsa því ekki þar með yfir, að þetta séu einu nefndirnar, sem séu kostaðar af ríkissjóði, en þetta er samtala hér í ríkisreikningnum, sem þeir gera út af fyrir sig aths. við. Ég sagði, að finna mætti í sömu gr. hliðstæður, sem mundu nema allt að, að mér fyndist, 2½ millj. að auki, — hliðstæður við nefndir, sem endurskoðendur nafngreina. Ég tel, að þó að hæstv. fjmrh. hafi breytt nöfnum á þeim hópum, sem ríkisstj. eða Alþingi fær til þess að athuga viss mál, þá hafi það engan eðlismun í för með sér. Hér er t.d. að finna kostnað vegna athugunar á flugvallamálum, vegna athugunar á rekstri Flugfélags Íslands, kostnað við athugun vegna endurkaupa á hráefnavíxlum iðnaðarins og á samningsrétti opinberra starfsmanna, á sparnaði í rekstri Skattstofu Reykjavíkur, á stofnun vinnuheimilis fyrir aldrað fólk, vegna sparnaðar í rekstri þjóðleikhússins og að því er snertir Viðtækjaverzlun ríkisins og Skipaútgerðina. Það er kostnaður vegna athugana á þessu. Mundu ekki vera á bak við þetta starfandi menn, sem mætti kalla nefndir. Jón frá Strympu spurði: „Er ég nefnd eða er ég ekki nefnd?“ Hæstv. ráðh. hlýtur að muna eftir þeirri sögu. Ég hygg, að það sé alveg sama, hvort Jón frá Strympu er nefndur „nefnd“ eða „ekki nefnd“, ef hann vinnur þau störf, sem nefndir vinna og fær borgun fyrir.

Hér er talað um endurskoðun tollskrár. Ég man ekki betur en það hafi verið skipuð nefnd til að endurskoða hana. Það er ekki í 17-tölunni. Þá er talað hér um kostnað vegna framkvæmdaáætlunar. Skyldi ekki nefnd hafa unnið að því líka? Þá er kostnaður vegna framkvæmdar söluskattslaga. Svo er hér einn liður, sem heitir „kostnaður vegna hagsýslu, ýmislegt“. Skyldi ekki einhver Jón hafa verið þarna og kannske fleiri Jónar, hvort sem þeir eru kallaðir nefnd eða ekki nefnd?

Þá kemur hér líka til greina Efnahagsstofnun og rekstrarkostnaður hennar. Margt af því, sem þessi stofnun vinnur, var unnið af nefndum. Þó að breytt hafi verið formi í þessum efnum, þá er ekki lagður niður sá tilkostnaður, það er ekki sparaður sá tilkostnaður, sem áður var fundið að. Og það er þetta, sem vakir fyrir yfirskoðunarmönnum og þeir benda rækilega á á fleiri en einum stað, að hafa þurfi gát á, að ekki verði ofþensla í þessum efnum.

Menn hafa farið utanlands, stundum hygg ég, að það séu nefndir, — yfirskoðunarmenn vara við kostnaði af slíkum ferðum. Satt að segja er nú almenningur ákaflega hræddur um það, að í sambandi við sendiferðir í þágu ríkisins utanlands sé oft stutt á milli þarfrar ferðar og skemmtireisu. Þetta er það, sem yfirskoðunarmennirnir eru líka að vara við, þótt þeir taki sérstaklega upp hér þann lið líka, sem inniheldur samanlagðan kostnað 17 nefnda, sem upp eru taldar.

Nei, því miður held ég, að það sé svo, að Parkinsons-lögmálið hafi færzt mjög í aukana hjá núv. hæstv. ríkisstj. En ég efast ekkert um, að þegar hún tók til starfa, þá var henni full alvara með það að vilja vinna á móti slíkri þróun. En hún hefur bara ekki orkað því og er líka hætt að tala um það, jafnvel hefur hæstv. fjmrh. svarað aths. yfirskoðunarmanna, eins og ég lagði áherzlu á áðan, með því, að aths. um þetta þurfi ekki að svara. Hann vill sem sé ekkert um þetta tala, og ég lái honum það ekkert. 19. gr., ef hún er krufin, með óvissu útgjöldin, sem vitanlega er rétt hjá hæstv. ráðh. að oft er örðugt að áætla, hún inniheldur nú geysilega mikið af því, sem telja má athugavert og a.m.k. mjög mikið athugunarefni fyrir næstu ár. Þótt maður fari ekki út fyrir 19. gr., þá er þarna nóg tilefni, en það má náttúrlega minna á margt fleira í okkar þjóðlífi, sem á vegum þessarar hæstv. ríkisstj. hefur lotið Parkinsonslögmálinu. T. d. er það fjölgun bankastjóra, fjölgun bankaráðsmanna, jafnvel fjölgun þingmanna á Alþingi.

Ég veit, að á eitt getur hæstv. fjmrh. bent, þegar á að bera saman tölur nefnda fyrr og nú, og það er fækkun skattanefnda úti um land. Það munar náttúrlega um minna, þegar taldar eru nefndir, heldur en þá fækkun. En spurningin er svo, hvort það kerfi, sem upp hefur verið tekið, verður ekki dýrara í rekstri, dýrara í framkvæmd en það kerfi, sem áður var, með hinum mörgu skattanefndum, sem ekki voru yfirleitt fjárfrekar. En það eru fjárfreku nefndirnar, sem sérstaklega þarf að hafa gát á, og er eðlilegt, að Alþ. taki undir aths. yfirskoðunarmanna, hinna pólitískt kjörnu manna, sem öllum kemur saman um að gera slíkar aths. við ríkisreikninginn 1962.